Eru "verðlaun" rétta leiðin til þess að auka kjörsókn?

Sú nýlunda var fyrir þessar kosningar að þeir sem kusu áttu þess kost að sækja ókeypis tónleika. Margir hafa orðið til þess að fagna þessu framtaki, en ég verð að viðurkenna að ég er dulítið efins um að það sé rétta skrefið.

Er rétt að koma því inn (sérstaklega hjá ungu fólki) að það eigi rétt á sérstakri umbun eða skemmtun fyrir það eitt að mæta á kjörstað?

Er "me kynslóðin" eins og hún er stundum kölluð þannig stemmd, að henni finnist ekki ástæða til þess að taka þátt í kosningum nema að hún sé "verðlaunuð" fyrir með gjöfum?

Svona eins og þegar mamma og pabbi gefa "krúttinu" nammi þegar það stendur sig vel.

Mér finnst þetta röng þróun og hún vekur hjá mér margar spurningar.

Sú mikilvægasta er líklega: Hver borgar kostnaðinn? Hver greiddi kostnaðinn við tónleikana?

Annað nýmæli fyrir nýafstaðnar kosningar er mér hins vegar meira að skapi og það er sú nýbreytni að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram í verslunarmiðstöðvum.

Þetta hef ég séð í öðrum löndum og mér þykir það til fyrirmyndar.

Það má setja upp kjördeildir í verslunarmiðstöðvum, á Austurvelli, á Ráðhústorginu á Akureyri og á öðrum fjölförnum stöðum. 

Það er til fyrirmyndar.

En mér finnst enginn eiga skilið sérstök "verðlaun" fyrir að nota atkvæðisrétt sinn.

Það er ekki þróun sem mér finnst jákvæð.

 

 


Eftirsjá af einstaka þingmönnum

Ég hugsa að frá mínum bæjardyrum þá finni ég einna mesta eftirsjá eftir einstökum þingmanni í Pawel Bortoszek.

Ekki það að mér hefði nokkurn tíma dottið í hug að kjósa hann á þing á meðan hann var í Viðreisn, heldur hitt að mér fannst hann standa vel og rökfast með sínum málum.

En ég er ósammála honum (og flokknum hans) í stórum málum og hefði því ekki ljáð honum atkvæði mitt.

Mér er það reyndar nokkuð illskiljanlegt hvers vegna hann kaus að starfa með Viðreisn, sem hefur fært sig æ lengra til vinstri, eftir því sem flokkurinn hefur starfað í fleiri mánuði, en vissulega vega mál eins og "Sambandsaðild" þungt og þar er líklega þar sem skoðanamunur minn og Pawels er stærstur.

En að "Sambandsaðild" slepptri finnst mér Pawel hafa staðið sig vel á þingi, þó að reynslan af því sé ekki löng.

Hann er líka eini þingmaður Viðreisnar sem ég myndi kvitta undir að hafi sýnt af sér eitthvað "frjálslyndi" (sem er virkilega teigjanlegt hugtak í Íslenskri pólítík) þó að hann hafi vissulega stutt þau stjórnlyndismál sem Viðreisn bar fram, enda stakkurinn þröngt skorinn í fráfarandi ríkisstjórn. Viðreisn sveigði enda æ meiri á stjórnlyndiskantinn eftir því sem á leið.

En þrátt fyrir að ég í raun fagni því að þingmönnum Viðreisnar fækki, þá finnst mér eftirsjá af Pawel Bartoszek.

Eins og oft spilast, þykir mér minna varið í alla þá þingmenn Viðreisnar sem náðu kjöri, en hann - sem féll.

Aðrir þingmenn sem mér finnst eftirsjá eru t.d. Hildur Sverrisdóttir og Teitur Björn Einarsson, sem sömuleiðis fengu stuttan tíma til að sýna hvað í þeim býr. En þau koma vonandi tvíefld til leiks síðar.

 


mbl.is Eins og að aftengja sprengjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónulegir sigurvegar

Kosningar eins og þær sem nú eru nýafstaðnar eru að mestu leyti keppni á milli flokka, en persónur geta skipt sköpum og ráðið úrslitum og hafa oft gert í kosningum.  Þar hafa verið unnir miklir persónulegir sigrar og sömuleiðis hafa eintakingar beðið persónulega ósigra.

Þessar kosningar voru engin undantekning.

Stærsti perónulegi sigurvegari þessara kosninga er ("drumroll" er óþarft) Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í mínum huga er engin vafi.

Hann stofnar nýjan flokk örfáum vikum fyrir kjördag, eftir að hans "gamli flokkur" hefur gert ljósar og óljósar tilraunir til að koma honum fyrir "kattarnef".

Pólítískir andstæðingar hafa sömuleiðis beint sér gegn honum af hörku og að veita honum titilinn "Umdeildasti pólítíkus undanfarinna ára" er að ég tel rétt og þar veitir honum engin verulega samkeppni.

Hann svarar fyrir sig með nýjum flokki og vinnur stærsta sigur nýs flokks í lýðveldissögunni. Það er varla hægt að svara fyrir sig með öflugri hætti. 

Hvernig þessi sigur mun nýtast er svo önnur saga sem á eftir að skrifa. Það á eftir að koma í ljós hvernig tekst að nýta þennan sigur í þingstörfum og hvort að Miðflokkurinn komist í ríkisstjórn.

Líklega eiga fjölmiðlar sömuleiðis eftir að "pönkast" á Sigmundi harðar en nokkru sinni fyrr.

Inga Sæland er einnig stór sigurvegari. Það er mikið meira en að segja að að koma nýjum flokki á þing. Og Inga Sæland var andlit og holdgervingur Flokks fólksins. Mér sýnist henni megi fyrst og fremst þakka góðan sigur flokksins, og hún í raun dregur 3 aðra með sér á þing.

Logi Már Einarsson, sem sagði sjálfur að hann hefði orðið formaður Samfylkingarinnar fyrir tilviljun, stýrir flokknum til góðs sigurs. Vissulega er staða flokksins langt frá "velmektardögunum", en ég held að hann hafi náð að sanna að það að vera "gargandi jafnaðarmaður" hefur skilað flokknum áfram veginn. Hvort að þessi sigur dugar Loga til þess að verða áfram formaður flokksins á eftir að koma í ljós (eða hvort að innanflokksvígin halda áfram), og fer líklega ekki síst eftir hvort að Loga tekst að koma flokknum í ríkisstjórn.

Lilja Alfreðsdóttir vinnur einnig góðan persónulegan sigur. Ég held að hún hafi heillað ótrúlega stóran hóp með framgöngu sinni og í raun átt stærri hlut í varnarsigri Framsóknarflokksins heldur en formaður flokksins. Hún hélt þingsæti sínu og ég spái því að hún verði orðin formaður Framsóknarflokksins innan tíðar. Það gæti þó breyst, því Framsóknarflokkurinn er líklegur til að fara í ríkisstjórn og þá verður síðar vilji til þess að skipta um "bústjóra".

Óvæntasti persónulegi sigurvegari þessara kosninga er Gunnar Bragi Sveinsson. Ef einhver hefði spáð því fyrir fáum mánuðum að Gunnar Bragi yrði næst kosinn þingmaður í "Kraganum" hefði hann líklega verið talinn létt geggjaður.

Það voru líka margir sem töldu Gunnar hafa verið sendan í "eyðimerkurgöngu" af hendi Sigmundar Davíðs, þegar hann fór í framboð í SuðVestur.

Gunnar Bragi hefur einnig setið undir mjög ómaklegum árásum á undanförnum árum, hæddur fyrir "menntunarskort" og verið talinn "pólítísk eign" einhvers kaupfélagsstjóra.  En Gunnar nær kjöri "á malbakinu" og vinnur pólítískan og persónulegan sigur.

Þó að Viðreisn hafi goldið hálfgert afhroð og tapað verulega í kosningunum, er ekki hægt að líta fram hjá persónulega sterkri stöðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Staða Viðreisnar í "Kraganum" og sá viðsnúningur sem varð á stöðu flokksins þegar Þorgerður tók við gerir sigur hennar áþreifanlegan.

Ekki síst þegar litið er til pólítískrar fortíðar hennar, þegar hún hraktist úr stjórnmálum með uppnefnið "kúlulánadrottningin", gerir sigur hennar nú aðeins sætari.

Að sama skapi er líklega "fall" forvera hennar á formannstóli, Benedikts Jóhannessonar, stærsta persónulega tap í þessum kosningum. Hann nær ekki kjöri í NorðAustur, sparkað úr formannsstóli stuttu fyrir kosningar og virðist rúinn trausti bæði sinna flokksmanna og kjósenda.

Sigurverari kosninganna á "ská" er svo líklega Dagur B. Eggertsson. Hans staða fyrir komandi borgarstjórnarkomandi er líklega sterkari eftir þessar kosningar, en fyrir þær. Fyrir kosningarnar var flokkur hans, Samfylkingin í mjög erfiðri stöðu.  Nú er líklegt að mínu mati að Björt framtíð (sem er flokkur af þokkalegri stærð í borgarstjórn nú) renni saman við Samfylkinguna, en áður var jafnvel talið að Samfylkingin hefði varla styrk til þess að bjóða fram á eigin spýtur.

Þessar niðurstöður renna því hugsanlegum stoðum undir framhaldslíf Dags sem borgarstjóra, hvort sem borgarbúum hugnist sú hugsun eður ei.

 

 


mbl.is Inga Sæland er til í allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem sigra og þeir sem tapa

Það er eins og oft áður þegar litið er á úrslit kosninga að fyrir flesta flokka má finna jákvæða punkta og telja þá á einhvern hátt hafa unnið sigur, þó stundum verði að nota að skeyta orðinu varnar fyrir framan.

Einu flokkarnir sem ég get ekki frá mínum sjónarhornum gert að sigurvegurum eru Björt framtíð og Píratar.

Björt framtíð hreinlega þurkast út og erfitt er að sjá að flokkurinn eigi sér viðreisnar von. Píratar tapa verulegu fylgi, þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu og að öðrum stjórnarandstöðuflokkum gangi vel bærilega.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki yfir miklu að gleðjast. Hann getur þó sagt að hann sé stærsti flokkurinn og hann heldur þeim titli í öllum kjördæmum.

En flokkurinn tapar verulegu fylgi og að sem meira er, hann tapar 5 þingmönnum. Það er mikið högg og þannig er Sjálfstæðisflokkurinn klárlega einn af þeim flokkum sem kemur hvað verst út úr þessum kosningum.

Þó að alltaf sé gott að vera stærsti flokkurinn er tapið nokkuð sem Sjálfstæðisflokkurinn fær í fangið og verður að horfast í augu við.  Það má segja að tapið komi ekki jafn illa út í %stigum og þingmönnum, en það er að ekki síst vegna ótrúlega góðrar nýtingar atkvæða í síðustu kosningum.

Vinstri Græn vinna örlítið á og vinna einn þingmann. Það er vissulega sigur, en fyrir flokk í stjórnarandstöðu getur það ekki talist mikill sigur og miðað við skoðanakannanir eru um gríðarlegt tap að ræða.

Það sem margir vildu meina að væri ákall eftir því að Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra, breyttist í hvísl og þagnaði svo alveg.

Það má því segja að Vinstri græn hafi tapað kosningabaráttunni.

Samfylkingin verður að teljast einn af sigurvegurum þessara kosninga. Góð fylgisaukning,ríflega 100%, flokkurinn orðinn 3. stærsti flokkurinn. Það má ef til vill segja að "bangsalegir karlmenn" virki vel í formannssæti Samfylkingarinna, því Össur Skarphéðinsson stóð sig líkt og Logi, mjög vel í brúnni. 

Sé litið til lengri tíma er árangur Samfylkingarinnar alls ekkert sérstakur, ekki hálfdrættingur á við þegar best gekk, en alla vegna er flokkurinn kominn með góða viðspyrnu.  Það má bæta því við að flokkurinn bætir afskaplega litlu við sig, umfram það sem Björt framtíð tapar.  En flokkurinn má þó vissulega vel við una að hafa tekist að ná þeim "klofningi" heim, ef svo má að orði komast.

Miðflokkurinn er sigurvegari þessara kosninga.  Það er alveg sama hvernig litið er á málið, flokkur sem var stofnaður fyrir örfáum vikum, og nær þessum árangri er sigurvegarinn. Sigurinn er auðvitað ekki hvað síst gríðarlegur persónulegur sigur fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. 

Hann er líklega einn umdeildasti stjórnmálamaður undanfarinna ára, en sannar með eftirminnilegum hætti að hann nýtur fylgis á meðal almennings. Flokkurinn er hársbreidd frá því að hafa þingmann í öllum kjördæmum og er í sumum þeirra þriðji stærsti flokkurinn.

Framsóknarflokkurinn vinnur það sem við köllum varnarsigur.  Hann tapar að vísu í kringum 1% stigi af fylgi sínu, en heldur þingmannatölu sinni, kemur mun betur út en skoðanakannanir gáfu til kynna og náðu varaformanni sínum, Lilju Alfreðsdóttur inn á lokasprettinum. Miðað við velgengni Miðflokksins, sem ég held að líti á sem klofning úr Framsóknarflokki, þá er árangur flokksins verulega góður.

Þess utan er Framsóknarflokkurinn flokka líklegastur til þess að enda í stjórn að mínu mati í hvora "áttina" sem hún verður mynduð. Sá aukni styrkur sem hann náði á endasprettinum gefur honum styrk til þess.

Píratar koma frekar illa út úr þessum kosningum. Tapa fylgi og fjórum þingmönnum. Enginn flokkur tapar meira fylgi nema Björt framtíð og það munar minna en %stigi á tapi þeirra og Pírata.

Flokkur fólksins er einn af stóru sigurvegurum þessara kosninga. Ekki nýr flokkur en kemst í fyrsta sinn á þing. Ein af stjörnum kosningabaráttunnar er tvímælalaust Inga Sædal. Ég trúi því að eldræða hennar í leiðtogaumræðunm í Sjónvarpinu hafi skilað þessum sigri.

Ég held að með henni hafi hún að einhverju leyti orðið "mamma og amma okkar allra", eins og einn kunningi minn orðaði það.  Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig flokkurinn spjarar sig á Alþingi.

Viðreisn er í varnarsigursdeildinni. Flokkurinn tapar umtalsverðum hluta af fylgi sínu og tapar rétt ríflega 40% af þingmönnum sínum. Flokkurinn umbreytist einnig í frekar þröngan "höfuðborgarsvæðisflokk", enda ekki með þingmann í neinu landsbyggðarkjördæmanna.

En árangurinn er þó mikið betri en benti til í upphafi kosningabaráttunar og að því leyti til hafa flokksmenn ástæðu til að gleðjast og fagna nokkurs konar sigri.

Björt framtíð fær skell rétt eins og skoðanakannanir hafa bent til frá upphafi kosningabaráttunnar. Flokkurinn fær í raun hlálega útkomu og þurkast út af þingi. Ég get ekki séð að hann eigi mikinn möguleika á endurkomu og spái því að hann muni renna "heim" í Samfylkinguna fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, þó að flokksmenn geti splundrast eitthvað.

Loks er rétt að telja Íslensku þjóðina til sigurvegara kosninganna, því einhver gleðilegstu fréttir frá þessum kosningum er að kjörsókn hefur aukist.

En hvernig spilast úr stjórnarmyndun miðað við þessa "uppröðun" þjóðarinnar er svo önnur saga, en það er hægt að vinna kosningar og tapa stjórnarmyndunarviðræður og öfugt.

Það er spennan næstu daga.

 


mbl.is Ríkisstjórnin tapar 12 þingsætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð leggur Þórunni Egils og Loga

Þegar litið er til úrslitanna í NorðAustur kjördæmi vekur afar góður árangur Miðflokksins með Sigmund Davíð í fararbroddi sérstaka athygli.

Sjálfstæðisflokkurinn er fylgismestur, og í kjölfar hans koma Vinstri græn, Miðflokkurinn kemur svo í þriðja, Framsóknarflokkurinn er fjórði og Samfylkingin er 5. stærsti flokkurinn.

Sigmundur Davíð og flokkur hans leggur því bæði Þórunni Egilsdóttur þingflokksformann og Framsóknarflokkinn og Loga og Samfylkinguna. 

Það vekur reyndar líka athygli mína að samanlagt eru Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn með 32.9% fylgi.

Ég held að fæstir geti séð það fyrir sér að Framsóknarflokkurinn hefði náð þessu fylgi ef að hann hefði gengið heill og óskiptur til þessara kosninga.

Eins og oft áður er þetta það kjördæmi sem fylgi Sjálfstæðiflokksins er lægst og það eina sem Vinstri græn komast virkilega nálægt honum.

NorðAustur kjördæmi, ásamt NorðVestur, sendir fæsta flokka á þing.  Aðeins 5 flokkar fá hylli kjósenda og skiptast þingmennirnir jafnt á milli þeirra, 2. á hvern flokk.

 

 


mbl.is Lokatölur úr Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin þjóð hefur skattlagt sig úr hófi til velsældar

Þetta er athyglisverð frétt og ákaflega sönn.  Það er rétt að þegar talað er um að stórauka skatta, bitnar það alltaf á millistéttinni.

Ekki aðeins vegna þess að þar er "stóri skattstofninn", heldur líka hitt að hún hefur alla jafna minni möguleika á því að "hagræða", "flytja" og "flýja" skattlagninguna heldur en þeir sem hafa verulega háar tekjur.

En áhrifin, eins og segir í fréttinni:  "Hætt­an við slík­ar aðgerðir felst ávallt í hækk­un jaðarskatt­heimtu sem síðan dreg­ur úr vinnu­vilja þegar fólk átt­ar sig á því að auk­in vinna skil­ar nær eng­um auka­tekj­um."

Raunar er hætta á því þegar þrepaskipt skattkerfi er við lýði að hærri laun þýði minni ráðstöfunartekjur

Hve margir eru það sem vilja leggja eitthvað á sig þegar ríkið ætlar að taka meirihlutann af laununum?

Það kanna að hljóma vel að skattleggja "ofurlaun", en hvað er verið að ræða um? Hafa sjómenn ofurlaun?  Hafa læknar ofurlaun?

Þegar rætt er um slíkt er vert að hafa í huga að sjómenn vinna 12 tíma á dag, hvern dag út a sjó, og eru í burtu frá fjölskyldum og þægindum sem við flest lítum á sem sjálfsögð.

Ríflega hálf þjóðin (eða svo) var svo með böggum hildar, vegna yfirvofandi læknaskorts fyrir fáum árum. Læknar vildu víst allir fara til starfa erlendis.

Telja Íslendingar virkilega að rétta leiðin til þess að hald þeim á Íslandi sé að hækka á þá skattana?

Það er sömuleiðis vinsælt að tala um að hækka fjármagnstekjuskatta.

Hvað það varðar er vert að hafa í huga að fjármagn er oft eitthvað sem einhver lagði til hliðar, sparaði, stundum tekið að láni, en tekjurnar koma oft með því að taka áhættu, jafnvel að tapa öllu fjármagninu.

Er rétt að letja einstaklinga til þess með of mikilli skattheimtu?

Og þar ættum við einnig að taka tillit til misjafnar stöðu einstaklinga.

Er ekki eðlilegt að 66 ára einstaklingur eigi meiri sparnað en sá sem er 28 ára? Er rétt að refsa þeim eldri, bara vegna þess að hann hefur verið duglegur að leggja fyrir?

Allt þetta er rétt að hafa í huga þegar greidd eru atkvæði á morgun.  Ég skora á Íslendinga að hafna þeim flokkum sem hafa aðeins aukna skattpíningu í huga.

Hafna þeim sem vilja hegna þem sem hyggja að sinni eigin framtíð og vilja búa í haginn fyrir sig og sína.

 

 

 

 


mbl.is Skattleggja á millistéttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð sem vert er að hafa í huga

Það eru ótal fletir sem vert er að hafa í huga þegar rætt er um hvort Ísland ætti að verða aðili að "Sambandinu".

Einn af þeim er sá sem hér er rætt um, tollar og önnur gjöld sem leggjast á innfluttar vörur. Þeim vöruflokkum sem bera tolla myndi fjölga gríðarlega ef til þess kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið.

Sumir hafa talað um "Sambandið" eins og það væri fríverslunarbandalag. En í raun er ekki síður rökrétt að tala um það sem tollabandalag.

Fríverslun er vissulega innan "Sambandsins" en þegar kemur að viðskiptum við lönd sem standa utan þess, er allt annað upp á teningnum.

Eins og fram kemur í fréttinni, er líklegt að aðeins fjölgun tollvarða myndi kosta Íslendinga stórar fjárhæðir á ári.

En það er ekki ólíklegt að margir hugsi til þess að ef Íslendingar gengu í "Sambandið" myndi vera hægt að flytja inn ýmsar landbúnaðarvörur á mun lægra verði en þekkist á Íslandi í dag.

Það er í sjálfu sér rétt.

En ef Ísland stendur utan "Sambandsins" og vilji er til þess að aflétta innflutningsbanni á margar landbúnaðarvörur, þá geta Íslendingar hæglega gert það á eigin spýtur, og það er langt í frá að besta verð á landbúnaðarvörum fáist í löndum Evrópusambandsins.

Þannig gætu Íslendingar hæglega átt viðskipti með landbúnaðarvörur við ótal ríki, jafnt utan sem innan "Sambandsins", ef það er vilji þjóðarinnar.

Staðreyndin er sú að vægi Evrópusambandsþjóðanna í heimsviðskiptum fer minnkandi og gerir það líklega enn frekar á komandi árum.

Fyrir Íslendinga mun það mikilvægi enn frekar minnka, þegar Bretland, ein mikilvægasta viðskiptaþjóð landsins gengur úr "Sambandinu".

Sjálfsforræði og fullveldi landsins er auðlind sem hefur gefið vel af sér á undanförnum árum og mun halda áfram að gera það, ef rétt er á málum haldið.

Ég skora á kjósendur að hafa  það í huga sér á morgun og gefa ekki þeim flokkum atkvæði sitt sem stöðugt daðra við "Sambandsaðild", þó að þeir kjósi að gefa aðlögunarviðræðum þekkilegri nöfn, eins og aðildarviðræður, könnunarviðræður, eða annað í þeim dúr.

 


mbl.is Hærri tollar og stærra bákn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í hund og kött á kaffihúsum Íslendinga?

Ég las það á vef Vísis að nú hafi Umhverfisráðherra Íslendinga ákveðið að leyfa veitingahúsaeigendum náðarsamlegast að ákveða það sjálfir hvort að gæludýr séu leyfð á stöðum þeirra eður ei.

Þó að ég verði að viðurkenna að mér þykir það orka tvímælis að ráðherra í starfsstjórn og án að segja má nokkurrar umræðu (og engin umræða á þingi?) ákveði slíkar breytingar, þá fagna ég þeim.

Ekki það að ég eigi hund eða kött, heldur hitt að sú staðreynd að ákvörðunin skuli færð til eigenda veitingahúsanna hugnast mér afar vel.

Sjálfur fer ég af og til með börnunum mínum á kaffihús þar sem u.þ.b. tugur katta leikur lausum hala.  Þau kunna vel nálegðinni við kisurnar og mér sýnist allir fara ánægðir þaðan á brott.

En það er spurning hvort að ekki sé rétt að leyfa eigendum veitingahúsa að ákveða fleira sem varðar rekstur þeirra og hvað sé leyft og hvað ekki í húsakynnum þeirra.

Er til dæmis ekki rétt að leyfa veitingahúsaeigendum að ákveða hvort að sé reykt í húsakynnum þeirra, nú eða veipað?

Sjálfur reyki ég ekki og hef ekki gert í u.þ.b. 15 ár, en ég get vel unnt reykingamönnum að hafa einhver kaffihús eða veitingastaði þar sem slíkt væri leyft.

Reykingamenn og "veiparar" eru vissulega ekki jafn krúttlegir og hundar og kettir, en ef við lítum fram hjá því, er ekki rétt að ákvörðunin sé þeirra sem standa í rekstrinum, þ.e. veitingamannana?

P.S. Vill einhver reyna að ímynda sér fjaðrafokið sem hefði orðið ef einhver ráðherra hefði nú talið sig geta leyft veitingahúsaeigendum að ákveða hvort gestir þeirra mættu reykja eða ekki, svona "þrjár mínútur" í kosningar?

 

 


Mikil og varanlega áhrif Costco - til góðs fyrir Íslenska neytendur

Það er vissulega magt umhugsunarvert sem má lesa í þessu stuttu viðtali við Finn Árnason, forstjóra Haga.

Eitt er að fyrirtækið sé búið að fækka verslunarfermetrum um 20.000. Hvað skyldi mega fækka um marga verslunarfermetra á Íslandi og samt selja sama magnið? 

Hvað skyldi mega fækka um margar bensínstöðvar á Íslandi og samt yrði enginn bíll bensínlaus?t

Finnur segir í viðtalinu að þeir séu stærsti innkaupaðili á Íslandi (sem ég dreg ekki í efa) og hann trúi ekki að Costco fái betri verð en Hagar.  Hljómar það trúverðuglega?

Costco er mörgum sinnum stærri en Hagar og geta boðið upp á mörgum sinnum meira sölumagn (fyrir framleiðendur) og mun hagkvæmari dreifingu.r

Ég veit ekki hvernig málum er háttað á Íslandi, en í Kanada, þar sem ég hef mesta reynslu af Costco, tók Costco t.d. aðeins eina tegund af kreditkortum og altalað var að þeir borguðu mun lægri upphæð í þóknum en eiginlega öll önnur fyrirtæki. Árum saman var Costo eina ástæðan fyrir því að við hjónin vorum með American Express.

Og jafnvel þó að þeir taki við fleiri tegundum á Íslandi, hversu auðvelt væri fyrir Costco að tryggja sér lægra þóknunargjald á Íslandi jafnt sem í öðrum löndum?

Þetta er bæði kostur og galli "heimsvæðingarinnar", alþjóðleg fyrirtæki standa betur að vígi, en þau færa neytendum jafnframt kjarabætur. (Það má að einhverju marki deila um það á Íslandi, enda tapa lífeyrissjóðir Íslenskra launamanna mjög líklega stórum upphæðum á fjárfestingu sinni í Högum).

Heilt yfir sýnist mér hafið yfir allan vafa að Costco hefur stuðlað að verðlækkun á Íslandi.

Það er vert að taka eftir því að fyrirtæki eins og Costco og H&M hefja starfsemi á Íslandi án þess að það virðist að Íslenska krónan standi þar í vegi. Hins vegar er ef vill vert að velta því fyrir sér hvort að það sé tilviljun að bæði fyrirtækin komi til landsins stuttu eftir að mikið af tollum og vörugjöldum er fellt niður.

Staðreyndin er sú að Íslenskir kaupmenn höfðu gott af samkeppninni. Frá mínum sjónarhóli virðast þeir um of hafa einbeint sér að því að "dekka plássið" og vera sem víðast.

En þó að við teljum að nóg sé af benínstöðvum á Íslandi, þá er ekki þar með sagt að það sé ekki þörf á einni í viðbót.

Það er einmitt það sem Costco sannar. Reykjavíkurborg dró lappirnar við samþykkt bensínstöðvar þar sem Costco vildi hugsanlega starfa.

Með "skipulagi" hafa stjórnir sveitarféalga einmitt lagt stóra steina í götu samkeppni.

En sem betur fer koma alltaf með reglulegu millibili, einhver eins og Costco sem hristir upp í markaðnum.

Það er það sem þarf, og það sem verslunarfrelsi getur tryggt, ef við leggjum ekki of stóra steina í götu þess.

 

 

 

 


mbl.is Áhrif Costco mikil og varanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð framþróun eða?

Það þykir líklegt að þeim muni fjölga jafnt og þétt málaflokkunum þar sem meirihluti aðildarríkja Evrópusambandsins ákveður stefnuna og hin ríkin verða að sætta sig við og fylgja þeim.

Með þessu tekur "Sambandið" á sig aukna ímynd sambandsríkis, og ásýnd ríkjabandalags minnkar.

Að mörgu leyti má líklega segja að þetta sé "Sambandinu" til góðs, þ.e.a.s. ef við teljum að sambandsríki sé það sem sé "Sambandinu" hollast að stefna að.

Hinu verður þó varla á móti mælt að þetta dregur úr áhrifum smærri ríkjann, eykur skipandi boðvald "Sambandsins" og dregur enn frekar úr fullveldi aðildarríkjanna en orðið er.

Ég á ákaflega bágt með að skilja hvernig á að halda því fram með góðu móti að aðildarríkin séu fullvalda og enn verður hoggin af fullveldi þeirra stór sneið ef skattamálin falla undir ákvörðunarvald "Sambandsins".

Það sem er þó mikilvægast, hvort sem við erum þeirrar skoðunar að Evrópusambandið eigi að stefna að því að verða sambandsríki eður ei, er að ræða um hlutina eins og þeir eru.

Sem sé að "Sambandið" sé að seilast eftir æ stærri sneið af fullveldi aðildarríkjanna, og að þau hafi í raun ekki óskorað fullveldi.

Svo getum við velt fyrir okkur og rökrætt hvort að fullveldi Íslands sé okkur einshvers virði, hvort og hvað mikið við myndum vilja gefa eftir af því í þeim tilgangi að ganga í "Sambandið".

Eða kjósum við fullveldið og að stand utan þess?

Um þetta eru örugglega skiptar skoðanir.

Ég skipa mér í þann hóp sem vill halda í fullveldi Íslands og hafna aðild að Evrópusambandinu.

 

 

 

 


mbl.is Vill afnema neitunarvald ríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hinum pólítísku ásum

Mér var bent á að þriðja kosningaprófið (ég skrifaði hér um mbl.is og RUV áður) væri á finna á á vef Stundarinnar.

Ég fyllti það út eins og hin og útkoman kom í sjálfu sér ekki á óvart.  En kosningaprófið endar á að sína stöðu þátttakandans á hinum pólítísku ásum og gagnvart stjórnmálaflokkunum.

Ég tók því prófið aftur og gaf engar upplýsingar um kyn eða annað og setti hlutleysi við öllum spurningum sem svar.

Það gaf þessar niðurstöður um hvernig Íslenskir stjórnmálflokkar raða sér á hnitin.

Það þarf vissulega (ætti raunar ekki að þurfa að taka það fram) að taka öllum sem þessu með fyrirvara, enda mannana verk.

En það er að mínu mati fróðlegt að sjá hvernig þetta raðast upp í þessu tilfelli, þó að ég sé ef til vill ekki 100% sammála því hvar hver flokkur er.

Kosningaprof Stundin hnit

 

P.S. Þess má svo bæta við hér til gamans fyrir þá sem hafa gaman af því að velta fyrir sér orða og hugtakanotkun, merkingu orða og hugtaka og hvernig við notum þau og hvernig og hversvegna þau hafa verið að breytast.

Myndum við líta öðrum augum á grafið hér að ofan, ef í stað "breytingasinnaður", stæði "róttækur", í stað "félagshyggju" stæði "sósíalismi". Önnur orð sem oft er notuð í Íslenskri stjórnmálaumræðu eins og frjálslyndi, er líklega eitt dæmi sem er túlkað á næstum óteljandi vegu.


Er óska efnahagstefnan massív peningaprentun, uppkaup seðlabanka á skuldabréfum og að keyra upp verðbólgu?

Margir halda því fram að vextir á Íslandi séu mun hærri en í mörgum öðrum Evrópulöndum vegna krónunnar. Það er í sjálfu sér rangt.

Vissulega má segja að í því felist sannleikskorn, en það er aðeins lítill hluti skýringarinnar.

Í fyrsta lagi er rétt að velta því fyrir sér hvers vegna vextir eru svona lágir í mörgum Evrópulöndum, sérstaklega á Eurosvæðinu og þeim löndum sem tengjast því sterkum böndum.

Staðan er einfaldlega sú að hagvöxtur er þar ákaflega lítill, atvinnuleysi er hátt og til skamms tíma geysaði þar verðhjöðnun.

Er það það sem Íslendingar vilja stefna að?

Seðlabanki Eurosvæðisins hefur prentað peninga eins og enginn væri morgundagurinn, og hefur ásamt seðlabönkum aðildarríkjanna keypt upp skuldabréf frá ríkisstjórnum og stór fyrirtækjum og keyrt niður vexti, og þannig gert ríkisstjórnum kleyft að halda áfram skuldasöfnun og jafnframt tryggt hagnað fyrirtækjanna.

Er það þetta sem Íslendingar vilja að stjórnmálin stefni að?

Væru Íslendingar betur staddir ef Seðlabankinn væri að kaupa upp ríkisskuldabréf og skuldabréf stórfyrirtækja og stefndi ótrauður að því að keyra upp verðbólgu?

Þannig væri staðan ef Íslendingar væru aðilar að Evrópusambandinu og hefðu tekið upp euro. Ekkert ríki mátti skorast undan, ekki Þjóðverjar sem höfðu engan áhuga á því að taka þátt, eða Eistland, þar sem ríkið hefur aldrei gefið út skuldabréf.

Hverjir halda að ríki eins og Ísland þar sem hagvöxtur hefur verið allt að 7%, hafi þörf fyrir slíkar trakteringar?

Eina ríkið á Norðurlöndum sem er með euro er Finnland. Þar er atvinnuleysi á milli 7 og 8%,

Þar var verðbólga í september 0.87%. 80 kílómetrum sunnar er verðbólgan í Eistlandi 3.67%.

Verðbólgan var enn hærri í Litháen í ágúst, eða 4.6%

En stýrivexirnir eru þeir sömu, er það virkilega skoðun einhvers hluta Íslenkra stjórnmálamanna að vextir hafi ekki eða eigi ekki að hafa neina tengingu við stöðu efnahagsmála?

Eru einhverjir Íslenskir stjórnmálamenn þeirrar skoðunar að helsta verkefni Seðlabanka Íslands ætti að vera nú að keyra upp verðbólgu og massív peningaprentun?

Það er hlutskipti seðlabanka euroríkjanna nú.

Ein af mýtunum sem haldið hefur verið fram er að við upptöku euros verði verðbólga á Íslandi svipuð og í öðrum ríkjum eurosvæðisins.

Tölurnar hér að ofan ættu að fullvissa flesta um að það er rangt, og eru aðeins enn eitt dæmi um að "sölumenn" eurosins halda fram rökum sem halda engu vatni.


mbl.is Viðreisn sýnir spilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "Sambandsaðild" dottin úr umræðunni, nú fyrir kosningar?

Ég hef verið að þvælast um netið og m.a. skoða umfjöllunina á Íslandi um komandi kosningar. Ég gerði það mér til gamans að taka það "próf" sem er hér viðhengt og kallast Kosningaspegill.

Það kom mér lítið á óvart að skoðanir mínar ættu mesta samleið með Sjálfstæðisflokknum, og ekki heldur að fylgnin mældist undir 50%.

Ég tók einnig svokallað kosningapróf á vef RUV. Það kom einnig fátt á óvart og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins röðuðu sér í efstu sætin hvað varðaði að skoðanir svipaðar og mínar.

En það vakti athygli mína að í báðum þessum prófum kom engin spurning um Evrópusambandsaðild.

Ég geri mér grein fyrir því að svona próf eru aðallega til gamans gerð og geta ekki fylgt eftir öllum málum.

En er spurningin um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópussambandið virkilega komin út úr "mainstream" pólítískri umræðu á Íslandi?

Nú heyrist mér að enn sé aðildin meðal lykilatriða í stefnu Samfylkingarinnar og fyrirferðarmikil í málflutningi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.  Tveir síðarnefndu flokkarnir eru vísu ekki atkvæðamiklir akkúrat nú, en þó er allt eins líklegt að Viðreisn gæti slampast á þing.

Og Samfylkingin gæti hæglega orðið einn af sigurvegurum kosninganna ef marka má skoðanakannanir.

Samt velja þeir sem setja saman "prófin" að skauta algerlega fram hjá þessari umræðu.

Það má velta því fyrir sér hvaða flokkum það kemur til góða í kosningaprófum sem þessum, þegar litið er til þeirrar staðreyndar að andstaða við "Sambandsaðild" mælist yfir 60% og hefur gert það í 8 ár eða svo.

 


mbl.is Kosningaspegill mbl.is 2017
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í fasisma í Frakklandi?

Það ríkir stríðsástand í Frakklandi, alla vegna ef marka má málflutning innanríkisráðherra landsins.

Það sem áður var kallað "neyðarlög", eru nú lög, partur af daglegu lífi og "hversdagslegum" stjórntækjum yfirvalda.

Það má allt að því segja að yfirvöld telji að viðvarandi neyðarástand ríki.

Hin umdeilda hryðjuverkalöggjöf hefur þó vakið ótrúlega litla athygli utan Frakklands.

Heimilt verður að hefta ferðafrelsi og skylda einstaklinga til að tilkynna sig til lögreglu daglega, án dómsúrskurðar. Bænahúsum má loka, leitarheimildir eru rúmar o.s.frv.

Nú ætla ég ekki að dæma um hvort að allt þetta séu eðlilegar ráðstafanir miðað við ástandið í Frakklandi, en þó hlýt ég að velta því fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að festa þetta í lög.  Hefði ekki verið eðlilegra að framlengja "neyðarlög" þannig að þau falli þá úr gildi, samþykki þingið ekki áframhald þeirra?

Er ekki æskilegt að lög sem heimila miklar skerðingar á réttindum einstaklinga hafi "sólarlagsákvæði"?

Það kom líka upp í huga mér að oft eftir hryðjuverkaárásir, er talað um að við megum ekki láta þau verða til þess að við breytum siðum okkar og venjum, heldur höldum áfram okkar daglega lífi og virðum réttindi einstaklina og okkar opnu samfélög.  Annað þýði að hryðjuverkafólkið hafi unnið.

Hefur Frakkland þá verið sigrað?


mbl.is Samþykkja nýja hryðjuverkalöggjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru engar fréttir í "Glitnisskjölunum"?

"Lögbannsmálið", ef svo má kalla er í raun að verða skrýtnara og skrýtnara.  Að miklu leyti má segja, svona eins langt og mitt hyggjuvit nær, að það sé farsi.

Glitnir er orðinn að athlægi, alla vegna að mínu mati og hefur orðið sér til skammar.  Enn eitt skiptið þar sem sá sem biður um lögbann, gerir sína hlið aðeins verrri.

Ekki er enn búið að biðja um lögbann á umfjöllun hjá Guardian. Það er bara ekkert að frétta segir forsvarmaður Glitnis.

En er eitthvað að frétta hjá Guardian?

Eins langt og mín vitneskja nær eru engar fréttir þaðan?  Eru engar fréttir í "Glitnisskjölunum"?

Það er ljóst að ef markmiðið væri fyrst og fremst að miðla fréttum til almennings, þá væru auðvitað fréttir sem skipta hann máli birtar í Guardian.

Þegar þær væru birtar gætu allir miðlar (hugsanlega ekki Stundin) á Íslandi endurbirt þær fréttir og þær kæmust til almennings.

Hugsanlega gæti Stundin birt þær sömuleiðis, enda væri þá fréttin ekki byggð á "Glitnisskjölunum", heldur umfjöllun Guardian.

En ef til vill hentar lögbannið og engar fréttir best pólítískum og fjárhagslegum hagsmunum Stundarinnar og Reykjavík Media.

Það er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér.

 


mbl.is „Ekki búið að fara fram á lögbann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansað með Skatta Kötu

Ég var að þvælast um netið nú í morgunsárið og sá umfjöllun á Eyjunni um að urgur væri í vinstri mönnum. Þar segir að urgurinn stafi af myndböndum sem má finna á YouTube og mun einnig vera dreift á Facebook (hef ekki séð þau þar enda ekki með reikning þar).

En ég fór auðvitað inn á YouTube og fann umrætt myndband og horfði á það. Það má finna hér að neðan.

 

 

Vissulega eru alltaf umdeilanlegt þegar skoðunum og upplýsingum er deilt undir nafnleysi. Persónulega hef ég reynt að tileikna mér þá meginreglu að hlusta á það sem sagt er eða sýnt án þess að það skipti mig meginmáli hver segir það eða hvort ég viti hver það er.

En ég tek undir það að betri stíll og meiri reisn sé að koma fram undir nafni. Þó hefur marg oft verið rætt um nauðsyn þess að hægt sé að koma fram upplýsingum með nafnleynd, enda ekki óalgengt á Íslandi að eingöngu sé "hjólað í" (gríðarlega vinsælt orðfæri nú um stundir) manninn en ekki málefnið.

Ég get ekki séð að myndbandið sé í neinum meginatriðum rangt, þó að ég hafi ekki farið og "staðreyndatékkað" það.

Það er reyndar athyglisvert að lesa mjög góða umfjöllun á Visi.is, samhliða, ég vil hvetja alla til þess að leggja þann lestur á sig. Umfjöllun Visis má finna hér.

Þar er góð umfjöllun um hugsanlegar breytingar á skattkerfi, og segir m.a.:

"Gert er ráð fyrir að nýju þriðja þrepi verði bætt inn í tekjuskattskerfið og að allir þeir Íslendingar sem hafi 25 milljónir króna eða meira í árslaun, en þeir eru 946 manns samkvæmt gögnum frá Hagstofunni, verði í því skattþrepi. Þess má geta að umræddur hópur greiðir nú 46,24 prósenta tekjuskatt."

Og litlu neðar:

"Taka skal fram að í útreikningunum er ekki gert ráð fyrir að fólk bregðist með einhverjum hætti við skattheimtunni, svo sem með því að draga úr vinnuframlagi, greiða lægri laun út úr eigin rekstri eða flytja einfaldlega af landi brott. Slík viðbrögð yrðu vitanlega til þess fallin að draga úr heimtum af skattahækkununum."

Ég vil líka minna á þegar við heyrum um að afgangur ríkissjóðs sé alltof mikill og nær sé að eyða þeim í þarflegri hluti, aðj ef ég man rétt hefur hið opinbera eytt undanfarin ár  mun hærri fjármunum í vaxtagreiðslur en til samgangna.

Minnki afgangur af fjárlögum, mun slíkt ástand vara mun lengur en ella. Það er vissulega valkostur að hið opinbera sé áfram verulega skuldsett, en það verður þá að gera sér grein fyrir því að framkvæmdir, eða velferðarmál sem þannig er staðið er, eru fjármögnuð með skuldum.

En nóg um það, enn og aftur hvet ég alla til þess að lesa umfjöllunina á Vísi, það er líklega besta umfjöllunin sem ég hef séð fyrir þessar kosningar (verður þó að taka með í reikningin að ég fylgist ekki grimmt með Íslenskum fjölmiðlum akkúrat núna.).

En það er rétt að enda á léttu nótunum og stíga dans með Skatta Kötu.  Hér er þó ekki um að ræða Íslenska stjórnmálakonu, heldur Indónesíska hljómsveit sem ber einmitt nafnið Skatta Kata.  Ég tók mér að bessaleifi að fallbeygja nafnið eins og það væri Íslenskt og hér að neðan má sjá myndband við lag þeirra "Dancing With Skatta Kata".

Mér þótti nafnið skondið þegar ég rakst á þetta myndband fyrir nokkrum mánuðum, en þykir það enn skondnara í dag.

 

 

 


Heimsendir

Ég hef undanfarna daga verið að reynast að fylgjast með baráttunni fyrir komandi kosningar. Ekki það að þær skipti mig miklu máli, eða það að ég komi til með að greiða atkvæði í þeim.

Staðreyndin er sú að ég er ekki á kjörskrá.

En eftir því sem ég hef séð meira af kosningabaráttunni undanfarna daga (og jafnvel vikur) hefur ein af mínu uppáhaldssjónvarpsseríum komið oftar upp í hugann.

Það er Heimsendir, sem Ragnar Bragason leikstýrði og eru einhverir mestu snilldar þættir sem ég hef séð. Ég horfi á þá svona að jafnaði einu sinni á ári.

 

Ekki það að baráttumaður verkalýðsins, Georg Bjarnfreðarson (Vaktaséríurnar, sami leikstjóri) komi ekki upp hugann sömuleiðis, en Heimsendir þó mun sterkara.

 


Lögbann virkar sjaldnast vel fyrir þann sem óskar eftir því

Í fljótu bragði man ég ekki eftir því að lögbann á fjölmiðla hafi virkað vel fyrir þá sem óska eftir því. Þvert móti dregur það aukna athygli að því sem fjallað hefur verið um, eða stendur til að fjalla um.

Og ímyndunarafl almennings er það kröftugt að það fer sjálfkrafa að velta því fyrir sér á hvað það sé sem lögbannið nái til.

En hitt kann einnig að vera að (gamli)Glitnir verði að grípa til einhverra ráðstafana, enda líklegt af þessum viðbrögðum að hann telji að lögbrot hafi verið framið.

Einhver hefur tekið gögn ófrjálsri hendi og komið þeim áfram til fjölmiðla.

Slíkt er eðlilegt að kæra til lögreglu og líklega er það eðlilegur farvegur málsins.

En þetta sýnir enn og aftur að gagnaöryggi er víða ábótavant, hvort sem er í raun eða netheimum.

Persónulega hef ég ekki fylgst svo náið með þessari umfjöllun, en vissulega má deila um hvaða erindi hún á við almenning.  Þar verða menn líklega seint á eitt sáttir.

Komið hefur fram að að engin merki finnist um lögbrot eða ólöglegt athæfi. Hversu mikið erindi eiga þá fjármál einstaklings við almenning, þó að hann sé stjórnmálamaður?

Þar sýnist líklega sitt hverjum.

 

 


mbl.is Ekki heyrt af lögbanni gegn Guardian
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn traustur meirihluti gegn inngöngu Íslands í "Sambandið".

Um leið og rétt er að fagna því að í átta ár hefur alltaf verið traustur meirihluti gegn í að Íslendingar gagni "Sambandinu" á hönd, er það vissulega áhyggjuefni að samkvæmt þessari könnun hefur fylgi við "Sambandsaðild" þó aukist.

Sömuleiðis er meirihluti landsmanna andvígur því að taka upp viðræður við "Sambandið" að nýju. Því ber að fagna.

Margir hafa gert mikið úr því að nú sé meirihluta kjósenda VG fylgjandi aðild, en þó að svo sé samkvæmt könnuninni, þykir mér ekki rétt að gera mikið úr því.

Bæði vegna þess að munurinn (51/49) er innan skekkjumarka, ekki síst þegar könnunin byggir á 854 svörum, og þar af líklega kjósendur VG, í kringum 200 einstaklingar.

En Sjálfstæðisflokkurinn kemur fram sem höfuðflokkur þeirra sem eru á móti aðild og er það vel.

En þó að fagna megi niðurstöðunum, eru þær þess efnis að augljóst er að sá meirihluti sem er á móti "Sambandsaðild", þarf að halda vöku sinni.

P.S.  Persónulega finnst mér alltaf að rétt sé að geta þeirrar spurningar eða spurninga sem spurðar voru þegar niðurstöður kannana eru birtar. Ekki síst þegar kannanir eru gerðar á kostnað aðila sem afa einarða skoðuna á viðkomandi máli.  Það er ekki gert hér.

 

 


mbl.is Mikill meirihluti vill ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta fyrst og fremst skipulagsmál?

Ég ætla að taka það fram að ég hef engar sérstaka skoðun á þessum virkjunarframkvæmdum. Ég hef aldrei komið á svæðið og tel mig einfaldlega ekki dómbæran í málinu. Þess vegna hef enga mótaða skoðun í málinu.

En í þessu sambandi vil ég minna á að þeir sem hafa haldið því fram að staðsetning Reykjavíkurflugvallar sé skipulagsmál Reykvíkinga, hljóta að vera þeirrar skoðunar að staðsetning og uppbygging umræddrar virkjunar sé fyrst og fremst skipulagsmál þess sveitarfélags (eða sveitarfélaga) sem ráða viðkomandi landsvæðum.

Nú eða ekki síst landeiganda.

Ég hef áður bloggað á þessum nótum.

 


mbl.is „Þetta fólk þjáist af athyglissýki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband