4.3.2012 | 13:53
Kippt í spottana?
Ég hef varla tölu á öllum þeim tölvupóstum sem ég hef fengið frá þeim sem ég þekki hér í Kanada varðandi meintan áhuga Íslendinga á að taka upp Kanadadollar. Málið hefur vakið nokkuð mikla athygli hér, þó líklega verði að gera ráð fyrir að vegna mín hafi það ef til vill vakið meiri athygli hjá mínum kunningjum en ella.
Flestum virðist finnast þetta nokkuð "kúl", eða hálf fyndið.
En eins og oft á laugardögum þurfti ég í gær að fara nokkuð víða og hitti nokkuð mikið af fólki. Eðlilega bar þetta nokkuð á góma.
Þeim sem fylgjast með Kanadískum stjórnmálum (sem eru í raun ekkert alltof margir), fannst það liggja í augum uppi að Kanadíski sendiherrann hefði ekki lofað að tala á ráðstefnunni án þess að hafa ráðfært sig við yfirboðara sína. Slíkt væri því sem næst óhugsandi, slíkt gerðu Kanadískir sendiherrar ekki. Hefði svo verið væri sendiherrann líklega á heimleið nú. Sú ríkisstjórn sem nú situr er þekkt fyrir að halda uppi aga.
En hvers vegna þurfti sendiherrann þá að hætta við að flytja stutta ræðu?
Flestir voru þeirrar skoðunar að það hlyti að þýða að Íslensk stjórnvöld hefðu kvartað, það væri eðlilegasta skýringin. Einn bætti því þó við að hugsanlega hefði "Sambandið" komið því til skila eftir diplómatískum leiðum, að það teldi Ísland á sínu "áhrifasvæði" nú um stundir, og því beðið Kanada að hafa sig hægt.
Á þessu stigi málsins væru vangaveltur sem þessar að sjálfsögðu ekki þess virði að styggja einn né neinn. Hagsmunir Kanada í þessu máli væru litlir.
En sennilega kemur staðfestur sannleikur í þessu máli seint fram.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.