3.10.2011 | 15:27
Getur hluti heildarinnar verið stærri en heildin?
Ég hef séð á netinu að mikið er gert með skoðanakönnum sem sýnir að ríkisstjórnin njóti trausts 13% aðspurðra og stjórnarandstaðan aðeins 7% sama úrtaks. Þetta þykir auðvitað sýna að stjórnmálin njóti ekki trausts og stjórnarandstaðan sýnu minna en ríkisstjórnin.
Einstaka aðilar hafa svo bent á að þetta stemmi ekki alveg við þá staðreynd að stjórnmálaflokkarnir njóti mun meira fylgis, þannig hafi Sjálfstæðisflokkurinn iðulega hátt í 40% fylgi í könnunum, Framsóknarflokkurinn í kringum 15%, Samfylking og VG fái iðulega um og yfir 20% hvor flokkur og svo framvegis.
Ég hef ekki aðgang að þessari könnun, þannig að ég ætla ekki að draga stórar ályktanir af henni, en þessar niðurstöður þurfa þó ekki að stangast á.
Stjórnarandstaðan er ekki ein heild. Þannig þarf þeim sem hugsa sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ekki að hugnast framganga Framsóknarflokksins og öfugt. Það getur líka hugsast að kjósendur þessara flokka hafi ekki nokkurn áhuga á því að þeir taki við stjórnartaumum með þingmönnum Hreyfingarinnar eða utan flokka þingmönnum í stjórnarandstöðu. Það sama gildir auðvitað um stuðningsmenn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur, ég leyfi mér að efast um að þeir hrósi almennt t.d. Sjálfstæðisflokknum.
Það sama gildir auðvitað um ríkisstjórnina. Margir þeir sem geta hugsað sér að kjósa Samfylkinguna geta verið því andsnúnir að flokkurinn sé í samstarfi við VG, og auðvelt er að hugsa sér að andstæðingar ESB innan VG hugsi á svipuðum nótum til Samfylkingar og séu ekki allt of ánægðir með ríkisstjórnina.
Þannig getur hluti stjórnarandstöðunnar verið stærri en stjórnarandstaðan og annar ríkistjórnarflokkurinn notið meira fylgis heldur en ríkisstjórnin.
Stjórnarandstaðan er ekki ein heild og það er ríkisstjórnin ekki nema einstöku sinnum. Það getur því verið afar misvísandi að gera skoðanakönnum um viðhorf til hópa sem eru í raun ekki til sem heild.
Sama gildir þegar spurt er um viðhorf til "fjórflokksins" eða stjórnmála almennt. Einstaklingur sem ber hlýjan hug til eins stjórnmálaflokks og styður hann ber ef til vill lítið traust til stjórnmálastéttarinnar sem heildar.
Það er alþekkt að það getur haft verulega leiðandi áhrif á niðurstöður skoðanakannan hvernig er spurt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.