Auðvitað er sjálfsagt að skoða hlutina frá öllum hliðum, en það eru ekki til neinar töfralausnir

Þeir sem hafa rekist á þetta blog, þó ekki nema annað slagið, vita líklega að ég hef talið að Íslenska krónan væri eina raunhæfa myntin fyrir Íslendinga.

Ég er enn þeirrar skoðunar.

Það þýðir ekki að það sé ekki sjálfsagt að velta upp öllum möguleikum og reyna að skoða og spá í hvernig hinn eða þess möguleiki gæti reynst.

En það eru ekki til neinar töfralausnir.

Gjaldeyristekjur Íslensku þjóðarinnar aukast ekki, þó að skipt verði um mælieiningu.

Skuldir Íslensku þjóðarinnar minnka ekki við það að skipta um mælieiningu, né eykst geta þjóðarinnar til að greiða þær.

Hagstjórnin verður ekki traustari við það eitt að skipta um mynt.

Kjarasamningar verða ekki ábyrgari við það eitt að skipta um mynt.

Það þarf ekki nema að líta til Suður-Evrópu til að sjá að "erlend" mynt skapar ekki stöðugleika, eykur ekki aga í hagstjórninni eða samstillir efnahagskerfi.

Euroið sýnir okkur að verðbólga rennur ekki í sömu tölu á sama gjaldmiðilssvæði.  Hæsta verðbólga Eurosvæðisins er ekki langt frá þeirri Íslensku.

Sterk "erlend" mynt gerir hins vegar fjármagnsflutninga frá landi sem þannig er statt fyrir auðveldari.  Því hafa Grikkir, Portúgalir, Ítalir og Spánverjar kynnst undanfarin misseri.

Það eina sem getur bjargað Íslendingum til lengri tíma, er að framleiða meira, flytja út meira, samhliða því að halda ríkisútgjöldum í skefjum.  Jafnframt þarf að reyna að tryggja vinnu fyrir alla, til að tryggja framfærslu og draga úr velferðarútgjöldum.

 Verðmæti fisks og áls breytist ekki hvort sem er vegið í kílóum eða pundum.  

En gjaldmiðlarnir sveiflast til og frá, það er oft á tíðum bagalegt.  En þeir endurspegla ástand hagkerfanna.

Það gerir krónan líka, hvort sem Íslendingum líkar það betur eða verr.  Ef gengið er fast verða aðrir "stuðpúðar" að taka við. 

Oftast er það atvinnuleysið. Við þurfum heldur ekki að leita langt til að sjá það.


mbl.is Króna í höftum ekki framtíðargjaldmiðill
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband