24.1.2007 | 07:48
Evra hvað? Þeim fjölgar ekki sem vilja að Ísland gangi í ESB
Það er sláandi að sjá niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Fréttablaðsins hvað varðar ESB og evruna.
Þeim Íslendingum sem vilja taka upp evru og ganga í ESB fækkar og hafa ekki verið færri frá árinu 2003 segir Vísir.
Það er aðeins á meðal kjósenda Samfylkingar sem ESB innganga hefur meirihluta, en það verður að hafa í huga að samkvæmt sömu könnun hefur fylgi þess flokks ekki verið lægra um langa hríð, þannig að líklega hafa margir þeir sem ekki hugnast evran og ESB aðildin þegar hætt stuðningi við flokkinn. Ef til vill er þarna fundin þó nokkur skýring á fylgisleysinu?
Það verður fróðlegt að fylgjast með "Evrópuumræðunni" nú á næstu vikum, ég yrði ekki hissa þó að hún yrði ekki eins fyrirferðarmikil, alla vegna ekki af hálfu Samfylkingar.
Í fréttum á visir.is má m.a. lesa eftirfarandi:
"Eftir mikla evruumræðu hér á landi, segjast einungis 37,1 prósent þeirra, sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, vilja að evra sé tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi en 62,9 prósent eru því hins vegar mótfallin.
Nokkur munur er á afstöðu eftir kyni og búsetu. Þannig eru karlmenn frekar því fylgjandi en konur að tekin sé upp evra. 40,4 prósent karla eru því fylgjandi og 59,6 prósent mótfallin. En 33,6 prósent kvenna eru fylgjandi hugmyndinni að taka upp evru á Íslandi en 66,4 prósent mótfallin. Þá eru 67,3 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins mótfallnir hugmyndinni að taka upp evru og 32,7 prósent fylgjandi. 59,9 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru því hins vegar mótfallnir, en 40,1 prósent fylgjandi.
Þá hefur andstaða við að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu ekki verið meiri síðan í könnun Gallup frá því í apríl 2003. Einungis 36,0 prósent segjast vilja að sótt sé um aðild, en 64,0 prósent eru því mótfallin. Síðast þegar spurt var um afstöðu til aðildarumsóknar í könnun Fréttablaðsins, 19. febrúar á síðasta ári, voru 55,2 prósent mófallin aðildarumsókn, en 44,8 prósent fylgjandi. Stuðningur við aðildarumsókn hefur því dregist saman um tæplega níu prósentustig frá því í febrúar á síðasta ári."
"Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, hefur sagt íslensku krónuna næsta ónýtan gjaldmiðil og að huga beri að því að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi. Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem gerð var laugardaginn 20. janúar, er meirihluti þjóðarinnar henni ósammála. Ekki hafa fleiri verið mótfallnir því að sótt sé um aðild, síðan í könnun Gallup frá því apríl 2003, þegar 27,8 prósent aðspurðra voru því fylgjandi, 42,1 prósent var því mótfallin og 30,1 prósent var óákveðið."
"Frá því Fréttablaðið spurði síðast um hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu, 19. febrúar 2006, hefur andstaðan við það aukist meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, um tæplega 15 prósentustig. Nú segjast 65,3 prósent ekki vilja að Ísland sæki um aðild. 20,2 prósent eru því fylgjandi, sem eru rúmum 12 prósentustigum færri en í síðustu könnun. 14,8 prósent stuðningfólks Sjálfstæðisflokksins eru óviss og fækkar óvissum örlítið frá síðustu könnun.
Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins er því einnig mest mótfallið að evra sé tekin upp hér á landi sem gjaldmiðill. 66,1 prósent segist ekki vilja það, 23,0 prósent eru því fylgjandi. 10,9 prósent svara hins vegar ekki."
"60,0 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn eru því andvíg nú að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er nokkur breyting frá síðustu könnun blaðsins, þegar 48,5 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins voru mótfallin umsókn.
Hlutfall óákveðinna er svipað nú og var þá, en 17,1 prósent er óákveðið. 22,9 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins segjast hins vegar vilja að Ísland sæki um aðild, sem er 11,7 prósentustigum minna en í könnun blaðsins í febrúar 2006.
Meirihluti stuðningsfólks Framsóknarflokksins er einnig mótfallinn þeirri hugmynd að taka upp evru hér á landi, eða 55,9 prósent. 29,4 prósent framsóknarfólks eru því fylgjandi en 14,7 prósent óákveðin."
"Einungis meðal stuðningsfólks Samfylkingar er meirihluti fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefur stuðningur við það aukist aðeins frá síðustu könnun. Nú segjast 50,5 prósent samfylkingarfólks vera fylgjandi aðildarumsókn, sem er rúmum átta prósentustigum meira en í síðustu könnun blaðsins. Andstaða við umsókn hefur jafnframt aðeins aukist, en nú segjast 41,2 prósent vera því mótfallinn, 5,8 prósentustigum meira en í síðustu könnun. Hins vegar hefur óákveðnum fækkað um 14,0 prósentustig og eru nú 8,3 prósent óaákveðin.
Meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkingu eru jafnframt fylgjandi því að taka upp evru hér á landi sem gjaldmiðil, 54,6 prósent. 33,0 prósent samfylkingarfólks eru því mótfallin og 12,4 prósent eru óákveðin."
Sjá fréttir visis.is hér og hér
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Fjölmiðlar, Viðskipti | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.