Er þörf fyrir "Sannleiksstofu"?

Það hefur mikið verið rætt um sannleikann, ja líklega eins lengi og nokkur getur munað, en ekki síst nýlega og þá oft í tengslum við "falskar fréttir".

En "falskar fréttir" eiga líklega jafn langa sögu og sannleikurinn, og "falskar" bækur hafa líka verið skrifaðar og hafa hlotið bæði lof og last, "gersk ævintýri" gerast enn í dag.

En líklega hafa "falskar fréttir" meiri möguleika í dag en oft áður, en þó ekki. Rétt eins og "Nígeríusvindlarar" hafa dreifendur "falskra frétta" meiri möguleika en nokkru sinni fyrr, en það hafa fréttaneytendur einnig.

Aldrei hefur verið auðveldara að leita á netinu og sjá "mismunandi" fréttir af sama atburðinum og jafnframt því að sjá á hvers kyns miðlum frétt hefur birst.

En um "falskar fréttir" gildir að miklu leyti það sama og um "Nígeríusvindlið" að það eru alltaf einhverjir sem trúa.

Þeim verður enda varla útrýmt frekar en svindlinu.

Og "fölsku fréttirnar" eru mismunandi, hið virta tímarít Der Spiegel varð fyrir stuttu að reka margverðlaunaðan blaðamann sinn, New York Times hefur oftar en einu sinni "lent" í því að birta "vitleysu".

Fréttastofa Stöðvar2/Bylgjunnar birti nýlega frétt sem virðist hafa verið hreinn uppspuni (hvers hef ég ekki vitneskju um) og hefur beðist afsökunar á því.

Sjónvarpsstöð á Íslandi varð uppvís að því að spyrja leiðtoga stjórnmálaflokks um hvern mætti finna sem væri "heppilegur" í umræður.

Því það er ekki eingöngu "falskar fréttir" sem eru varasamar lýðræðinu, heldur einnig sú viðleitni fjölmiðla að leiða "réttu" skoðanirnar og fréttirnar fram.

Slíkt er jafnvel enn "hættulegra", vegna þess að lymskulegar er staðið að verki.

En er eitthvað hægt að gera?

Vissulega er hægt að hvetja alla til þess að hafa varann á sér, leita sér frétta sem víðast og svo fram eftir götunum, en það er best að hafa allan vara á þegar opinberir aðilar ætla að fara að skilgreina "sannleikann", eða skilja kjarnann frá hisminu í fréttaflutningi.

Slíkt er í besta falli varasamt, í versta falli "stórslys" og mikil hætta á misnotkun og stundum er fín lína á milli "falskra frétta" og skoðana.

Það er hægt að setja fram  alls kyns skoðanir og fullyrðingar, s.s. að miklar líkur séu á því að Rússar muni reyna að hafa áhrif á kosningar á Íslandi og svo til dæmis að kvótakerfið hafi rústað sjávarþorpum á landsbyggðinni.

Fyrra tel ég að hluta til rétt, þó að ekki sé ástæða til þess að hafa af því miklar áhyggjur. Það er þekkt að ríki reyna gjarna, yfirleitt með óbeinum hætti, að hafa áhrif á kosningar í öðrum ríkjum. Stundum þó hreinlega beinum. Ég man ekki betur en að Angela Merkel hafi t.d. lýst yfir stuðningi við Macron í síðustu forsetakosningum í Frakklandi.

Seinni fullyrðinguna tel ég ranga, en hana hefur oft mátt sjá í pólítískri umræðu á Íslandi undanfarna áratugi. Ef til vill má segja að hún sé í eðli sínu "popúlísk", en það skiptir ekki meginmáli.

Ýmsir hafa reynt að leiðrétta hana, en hún í sjálfu sér hverfur ekki, en það er heldur ekki ástæða til þess að hafa af slíku stórar áhyggjur.

Persónulega hef ég miklu meiri áhyggjur af því þegar stjórnvöld hafa uppi stór áform í verndun "sannleikans", mér sýnist þó að slíkt sé ekki í farvatninu á Íslandi.

"Sannleiksstofur" og aðrar slíkar stofnanir eru ekki lausnin, geta í besta falli veitt "falskt öryggi", en er allt eins líklegar til að verða "sannleikanum" og tjáningarfrelsi hættulegar.

 


mbl.is Skólakerfið sporni við falsfréttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er lögleg ríkisstjórn?

Það hafa margir margar mismunandi skoðanir á ástandinu í Venezuela. Þó verður varla um það deilt að almenningur í landinu hefur það skítt.

Sósíalisminn hefur keyrt landið á bjargbrún glötunar, eða þar fram af, svona eftir því hverjum við kjósum að trúa.

Engin heldur því fram að ástandið sé gott. Ekki einu sinni þeir vinstrisinnuðu einstaklingar á Íslandi og víðar, sem lofsungu sósíalismann í Venezula fyrir til þess að gera fáum árum.

Flestir þeirra hafa ekkert að segja í dag.

Þeir þegja mest.

En eftir stendur spurningin, hvenær er réttlætanlegt að "alþjóðasamfélagið" grípi í taumana?  Er til eitthvað sem heitir "alþjóðasamfélag"?

Skiptir einhverju máli hvort að milljónir þegna hafi flúið þjóðfélag?  Skiptir einhverju máli hvort að fjöldi þegnanna deyji á hverjum degi, ýmist vegna morða eða skorts?

Hefur "alþjóðasamfélagið" einvherja vikt? Má það álykta, má það hóta?  Má það vera með hernaðarlega íhlutun?

Eða eiga allir að þegja, ef einhverntíma hafa verið haldnar, jafnvel þó að þær séu að vissu marki umdeilanlegar, eitthvað sem mætti kalla lýðræðislegar kosningar?

Hvað eiga Íslendingar að gera?

Vegur þyngst að einhver er að einhverju marki "leiðtogi þjóðarinnar"?

Með það að leiðarljósi hefðu Íslendingar aldrei samþykkt endurheimt Eystrasaltsríkjanna á sjálfstæði sínu.

Var það rétt eða rangt?

Höfðu Eystrasaltsríkin rétt á því að afneita sósíalismanum, á því að afneita einræðinu? Var rökrétt að veita þeim hjálp? Að viðurkenna þau?

Eiga íbúar Venezuela rétt á því að afneita sósíalismanum og einræðinu?  Ættum við að reyna að styðja þá í þeirri viðleitni?

Eða ættum við einfaldlega að láta Venezuelska hernum eftir að ákveða hvernig hlutirnir þróast?

Þessi mál eru ekki að fullu sambærileg, enda Venezuela ekki hernumið, ekki í hefðbundnm skilningi þess orðs, þó að herinn sé það verkfæri sem viðdheldur völdum Maduro. En það voru "þingin" í Eystrasaltsríkjunum sem leiddu baráttuna, rétt eins og þingið í Venezuela gerir nú.

Það eru ekki til nein einföld svör við flestum þessum spurningum, ekki ætla ég að þykjast hafa þau.

Maduro er hvorki fyrsti né síðasti einræðisherrann sem situr sem fastast, þær sögur eru enn að skrifast og má finna víða.

Svo þegar bætt er við þeirri staðreynd að meðal helstu "stuðningsmanna" Maduro eru Rússland og Kína, blasir við mynd sem er ekki ný af nálinni.

P.S. Hér má svo bæta við umfjöllun um um Nicaragua sem ég sá á Vísi fyrir nokkrum mínútum. Enn ein "sósíalistaparadísin", sem byggir á her og lögreglu.

 


mbl.is „Enginn setur okkur afarkosti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband