10.10.2012 | 10:45
Af hverju eru "Sambandssinnar" hræddir við að þjóðin segi álit sitt?
Það hefur mikið verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur á undanförnum misserum. Margir hafa talað um að rétt sé að stöðva aðlögunarviðræðurnar við "Sambandið" og hefja þær ekki að nýju fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það mega "Sambandssinnar" ekki heyra á mynnst. Þeir segja að þar með sé rétturinn til að greiða atkvæði um samning tekinn af þjóðinni. Það eru skrýtin rök frá þeim sem neituðu þjóðinni um að greiða atkvæði um hvort sótt skyldi um aðild.
Auðvitað er sjálfsagt og sáraeinfalt að greiða atkvæði um hvort halda skuli aðlögunarviðræðum áfram, samhliða næstu alþingiskosningum.
Ef kjósendur vilja fá samning á borðið sem þeir geta greitt atkvæði um, þá segja þeir auðvitað já við því að viðræður haldi áfram.
Séu þeir búnir að gera upp hug sinn og vilja ekki ganga í "Sambandið" og telji frekari viðræður óþarfar, þá segja þeir nei við frekari viðræðum.
Öllu einfaldara getur það varla verið og kostnaður sáralítill ef atkvæðagreiðslan fer fram samhliða alþingiskosningum.
Sé meirihluti fyrir því að halda aðlögunarviðræðum áfram, styrkir það umsóknina og bindur að mínu mati næstu ríkisstjórn til að halda þeim áfram.
Sé meirihluti fyrir því að slíta viðræðum, þarf lítið að ræða það frekar og bindur sömuleiðis hendur næstu ríkisstjórnar að mestu leyti.
Hví vilja "Sambandssinnar" ekki leita til þjóðarinnar með þetta deilumál?
Eru þeir hræddir við úrskurð hennar?
Ögmundur vill ESB-kosningu í vor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:32 | Facebook
Athugasemdir
Frá upphafi greinilega,þeir þvinga þetta áfram og ætlunin er að allir svokallaðir kaflar verði opnaðir,rétt eins og þá verði ekki aftur snúið.
Helga Kristjánsdóttir, 10.10.2012 kl. 16:16
Eftir hrunið kom tímabil þar sem aðildarsinnum tókst að stilla ESB-málunum þannig upp að aðild væri æskileg (aðallega vegna meints skjóls af evrunni) en að tilteknir afmarkiðir þættir (sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin) væru hindranir. Sé málinu þannig stillt upp er rökrétt að líta svo á að skynsamleg ákvörðun um aðild eigi að velta á því hvort það fáist fram nægilega mikið af undanþágum og sérákvæðum.
Ef þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram áður en umsóknerferlinu lýkur ýtir það hinsvegar undir umræðu frá öðrum vinklum. Þá má búast við því að fólk ræðu um það hvað samabandið er, hvaðan það kemur, hvert það stefnir og hvort það séu yfirleitt nokkrar pósitívar ástæður fyrir því að vilja aðild, jafnvel þótt mögulegt væri að komast yfir hindranirnar.
Sé málið rætt á þeim forsendum eru líkurnar á meirihlutastuðningi við aðild hverfandi.
Báðar fylkingar eru að reyna að knýja fram orrustuna á þeim vígvelli sem er þeim hagstæðari.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 17:03
Sýnist á öllu að aðildarsinnar séu ekki endilega á móti kosningum, bara að þær séu ekki bindandi, verði að vera ráðgefandi þar sem hægt er að túlka niðurstöður sér í hag.
Svo vilja þeir líka nýja stjórnarskrá þar sem allar kosningar verði ráðgefandi svo hægt sé að túlka niðurstöður sér í hag líka.
Allavega virðast málin standa þannig í dag.
Með kveðju
Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 11.10.2012 kl. 14:42
Ég held reyndar að það sem "Sambandssinnar" vilja öllu fremur er að draga málið á langinn eins og mögulegt er. Vonin um "kraftaverk" og töfralausnir enda alltaf verið rík í þeirra hópi. Það eitt að sækja um aðild ætti að vera töfralausn við Íslenskum efnahagsvanda.
Því vona þeir alltaf að "Eyjólfur hressist", að ástandið innan "Sambandsins" verði betra, að Íslendingar sjái "ljósið", að bara eitthvað gerist sem geri Íslendinga áfram um aðild.
En allt hefur gengið þeim í mót hingað til og ég reikna með því að það verði áfram, alla vegna á næstu árum. "Sambandið" er langt í frá komið fyrir vind, ef því tekst yfirleitt að komast í var.
En auðvitað er tímabært að spyrja þjóðina álits, það hefði átt að gera áður en aðlögunarferlið hófst. En hinir "lýðræðiselskandi" "Sambandssinnar" tóku þann "rétt" af þjóðinni.
En ekki hvað.
G. Tómas Gunnarsson, 11.10.2012 kl. 19:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.