Klaustursflaustur og flumbrugangur

Ég hafði eiginlega tekið þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að skrifa eitt eða neitt um "Klaustursmálið", það er eitthvað svo dapurlegt og "þunglyndislegt" að það vakti enga löngun hjá mér til skrifa.

En síðan finnst mér málið orðið svo vandræðalegt fyrir Alþingi og alþingimenn að ég mér finnst það orðið áhugavert.

Enginn velkist í vafa (að ég tel) um að hluti þeirra (en ekki allir) þingmanna sem sátu við borðið á "Klaustri" fóru langt yfir strikið.  Þó að þeir hafi ráðist þar gegn ýnsum nafngreindum persónum, niðurlægðu þeir engan eins mikið og sjálfa sig.

Því að mínu mati niðurlægir tal eins og þeir viðhöfðu enga eins mikið og þá sem nota það.

En persónulega finnst mér viðbrögð margra manna umdeilanleg, og litast fyrst og fremst af þrennu.

Í fyrsta lagi, engin veit í raun hvernig á að taka á málinu,enda engin viðurlög, eða lög sem taka á slíku háttalagi, í öðru lagi kemur fram sterkur vilji til að "gera eitthvað" sem gæti friðþægt háværan hluta almennings og í þriðja lagi að nota málið til að ná sér niðri á pólítískum andstæðingum.

Ekkert af þessu þarf í sjálfu sér að koma á óvart, enda málið snúið, atkvæði koma frá almenningi og það er í eðli stjórnmála að ota sínum tota á kostnað mótherja.

En að láta eins og þeir eigi einhvern óskilgreindan rétt á því að sjá ekki þingmenn sem niðurlægðu sjálfan sig aftur, hvaðan kemur hann?

Lýðræðið snýst einmitt að hluta til um að við verðum að umbera einstaklinga sem eru með skoðanir sem okkur þykir jafnvel verulega ógeðfelldar, ef þeir eru val kjósenda.

Jafnvel einstaklingur sem lýsti því yfir að hann vildi afnema kosningarétt t.d. kvenna, á rétt á því að sitja á þingi ef hann nýtur stuðnings nægs hluta kjósenda.

Ef einhverjir vill berjast fyrir dauðarefsingum á Íslandi eiga þeir jafnan rétt á því að bjóða fram og allir aðrir.  Og njóti þeir nægs stuðnings eiga þeir rétt á því að sitja á Alþingi, sitja í nefndum og jafnvel veita þeim forystu, að því gefnu að þeir njóti nægs stuðnings.

Þannig er það ekki nóg að finnast einhver "ógeðfelldur", að hann hagi sér "ósiðlega" eða sé "dóni", til þess að geta krafist að hann víki af Alþingi.

Og þó að mér þyki kynferðisleg áreitni sýnu alvarlegri en dónaskapur, er það heldur ekki nóg til þess að einhver þurfi að segja af sér þingmennsku. Við gætum sagt að það væri æskilegt, en það er ekkert sem gerir það að verkum að viðkomandi þurfi þess.

Og svona af því að ég minnist á það, vil ég segja að hér og þar hefur mátt sjá gagnrýni á Samfylkinguna fyrir að láta eigin siðanefnd fjalla um málið.

Slík gagnrýni er einfaldlega út í hött, og skref Samfylkingarinnar til fyrirmyndar.

Sík umfjöllun siðanefndar tekur engan rétt af hugsanlegum brotaþola til þess að leita réttar síns eftir hefðbundnum lagalegum leiðum.

En svo að það sé líka ljóst, þá getur engin "flokksleg" siðanefnd svipt einstakling þingsæti sínu.  Það er hægt að reka einstakling úr flokki, en ekki af Alþingi.

Rétt eins og Flokkur fólksins gat rekið þingmenn sína úr flokknum fyrir að illmælgi um formanninn, en þingsætin eru þeirra.

Og þó að finna megi flokksaga ýmislegt til síns ágætis, er ég eindregið þeirrar skoðunar að gefa flokkum lögsögu yfir þingsætum yrði hræðileg afturför.

En það er vel til fundið að flokksstofnanir fundi um mál "sinna" manna, en þó alls ekki nauðsynlegt.

Það er líka svo að þó að allir réttkjörnir eigi rétt á því að sitja á Alþingi, getur hver og einn valið sér samstarfsfólk og ákveðið hvernig þeir greiða atkvæði.

Þannig geta t.d. þingflokkar, eða einstaka þingmenn, ákveðið að hafna öllu samstarfi við ákveðna þingmenn eða þingflokka um kjör í nefndir o.s.frv.

Það er ekkert sem mælir á móti slíku, ekki frekar en þingmenn ákveða hvort að þeir styðji ríkisstjórn eður ei, alveg burtséð frá því hvort þeir deili flokkum með ráðherrum eður ei.

Það er heldur ekkert sem mætir á móti því að málinu sé haldið vakandi, stjórnmálamenn og flokkar geta staðið fyrir málþingum, ráðstefnum, panelumræðum, leiksýningum og hvers kyns uppákomum til að vekja athygli á málinu.

En það fer betur á því að mínu mati að slíkt gerist "út í bæ".

Mér þykir að einnig blasa við að málið verði fyrirferðarmikið í næstu kosningum.  Slíkt er eðlilegt, og þá kemur það til hins "æðsta dómstóls", kjósenda.

En lýðræðið og þingræðið þarf að hafa sinn gang.

Á meðan einstaklingar hafa kjörgengi, eru löglega kosnir og vilja sinna þingmennsku eiga þeir fullan rétt til þess.  Alveg burtséð frá hvað öðrum þingmönnum kann að finnast um skoðanir þeirra eða framkomu.

Þingmenn eru kosnir til að sinna ákveðnum störfum og ættu að einbeita sér að þeim, í þinghúsinu.  Um frítímann gilda önnur lög og aðrar reglur.

 

 

 


mbl.is Funda um Klaustursmál á föstudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband