Stjarnfræðilegt atvinnuleysi

Stjarnfræðilegt er orðið sem nýr forsætisráðherra Spánar notar yfir atvinnuleysið þar í landi.  Það er ekki hægt að mótmæla þeirri orðnotkun hans.  Atvinnuleysið þar heldur áfram að aukast mánuð eftir mánuð og sýnist ekkert lát þar á.

Í lok júní á síðasta ári voru 4.830.000 einstaklingar atvinnulausir á Spáni.  Í lok september voru þeir orðnir 4.980.000.  Nú um áramótin var talan kominn fast að 5.400.000 einstaklinga, sem vilja fá vinnu en geta það ekki.  Ástandið er sýnu verst hjá ungu fólki en helmingur þess er atvinnulaust.

Spænski forsætisráðherrann nefndi engar prósentutölur, en þetta er líklega á milli 23 og 24% atvinnuleysi.  Það má segja að því sem næst einn af hverjum 4 á vinnumarkaði geti ekki fundið atvinnu.

Forsætisráðherrann, Mariano Rajoy, sagði að baráttan við atvinnuleysið væri forgangsverkefni ríkisstjórnar sinnar.  Það geta líklega flestir ímyndað sér hvernig slíkt atvinnuleysi leikur ríkiskassann, bæði í minni tekjum og ekki síður auknum útgjöldum. 

Lánamarkaðir verða Spáni líklega enn erfiðari á næstunni, enda lækkaði S&P landið um 2. þrep á föstudaginn.

Það bætir ekki úr skák að hin nýja ríkisstjórn hefur einnig upplýst að halli ríkissjóðs síðasta ári hafi verið u.þ.b. 8%, í stað þeirra 6 sem fyrri ríkisstjórn hafði stefnt að.  Ríkisstjórnin hefur sakað fyrri stjórn sósíalista um að hafa vísvitandi leynt hinum aukna halla.

Það er því ekki bjart framundan á Spáni þó að landið sé sólríkt.  Mynt þeirra er reyndar nokkuð stöðug, þó að hún hafi látið örlítið undan síga á undanförnum vikum.  En tilvera launþega landsins er ekki stöðug, nema að því marki sem hún virðist liggja stöðugt niður á við.

Lánastofnanir landsins landsins eru margar í miklum erfiðleikum og er talið að þær hafi eignast u.þ.b. 900.000 fasteignir.  Margar þeirra neita hugsanlegum kaupendum alfarið um lán til húsnæðiskaupa, nema til að kaupa eignir í eign viðkomandi lánastofnunar.  Það hefur aftur leitt til þess að margir eiga í vandræðum með að selja eignir sínar, þó að þeir fegnir vildu.  Efti því sem ég kemst næst hefur húsnæðisverð lækkað um nálægt 20%, en haft er eftir aðilum á fasteignamarkaði að líklegast þurfi markaðurinn að lækka um önnur 20%.

P.S. Megnið af tölunum í þessari færslu er fengin héðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband