26.10.2011 | 03:34
Bannað að borða hákarl
Nú er búið að samþykkja bann við neyslu, sölu og vörslu á hákarlsuggum hér í Toronto. Bannið tekur gildi í september 2012.
Toronto fylgir hér í kjölfarið á nágrannaborgum s.s. Mississauga, Oakville og Brantford. Ef ég skil fréttirnar rétt þá nær bannið að því er virðist vera ekki til annara hluta hákarlsins en ugganna. Ef til vill er það vegna þess að enginn hefur gert sér grein fyrir því að aðrir hlutar hákarls séu etnir, en hvað veit ég.
En bannið kemur víst til út af mikilli ásókn Kínverskra íbúa Toronto í hákarlsuggasúpu. Svo mikil er eftirspurnin eftir uggum, og það vel borgað fyrir þá, að fullyrt er að hákarlar séu veiddir í stórum stíl, uggarnir skornir af og síðan mestum hluta þeirra varpað í hafið aftur. Fullyrt er að hákarlar séu í útrýmingarhættu vegna þessa og er fullyrt að allt að 70. milljónir hákarla sé slátrað árlega til að seðja uggasúpu aðdáendur. Kemur sömuleiðis fram í fréttum að 1 pund af þurrkuðum hákarlsuggum seljist fyrir u.þ.b. 300 dollara.
Sekt við sölu, neyslu eða vörslu á hákarlsuggum getur varðað allt að 100.000 dollara sekt (u.þ.b. 11.5 milljónir Íslenskra króna).
3 eða 4 borgarfulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni og einnig borgarstjórinn og borgarlögmaðurinn Anna Kinastowski (no pun) lagðist gegn tillögunni á lögfræðilegum forsendum og taldi að lögin gætu skapað borginni skaðabótaskyldu.
Það má líklega segja að sveitarfélög séu að fara inn á nokkuð ótroðnar slóðir með lagasetningu sem þessari, lög sem þessi hafa yfirleitt frekar verið talin á verksviði ríkja og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þróunin verður í þessum efnum.
Þetta gefur bæjar og borgarfulltrúum alveg nýja vídd í hugsanlegum kosningaloforðum. Hugsanlegt verður að lofa að banna næstum því hvað sem er innan bæjar eða borgarmarka. Hugmyndaflugið verður eina hindrun "frjálslyndra stjórnmálamanna" í leitinni að nýjum hlutum sem setja má skorður eða banna.
Líklega er þetta ekki réttinn tíminn til að útskýra fyrir Torontobúum hvað Þorrablót eru.
Hér má sjá frétt National Post um bannið og hér frétt í Globe and Mail
P.S. Ljótt að segja frá því, en í huganum sá ég auðvitað strax forríka Kínverjas gúffa í sig hákarlauggasúpu og hvala sashimi á lúxusveitingastað hótelsins á Grímsstöðum á fjöllum. Það er að segja ef að hreppstjórnin verður ekki búinn að banna að hákarlauggar séu í eða fluttir um hreppinn þegar og ef það hótel rís.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.