Hitt og þetta, Castro, hirð rauða tzarsins og hvernig einn maður getur breytt lífi margra

Í gær las ég að Castro væri á meðal ríkustu þjóðarleiðtoga heims.  Ef ég man rétt var hann á þeim sama lista í bæði fyrra og hittifyrra.  Á listanum aukast eignir hans ár frá ári.

En mig minnir að bæði Castro sjálfur sem og aðrir kúbanskir framámenn hafi mótmælt þessu harðlega og talað um slúður og vísvitandi blekkingar, tilraunir til að sverta mannorð Castro´s.

Enda er þessi niðurstaða um ríkidæmi Castro´s víst ekki fengin á vísindalegan máta, enda hleypir hann, sem og flestir aðrir þjóðarleiðtogar, Forbes víst ekki í heimilisbókhaldið.  Reyndar er það með marga einræðisherrana, að erfitt er að sjá hvar fjármál þeirra enda og fjármál ríkisins taka við.  Launin eru ekki alltaf há, en "hlunnindin" góð.  Svo detta á borðið ýmis hlunnindi, svo sem ritlaun.  Mér hefur til dæmis skilist að þeir kumpánar Hitler og Stalín, hafi haft svimandi tekjur í formi ritlauna, endu seldust bækur þær er þeir skrifuðu víst í bílförmum. Launatekjur þeirra munu hins vegar ekki hafa verið svo háar, en "hlunnindin" góð.

Þetta leiddi huga minn af bók sem ég las nýlega sem heitir "Stalin: The Court of the Red Tzar" (sjá hér.  Bókin var gjöf frá tengdapbba, honum fannst ég ætti endilega að lesa hana, en hann hefur fundið það á eigin skinni hvernig það er að búa undir kommúnisma og í Sovétríkjunum.

 Þetta er ákaflega vel skrifuð bók, og þægileg aflestrar, þó að hún geti ekki talist skemmtiefni.  Það er auðvitað með eindæmum andrúmsloftið sem virðist hafa ríkt á valdatímum Stalíns.  Settir voru kvótar fyrir svæði eða borgir, hvað skyldu margir drepnir, hvað margir sendir í útlegð og þar fram eftir götunum, víða fóru menn svo fram úr kvótunum.  Hollustan við Stalín og flokkinn var sterkari en við vini og fjölskyldu, enginn var öruggur, allt laut vilja Stalíns og flokksins.

Stundum finnst mér eins og lítill lærdómur hafi verið dreginn af öllu þessu.  Stundum verð ég var við að það er eins og sumir sakni kommúnismans, sem er þó alls ekki með öllu horfinn.  Enn fleiri eru þeir sem ekki vilja horfast í augu við hvernig kommúnisminn hefur farið með margar þjóðir og eru á móti því að uppgjör fari fram.

Hér er frétt úr Times síðan í janúar síðastliðnum, einhverra hluta vegna hefur hún ekki farið hátt, alla vegna ekki svo að ég hafi orðið var við.  En ef til vill hefur enginn áhuga á þessu lengur.

Á jákvæðari nótum er svo frétt sem ég las á www.globeandmail.com í morgun, en þar segir frá ungum fötluðum dreng frá Ghana, sem hefur með einstökum dugnaði, ekki aðeins breytt sínu eigin lífi, heldur lífinu hjá fjölmörgum fötluðum einstaklingum í Ghana og líklega víða.  Fréttina má lesa hér.

Hvet alla til að lesa hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband