11.12.2012 | 19:16
Málin þæfð eða Alþingi sem afgreiðslustofnun?
Fyrir þeim sem hafa fylgst með Íslenskum stjórnmálum um nokkurt skeið, er umræða um málþóf ekkert nýtt. Ekki heldur umræða um Alþingi sem afgreiðslustofnun, þar sem málin séu ekki rædd, heldur einfaldlega keyrð í gegn.
Allir hafa eitthvað til síns máls, enda skipta flestir stjórnmálamenn nokkurn veginn algerlega um skoðun á þessum málum, eftir hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Vissulega er Alþingi nokkur vorkun í þessum efnum, en að miklu leyti er þetta þó sjálfskaparvíti.
Staðreyndin er sú, að hið opinbera og Alþingi er farið að skipta sér af æ fleir málum og sviðum þjóðlífsins og fátt sem alþingismenn telja sig ekki vita betur en almenningur og æ fleiri svið sem þeir telja sig þurfa að setja lög um til að hafa vit fyrir almenningi.
Því er tímarammi Alþingis í raun sprunginn.
Auðvitað má svo velta því fyrir sér hvort að umræður á Alþingi breyti verulega endanlegri gerð frumvarpa sem heiti geti. En ég hygg þó að fáir myndu vilja afnema umræður á Alþingi, eða skerða þær verulega frá þvi sem nú er.
En svo er það blessað málþófið. Það er viðurkennt að það er vopn sem getur virkað vel í höndum stjórnarandstöðu, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim. Það er enda svo að þegar stjórnarmeirihluti leggur fram illa unnin frumvörp, jafnvel svo illa unnin að stjórnarliðar sjálfir viðurkenna að þau séu eins og bílslys, þá er það býsna gott að stjórnarandstaða eigi einhver vopn, en ekki sé hægt að knýja fram atkvæðagreiðslu eftir stuttan tíma.
Það er því svo að þó að málþóf hafi ekki yfir sér virðulegan blæ, þá verður það til enn um sinn. En ef það yrði gert útlægt, myndu líklega margir minnast þess með máltækinu: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Á meðal þeirra yrðu líklega þeir stjórnarþingmenn sem nó bolva málþófi, en verða í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili, og tala þá um að ekki megi skerða möguleika þingmanna til að tjá sig.
Hér á að verða málþóf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.