11.12.2012 | 10:30
Geta andstæðingar "Sambandsaðildar" kosið VG?
Það er nokkuð merkilegt að fylgjast með þeirri umræðu sem sprottið hefur upp hér og þar um netheima vegna þess að fullyrt var á bloggi Heimssýnar að það væri á meðal verkefna félagsins að koma VG út af þingi.
Persónulega hef ég ávallt talið það vænlegra til árangurs að berjast fyrir eigin skoðunum og hugsjónum, heldur en að berjast á móti annarra. Því verður þó ekki neitað að stundum fer þetta svo saman að eigi verður greint á milli.
En þverpólítískur félagsskapur getur ekki með góðu móti ráðist gegn einum flokki. Með því er hann í raun að ráðast gegn eigin félögum, því vissulega finnast enn einstaklingar sem eru andstæðingar "Sambandsaðildar" og geta hugsað sér að kjósa VG, þó að þeim hafi vissulega fækkað stórlega.
Þa' er sömuleiðis ekki óeðlilegt að þungt sé í mörgum sem gáfu VG atkvæði sitt í síðustu kosningum fyrst og fremst vegna afstöðu flokksins til aðildar að Evrópusambandinu.
En geta raunverulegir andstæðingar "Sambandsaðildar" kosið VG í næstu kosningum?
Það fer fyrst og fremst eftir því hvaða vægi menn gefa baráttunni á móti "Sambandsaðild" þegar þeir ákveða hvernig atkvæði þeirra verður ráðstafað. Ég hef áður sagt að ég telji að um sé að ræða stærsta mál Íslenskra stjórnmála, en vissulega eru fleiri mál sem menn hafa í huga þegar atkvæði er nýtt.
Innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi eru skiptar skoðanir um "Sambandsaðild", já meira að segja í Samfylkingunni, þó að þar heyrist minna talað um skiptar skoðanir en í öðrum flokkum.
En þeir sem setja mestan þunga á andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu geta ekki með góðri samvisku kosið VG. Ekki aðeins hefur stærsti partur forystufólks VG stutt "Sambandsaðild" með atkvæðum sínum á Alþingi, heldur greiddu þau sömuleiðis atkvæði gegn því að aðildarumsókn yrði lögð undir þjóðaratkvæði.
Stærra hefur bilið á milli orða og efnda líklega ekki orðið í Íslenskum stjórnmálum.
Það er því ekki óeðlilegt að margir félagar Heimssýnar hugsi VG þegjandi þörfina. Oft liggur þyngri hugur til þeirra sem hafa svikið, en þeirra sem hafa alltaf verið andstæðir.
En eftir stendur að þverpólítísk samtök berjast ekki sérstaklega gegn einum stjórnmálaflokki. Þau hljóta að berjast fyrir því málefni sem þau er stofnuð í kringum. En þingmenn sem greiddu atkvæði sitt með því að Ísland gengi í Evrópusambandið, eru eðlilega ekki á meðal þeirra þingmanna sem samtök á við Heimssýn, vilja sjá endurkjörna á Alþingi.
Þá þingmenn er að finna í Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og 1 í Sjálfstæðisflokki. Engin af þeim þingmönnum Framsóknar sem greiddu atkvæði með "Sambandsaðild" sækjast eftir endurkjöri.
Ég veit svo ekki hvernig afstaða þeirra sem eru nýjir á framboðslitum er.
En það er eðlilegt að samtök á borð við Heimssýn reyni að berjast fyrir kjöri þeirra frambjóðenda sem eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu og bendi á afstöðu frambjóðenda. En samtökin eiga ekki að berjast á móti flokkum.
P.S. Rétt er að taka fram að blogskrifari er ekki eða hefur verið félagi í Heimssýn. Afstaða mín til "Sambandsins" ætti hins vegar ekki að hafa farið fram hjá neinum sem hafa lesið bloggskrif mín.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.