Myndi ég kjósa yfirlýstan "Sambandssinna" í embætti forseta?

Heyrði útundan mér að verið væri að ræða hvort að afstaða forseta til "Sambandsaðildar" skipti máli eður ei og að sitt sýndist hverjum.

Persónulega finnst mér sú afstaða skipta gríðarlegu máli, eins og embættið hefur þróast í tíð Ólafs Ragnars og hæpið er að treysta að embættið fari í fyrri farveg.

Því ákvað ég að endurbirta hér færslu sem birtist hér 4. janúar síðastliðinn, þegar vangaveltur um forsetaefni voru rétt að byrja.  Færslan er í fullu gildi, þó að sumar forsendur hafi breyst.

Myndi ég kjósa yfirlýstan "Sambandssinna" í embætti forseta?

Nú þegar byrjaðar eru vangaveltur um hugsanlegan arftaka Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands, er byrjað að velta fyrir sér breytingum sem hafi orðið á embættinu sem aldrei fyrr.

Það er ekki óeðlilegt að miklar vangaveltur séu um málskotsréttinn og hvernig hugsanlegur forseti myndi hugsanlega beita honum. Þar á eftir koma oft vangaveltur um hvort að forsetaframbjóðendur verði krafnir svara um skoðanir þeirra á hinum ýmsu álitamálum. Sumum finnst það ólíklegt og raunar óviðeigandi, en aðrir eru þeirrar skoðunar að slíkt muni verða raunin.

Sjálfur skipa ég mér í síðari flokkinn og tel að kjósendur komi til með að vilja vita meira um skoðanir forsetaframbjóðenda á hinum ýmsu málum sem stundum flokkast undir "dægurmál".

Út frá því myndu kjósendur mynda sér skoðanir á þvi hversu líklegir forsetaefnin væru til að nota málskotsréttinn við mismunandi aðstæður.

Það má til dæmis hugsa sér að ef illa færi og Íslendingar samþykktu að ganga í Evrópusambandið, að það gæti skipt gríðarlegu miklu máli hver sæti á forsetastól og hvernig viðhorf hans væri gagnvart "Sambandinu".

Væri til dæmis uppi svipuð staða innan "Sambandsins" og nú er. Rætt væri um miklar grundvallarbreytingar á sáttmálum þess og ríkisstjórnir og þing aðildarríkjanna væru að ræða og leita að leiðum til þess að komast hjá því að breytingarnar færu í þjóðaratkvæði. Undir slíkum kringumstæðum gæti afstaða forseta skipt Íslendinga gríðarlegu máli.

Forsetinn gæti í slíku tilfelli haft úrslitaáhrif á hvort viðkomandi breyting færi í þjóðaratkvæði eður ei.

Því myndi ég líklega aldrei gefa yfirlýstum Evrópusambandssinna atkvæði mitt í forsetakjöri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammàla.

Benni (IP-tala skráð) 17.5.2012 kl. 13:17

2 Smámynd: Kári Friðriksson

Vel mælt/skrifað Tómas.

Kári Friðriksson, 17.5.2012 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband