4.1.2013 | 22:33
Þjóðarvilji lýðskrumaranna
Það kviknar sjálfkrafa á "lýðskrumsvaranum" hjá mér þegar stjórnamálamenn fara að tala um "þjóðarvilja", hvað þá að hann hafi komið fram.
Það er auðvitað rétt hjá Sigurði Líndal að þjóðarvilji kom alls ekki fram í skoðanakönnuninni um tillögur stjórnlagaráðs.
Hins vegar kom fram meirihlutavilji þeirra sem kusu, um að tillögur stjórnalagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá Íslands.
Um það verður ekki deilt.
En það er auðvitað ekki þjóðarvilji, frekar en að þeir sem sögðu já séu þjóðin. Þið eruð ekki þjóðin sagði konan og hafði rétt fyrir sér, þó að hún hlyti skammir fyrir.
En sannleikanum verða margir sárreiðastir.
Í skoðanakönnuninni var einungis spurt hvort að þátttakendur vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að stjórnarskrá.
Hvað er grundvöllur og hvað er ekki grundvöllur?
Um það má líklega deila lengi vel, en það er einmitt eitt af vinsælustu "tækjum" lýðskrumara að spyrja spurninga sem eru illa skilgreindar og túlka svo svörin eftir eigin hentugleika.
Sjálfum finnst mér að orðið grundvöllur hafa það óljósa merkingu að það gefi Alþingi nokkuð frjálsar hendur til breytinga á stjórnarskránni, en það er eingöngu mín upplifun á því orði.
Það er í mínum huga einnig nokkuð merkilegt að heyra stjórnlagaráðsmenn (sem hafa nákvæmlega sömu stöðu og hver önnur nefnd sem Alþingi skipar) eins og að þeir einir hafi sannleikann höndlað og ekki megi hrófla sem neinu nemi við verki þeirra. Nú segja þeir að of seint sé að koma fram með gagnrýni.
Það er auðvitað aldrei of seint að betrumbæta tillögur að stjórnarskrá, eða að gagnrýna þær tillögur sem fram hafa komið.
Aðalatriðið er að stjórnarskráin verði eins góð og verða má, ekki hvort að hún tekur gildi mánuði, eða jafnvel nokkrum árum fyrr eða síðar.
Stjórnarskrá er þess eðlis að hún á ekki að vera unnin í ákvæðisvinnu, eða undir svo ströngum tímamörkum að það komi niður á gæðum hennar.
Það er líka rétt að hafa í huga að stjórnarskrá á ekki fyrst og fremst að vera ákvörðun meirihlutans, heldur er ekki síður mikilvægt að hún einmitt verndi minnihlutann gegn ofríki meirihlutans og stjórnvalda á hverjum tíma.
Þess vegna er einmitt þörf á að staldra við nú.
Rangt að þjóðarvilji hafi birst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
http://svartfugl.blog.is/blog/sjounda/entry/1275537/
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2013 kl. 23:57
Já Tómas,hvað er grundvöllur,er þér hjartanlega sammála.
Helga Kristjánsdóttir, 5.1.2013 kl. 03:15
Þeir sem ekki tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni afsöluðu sér áhrifarétti sínum til hinna sem það gerðu og teljast því ómarktækir til lýsingar á vilja þjóðarinnar. Flóknara er það nú ekki. Þjóðarviljinn kom því skýrt fram í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu hvað svo sem sjálfskipaðir talsmenn ógreiddra atkvæða tauta og raula.
Nonni (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 16:04
Bestu þakkir fyrir athugasemdirnar.
@Nonni. Þú virðist ekki skilja það sem hér er skrifað, eða ekki hafa lesið það. Í þessum pistli er ekki verið að spá í afstöðu þeirra sem ekki greiddu atkvæði, eða rýnt í þeirra afstöðu. Því er heldur ekki neitað að meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar breytingum á stjórnarskrá.
En það gerir meirihluta þeirra sem kusu ekki að þjóðinni, eða talsmönnum hennar. Allt tal um þjóðarvilja í þessu sambandi er því að mínu mati rangt.
En svo er það líka spurningin sem varpað er fram, hvað er grundvöllur?
Líklega er einhver algengast notkun orðisins grundvöllur í orðinu umræðugrundvöllur. Ef til vill ber að líta á tillögur stjórnlagaráðs í því ljósi? Sem umræðugrundvöll?
Þegar menn þykjast tala fyrir hönd þjóðarinnar, er það oftar en ekki hreint og beint lýðskrum.
G. Tómas Gunnarsson, 5.1.2013 kl. 17:25
Hvernig er hægt að vita þjóðarviljann? Hvernig er það hugtak skilgreint yfirhöfuð?
Við gætum svo sem bara sleppt öllum kosningum (fyrst fólk tekur ekkert mark á þeim hvort eð er) og fengið miðla og hugsanalesara til að kortleggja heilahvelið í hverjum einasta Íslending, hvað hann/hún vill og hvaða langanir ríkja þar.
Það hafa að vísu ekki allir trú á að hægt sé að framkvæma þannig kortlagningar, þannig að ég er alveg ringlaður hvað er hægt að geraþ Fyrst að kosningar eru hættar að vera marktækar sem grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana.
Það hlýtur að vera svo fyrst hámenntaður lagaprófessor við Háskólann segir það, eru þeir ekki alveg óskeikulir annars?
Sjálfur er ég á því að ef við viljum vita skoðun einhvers á einhverju málefni, þá sé einfaldasta leiðin bara að spyrja hann (s.s. í kosningum) og ef hann svarar með þögninni/aðgerðarleysinu þá bara verður að líta á að hann sé hlutlaus í viðkomandi máli.
En ætli ég svo til ómenntaður leikmaðurinn viti nokkuð betur en sprenglærðir prófessorar?
Theódór Norðkvist, 6.1.2013 kl. 00:33
Það er tvennt ólíkt að sigra kosningar (eða eitthvað málefni sé samþykkti í kosningum) og að fullyrða að þjóðin standi að baki þeim sem sigrar.
Stundum er aðeins rétt rúmur helmingur (stundum minna) sem dugar til að sigra í kosningum.
Skilaði þjóðarviljinn Vigdísi Finnbogadóttur og Ólafi Ragnari Grímssyni í embætti forseta? Nei, en það gerði stærsti hluti þeirra sem greiddu atkvæði í hlut að eigandi kosningum.
Það breytir því ekki að þau voru réttkjörin sem forseti Íslands, en það var ekki vilji Íslensku þjóðarinnar sem kom þeim þangað, heldur stærsti hluti (ekki einu sinni meirihluti) sem kom þeim þangað.
Þess vegna er varasamt að tala um þjóðarvilja og raunar má færa nokkuð sterk rök fyirr því að þjóðir hafi ekki vilja, eða í það minnsta að hann komi fram afar sjaldan.
En orðið hljómar vel og því finnst stjórnmálamönnum freistandi að grípa til þess.
G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2013 kl. 08:06
Ég er sammála þér að hugtakið þjóðarvilji er ekki vel skilgreint og ef hægt er að skilgreina það væri þýðingin einna helst það sem meirihluti þjóðarinnar vill í einhverju máli, eða einhver málamiðlun sem flestir geta sameinast um.
Það má kannski segja að það hafi verið þjóðarvilji að bæði Vigdís og Ólafur R. urðu forsetar, fyrst það var allavega ekki ágreiningur um að meirihluti þeirra sem kusu átti að ráða niðurstöðunni.
Hinsvegar gengur ekki að segja að lýðræðisleg kosning skuli lögð til grundvallar í sumum málum, en ekki öðrum, nema þátttaka sé á rússneskan mælikvarða. Eins og sumir þingmenn eru að segja, sem margir hverjir hafa sjálfir ekki nema 10-15% kjósenda á bak við sig.
Theódór Norðkvist, 6.1.2013 kl. 13:13
Það er að mínu mati ómögulegt að segja að það hafi verið vilji þjóðarinnar (þjóðarvilji) að Vigdís og Ólafur Ragnar urðu forsetar. Þegar þau urðu forsetar náði hvorugt þeirra meirihluta greiddra atkvæða. Engu að síður voru þau réttkjörin og ekkert út á það að segja.
En í mínum huga er eingöngu hægt að segja að þjóðarvilji sé til staðar ef hægt er að fullyrða að þjóðin sé því sem næst einhuga um eitthvað mál.
Það næst ákaflega sjaldan.
Í mínum huga sýnir 51% kjósenda, svo dæmi sé tekið, ekki þjóðarvilja, þó að það sé meirihluti.
Það var ekki þjóðarvilji sem kom núverandi ríkisstjórn til valda, en það gerði meirihluti kjósenda. Stór hluti þjóðarinnar var óánægður með að ríkisstjórnin Samfylkingar og Vinstri grænna komst til valda. En ríkisstjórnin nýtur meirihlutastuðnings á Alþingi (oftast nær, í það minnsta) og þingmennirnir eru réttkjörnir.
Ég er ekki að segja að það eigi ekki að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundavallar breytingum á stjórnarskrá. Fyrir því kom fram meirihluti í skoðanakönnuninni. En það er ekki þjóðarvilji fyrir því, það hefur komið skýrt og greinilega fram.
En svo þarf að svara spurningunni, hvað er grundvöllur. Það var nefnilega ekki spurt í skoðanakönnuninni: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði að nýrri stjórnarskrá Íslands.
Hvers vegna skyldi hafa verið valið svona "loðið" orðalag?
Persónulega tel ég að Alþingi hafi víðar heimildir til breytinga á tillögunum, þar sem skoðanakönnunin skilyrti aðeins að þær skyldu lagðar til grundvallar.
G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2013 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.