28.1.2013 | 09:22
Að hlaupa í skarðið
Að hlaupa í skarðið er velþekkt Íslenskt máltæki og reyndar einnig barnaleikur.
Ég get tekið undir með þeim sem tala um að það sé vont þegar ríkisstjórn Íslands og forseti Íslands tali fyrir ólíkum stefnum í utanríkismálum. Það er vissulega betra ef málstaður Íslands er kynntur einni röddu.
En stundum er það líklega allt í lagi að Íslendingar eigi sér fleiri en einn talsmann og að umheimurinn viti að skiptar skoðanir séu á Íslandi í ýmsum málum.
Það þarf aðeins að koma skýrt fram hvernig raunveruleg valdskipting er.
Víða er hefð fyrir því að kóngafólk lesi upp af blaði það sem ríkisstjórnin hefur skrifað. Hjá sumum þjóðum velur þjóðþingið forsetann og hefur að því leyti vald yfir honum.
Það er gott að hafa það í huga að slíkir þjóðhöfðingjar eru ekki þjóðkjörnir.
Í IceSave málinu kom t.d. skýrt og greinilega fram að ríkisstjórn Íslands talaði ekki fyriri hönd meirihluta kjósenda. Hún var á öndverðri skoðun við þá. Þar var forsetinn mun nær því að flytja málstað meirihluta kjósenda á erlendri grundu.
Var að slæmt? Er það eitthvað sem Íslendingar myndu vilja hindra í framtíðinni?
Svo má velta því fyrir sér hversu vel hefur verið haldið á fyrirsvari fyrir Ísland, af hálfu ríkisstjórnarinnar, á því kjörtímabili sem er nú sem betur fer að ljúka?
Hefur forsætisráðherra verið sá trausti og góði talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi sem landið þarf á að halda?
Er forsetinn fyrst og fremst að fylla það tómarúm sem hefur skapast á þeim vettvangi, er hann að "hlaupa í skarðið"?
Hvað skyldi valda því að erlendir fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á því að ræða við forseta Íslands heldur en forsætisráðherrann?
Gæti það verið vegna þess að forsetinn er aðgengilegur og liðlegur í umgengni við fjölmiðla? Og vegna þess að forsætisráðherrann er.... ????
Mismunandi aðstæður kalla á mismunandi lausnir.
Vissulega er gott að setja skýrar reglur um ýmsa hluti, þar með vald- og verksvið forseta Íslands. Ef til vill þarf að gera það fyrir forsætisráðherra einnig?
En lög og reglur ná aldrei yfir alla hluti í mannlegum samskiptum. Og sveigjanleiki í samskiptum getur á stundum verið kostur.
Væri gott að forseti og ríkisstjórn gengju í takt? Já. Hefði það verið gott að aðeins afstaða ríkisstjórnarinnar í IceSave málinu hefði heyrst á erlendri grundu? Nei.
Það sama má segja um aðildarumsókn Íslendinga að "Sambandinu". Það er nákvæmlega ekkert að því að það komi fram í erlendum fjölmiðlum að skoðanakannanir sýni meirihluta Íslendinga andsnúna aðild og að annar ríkisstjórnarflokkurinn sé það sömuleiðis.
Ef til vill eru slík undarlegheit ekki besta auglýsingin fyrir Íslensk stjórnmál, en þau eru sannleikurinn eigi að síður.
Eins og í mörgum öðrum málum, eru hlutirnar ekki bara svartir og hvítir.
Ríkisstjórnin vanrækti hlutverk sitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.