En hver er raunkostnaðurinn? Hvað er til ráða?

Taflan sem fylgir þessari frétt er um margt fróðleg. Hún sýnir í raun mun frekar en mismunandi hækkanir sveitarfélaga á leikskólagjöldum, gríðarlegan mun á því hvað mismundandi sveitarfélög rukka fyrir þá þjónustu.

Í stað þess að velta því hvort þetta eða hitt sveitarfélagið hafi hækkað gjald fyrir 8 tíma leikskóla, ættu fjölmiðlar að velta því fyrir sér hvers vegna það munar u.þ.b. 50% á því sem það kostar foreldra að kaupa þá þjónustu.

Ekki síður væri fróðlegt ef fjölmiðlar græfust fyrir um hver væri raunkostnaður sveitarfélaga við að veita þjónustuna?

Það liggur í hlutarins eðli að stærri sveitarfélög ættu að geta rekið slíka þjónustu með hagkvæmari hætti, og hafa jafnfram fleiri útsvarsgreiðendur til að jafna byrðina af henni.

En mér er sagt að kostnaðurinn við að hafa eitt barn á leikskóla sé að meðaltali u.þ.b. 300.000 krónur á mánuði.

Ef það er rétt eru foreldrar í Reykjavík t.d. að greiða rétt ríflega 8.5% af raunkostnaði.  Enn minna ef tekið er mið af systkinaafslætti o.s.frv.

Ef 300.000 er rétt upphæð, eru foreldrar hvergi að greiða meira en u.þ.b. 13% af verðmæti þjónustunnar.

Á sama tíma eru mikil vandræði víða um land með að veita þjónustuna án vandræða, tímabundinna lokanna og mikil starfsmannavandræði.

Er ekki augljóst að þjónustan er of lágt verðlögð?

Það er engin ástæða til að hrósa þeim sem eru ódýrir en geta ekki veitt þjónustuna vandræðalaust.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að veruleg hækkun kemur sé illa fyrir þá sem hafa minna á milli handanna, en er ekki betra að þeim verði liðsinnt með öðrum hætti en að hafa þjónustuna svo ódýra, án tillits til efnahags?

Mikið væri fróðlegt ef gerð vær góð úttekt á því hvernig kostnaðurinn er og hvað stór hluti af tekjum mismunandi sveitarfélega fer í að niðurgreiða þessa þjónustu.

Ef leikskóli fyrir hvert barn er niðurgreitt fyrir u.þ.b. 3.000.000,00 á ári (miðað við 11. mánaða dagvist) er ljóst að upphæðirnar eru háar.

Ef til vill þarf að hugsa hvernig kerfið verður best byggt upp og hvernig Íslendingar vilja hafa slíkt kerfi.

Hvernig er samspil leikskóla og "dagmæðrakerfisins"?  Er hægt að byggja þjónustuna upp með öðrum hætti?

Það vakna ótal spurningar, en líklega færri svör.

En eigi að síður hlýtur þetta málefni að vera umhugsunarvert.

Öll útgjöld hins opinbera af þessari stærðargráðu ættu að vera það.

 

 


mbl.is Leikskólagjöld hækkuð þvert á tilmæli Sambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð flugvél - með "samanbrjótanlega vængi".

Það er alltaf ótrúlegt að sjá flugvélar af þessari stærð taka á loft.  Þar sem sonur minn er með ólæknandi flugvéladellu, hef ég eytt nokkrum tíma í kringum flugvelli og þá er jafnan reynt að velja tímann með tilliti til brottfara Boeing 777 og Airbus 380, þannig að tækifæri gefist til að sjá báðar tegundir.

Ég hef síðan flogið með bæði 777 - 2- og 300 og það er ánægjulegt, þó að mitt uppáhald sé Dreamliner.  Enn hef ég ekki náð að fljúga með Airbus 380, og sé það ekki alveg í framtíðinni, þó ég væri meira en til þess reiðubúinn.

En ég vona að ég eigi eftir að ná því að fljúga með 777 X, hún virkar vel á mig.

Það er áhugavert að horfa á myndbandið af hennar fyrsta flugi og sjá hana "slétta út" vængina.  Það mun víst vera haft svo til að hún komist að venjulegum "rana" og ekki þurfi að búa henni sérstakt rými á flugvöllum.

En nú hafa flestar tegundir flugvéla einmitt vængi með svipuðu sniði, en ekki þessa "sléttumöguleika".  En ég er ekki nógu fróður til að segja til um hvers vegna því sniði er ekki haldið fyrir þessa tegund nema á jörðu niðri.

 

 

Það er ástæða til að óska Boeing góðs gengis með þessa nýju týpu af 777, ekki veitir þeim víst af þessa dagana.

P.S. Mér er sagt að hvor hreyfill um sig hafi jafn mikið afl og Soyuz eldflaugin sem skilaði Yuri Gagarin út í geim.


mbl.is Boeing prófaði nýjan risa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband