20.1.2013 | 17:24
Að læra af fiskunum
Það er líklega flestum kunnugt að skeytin hafa gengið á milli "Sambandssinna" og þeirra (þar á meðal mín) sem eru andsnúnir "Sambandsaðild".
Stundum verða skeytin býsna rætin, en ég verð þó að segja að yfirleitt eru þau sett fram á býsna málefnalegum grunni. Ef til vill er sú skoðun mín eitthvað lituð því, hverra greinar og bloggfærslur ég að öllu jöfnu kýs að lesa.
Fyrr í dag las ég t.d. blaðagrein þar sem andstæðingar aðildar voru sakaðir um að grípa sífellt til nýrra raka, til að réttlæta andstöðuna við aðild og það veikti málstað okkar.
Ég er reyndar ekki sammála því, það er að segja að það veiki málstað okkar andstæðinganna.
Staðreyndin er sú að sífellt koma upp ný rök, sem réttlæta andstöðuna við "Sambandsaðild" og gera hana mikilvægari en fyrr.
Gott dæmi þar um er t.d. makríllinn. Þessi fiskur sem allt í einu tók upp á því að synda í hundrað þúsunda tali inn í Íslensku lögsöguna.
Geta Íslendingar eitthvað lært af því?
Hvað mætti ætla t.d. að Íslendingar hefðu fengið úthlutað í sinn hlut af makrílkvótanum, hefðu þeir nú þegar verið aðilar að "Sambandinu"?
3%, 4%, 5%? Samt er það varla véfengjanlegt að makríllinn hefur sótt í Íslensku lögsöguna og þyngist þar svo um munar á því æti sem þar er. Æti sem aðrir stofnar munu ekki geta nýtt.
Er eitthvað óeðlilegt að Íslendingar veiði af stofninum í sinni eigin lögsögu?
Í þessari deilu kemur skýrt fram hvers virði það er að vera sjálfstætt strandríki, með yfirráð yfir eigin lögsögu. Samt vilja "Sambandssinnar" gefa þennan rétt burt, afhenda hann Evrópusambandinu.
Makríllinn hrópar viðvörunarorðum að Íslendingum, sumir virðast ekki heyra þau, aðrir kjósa að láta eins og ekkert sé. En ég hygg að stærstur hluti Íslendinga hafi hlustað, það er m.a. skýringin á því að á færri eru þeirrar skoðunar að þörf sé að að "kíkja í pakkann". Þessi pakki "Sambandsins" liggur opnaður og skýr fyrir framan Íslendinga.
Hvað varðar aðra hluti, eins og vandræði eurosins, er engin niðurstaða fengin enn. "Sambandið" náði að sveigja fram hjá stærstu skerjunum á nýliðnu ári, en er ekki á lygnum sjó ennþá. Með því að beygja og sveigja reglurnar í kringum Seðlabanka sinn, náði Eurosvæðið að bjarga sér fyrir horn, en enn hafa grunnvandamál myntsvæðisins ekki verið leyst.
En viðbrögð forystumanna "Sambandsins" við eurokrísunni, vekja upp nýjar spurningar og fleti til að vera á verði gagnvart "Sambandsaðild".
Hvert stefnir "Sambandið"? Er sambandsríki óumflýjanlegt? Hvert yrði hlutskipti Íslands innan slíks sambandsríkis ef Ísland ákveddi að verða aðili að því?
Og hver yrði "endastöð" slíks samruna? Yrði það sambandsríki, líkt og t.d. Bandaríki norður Ameríku, Kanada og Þýskaland? Hefði slíkt sambandsríki aðeins einn fulltrúa hjá alþjóðastofnunum, s.s. Sameinuðu þjóðunum?
Það er ekkert veikleikamerki að nefna sífellt ný og ný atriði sem mæla á mót "Sambandsaðild". Það sýnir einfaldlega hve óvissan er mikil og hve mörg óhagstæð og vafaatriði það eru við hugsanlega "Sambandsaðild".
Ástæðunum fyrir því að segja nei hefur fjölgað með tímanum, ef eitthvað er.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 21.1.2013 kl. 09:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.