27.9.2011 | 13:17
Óeðlileg afskipti af innanríkismálum?
Það er kunnara en frá þurfi að segja að Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Ef tekið er mið af því sem oft heyrist í umræðunni væri það gustukaverk af hálfu "Sambandsins" að hleypa Íslandi inn. Á Íslandi er ekki eftir neinu að slægjast fyrir "Sambandið" en Íslendingar myndu njóta "alls hins góða" sem "Sambandið" hefur upp á að bjóða, traustan gjaldmiðil, lægri vexti, ódýra kjúklínga, helling af styrkjum o.s.frv.
En auðvitað verður kosið um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þar munu næsta líklega verða tvær fylkingar sem reyna af öllum mætti að sannfæra Íslensku þjóðina um að segja annað hvort JÁ eða NEI. Íslensku stjórnmálaflokkarnir munu án efa blanda sér í málið, en innan þeirra eru skiptar skoðanir, þannig einstaklingar munu skipast í fylkingar óháð þeim. Hið sama má segja um hin ýmsu hagsmunasamtök sem án efa munu hafa skoðanir á málunum.
En nú bregður svo við að að erlendur aðili kemur að borðinu (líklega ekki rétt að tala um hagsmunaaðila, þar sem "Sambandið" hefur enga hagsmuni af aðild Íslands), það er að segja Evrópusambandið sjálft, sem hyggst eyða á næstu árum (líklega fram að kosningum um aðild) hundruðum milljóna til þess að kynna "Sambandið" og líklega þá kosti sem þeir telja að Íslendingar myndu njóta ef þeir samþykkja aðild.
Ég hugsa að þetta sé í fyrsta skipti sem erlent ríki/ríkjasamband í skiptir sér af kosningum á Íslandi og reynir að hafa áhrif á niðurstöðuna, alla vegna með opinberum hætti. Í mínum huga er það fullkomlega óeðlilegt og undarlegt að Íslensk stjórnvöld og Alþingi skuli ekki mótmæla því að að slík starfsemi fari fram.
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að styrkja fulltrúa fyrir andstæð sjónarmið með fjárframlögum, og þannig aukið möguleika þeirra til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt.
En að erlendir aðilar stundi á Íslandi skipulega áróðurs og kynningarstarfsemi í aðdraganda kosninga um jafnt mikilvægt málefni og aðild að Evrópusambandinu er fyllilega óeðlilegt og óviðeigandi.
Ákvörðunin er Íslendinga einna, og baráttan í aðdraganda kosninga ætti að vera það sömuleiðis.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.