Færsluflokkur: Formúla 1

Það er bara einn

Það er bara einn Michael Schumacher (líklega myndu margir bæta við, sem betur fer), og sú ákvörðun hans að snúa um stundarsakir aftur í Formúluna er auðvitað söguleg.

Auðvitað munu aðdáendur flykkjast að brautunum og að sjónvarpstækjunum og þetta þýðir aukna athygli fyrir íþróttina og um leið auknar tekjur.

Persónulega verð ég að segja að mér finnst það fremur óíþróttamannsleg framkoma hjá þeim liðum sem hafa sett sig á móti því að hliðra aðeins æfingareglum fyrir "gamla manninn" í ljósi aðstæðna.  Öll liðin munu hagnast á þeirri athygli sem hann beinir að keppninni.

En það verður fróðlegt að fylgjast með honum í næstu keppni.


mbl.is Miðasala tekur kipp vegna endurkomu Schuhmacher
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrein snilld

Það er auðvitað hrein snilld að Schumacher skuli ætla að bæta nokkrum keppnum við ferilinn.  Það er einfaldlega eitthvað það besta sem komið gat fyrir Formúluna akkúrat núna.

Þetta kemur til með að draga áhangendur að brautunum jafnt sem sjónvarpstækjunum.  Formúlan hefur hefur með sviplausara móti þetta tímabilið og of mikill kraftur farið í deilur og illindi.

En það er hins vegar ólíklegt að Schumacher eigi eftir að vinna sigra það sem eftir er tímbilsins.  Það er til of mikils ætlast af ökumanni sem hefur ekki ekið í u.þ.b. ár, og auk þess er ástand Ferrari bílsins ekki með því móti þessa stundina að reikna megi með stórkostlegum árangri.  Bíllinn hefur þó verið að sækja í sig veðrið, og ef einhver er fær um að hjálpa til við uppsetninguna, er það auðvitað Schumacher.

En að sjálfsögðu er Schumacher reiðubúinn til að leggja Ferrari lið og ekki hefur það líklega dregið úr honum, að með þessu gerir hann Massa vini sínum stóran greiða.  Það er mun betra fyrir Massa að sá er hleypur í skarðið, sé staðráðinn í því að hverfa frá aftur.


mbl.is Schumacher keppir í stað Massa í Valencia
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til síðustu sekúndu, hinsta bensíndropa

Það var taugatrekkjandi að horfa á endir Brasilíska kappakstursins.  Framan af kepninni, ef frá eru skildir nokkrir fyrstu hringirnir, þá leit út fyrir að Hamilton yrði heimsmeistari.

Svo fór að rigna undir lokin, og þegar örfáir hringir voru eftir og aftur fór að rigna leit út fyrir að Massa myndi hafa það.  Þegar tvær beygjur voru eftir var ég farinn að fagna enn einum titlinum til Ferrari ökumanns. 

En í síðustu beygjunni.....

Þá gaf Glock eftir og Vettel og Hamilton brunuðu fram hjá honum og titillinn varð Hamiltons.

Púff.  Síðustu metrarnir, síðustu sekúndurnar og allt breyttist.  Líklega. mun ég aldrei aftur kaupa mér Toyotu :-)  (Kannski þó ef um væri að ræða að ég gæti keypt hana af Valda Vals)

En þetta keppnistímabíl er liðið, það verður að óska McLaren og Hamilton aðdáendum til hamingju.  Besti "pakkinn" vann.  Það gerir hann alltaf.

Það er skondið til þess að hugsa að þetta er annað tímabilið í röð þar sem titillinn fellur í síðasta móti, á einu stigi.  Annað árið til Ferrari, en það er ef til vill of mikið til ætlast að það geri það tvö ár í röð.

En það þarf að bretta upp ermarnar, við höfum tvo af bestu ökumönnunum, en það er ekki nóg.  Áreiðanleikinn var ekki nægur og í bílskúrnum voru gerð dýrkeypt mistök.  Þetta þarf að laga fyrir næsta ár.  Þó að einn titill hafi náðst í ár, er það ekki nóg, á næsta ári þarf að fjölga titlunum upp í tvo.

