24.1.2007 | 02:59
Samstilltur þingflokkur
Það var hálf kómískt að horfa á Kastljós kvöldsins. Þar leiddu saman hesta sína frambjóðendur til embættis varaformanns Frjálslynda flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson og Margrét Sverrisdóttir.
Nú er ég ekki stuðningsmaður Frjálslynda flokksins og skipti mér ekki af þessu kjöri og gæti í raun ekki verið meira sama hvort þeirra verður varaformaður, en ég kímdi meira yfir þessu en meðal Spaugstofuþætti.
Lang besti punkturinn var þegar Magnús Þór lýsti því yfir alvarlegur í bragði að þingflokkurinn væri sameinaður í því að vilja ekki breytingar í forystunni. Það er sem sagt klárt að Guðjón Arnar, Magnús Þór og Sigurjón styðja Guðjón Arnar og Magnús Þór til formanns og varaformanns.
Magnús fór einnig á kostum þegar hann lýsti því yfir að, "Ég stóð á bakvið framboð á Akranesi", og virtist þakka sér og aðeins sér velgengni þess framboðs á sama tíma og Margrét hafði augljóslega klúðrað "dauðafæri" í Reykjavík og ekki komist í meirihluta.
Margrét martuggði að forystan væri of "karlæg" og hjó eftir því að Magnús notaði orðin "vanir menn".
Þó sátu þau líklega bæði á sér og "Hvítt afl", formaður þeirra eða varaformaður, bar ekkert á góma í þættinum.
Var ekki sagt í gamla daga, hver þarf á óvinum að halda, með svona samherja?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Athugasemdir
Vandamál Frjálslynda flokksins er sá að hann er með vanhugsaðan grunn fyrir alla samkeppni um stöður. Líklega var bara engin hugsun á bak við það að fyrr eða síðar þyrfti að takast á um embættin og sæti á framboðslistum.
Það er líka vanhugsað að vera með kjör í embættin svona skömmu fyrir kosningar. Þetta þarf að vera ákveðið með hæfilegum fyrirvara svo forysta flokksins þurfi ekki að berjast innbyrðis þegar þeir eiga að vera að berjast um hylli kjósenda við aðra flokka.
Þetta er ekki vandamál Flokksins. Þar á enginn neitt fyrirfram og gert ráð fyrir samkeppni og metnaði sem fólk verður síðan að taka af æðruleysi jákvæðs íþrótta- og keppnisanda (líklega of hátíðlegt orðalag!).
Haukur Nikulásson, 24.1.2007 kl. 10:32
Vandamál Frjálslynda flokksins er að mestu leyti klassíkst vandamál flokka sem eru stofnaðir af hefnigirni, eða af þeim sem hefur verið hafnað af öðrum flokkum en eru þess fullvissir að þeir séu ómissandi menn eða konur.
Að slíkum flokkum safnast gjarna slíkur hópur og of margir vilja vera "numero uno". Líklega er það þó betra fyrir flokkinn en að engir safnist að honum, en það er þó önnur saga.
G. Tómas Gunnarsson, 26.1.2007 kl. 03:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.