Dýr er máltíðin öll

Ég bloggaði hér fyrir nokkru um sauðfjársamninginn sem undirritaður var nýlega.  Þar hafði ég reiknað út að niðurgreiðsla á hvert kíló lambakjöts væri u.þ.b. 450 krónur.  Það er verðið sem skattgreiðendur borga áður en þeim býðst svo að kaupa kjötið út í búð, og verðið er heldur ekki lágt þar.

Nú heyrði ég í fréttum Stöðvar 2 að heildarstuðningur við landbúnað á Íslandi næmi 14.5 milljörðum á ári.  Það er gríðarleg upphæð.

Mér reiknast svo til að það séu rétt ríflega 48.000 krónur á hvert mannsbarn á Íslandi, eða eins og vinsælt er að segja, það eru þá rétt tæplega 200.000 á hverja 4. manna fjölskyldu.

Hver 4. manna fjölskylda greiðir því að meðaltali u.þ.b. 200.000 á ári fyrir íslenskar landbúnaðarvörur, áður en hún stormar svo í búðina og greiðir eitthvert hæsta matvælaverð í heimi.  Það má því líklega segja að dýr er máltíðin í heild.  Það gerir u.þ.b. 540 kr á dag, alla daga ársins fyrir fjölskylduna.

Hitt ber svo að hafa í huga, að það er spurning hvað mikið af fé þessu ratar alla leið til bændanna, og hvað mikið af því situr eftir í alls kyns ráðum og samtökum.

Það má benda á þessa frétt en þar segir:  "Samkvæmt fjárlögum þessa árs renna 3,2 milljarðar til sauðfjárframleiðslunnar, þar af fara um 1,7 milljarðar í beingreiðslur til bænda."

1.7 milljarður fer í beingreiðslur til bænda, það væri vissulega fróðlegt að sjá sundurliðað hvert sá 1.5 milljarður sem eftir stendur fer.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru alltaf jafn góðar heimildir þessar fréttir á Stöð 2!?!  Það er ekki sama stuðningur við landbúnaðinn og peningar sem fara til landbúnaðarráðuneytisins!!!!!  Svo er þetta meiri ótrúlegi djöfulsins vællinn út af því að nokkrir milljarðar af skattpeningunum rati á landsbyggðina og svo það sé á hreinu þá er beinn stuðningur við landbúnaðinn heil 2,3 % af ríkisútgjöldum, það er nú meiri andskotans upphæðin.  Þá er margbúið að sýna fram á að landbúnaðarvörur eru EKKI hlutfallslega dýrari á Íslandi en aðrar vörur og hana nú!  Maður er kominn með upp í kok af þessu Samfylkingar mis vitlausa röfli um það hvað styrkur við landbúnaðinn fari illa með atvinnugreinina, Samfylkingin hefur sannað það aftur og aftur að hafa ekki hundsvit á landbúnaði fyrir utan að vera með það sem yfirlýsta stefnu að vera á móti landsbyggðinni í heild!!!  Svo væri nú allt í lagi að spyrja Jón Ásgeir hvernig hann hafi orðið ríkur, koma þeir peningar ekki frá neytendum eða fann hann leið til að rækta peninga á trjánum???  Það væri nú allt í lagi að fara að ráðast á hákarlana og leyfa landsbyggðinni að hafa í friði þessi fáu lömb sem þó eru eftir.  Og miðað við þessa ágætu útreikninga þína þá borgar hver fjölskylda um 2,5 milljónir með heilbrigðis og félagsmálum á hverju ári, hvaða helvítis sanngirni er í því? Á ekki fólk að borga fyrir þessa þjónustu miðað við notkun eins og aðra???? 

Hilmar Vilberg Gylfason (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 14:25

2 identicon

Íslenskir bændur lifa ekki á sauðfjárrækt og verða því einnig að vinna við annað eða vera með blönduð bú til að lifa af, hvort sem þeir fá þessa styrki eða ekki. Þeir bændur sem hætta sauðfjárrækt myndu því flestir búa áfram þar sem þeir búa núna. Sláturhúsum hefur fækkað mikið hér, sauðfjárslátrunin tekur stuttan tíma og það er auðvelt fyrir fólk sem vinnur við hana að fá annað starf. Auk þess vinna margir útlendingar við sauðfjárslátrun hér, því það eru ekki margir Íslendingar sem vilja vinna við hana, frekar en fiskvinnsluna. En að sjálfsögðu myndu einhverjir halda áfram að vera með sauðfé, enda þótt þeir myndu missa styrkina, alveg eins og hér er stunduð svínakjötsframleiðsla. Húsnæðið, tækin og túnin eru þegar fyrir hendi og féð gengur sjálfala á sumrin. Þess vegna er hægt að selja íslenska lambakjötið sem villibráð fyrir hátt verð og alltaf einhverjir tilbúnir að kaupa það.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 15:04

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

OECD er heimildin fyrir fyrir frétt Stöðvar 2.

Ég get reyndar ekki skilið þá sem virðast telja 2.3%, eða rétt undir 1/40 af ríkisútgjöldum, árlega nota bene,  upphæð sem þurfi ekki að hafa áhyggjur af, það sé "meiri andskotans upphæðin".

Það er margt dýrara á Íslandi, og landbúnaðarvörur því miður eitt versta dæmið í því, þrátt fyrir gríðarlega styrki til greinarinnar.  Sumir fræðimenn telja jafnvel að hátt verð landbúnaðarvara "togi upp" verð á öðrum vörum.

Það er líka ljóst að það er langt í frá eingöngu Samfylkingarmenn sem hafa áhyggjur af landbúnaðarmálum, rétt eins og það eru ekki eingöngu Framsóknarmenn sem styðja þetta fyrirkomulag.

Hvað Jón Ásgeir varðar, þó að ég svari ekki fyrir hann, þá er það ljóst að hann og félagar hans fundu leiðir til að gera sömu hluti og aðrir voru að gera, með minni tilkostnaði.  Það eru margir sem myndu óska þess að bændur gerðu svipaða hluti, sem ég efa ekki að margir þeirra eru færir um, það einfaldlega enginn hvati til þess.

Hvað varðar niðurgreiðslur, er það vissulega rétt að það eru fjölmargir hlutir sem eru niðurgreiddir, bæði á Íslandi og víða um heim.  Meðal þeirra hluta sem eru niðurgreiddir á Íslandi er heilsugæsla, menntun, almenningssamgöngur, landbúnaður, fjölmiðlar (tap ríkisútvarpsins er greitt af skattgreiðendum) og sjálfsagt má týna eitt og annað fram til viðbótar.  Um þessi verkefni er mismikil sátt, eins og gengur og gerist.

En hvort að landbúnaðarframleiðsla verðskuldi sama sess og menntun og heilsugæsla, svo dæmi séu tekin, er eitthvað sem ég reikna með að sé frekar umdeilt.  Það getur vel verið að þó nokkrir séu þeirrar skoðunar að Íslenskar landbúnaðarafurðir séu jafn mikilvægar og menntun og heilsugæsla og séu jafnframt þeirrar skoðunar að framleiðsla þeirra leggist af ef ekki er rekið þetta umfangsmikla styrkjakerfi, en þeir þurfa hvorki að vera hissa né reiðir yfir því að það séu ekki allir sammála þeim.

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2007 kl. 15:12

4 identicon

OECD mælir með skólagjöldum í íslenska háskóla, þannig að við skulum endilega hlusta á allt sem þeir segja.  Þeir vita víst betur en aðrir hvað er best fyrir alla.  Þegar ég tek Jón Ásgeir sem dæmi þá er ég að vísa til þess að hann varð ríkur á neytendum, Baugur er að moka inn peningum á neytendum.  5300 manns á Íslandi vinna beint að landbúnaði skv. Hagstofunni, hvað ætli séu mörg afleidd störf þá....  Ef landbúnaðurinn er sleginn af þá kæmi til mikið atvinnuleysi á landsbyggðinni, þori ekki einu sinni að hugsa til þess hversu stór partur af landinu færi í eyði auk nokkurra bæjarfélaga sem yrðu án vafa draugabæir.  Þá þarf lítið að hugsa um menntun og heilsugæslu ef ekki er til matur í landinu.  Allar siðmenntaðar þjóðir reyna að tryggja matvælaframleiðslu innanlands enda matvælaöryggi sennilega eina öryggið sem þarf að tryggja á Íslandi. 

Hilmar Vilberg Gylfason (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 16:17

5 identicon

Það eru nú þegar komin skólagjöld í flesta íslenska háskóla og fleira er matur en feitt ket. Við erum 11. mesta fiskveiðiþjóð í heimi og veiðum upp í 2 milljónir tonna á ári. Við myndum aldrei torga því öllu sjálf. Auk þess er fiskur hollari en ket og fleira ket er í boði en kindaket og kýrket, til dæmis svínaket og kjúklingar sem teljast vera hollara ket en rauða ketið.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 18:20

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er eðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á ráðleggingum OECD.  Hitt er þó svo að ég hef ekki heyrt að þeir fari rangt með staðreyndir og flestir telja þá nokkuð áreiðanlega heimild.  Það er líka rétt að hafa í huga að við ýmsa Íslenska háskóla eru greidd skólagjöld.

Hvað Jón Ásgeir varðar, án þess að ég svari fyrir hann, auðgaðist hann á því að finna leið til að reka verslanir með minni tilkostnaði en aðrir.  Óskandi væri að bændur vildu fara sömu leið.  Það er þó enginn tilneyddur til að versla við Jón Ásgeir, eða láta hann fá fé.  Það er hins vegar hlutskipti Íslenskra skattgreiðenda hvað varðar bændur, um það hafa þeir ekkert val.

Mér þykja menn ekki hafa mikið álit á Íslenskum landbúnaði ef þeir telja hann leggjast niður ef ekki væru styrkirnir.  Sömuleiðis hafa menn ekki mikið álit á bændum eða þeim sem vinna við störf tengd landbúnaði, ef menn telja að atvinnuleysi yrði mikið og varanlegt.  Staðan hefur verið sú á Íslandi í nokkur ár, að skortur er á vinnuafli.

Hvað varðar siðmenntaðar þjóðir, þá rekur mig ekki minni til neinnar "ósiðmenntaðrar" þjóðar sem flytur inn matvæli í stórum stíl en þó nokkuð margar siðmenntaðar þjóðir gera slíkt og hafa gert slíkt meira að segja ófriðartímum.  Er þar skemmst að minnast þess hve við Íslendingar efnuðumst á því að selja Bretum fisk á stríðsárunum. 

Það er aldrei heillaskref þegar atvinnugreinar eru niðurgreiddar til langs tíma, þó að vissulega geti stuðningur yfir skemmri tímabil verið til hagsbóta.  Stuðningstímabilið við Íslenskan landbúnað er þegar orðið of langt.  Íslendingar kynntust því líka hvernig ástandið var þegar sjávarútvegurinn þurfti ríkisstyrki og hvert sú vegferð var að leiða landið.  Sem betur fer komst sjávarútvegurinn frá þeim kringumstæðum, vonandi ber landbúaðurinn gæfu til þess líka.

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2007 kl. 18:31

7 Smámynd: Gullit

Þetta er þörf umræða.  Ég þekki engan íslending sem ekki finnst lambakjöt gott.  Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að eins og með aðrar neysluvörur þá sé heillavænlegast að láta framboð og eftirspurn stjórna verðinu.   Ég hef nákvæmlega engar áhyggjur að eftirspurnin verði eitthvað minni þó engar séu beingreiðslurnar. Þá er líka hugsanlegt að stærri biti af kökunni myndi renna í vasa bænda.  Ég er ekki sannfærður um að þetta bákn (þ.m.t. Bændasamtökin) sem sýgur til sín stóran hluta styrkjanna, sé raunverulega gott fyrir hinn venjulega sauðfjárbónda.  Að bera þetta saman við grunnþjónustu samfélagsins eins og heilbrigðisþjónustu finnst mér fáránlegt, hvers vegna í ósköpunum er þá ekki öll matvælaframleiðsla í landinu niðurgreidd?  Hver er sanngirnin í þessu kerfi?  Nei þetta er vont kerfi, fyrir alla held ég, og ekki síst bændur.

Gullit, 3.2.2007 kl. 22:02

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að það sé rétt að margir bændur myndu spjara sig vel í markaðsdrifnu kerfi.  Vissulega myndi framleiðsla dragast saman, búum fækka og þar fram eftir götunum, en Íslenskur landbúnaður myndi ekki leggjast af.

G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2007 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband