Eru evruvextir hættulegir?

Ég hef nú ekki verið einn af þeim sem hvatt hafa til inngöngu Íslands í ESB, eða verið fylgjandi því að evra verði tekin upp á Íslandi.   Þó hef ég ekki tekið neina harða afstöðu, enda ef til vill ekki viðeigandi þar sem ég er ekki búsettur á landinu bláa.  En þó vil ég fylgjast með umræðunni.

Þeir sem eru fylgjandi umræðunni hafa gjarna týnt til alls kyns atriði sem myndu verða öllum til góðs ef aðeins við gengum í ESB.  Þar hafa þeir t.d. minnst á að matur og ýmislegt annað myndi lækka, enda féllu tollar og ýmis önnur gjöld niður við ESB aðild.

Þessi rök þykja mér ekki sannfærandi, enda væri íslendingum í lófa lagið að fella niður þessi gjöld, ef þeim sýnist svo og um það næst pólítísk samstaða.  Það sama gildir um að draga úr niðurgreiðslum til landbúnaðar og gefa innflutning frjálsan.  Um það geta íslendingar tekið ákvarðanir þegar þeim henta þykir.

 Önnur röksemd hefur verið á þá vegu að stöðugleiki í efnahagslífinu aukist, íslendingar gætu tekið upp evru, gengissveiflur yrðu minni, og við værum með sama gjaldmiðil og okkar stærstu viðskiptalönd.

Þetta vegur vissulega þungt, og hljómar vel. Stærsta viðskiptaland okkar hefur reyndar ákveðið að taka ekki upp evru, hvaða ástæður sem þeir hafa nú fyrir því, þeir telja það ekki henta sínum hagsmunum.

Síðan er oft talað um hve hagstætt það væri fyrir okkur að geta notið þess að hafa sambærileg lánakjör og tíðkast í evrulöndunum.  Þáð hljómar vissulega vel.  Reyndar hafa mörg íslensk fyrirtæki notað sér slík kjör og tekið lán í evrulöndum til uppbyggingar og útrásar.

En  hefði það verið gott fyrir íslenskt efnahagslíf að hér hefði verið svipað vaxtastig og í evrulöndunum síðustu ár?  Ef lesin er frétt Morgunblaðsins sem hér fylgir með, þá segir þar að vextir í evrulöndunum séu of "vaxtarvænir" fyrir Danmörku.  Hvað hefði þá mátt segja um Ísland?  Hvaða áhrif hefðu evruvextir haft á Íslandi, fyrst að danska efnahagskerfið er í hættu að ofhitna af þeirra völdum?

Er ekki skrýtið að margir þeir sömu sem vilja ekkert frekar en evru, eru þeir sem hvað harðast hafa gagnrýnt þennsluna á Íslandi undanfarin ár?

Ég er því enn þeirrar skoðunar að best sé fyrir íslendinga að stand utan ESB og evrusamningsins, en hins vegar er rétt að hefjast handa um að afnema tolla og önnur gjöld, opna fyrir verslun með landbúnaðarvörur, það er öllum til hagsbóta, hitt er líklega affærasælast, í það minnsta enn um sinn, að til sé íslensk króna, efnahagsstýring sé innanlands sem og vaxtaákvarðanir.


mbl.is OECD varar við hugsanlegri ofhitnun danska hagkerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála, held ég bara. Ég er ekki hagfræðingur og þess vegna sennilega tiltölulega auðvelt að kveða mig í kútinn en ég sé ekki að evran muni hjálpa mikið til. Ég er búsettur í Hollandi, hjarta evrusvæðisins. Vextir eru lágir en efnahagurinn er eins og sýkin hérna, hreyfingarlaus og rotnandi. Verðlag hefur rokið upp eftir að evran var tekin í gildi og fólk virðist hafa minna á milli handanna. Á meðan niðurskurður og væl hefur verið viðvarandi síðustu 4-5 ár hefur herið uppgangur og læti á Íslandi. Það er sönnun þess að íslenskur efnahagur er allt öðruvísi en evrópskur og það myndi sennilega draga úr hagvexti á Íslandi ef við gengum í ESB og evran yrði tekin upp.

Eins og bent er á að ofan geta íslendingar lækkað tolla eins og þeim sýnist. Þeir geta ákveðið hver veiðir hvaða fisk hvar og hvenær, innflytjendalög eru í höndum íslendinga. Svona má lengi telja. Það er hægt að minnast á þróunarsjóð ESB, en þaðan fengjum við sennilega litla hjálp. Ísland yrði eitt ríkasta land innan ESB og fengi að borga fyrir uppbyggingu nýrra aðildarríkja í austur Evrópu.

Þau ríki sem eru að gera það best virðast vera smáríki utan ESB, Ísland þar með talið.

Villi Asgeirsson, 11.5.2006 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband