Hvísl umræðan

Það er mikið talað um það á Íslandi þessi misserin að umræðan sé á lágu plani, þrasgjörn og lítið að marka hana. 

Það má taka undir það að vissu marki, en þó er það auðvitað svo að þar er margt gott, en vissulega einnig margt sem mætti betur fara og eins og oft vill verða fær það ef til vill meiri athygli fjölmiðla sem hljómar ógnvekjandi, ótrúlegt, sjokkerandi og svo framvegis. 

Það er ekki langt síðan ég bloggaði hér um þá fullyrðingu Björns Vals Gíslasonar um að honum hefði verið hótað lífláti.  Að slengja slíku fram án þess að hafa dug eða kjark til að bakka fullyrðinguna upp er afleitt og dregur umræðuna niður á lægra plan.

Núna heyrist svo í háskólaprófessor, Þorvaldi Gylfasyni, sem upplýsir Íslendinga um að mikið sé af óhreinu fé í landinu, en hann geti bara ekki sagt meira.  Segir að einstaklingur sem hafi í fortíðinni gegnt stöðu seðlabankastjóra hafi hvíslað þessu að sér í Hörpu, en síðan hafi samtal þeirra verið truflað.

Sami prófessor hitti einn af virðingarmönnum Íslensks viðskiptalífs í flugvél sem sagði honum í óspurðum fréttum, áður en "Baugsmálið" svokallaði hófst, að það væri að að skella á og nefndi nöfn þeirra sem yrðu ákærðir.   Illu heilli gleymdi prófessorinn að nefna þetta samtal við nokkkurn mann, fyrr en löngu eftir að ákærurnar voru komnar fram.  Þetta varð því ekki að neinu nema eftirá samsæriskenningu, því blaðamannsheiður prófessorsins kom auðvitað í veg fyrir að hann gæti t.d. sagt lögreglu frá heimildarmanninum, sem hafði þó ekki að sögn prófessorsins, talað við hann sem blaðamann, heldur gusað þessu út úr sér að fyrra bragði, af eigin hvötum.

Ef alþingismenn og prófessorar í félagsvísindum taka þátt í umræðunni með þessum hætti hvers er þá að vænta? 

Er ef til vill er þörf á gróulausum degi til að vekja athygli á vandamálinu?

P.S.  Kunningi minn ofan af Íslandi nefndi þetta með óhreinu peningana og leynivinina í tölvupósti fyrr í dag.  Hans tilgáta (sem hann tók þó fram að væri ekki sett fram í alvöru) var sú að virðingarmaður viðskiptalífsins og fyrrverandi seðlabankastjórinn væri einn og sami maðurinn, þ.e.a.s. ef hann væri til.  Hann fullyrti þó að hvort sem hann væri til eða ekki væri þetta góð gáta. 

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að ég get ekki sagt hver þessi kunningi minn er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband