Allar auðlindir til ríkisins?

Það hefur í gegnum tíðina oft verið rætt og rifist um hverjir eiga Ísland.  Einfaldasta svarið er líklega bændur og ríkið.

Ég vil taka það fram að ég deili ekki skoðunum með ungu Vinstra grænu fólki um að einkaeignarhald á jarðnæði heyri vonandi sögunni til, en ég held að það sé samt þarft fyrir Íslendinga að ræða þessi mál og reyna að gera sér grein fyrir skoðunum sínum.

Krafan um að allar auðlindir verði í "þjóðareign" heyrist æ oftar.  Nú er "þjóðareign" ekkert annað en hljómþýðara orð yfir ríkiseign, en hvað eru auðlindir?  Ég ætla ekki í þessari bloggfærslu að útskýra það, en ég hygg þó að fæstir myndu neita því að jarðnæði heyri þar undir. 

Hvað með fisk?  Hann er jú mikil auðlind.   Á hann allur að vera í ríkiseigu?  Þar svara margir játandi.  En hvað með fiskinn sem hefur verið í einkaeigu í árhundruði?  Hefur verið veiddur, soðinn, reyktur, étinn af þeim sem eiga  og rétturinn til að veiða hann verið seldur og leigður svo lengi sem elstu menn muna. Jafnvel eru brögð að því að hann sé veðsettur óveiddur.  Á hann líka að fara í ríkiseigu?  Ef ekki hver er munurinn?  Skiptir seltustigið í vatninu einhverju máli, eða er það eitthvað annað?

Það er ekkert sjálfgefið hvernig þessum málum er háttað, enda mjög mismunandi hvernig það hefur verið gert í hinum ýmsu ríkjum, alveg burtséð frá því hvort að þau hafa talist kommúnísk eða kapítalísk.

Hér í Toronto eigum við hjónin okkar eigin pínulitla blett af Toronto.  Hann er ekki stór en hann er okkar og er metinn á u.þ.b. jafnmikið eða heldur meira en húsið sem við eigum á honum.  Við getum selt þennan blett hverjum sem er.  Það breytir því ekki að kaupandinn væri eftir sem áður háður skipulagsreglum, byggingarleyfum og þar fram eftir götunum.  Þannig er skipulagið hér, einstaklingar og fjölsyldur eiga sinn litla blett.

En hér í Kanada eru ár og vötn mestmegnis í héraðs eða ríkiseigu. Ég get keypt veiðileyfi fyrir tiltölulega fáa dollara (mig minnir að það kosti ca. 30) sem heimilar mér að veiða í flestum vötnum og ám hér í Ontario.  Það eru strangar reglur um veiðar samt sem áður og takmarkað hvað ég má hirða o.s.frv.

Bændur eiga hins vegar sínar jarðir.

Þannig er sinn siðurinn í landi hverju.

Hvað varðar fiskinn í sjónum er staðan flóknari og mismunandi kerfi í gangi eftir tegundum, en mikið talað um að taka upp kerfi sem er því sem næst kópía af því Íslenska.

Ef bændur geta deilt vatni og veiði verðmæti á milli sín í prósentuhlutföllum og, hvers vegna geta útvegsmenn það ekki?

Land er takmörkuð auðlind eins og fiskur og vatn.  Er einhver munur á því að selja kvóta sem komst í eigu fjölskyldunnar fyrir 2. tugum ára, á milljarða og að selja jörð sem komst í eigu fjölskyldunnar fyrir einhverjum hundruðum ára og er nú milljarða virði vegna þess að hún er nýtanleg sem byggingarland fyrir höfuðborgarsvæðið?  Er það þá aðallega eignartíminn sem skiptir máli eða er það eitthvað annað?

Ég tek það fram að ég hef engin svör í þessum efnum, eða tillögur um eitthvað kerfi sem mér finnst að Íslendingar ættu að taka upp, en ég held að það sé öllum hollt og gott að velta þessu fyrir sér og reyna ef til vill að mynda sér skoðun.  En ef til vill er fyrirkomulagið ljómandi eins og það er.

Það eru endalausar spurningar sem má spyrja þegar kemur að eignarrétti og ekki síður nýtingarrétti.  Ég hygg að seint muni finnast niðurstaða sem allir eru sáttir við.  En það er líka þarft að spyrja hvort að séreignarétturinn hafi ekki skilað árangri sem hægt sé að vera sáttur við.  En þar eins og víða annars staðar hygg ég að svörin kunni að vera mismunandi.

Víðast hvar um heiminn tíðkast einhverskonar blanda af sam og séreign, um það ríkir að miklu leyti sátt, en deilurnar um hvar línan eigi að liggja verða sjálfsagt seint settar niður að fullu.


mbl.is Einkaeign á landi úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband