23.1.2012 | 21:44
Dómur um landsmálin?
Það er ótrúlegt að fylgjast með stjórnmálaumræðunni nú um stundir á Íslandi. Reiði, heift, hatur, ósamlyndi, illmælgi, óhróður, óstöðugleiki og ójafnvægi eru meðal orða sem koma upp í hugann. Það er hreint með eindæmum hvaða "pandórubox" tillaga Bjarna Benediktssonar hefur opnað.
Ofsafengin viðbrögð margra stjórnarliða vekja upp margar spurningar. Ekki hvað síst hvers vegna það skipti ríkisstjórnina svona miklu máli að þetta mál sé rætt sem minnst og styst í þingsölum?
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er einfaldlega að það þetta hafi verið hluti af samningum ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna. Nú þegar kemur í ljós að ríkisstjórnin hafi ekki getað "afhent vöruna" sé sá samningur í uppnámi. Jafnframt hafi komið í ljós að þingmeirihluti til að skipta um forseta þingisins sé ef til vill ekki ti til staðar.
Líklega má draga þá ályktun að ríkisstjórnin hafi ekki öruggan þingmeirihluta fyrir neinu máli, heldur verði hún að semja um hvert og eitt mál sem hún ætlar að koma áfram. Það er erfið staða og ekki ólíklegt að hana þrjóti fljótlega örendi.
Ráðherraskiptin um áramótin eru líklega mun dýrara verði keypt en talað var um þegar þau voru handsöluð.
En vissulega komu líka fram góð tíðindi fyrir ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslunni. Til dæmis að Guðmundararmur Samfylkingarinnar er hlýðnari en Árna Páls, Össurar og Vaðlaheiðararmar hennar.
En einhvern veginn hef ég trú á því að ríkisstjórnin lafi enn um sinn. Væntumþykjan á völdunum og hatrið á Sjálfstæðisflokknum megna líklega að halda henni saman.
Fylgismenn stjórnarinnar kyngja stóryrðum sínum nú eins og áður. Hvers vegna ætti ríkisstjórn sem hefur tapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir þjóðinni, lagt fram "bílslys" um meginatvinnuveg þjóðarinnar, skautað fram hjá ógildingu hæstaréttar á kosningum, einkavætt tvo banka án þess svo mikið sem að ræða um það, að fara að springa á smámáli sem þessu?
Strax á mánudegi má greina mildari tón hjá þeim sem létu vaða á súðum yfir helgina.
P.S. Auðvitað er ekkert komið í ljós hvort að tillaga Bjarna Benediktssonar verður samþykkt. En ég ítreka það sem ég hef áður sagt að væntanleg réttarhöld fyrir Landsdómi snúast fyrst og fremst um pólítíska hefnd og að koma sökinni af bankahruninu alfarið yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig á að vera hægt að þykjast vera að fjalla um ráðherraábyrgð í því sambandi þegar viðskiptaráðherrann (sem fór með bankamál) er gerður stikkfrír af samflokksmönnum sínum. Samfylkingin gerði hann svo þingflokksformanni sínum eftir síðustu kosningar. Á þeim bæ heitir það líklega að axla pólítíska ábyrgð.
Hart sótt að Ögmundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er alveg rétt greining og óskiljanleg venjulegu fólki eins og mér, hvað hangir á spýtunni, en heiftin og reiðin er svo sannarlega til staðar og óskiljanleg hreint út sagt. Skileddaekki eins og sagt er.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2012 kl. 21:57
Í öðrum löndum væri fyrir löngu búið að koma þessu landráða pakki fyrir kattarnef. Eftir hverju er verið að bíða?
Björn Emilsson, 24.1.2012 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.