Hræsni Evrópusambandsríkjanna

Nú er Brexit loksins orðin staðreynd. Bæði Evrópusambandið og þjónar þess í Bretlandi urðu að játa sig sigraða þegar Breska þjóðin felldi dóm sinn í kosningum í desember.

"Sambandið" gat ekki þvælt málin lengur, hundsað úrslitin, eða efnt til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og svo oft hefur orðið raunin áður, þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki verið "Sambandinu" þóknanlegar.

Blákalt lýðræðið blasti við þeim.

Þá byrjar undirbúningur fyrir samningaviðræður.

Þá ber svo við að "Sambandslöndin" vilja draga á flot allar deilur sem sem þú kunna að hafa haft við Breta í gegnum aldirnar.

Spánn kemur fram með Gíbraltar og Grikkir byrja að tala um "Elgin marmara lágmyndirnar".

En eru þetta ekki eðlilegar kröfur kann einhver að spyrja?

Já og nei.

Þetta á ekkert erindi í fríverslunarviðræður.

En hins vegar, ef "Sambandið" ætlar að endurskoða stefnu og skoðanir sínar í slíkum málum, er betra að taka það upp á öðrum vettvangi.

Getur t.d. verið að Evrópusambandið sé andsnúið að Spánn eigi landsvæði handan Miðjarðarhafsins, í Afríku?

Hvað með allar landareignir Frakka um víða veröld?

En ef til vill er best að leysa allan slíkan ágreining með skipulögðum, lýðræðislegum,  sannjörnum atkvæðagreiðslum, sem væru undir alþjóðlegu eftirliti, hvort sem um er að ræða Gíbraltar, nú eða Katalóníu.

Og hvað varðar meintan "listaverkastuld" Breta í Grikklandi, þá er það sannkallað "Pandórubox", eða ég veit ekki hvort að veröldin sé reiðubúin til þess að það sé opnað.

Ætti að ræða um listaverk sem herir Napóleons rændu á Ítalíu? Nú eða alla fornmunina/listaverkin sem Frakkar rændu í Egyptalandi (þeir eru reyndar langt frá því að vera þeir einu sem eru sekir). 

Ítalir hafa meira að segja á stundum viljað að Mona Lisa snúi heim, því vissulega er hún máluð á Ítalíu, af Ítala, en ekki í Frakklandi.

Hvað um hvernig Spánverjar fóru ránshendi um S-Ameríku? Skyldi eitthvað af þeim list/fornminjum enn að vera að finna á Spáni?

Skyldi Evrópusambandið ætla að að krefjast þess að Rússar skili öllum þeim listmunum sem þeir stálu í lok síðari heimstyrjaldar í Þýskalandi, mörgum sem Þjóðverjar höfðu áður stolið hér og þar í Evrópu?

Eða er "Sambandið" of hrætt við að Rússar skrúfi fyrir gasið?

En það er merkilegt að mörg "Sambandsríkjanna" hafa lýst þeirri skoðun sinni að samstarf "Sambandinsins" og Bretlands í varnarmálum verði jafn mikilvægt og áður og lítið sem ekkert þurfi að breytast.

Slíkum "smámunum" er óþarfi að blanda saman við fríverslunarsamninga.

Sú afstaða helgast auðvitað af því að Bretland var fremsta herveldið (þó að það hafi vissulega látið á sjá) innan "Sambandsins".

Því miður bendir framkoma "Sambandsins" til þess að jafn líklegt sé og ekki að Bretland yfirgefi Evrópusambandið að fullu um næsu áramót, án þess að viðskiptasamningur liggi fyrir.

Það verður til tjóns fyrir báða aðila og vitanlega mun fleiri ríki.

Það verður fyrst og fremst vegna hræsni, hroka og hefnigirni Evrópusambandsins.

Slík er "smásál" "Sambandsins".

Það er vert að hafa í huga.

 

 

 


Bloggfærslur 25. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband