19.9.2012 | 16:33
Og krónan fellur
Gjaldeyrismál eru eðlilega mikið til umræðu á Íslandi þessi misserin. Það virðist oft á tíðum sem Íslendingar hafi meiri áhyggjur af nafni gjaldmiðilsins sem þeir nota, heldur en efnahagslífinu sem stendur að baki honum.
Nú hefur krónan tekið að síga að nýju undanfarnar vikur og þá hefst, eins og oft áður, tal um að það sé krónunni sjálfri um að kenna, og auðvitað þurfi að skipta um mynt. Fáir eða engir tala um undirliggjandi ástæður þess að krónan sígur.
Aðalástæðan er einfaldlega sú að Íslendingar eyða meiri gjaldeyri en þeir afla. Skiptajöfnuðurinn er óhagstæður. Slíkt kallar eðlilega á veikingu gjaldmiðilsins. Tekjurnar aukast ekki við að skipta um gjaldeyri, eða hafa hann sterkari. Þvert á móti.
Því hlutskipti hafa mörg Evrópuríki, sem hafa tekið upp euro kynnst. Gjaldmiðilinn er sterkur og nokkuð stöðugur, en fyrir mörg þeirra hefur hann reynst of sterkur.
Þannig dugði útflutningur Grikkja, þegar verst lét, aðeins fyrir tæpum helmingi af innflutningi landsins. Með því að færa niður laun, herða sultarólina því sem næst eins og verða má og skera niður flest sem skeranlegt er, hefur ástandið skánað, en jöfnuður hefur þó ekki náðst. Efnahagur Grikkja hefur skroppið saman í kringum 20% í þeirri kreppu sem þar ríkir. Atvinnuleysi nálgast 25%.
Á Spáni er atvinnuástandið síst skárra. Nýlega sá ég fjallað um skoðanakönnun sem gerð hafði verið þar í landi og sýndi að 22% aðspurðra vildi taka aftur upp pestetan sem gjaldmiðil. Þó að enn væri meirihluti sem studdi euroið, fannst mér það nokkuð sláandi hve prósentutalan sem vildi pesetan var svipuð atvinnuleysisprósentunni, en hún er u.þ.b. 25% á Spáni.
Þeir atvinnulausu gera sér ef til vill grein fyrir því hlutverki sem gjaldmiðilinn spilar í atvinnuleysi þeirra. Þeir sem hafa vinnu og eiga enn sparifé, vilja eðlilega vernda þann falska kaupmátt sem euroið hefur fært Spánverjum.
Að mörgu leyti er það eins hjá Íslendingum að ég tel. Þeir eru margir sem sjá (eðlilega) eftir þeim falska kaupmátti sem Íslendingar höfðu. Þeir eru án ef margir sem hefðu kosið að færa 2007 kaupmáttinn sinn yfir í euro, og hefðu vonast til að halda honum. Ekki hefði það verið verra ef bankainnistæður hefðu fylgt með. Í raunveruleikanum hefði slíkt þó líklega þýtt að margir þeirra hefðu misst vinnuna og atvinnuleysi hefði rokið upp.
Gjaldmiðilsbreyting er engin töfralausn og tryggir ekki kaupmátt, né að misgengi húsnæðisverðs/lána eigi sér ekki stað.
Að láta gjaldmiðilinn stjórnast af einhverju allt öðru en efnahagnum, eða efnahag mun stærri landa getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Því eru margar euroþjóðirnar að kynnast í dag.
Þess vegna er stundum talað um Evrópusambandið eins og "brennandi hótel" og það logar enn.
Koma þarf húsinu í lag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.9.2012 kl. 06:32 | Facebook
Athugasemdir
Svo er það nú þetta með peningaprentunina. Verð fasteigna á Íslandi rís frekar en að það falli. Af hverju? Jú af því að fjármálabatteríið vill að það rísi. Það kemur sér saman um að þetta séu verðmæti. Lánað er út á hækkandi verðgildi fasteigna,eignasafn bankana stækkar við það,(mælt í krónum) og eftirspurn eftir gjaldeyri vex þegar á að fara að kaupa erlendan innflutning fyrir þessi fölsku verðmæti,krónan fellur. Hin raunverulegu verðmæti, eru þannig tekin úr vasa allra þeirra sem eiga þær krónur er fyrir voru.
Þetta sama getur gerst við hvaða stórframkvæmd sem er, hvort sem það er bygging nýs spítala eða verslunarmiðstöðvar. Íslendingar verða að hætta að pumpa svona miklu lofti í krónuna. Það verður að hemja útlán bankanna svo að þau rími að einhverju leiti við innlánin.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 08:53
Fasteignalán eru að mörgu leyti sérstakur og stórmerkilegur kapítuli. Lækkun vaxta á fasteignalánum og aukið aðgengi er kaupendum í raun ekki til hagsbóta nema í örstuttan tíma eftir vaxtalækkun eða aðgengi er aukið.
Yfirleitt tekur það ekki nema fáeinar vikur og þá er lækkað vaxtastig búið að leiða til hærra fasteignaverðs. Hverjum skyldi það koma mest til góða á Íslandi í dag?
Þegar aukið innstreymi er á gjaldeyri mælir margt með því að ríkið (undir eðlilegum kringumstæðum) noti tækifærið og auki gjaldeyrieign sína.
Mettekjum ríkissjóðs hefði verið vel varið til slíks á góðærisárunum, en í staðinn var slegið í hvað varðaði opinbera eyðslu.
G. Tómas Gunnarsson, 21.9.2012 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.