Nú er góðu Formúluári lokið, þá er að horfa til þess næsta.

 

 


mbl.is Hamilton heimsmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt og leiðinlegt í Kína

Kínverski kappaksturinn olli vonbrigðum, eiginlega á allan hátt.

Ekki nóg með það að kappaksturinn væri í raun leiðinlegur áhorfs, heldur gekk mínum mönnum alls ekki nógu vel.

Hamilton ók vel, mínir menn komust ekki nálægt honum og hann ók algerlega á eigin forsendum og þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því að einhver truflaði keppnisáætlun hans.

Sem betur fer eigum við ennþá möguleika á titlinum, en hann er þó ekki stór.  Hamilton þarf að ljúka keppni í Brasilíu aftar en í 5. sæti og Massa að sigra til þess að það geti orðið.  Ekki beint það sem hægt er að telja líklegt.

Jákvæði punkturinn er að Ferrari styrkti stöðu sína í keppni bílsmiða, en það er ekki mikil huggun, það er ökumannstitillinn sem skiptir mestu máli.

En Hamilton var vel að sigrinum kominn, ók mikið betur en nokkur annar.


mbl.is Hamilton ók fullkomnlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í þessu fína í Kína

Ég hökti á fætur kl. 3. síðastliðna nótt til þess að horfa á tímatökurnar.  Ekki auðvelt en tókst þó.  Tímatökurnar eru reyndar ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér, en það er betra að vita hvernig röðin er strax.

Þetta er ekki alveg nógu gott, en gefur samt mikla möguleika á Ferrari sigri.

Auðvitað hefði ég kosið að Hamilton væri fyrir aftan þá félaga Massa og Raikkonen, en það að hafa 2. og þriðja sætið, en Kovalainen ekki fyrr en í 5. gæti gefið mínum mönnum vissa möguleika.  Raikkonen reynir eftir fremsta megni að trufla Hamilton í startinu, hugsanlega að komast fram fyrir hann.  Massa er líklega (alltaf erfitt að spá) með heldur meira bensín og keyrir nokkrum hringjum lengra.

Það er aðeins ef Hamilton nær að stinga af í ræsingunni og keppa alfarið á eigin forsendum sem málið fer að vandast.

Svo er líka spurning hvað Alonso gerir, en það er ljóst að ef sú staða kemur upp að hann eigi möguleika á því að gera Hamilton lífið leitt, þá gerir hann það og kemur það Ferrari vissulega til góða.

Reyndar eru alltaf kviksögur í gangi um að Hamilton sé með leiðinlegri framkomu að fá flesta ef ekki alla ökumenn á móti sér, en ég á þó ekki von á því að slíkt spili inn í svo að afgerandi verði.

En nú eru ekki nema tæpir 3 tímar til stefnu, keppnin hefst kl. 2 að mínu tíma, og verður án efa hörku spennandi.


mbl.is Hamilton á ráspól í Kína og Massa í þriðja sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Japönsk skemmtun

Það vantaði ekkert á skemmtunina, spennuna og dramað í Japanska kappaksturinn.  Ýmis atvik voru á þann veg að eflaust á eftir að verða rifist um þau og rökrætt svo vikum skiptir, ef ekki árum.

En vissulega fór þetta ekki nógu vel fyrir mína menn, þó að það megi sjá ýmsa mjög jákvæða punkta.  Það er betra en ekkert að ná 1. punkti fyrir Massa og sá punktur gæti gert gæfumuninn þegar upp er staðið.  Munurinn er til dæmis sá að nái Ferrari 1 - 2 sigri í báðum þeim keppnum sem eftir eru, dugir það til sigurs, þó að Hamilton væri í 3. sæti.  Án þessa punkts hefði það ekki dugað.

Ferrari endurheimtir efsta sætið í keppni bílsmiða, það er þakka Raikkonen sem loksins skilaði punktum í hús, og keyrði vel, þó að hann næði ekki að fara fram úr Kubica.

Líklega er þó besti punkturinn að liðið hvíldi "ljósashowið" og tók aftur í notkun "sleikipinna".  Við megum ekki við fleiri mistökum á þjónustusvæðinu.

En maður dagsins var auðvitað Alonso, sem náði "tveimur í röð", sem er líklega eitthvað sem fæstir áttu von á.  Þessir sigrar hljóta að auka líkurnar á því að hann verði áfram hjá Renault.

Kubica stóð sig sömuleiðis frábærlega og Piquet jók verulega líkurnar á því að hann keyri áfram fyrir Renault.

Toyota líðið stóð sig vel á heimavelli.

En það sem á eftir að dóminera umræðuna eru refsingarnar sem Massa og Hamilton fengu.  Þeir þurftu báðir að keyra í gegnum þjónustusvæðið.

Mín skoðun er að þær hafi báðar verið réttlátar.  Hamilton skapaði stórhættu með gáleysislegum akstri í upphafinu og hafði stórkostleg áhrif á kappaksturinn með vítaverðum akstri.  Massa spann Hamilton undir kringumstæðum þar sem það var alls ekki óumflýjanlegt.  Sanngjarnir dómar.

En núna eru bara tvær keppnir eftir.  Ef Massa vinnur í Kína, eða minnkar forskot Hamilton um 3 - 4 stig, á hann möguleika á titlinum, því á Interlagos á hann að standa mun betur að vígi en Hamilton.

Það eru spennandi keppnir framundan.

 


mbl.is Alonso sterkastur í Fuji og Renault lét til sín taka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það lítur ekki vel út

Ég horfði ekki á tímatökurnar í nótt sem leið, en er að gera mig kláran fyrir keppnina sem hefst núna fljótlega.

En þetta lítur ekki alveg nógu vel út fyrir mína menn.  2 og fimmta sætið væri í sjálfu sér ásættanlegt, ef það væri Massa sem væri í öðru sæti og ætti því meiri möguleika á því að keppa við Hamilton.

En auðvitað þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn.  Það sem þyrfti auðvitað að gerast er að Raikkonen taki fram úr Hamilton í ræsingunni og haldi hraðanum niðri á meðan Massa vinnur sig upp.  En Massa þarf líka á góðri ræsingu að halda, þetta er gríðarlega mikilvæg keppni.  Ef að Massa nær ekki fleiri stigum en Hamilton í þessarri keppni, er þetta lang leiðina tapað fyrir hann, þó að fræðilegir möguleikar verði til staðar.

En það sannaðist reyndar í fyrra að ótrúlegir hlutir geta gerst og enginn ástæða að gefast upp, fyrr en ekið er yfir rásmarkið í síðustu keppninni.

En vonandi verður þetta spennandi og skemmtilegur kappakstur.

 


mbl.is Hamilton og McLaren með undirtökin í Fuji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er eitthvað rotið í bílskúr Ferrari

Ég hafði ekki tíma til að skrifa neitt um Formúluna í gærdag.  Ef til vill var það eins gott, þar sem ég var ekki mjög kátur þegar henni lauk í gærmorgun.

Keppnin var ekki auðveld áhorfs fyrir okkur Ferrari aðdáendur.  Enn einu sinni þurftum við að horfa upp á stórt klúður í bílskúrnum og enn einu sinni þurftum við að horfa upp á Kimi Raikkonen koma í mark án stiga.  Þessi keppni var þó enn verri, þar sem hvorugur ökumaðurinn náði stigi og liðið missti forystu sína í keppni bílsmiða.

En það er ljóst að breytinga er þörf í bílskúrnum.  Nýja kerfið með ljósunum og án "sleikipinnans" er ekki að gera sig og því fylgja mistök.  Mistök sem eru dýrkeypt.

En keppnin var að mörgu leyti skemmtileg áhorfs, brautarstæðið fallegt og nokkuð mikil "aktíon".  Ég get þó ekki varist þeirri tilhugsun að það hafi fyrst og fremst verið öryggisbílinn sem stjórnaði keppninni, og færði í hana virkilega spennu.  Án hans og þeirra óhappa sem kölluðu hann inn, er alveg eins líklegt að keppnin hefði ekki orðið verulega spennandi.

En Alonso var vel að sigrinum kominn, keyrði af öryggi og tók réttar ákvarðanir. 

Hamilton og McLaren standa nú best að vígi til að innbyrð báða titlana, ég held að ef Hamilton dettur ekki úr leik í neinni þeirra, verði titillinn hans.

En það er ástæðulaust að gefast upp fyrirfram, það verður að berjast allt til enda - og taka til hendinni í bílskúrnum.

 

 


mbl.is Lánið lék við Alonso
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkvæmt væntingum

Þetta var eins og ég átti von á.  Þó að upphaflega hafi þessi refsing komið mér nokkuð á óvart, fannst mér það augljóst þegar nánari leiðbeiningar voru gefnar í síðustu keppni, að þessi niðurstaða myndi standa.

En spennan er í hámarki í keppni bílsmiða, 1. stig sem skilur að Hamilton og Massa og munurinn í keppni bílmsiða sömuleiðis verið að minnka.

Það verða því spennandi keppnir og næsta víst að úrslitin verða ekki ráðin fyrr en í þeirr síðustu, sem er auðvitað hið besta mál.

Ég er farinn að hlakka til að sjá kappana keppa í Singapore


mbl.is Hamilton tapaði áfrýjuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Monzoon kappakstur er góð skemmtun

Það er ekki hægt að segja annað en að kappaksturinn í Monza hafi verið skemmtilegur.  Spenna, skrik, framúrakstur og snertingar.  Endalausar þreifingar og "viðreynslur".

Stórkostlegur dagur fyrir Vettel, stórkostlegur dagur fyrir Toro Rosso (Minardi) og stórkostlegur dagur fyrir Formúluna.

En við Ferrari aðdáendur höfðum ekki svo mikið til að gleðjast yfir.  Árangur Massa náði því varla að vera ásættanlegur og um Raikkonen þarf ekki að hafa mörg orð. Það var ekki hægt að merkja á akstri hans í morgun að þar færi launahæsti ökumaður Formúlunnar.  Aðeins lifnaði yfir honum í lokin, en of lítið of seint.

Massa átti þolanlegan dag, náði að minnka forskot Hamilton um eitt stig.  En sé litið til þess að Massa ræsti úr 6. sæti en Hamilton úr því 15. (fyrir aftan Raikkonen) fer allur glans af árangri Ferrari manna.  Eihvern veginn virtist keppnisáætlun hans vera í molum og fór hann afar illa út úr þjónjustuhléunum.  Forskot í keppni bílsmiða minnkaði líka verulega.  Það var því ekki margt sem gladdi Ferrari aðdáendur.

En hey, við áttum þó sigurmótorinn, það verður að reyna að líta á björtu hliðarnar.

Kovalainen átti ágætis dag, hélt sínu sæti, en ég hélt þó fyrirfram að hann yrði Vettel skeinuhættari.  Kubica átti merkilegan kappakstur, sást varla að heitið gæti, en skilaði sér í 3. sætið að lokum, kom mér á óvart.

Vettel er að sjálfsögðu maður keppninnar, en þar á eftir kemur líklega Hamilton.  Hann sýndi á meiriháttar og á köflum afar grimman akstur (ég bíð eftir að allir McLaren aðdáendurnir sem gagnrýndu Schumacher sem harðast gegnum árin, tjái sig um hvernig hann fór með Webber).  Það skilaði honum þegar upp var staðið í 7. sætið og gerði tjón hans gagnvart Massa því sem næst að engu.  En líklega hefur hann ekki eignast neina vini á brautinni (sögur segja hann ekki eiga þá neina) með akstri sínum í dag, en þetta er ekki keppni um vinsældir, heldur að komast fyrstur í mark.

En skemmtigildið var hátt, þetta var snilldarkappakstur og keppnin um titlana galopin sem aldrei fyrr.

Næst er svo næturkappakstur í Singapore, það er ekki hægt annað en að hlakka til þarnæsta sunnudags.


mbl.is Snilldarsigur hjá Vettel í erfiðri Monzabrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband