13.5.2006 | 18:35
Hillary og Rupert
Það er ekki of sterkt tekið til orða að segja að samstarf þeirra Hillary Clinton, öldungadeildarþingmanns og fyrrum forsetafrúar og Rupert Murdoch fjölmiðlamóguls hafi vakið athygli, í það minnsta hérna vestanhafs. Samstarfið er nú ekki yfirgripsmikið, en þýðingarmikið eigi að síður, Murdoch ætlar nefnilega að taka þátt í því að safna peningum fyrir frú Clinton.
Veldi Murdoch´s sem hefur meðal annars fréttastöðina Fox innbyrðis, hefur ekki þótt vera höll undir Clinton hjónin, né heldur Demókrata yfirleitt. Frú Clinton hefur sömuleiðis yfirleitt ekki legið á skoðunum sínum á Murdoch, og hefur meðal annars talið hann vera þátttakanda í "risastóru samsæri hægri manna".
En er þá Hillary gengin í björgin? Stefnir hún að því að verða forseti með hjálp Murdoch? Yrði fjölmiðlaveldi Murdoch´s beitt í þágu frú Clinton og gegn Repúblikönum? Hvað eru Murdoch og fjölmiðlar hans mikilvægir í kosningabaráttu?
Þetta eru auðvitað spurningar sem eru erfitt að svara og varla tímabærar, en það er ljóst að þetta samstarf vekur athygli, og það ekki endilega góða. Auðvitað getur þetta fært Hillary inn á miðjuna, þar sem allir stjórnmálamenn virðast vilja vera í dag.
En eins og sjá má á fréttum, hefur þetta einnig reitt til reiði marga þá er standa lengra til vinstri í Bandarískum stjórnmálum, enda hafa þeir yfirleitt ekki vandað Fox News og Murdoch kveðjurnar. En ef Hillary verður frambjóðandi Demókrata, eiga þeir eitthvert val? Eða koma þeir til með að ná að hindra það að hún nái útnefningu?
Það er langt til kosninga, rétt um 2 og hálft ár, en það er ljóst að þetta útspil Hillary hefur vakið mikla athygli, undrun og jafnvel reiði. En er ávinningurinn meiri en sá stuðningur sem tapast? Það er engin ástæða til að vanmete Murdoch, eða Fox.
Hér er frétt NYT og sömuleiðis frétt úr Globe and Mail.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.