Á menntun að tryggja hærri laun, eða glittir í "sovétið"?

Hér og þar hef ég séð umræður um að meta þurfi menntun til launa, að launabil sé of lítið, eða of mikið og svo auðvitað að menntun, eða prófskírteini eigi alls ekki að tryggja eitt né neitt.

Ég sá að Kári Stefánsson lagði í púkkið að réttast væri að borga námsmönnum á meðan þeir væru í námi, þannig útskrifuðust þeir án námslánaskulda og gætu sem best verið á "sömu launum" og aðrir.

Þetta fyrirkomulag var við lýði í Sovétríkjunum sálugu.  Þar fengu námsmenn greidd laun, en oft á tíðum voru þeir með lægri laun eftir útskrift heldur en til dæmis kolanámuverkamenn.

Þetta gerði það að verkum að oft á tíðum var þjónustulund með allra minnsta móti. Því sátu væntanlegir viðakiptavinir eða sjúklingar á biðstofunni með hænu í fanginu, grænmeti, sælgæti, vodkapela eða hvað annað sem þeir gátu séð af til að færa t.d. lækninum um von um betri og skjótari þjónustu.

Enn má víða sjá enduróm af þessari tíð í A-Evrópu, þó sem betur fer hafi hænunum fækkað, en það eru ótrúlega margir sem t.d. fara aldrei tómhentir til tannlæknis.

En svona kerfi getur gengið nokkra hríð í "lokuðu" landi.

En vel menntað fólk sem er eftirspurn eftir víða um lönd, t.d. heilbrigðisstarfsfólk og tölvmenntaðir einstaklingar, var auðvitað á meðal fyrsta fólksins sem yfirgaf landið.

En á menntun á að tryggja hærri laun?  Það er mikilvæg spurning og ekki síður mikilvægt að velta því fyrir sér hvort að hún geri það?

Og hvað með starfsreynslu?

Eins og oft er svarið ekki einhlýtt.

Ákveði einhver að setja á stofn eigin fyrirtæki, tryggir menntun ekki árangur eða laun. Oft getur menntun þó vissulega nýst vel í slíkum kringumstæðum, en ekkert er gefið.

Í einkageiranum er líklegt að góð menntun geti tryggt starfsviðtal og í mörgum tilfellum starf og hærri laun.

En í öðrum tilfellum, sérstaklega til lengri tíma, held ég að menntunin tryggi ekki starfið eða launin, ef árangurinn í starfinu er ekki í samræmi við væntingar vinnuveitandans.

En hjá hinu opinbera er það menntunin sem gildir, þar vilja flestir að "hr. excel" ráði ferðinni, settar eru inn gráðurnar, starfið o.s.frv og neðst á skjalinu birtist svo launaflokkurinn og kaupið.

"Georg Bjarnfreðarson" er því líklega fyrsti kostur í flest störf, enda með "5. háskólagráður" og líklega launaður eftir því.

En nú er mikið rætt um hver launamunurinn eigi að vera hjá "ófaglærðum" og hve mikið á menntun að lyfta á laununum.  Mest hefur verið rætt um leikskóla og hvers virði háskólamenntunin eigi að vera þar.

Persónulega get ég vel skilið að eðlilegt þyki að launamunur sé þar þó nokkur við upphaf starfs, háskólamenntuðu fólki í vil.

En hvers virði er starfsreynslan?

Nú hefur marg komið fram að vegna starfseklu á leikskólum sé það nokkuð þekkt að ófaglært starfsfólk með mikla starfsreynslu sé t.d. deildarstjórar.

Eiga þeir einstakingar ekki skilið sömu laun og aðrir deildarstjórar, burt séð frá menntun? 

Gildir ekki þar sem annarsstaðar að greiða eigi sömu laun fyrir sömu störf?

Eiga leiksskólarekendur að ná sparnaði í launum, vegna þess að þeir geta ekki mannað stöðuna með faglærðu fólki?

Ég ætla að kasta fram einni(þær urðu nú óvart tvær) spurningu til þeirra sem kunna að lesa þessa bloggfærslu.

Aðstæðurnar eru þannig að þu hefur r fjögur ung börn á þínu framfæri, og aðstæður spiluðust þannig að þú þyrftir á einkagæslu að halda.  Þú auglýsir eftir starfskrafti býður þokkaleg laun o.s.frv.

Tveir umsækjendur eru um stöðuna. Annars vegar einstaklingur sem er nýútskrifaður úr háskóla sem leikskólakennari og hins vegar einstaklingur sem hefur rétt rúmlega 15. ára starfsreynslu á leikskóla og kemur með mjög góð meðmæli frá yfirmanni sínum.

Hvorn mundir þú ráða?

Ef þú segir einstaklinginn með 15. ára starfsreynsluna, myndir þú þá bjóða honum lægri laun?

 


Bloggfærslur 12. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband