27.2.2013 | 11:50
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hvor um sig með meira fylgi en ríkistjórnarflokkarnir
Það er margt sem vekur athygli í þessari könnun.
Framsóknarflokkurinn sækir enn verulega á. Hann er í þessari könnun með meira fylgi en stjórnarflokkarnir samanlagt.
Sjálfstæðisflokkurinn missir verulegt fylgi. Vissulega er þessi könnun gerð áður en landsfundur flokkssins var haldinn, en þessi könnun ætti þó að vera flokknum verulegt áhyggjuefni. Verandi í stjórnarandstöðu gegn einhverri óvinsælustu ríkisstjórn allra tíma, þá er þessi skoðanakönnun verulega vond tíðindi fyrir flokkinn.
Samfylkingin er enn á niðurleið. Forystuskiptin í flokknum virðast ekki hafa náð að stoppa fylgistapið. Nýja forystan enda lítt sjáanleg. Þetta hljóta að vera bæði Árna Pál og flokknum mikil vonbrigði og áhyggjuefni. Ef flokkurinn endar sem 4. stærsti flokkur á Íslandi gæti það jafnvel riðið honum að fullu. Í það minnsta er draumurinn um "burðarflokk í Íslenskum stjórnmálum" úti, ef þetta yrði niðurstaðan í kosningum.
Björt framtíð lætur einnig all nokkuð undan síga. Hvort að þetta er byrjunin á enn frekara fylgistapi er erfitt að meta. Það væri gamalkunnug þróun hjá nýjum flokki. Stór spurning hvort að ný framboð eins og Lýðræðisvaktin muni höggva áframhaldandi skörð í fylgi BF.
Vinstri græn sveifla sér hins vegar upp á við. Þó að könnunin sé gerð fyrir landsfund þeirra, virðist sem að tilkynning Steingríms J. um að hann myndi ekki sækjast efitr endurkjöri, hafi ein og sér dugað til að stöðva fylgistapið og lyfta flokknum upp á við.
Það er freistandi að álykta að um sé að ræða tvær blokkir. Annars vegar sé fylgi upp á ríflega 50% að færast á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og hinsvegar í kringum 40% fylgi sem færist á milli Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Um það bil 10% af fylginu færi svo til smærri flokka, sem ekki kæmu að manni.
En líklega eru þó fylgishreyfingarnar flóknari en svo. Svo á eftir að koma í ljós hver áhrif Lýðræðisvaktarinnar verða á fylgi annara flokka. Líklegast þætti mér að hún myndi sækja fylgi sitt að mestu leyti til Samfylkingar og Bjartrar framtíðar.
Þess utan eru svo framboð sem talað er um á vegum Jóns Bjarnasonar og Bjarna Harðarsonar. Það myndi líklega sömuleiðis sækja fylgi að mestu leyti í "vinstra hólfið"
En ef þetta yrðu úrslit kosninganna er erfitt að spá hvaða ríkisstjórn tæki við. Það ylti því sem næst alfarið á afstöðu Framsóknarflokksins.
Hann gæti myndað 2ja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokki eða 3ja flokka stjórn með Samfylkiingu og Bjartri framtíð.
Mín spá er sú að þá myndi Framsóknarflokkurinn kjósa að mynda stjórn til vinstri. Þeir myndu líklega frekar vilja hafa Vinstri græn með í förinni en BF, en ef þessi könnun gengi efitr væri það einfaldlega ekki nóg. Það væri líklega það sem helst myndi gera Framsóknarflokkinn afhuga vinstri stjórn.
Ef að útkoman yrði eins og í þessari könnun og Framsóknarflokkurinn myndi kjósa að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, þætti mér hins vegar ekki ólíklegt að þreyfingar hæfust fljótlega á kjörtímabilinu um sameiningu Samfylkingar, Vinstri grænna og jafnvel Bjartrar framtíðar.
En auðvitað er þetta bara könnun, það er enn býsna langt til kosninga.
Framsókn bætir enn við sig fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Facebook
Athugasemdir
Það þarf að hafa í huga að BF er í raun klofningsframboð frá Samfó, þótt hún heiti það ekki opinberlega. Eins líklegt að eftir næsta kjörtímabil (ef ekki fyrr) fari kjósendur hennar aftur "heim" til Samfó.
Fylgisaukning Framsóknar er mér gjörsamlega óskiljanleg, verð ég að viðurkenna. En það er nú kannski vegna þess að mér finnst formaðurinn svo óhugnanleg týpa að það hálfa væri nóg. En kannski höfðar hann til svona margra.
Sjálfstæðisflokkurinn myndi gjörsigra í næstu kosningum ef Bjarni Ben væri ekki formaður heldur Hanna Birna. Svo einfalt er það. Bjarni Ben hefur ósköp einfaldlega ekki nokkra leiðtogahæfileika. Hann er í formannsstólnum útá nafnið og ætternið, annað ekki. Einungis blindir hollustusauðir líta á hann sem formanninn.
Samfó er forystulaus flokkur. VG líka. Árni Páll og Katrín eru bráðabirgðaformenn á meðan raunverulegir leiðtogar koma fram í dagsljósið.
Það má vera að BF höfði til kjósenda sem hugnast ekki leiðtogaupphafning - amk. ekki gamaldags. En Samfó og VG eru gamaldags flokkar (hétu áður Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið) þar sem hefðbundið leiðtogahlutverk skiptir meginmáli - sama á við um Framsókn og Sjalló.
Kristján G. Arngrímsson, 27.2.2013 kl. 19:00
Ég er reyndar alveg sammála því að BF sé útíbú, eða klofningur frá Samfylkingunni. Sjálfur hef ég stundum orðað það að um sé að ræða "óþarft bergmál" frá Samfylkingu.
Ég hef reyndar meira álit á formanni Framsóknar en þú, þó að hann sé ekki gallalaus frekar en aðrir einstaklingar. Mér finnst hann hafa vaxið í sínu hlutverki.
Það finnst mér reyndar einnig Bjarni Benediktsson hafa gert. En flokkurinn á við vanda að stríða og mistök eins og gerðust á landsfundi með samþykktina á "kristilegu gildunum", munu án efa hafa all nokkur áhrif. Persónulega tel ég slíkt hafa líklega meiri áhrif en ESB deilur, sérstaklega hjá ungu fólki.
Þó dreg ég ekki í efa að ESB hefur fengið nokkra Sjálfstæðismenn til að hafna flokknum, akkúrat nú um stundir. Ég hygg þó að vel flestir þeirra muni snúa aftur til flokksins. Það er einfaldlega ekkert annað að fara. Þó að ESB sé vissulega risastórt mál, þá er það í fæstum tilfellum það sem vegur þyngst í ákvörðun við hvernig atkvæði er varið.
En þegar þú ræðir um forystuleysi í Íslenskum stjórnmálum, þá get ég ekki annað en tekið undir það að hluta. Það kemur í og með til út af því að í áfallinu 2008, varð krafan um forystuskipti svo hávær og sterk.
Þegar viðbættust svo veikindi tveggja flokksformanna urðu gríðarlegar breytingar á forystusveit Íslenskra stjórnmálaflokka.
Að mínu mati má segja að þá hafi tekið við leiðtogar sem ekki voru að fullu tilbúnir fyrir hlutverkin.
Þess vegna náðu "gömlu refirnir", s.s. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon gríðarlega sterkri stöðu. Þau einfaldlega kunnu "öll trixin í bókinni".
Hvernig það tækifæri var höndlað af þeirra hálfu er svo önnur saga. Nú þegar kjörtímabilið er næstum á enda eru þau rúin rúin trausti og pólítísku þreki, nema Össur, en það er önnur saga.
G. Tómas Gunnarsson, 1.3.2013 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.