11.11.2011 | 03:13
Í gleði hjá Þórði?
Ég hef rekist nokkuð á þá fullyrðingu að undanförnu að andstæðingar "Sambandsaðildar" standi fyrir mikilli "Þórðargleði" vegna vandræða "Sambandsins" og þá sérstklega Eurosvæðisins.
Nú skal það fram tekið að ég tekið að ég tala að sjálfsögðu ekki fyrir hönd nema sjálfs míns, en því fer fjarri að ég gleðjist yfir þeim efnahagshremmingum sem nú ganga yfir Eurosvæðið.
Ekki frekar en ég ætla Íslenskum "Sambandssinnum" að gleðjast yfir efnahagsörðugleikum Íslands og falli krónunnar, sem þeir eru þó vissulega duglegir að vekja athygli á og tala um.
En það er vissulega svo að þó að hvorugt atriðið sé til þess fallið að gleðjast yfir, þýðir það ekki að umræða um þau bæði sé ekki nauðsynleg.
Ég held að allir Íslendingar geri sér grein fyrir hve víðtæk áhrif "hrunið" og gengisfall krónunnar hefur haft á Íslenskar fjölskyldur og þjóðfélagið allt.
En æ fleiri gera sér grein fyrir því hve erfitt ástandið er víða á Eurosvæðinu og hve ólíklegt er að það lifi þær hremmingar sem nú yfir það ganga óbreytt. Þar hittir krísan almenning fyrir ekki síður en á Íslandi, gjaldmiðillinn heldur velli, en atvinnuleysi er meira en um áratugaskeið. Atvinnuleysi hjá ungu fólki á Spáni og í Grikklandi er u.þ.b. 45%.
Yfir því gleðst enginn, en það er eðlilegt að um það sé rætt og á það bent.
Margir hagfræðingar (en í þeirra hópi má auðvitað finna margbreytilegar skoðanir) eru þeirrar skoðunar að vandræði Grikkja, Íra, Portúgala og jafnvel Ítala séu mun alvarlegri og djúpstæðari en Íslendinga. Er eitthvað óeðlilegt að á það sé bent og um það rætt?
Margir hafa sömuleiðis bent á að uppbygging Eurosins sé beinlínis hættuleg. Það getur varla talist til einhverrar Þórðargleði að benda á það og hafa á því skoðun.
Erfiðleikarnir á Eurosvæðinu eru líklega þegar byrjaðir að hafa áhrif á Íslandi, kaupgeta almennings minnkar og erfiðara verður að selja Íslenskar vörur til Eurolanda. Þannig hefur krísan líklega áhrif um allan heim og ekki hjálpar að Bandaríkin eiga sömuleiðis við mikil vandamál að etja. Því er vissulega hætta á að kreppan umlyki mestalla heimsbyggðina. Ísland verður þar auðvitað ekki undanskilið, enda eiga Íslendingar mikil og margvísleg samskipti við þau lönd sem eru í vandræðum eða gætu lent í vandræðum.
Ég ætla engum að gleðjast yfir slíku, en vissulega tína einstaklingar til rök sem styrkja þann málstað sem þeir halda fram og gera oft meira úr þeim en hinum sem ganga í mót. Í því felst engin Þórðargleði.
En eftir stendur að það er eðlilegt að ræða krísuna sem Eurosvæðið er í og það er eðlilegt að það sé tengt við umræðuna um að Ísland taki upp Euro.
Það hefur líka verið fullyrt að "Sambandsaðild sé töfralausn við efnahagslegum óstöðugleika. Það getur varla talist nema eðilegt að rætt sé um efnahagsástandið í Evrópu og slíkar fullyrðingar. En ég held að enginn gleðjist yfir því að efnahags og viðskiptaráðherra Íslendinga trúi á slíkar töfralausnir. Ekki einu sinni Þórðargleði.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.