Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Mýtan um fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins er enn á ný komin á kreik

Nú eins og oft áður er mikið fjallað um meint fylgistap samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum.

Það er enda, nú sem endranær, mikilvægt í pólítískri skák að reka fleyga á milli samstarfsflokka. 

Jafnvel hefur mátt heyra "virta fræðimenn" taka undir þessa mýtu.

En er hið meinta fylgistap raunverulega til staðar?

Ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur á um 1.7% stig en Alþýðuflokkur tapaði 1% stigi.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% stigum, en Alþýðuflokkur vann á, 1.5% stig.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% stig frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2% stigum. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% stigi til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2% stigum.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% stigum en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5% stigum.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5% stig, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4% stigi, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% stium en Sjálfstæðisflokkur tapar 10% stigum.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% stigum meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6% stigum, en Framsóknarflokkur vinnur á um 8% stig.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3% stig, en Framsóknarflokkur tapar 5.9% stigum.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5% stigum, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1% stigum.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4% stig.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3% stig.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% stigi af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% stigi af sínu fylgi. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% stig og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst langt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% stig fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% stigum og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% stigum og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6% stigi. 

Hvor flokkurinn var að tapa meira?

Og Framsóknarflokkurinn tapaði í kosningum árið 2007. Ef ég man rétt tapaði Framsókn í kringum 6% stigum og Sjálfstæðisflokkurinn vann á í kringum 3% stig.  En þá, hafði Framsóknarflokkurinn átt í löngu basli og formannsskiptum sem ekki gengu eða virkuðu vel.

Þá tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  Ekki er hægt að segja Samfylkingin hafi riðið lakari hesti en Sjálfstæðisflokkurinn frá þeirri ríkisstjórn í kosningunum 2009. Þá tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 12.9% stigum, en Samfylkingin bætti við sig 3.  En ég er ekki þeirrar skoðunar að það hafi verið samstarfsflokknum að kenna, hvernig fylgið reittist sf Sjálfstæðisflokknum.

Það er síðan óþarfi að rifja það upp sérstaklega hvernig fór fyrir þeirri ríkisstjórn sem var mynduð 2009, þegar kosið var 2013. Evrópumet í fylgistapi litu dagsins ljós og báðir stjórnarflokkarnir töpuðu gríðarlegu fylgi.  Engin talaði um það væri vegna samstarfslokksin, enda held að að báðir flokkarnir hafi átt fylgistapið skilið.

Samfylkingin tapaði ríflega helmingi fylgis síns, eða 16.9% stigum, en VG "aðeins", 10.8% stigum, rétt tæplega helming af fylgi sínu.

Sé aðeins litið til stjórnarsamstarfs, er það því Samfylkingu mun "hollara" að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokk en Vinstri græn, án þess að ég sé sérstaklega að mæla með slíku samstarfi.

Rétt er að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Björt framtíð fram, undir forystu fyrrum Samfylkingar og Framsóknarmannsins Guðmundar Steingrímssonar, og hlaut 8.2% atkvæða, sem líklega voru að einhverju marki frá Samfylkingu komin.

En bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur unnu á 2013, sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem vann eftirminnilegan kosningasigur og bætti við sig 9.6% stigum.

Þeir mynduðu síðan ríkisstjórn.

Næst var síðan kosið 2016.

Sjálfstæðiflokkurinn vann lítillega á, bætti við sig 2.3% stigum, en Framsóknarflokkurinn, undir nýrri forystu, tapaði stórt, eða 12.9% stigum.  En ég held að fæstir sem fylgdust með stjórnmálum telji það að miklu leyti tengt við samstarf við Sjálfstæðisflokk.  Innanmein flokksins spiluðu þar líklega stærri rullu.

Samfylking hélt í þeim kosningum áfram að helminga fylgi sitt, og tapaði 7.2% stigum, og það þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu.

Viðreisn kom í fyrsta sinn til sögunnar og hlaut góðar undirtektir, hlaut 10.5% atkvæða.

Þá var mynduð skammlíf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjarrtar framtíðar.

Kosið var enn á ný 2017.

Þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.8% stigum og Viðreisn sömuleiðis 3.8%, stigum, í þeim kosningum undir nýrri forystu.

Björt framtíð tapaði 6% stigum, og náði ekki inn manni á þing og hvarf úr sögunni. Sjálfsagt má skrifa tapið að einhverju marki á ríkisstjórnarþátttöku.  Það var enda svo að á köflum var erfitt að sjá hvar BF endaði og Viðreisn byrjaði.  Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að flokkinn hafi jafnframt vantað "undirstöðu". 

En sjálfsagt kjósa einhverjir að skrifa þetta alfarið á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylkingin náði ágætri kosningu og tvöfaldaði fylgi sitt, jók það um 6.4% stig undir nýrri forystu.

Miðflokkurinn kom til sögunnar og hlaut góða kosningu, eða 10.9%.

Rikisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var mynduð.

Við eigum svo eftir að ajá hvernig fer í næstu kosningum.

Meginlínan í Íslenskum stjórnmálum hvað tap varðar, er að ríkisstjórnarflokkar tapa fylgi, stjórnarandstöðu gengur betur.  Þó vissulega með athyglisverðum undantekningum, t.d. hjá Samfylkingu árið 2016.

Sé "góðæri" getur það einnig hjálpað stjórnarflokkum.

Samfylking hefur aðeins átt í stjórnarsamstarfi við tvo flokka, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn.  Báðir flokkarnir fengu afleita kosningu eftir slíkt samstarf.  Sjálfsagt mundu einhverjir draga þá ályktun að samstarf við Samfylkingu væri "eitraður kaleikur", en það er ekki sanngjarnt, það verður eins og í öllum öðrum tilfellum að líta til kringumstæðna.

En það er heldur engin raunveruleg innistæða fyrir því að allir samstarflokkar Sjálfstæðisflokks tapi fylgi, sérstaklega þegar litið er til kringumstæðna, s.s. klofning samstarfslokka, nýrra flokka og annarar "vandræða" sem samstarfsflokkar hafa glímt við.

P.S. Þessi færsla er að stórum hluta byggð á færslum mínum um sama efni, árið 2007 og 2016.

 


mbl.is Grímuklætt ríkisráð fundaði á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkir lögreglan ekki reglugerðina, eða hefur blaðamaður rangt eftir henni?

Í fréttinni segir:  "„Við erum að skoða þetta. Það mega ekki fleiri koma sam­an en 10 nema í mat­vöru­búðum. Ef þetta er veit­inga­hús, þá verður að hólfa­skipta,“ seg­ir Jó­hann. Bæt­ir hann við að hver þurfi að dæma fyr­ir sig, út frá reglu­gerð heil­brigðisráðherra."

Það er rangt að ekki megi koma fleiri en 10 saman nema í matvöruverslunum.

Í reglugerð frá 10 des segir:

"Lyfja- og matvöru- og aðrar verslanir mega taka á móti 5 manns á hverja 10 m² en að hámarki 100 manns svo lengi sem hægt sé að tryggja að minnsta kosti 2 metra á milli þeirra sem eru ekki í nánum tengslum.".

Tekið héðan.

Það verður því að öllum líkindum skilgreiningaratriði hvers kyns rekstur er í Ásmundarsal.  Er það verslun með listmuni, eða eitthvað allt annað?

En það er eiginlega eðlilegt að gera þá lágmarkskröfu að lögregla geti vitnað rétt í reglugerðir sem hún hyggst beita vegna hugsanlegra brota.

Það hlýtur líka að vekja spurning hvað lögregla ætli að gera varðandi brot "Sóttvarnartroikunnar" við skipulagningu á blaðamannafundi?

Ekki ætti að vanta ljósmyndir sem sönnunargögn þar.

En líklega er "troikan" sorgmædd yfir því að hafa ekki farið að eigin tilmælum.

 


mbl.is Tilkynna hvort Ásmundarsalur verði sektaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafalvarleg mistök lögreglu

Það eru grafalvarleg mistök hjá lögreglu að birta upplýsigar með þessum hætti.  Við verðum að vona að afsökunarbeiðni lögreglunnar dugi og engin fari að krefjast afsagnar lögreglustjóra, eða þess að einhverjir starfsmenn verði látnir taka pokann sinn.

En við verðum líka að vona að við eigum ekki eftir að lesa tilkynningar frá lögreglunni, s.s. að fimm hafi verið teknir undir áhfrifum við akstur, þar á meðal forstjóri stórfyrirtækis.

Nú eða að lögreglan hafi verið kvödd að heimili þekkts fjölmiðlamanns vegna heimilisofbeldis.

Slíkar upplýsingar eiga ekkert erindi til almennings. 

Við verðum líka að vona að það komi ekki í ljós að "stjórnmálaskoðanir" hafi orðið þess valdandi að þessar upplýsingar rötuðu í tilkynningu lögreglu á aðfangadag.

Að þessu sögðu, og með von um að lögreglan bæti sig, á ég erfitt með að vera lögreglunni reiður yfir þessum mistökum.

Upplýsingar sem þessar leka á einhvern hátt út fyrr eða síðar.  Fjölmiðlafólk á sér "heimildamenn" og fyrr en varir eru atburðir sem þessi gjarna á allra vörum, þó óstaðfestir séu.

Að því leiti er ekki slæmt að þetta hafi allt komið fram - strax.

 

 

 


mbl.is Segja mistök að hafa upplýst um ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóttvarnir, faðmlög, kirkjusókn, ábyrgð og afsagnarkröfur

Það gengur mikið á í "sóttvarnarmálunum þessi dægrin. Skammt stórra högga á milli. 

Fjármálaráðherra gripinn í veislu/gallery/verslun þar sem eitthvað virðist hafa skort upp á viðeigandi sóttvarnarráðstafanir.

Kaþólikkar á Íslandi verða uppvísir að því að telja guð voldugri en "sóttvarnartroikuna" og hlýða kalli hans til messu.

Ég get þó ekki annað en velt því fyrir mér, hvort að þar hafi verið fleiri en 5 einstaklingar á hverja 10 fermetra, eins og mér hefur skilist að sé leyft í verslunum.  En ég hef enga hugmynd um hvað Landakotskirkja er stór.

Það sama gildir reyndar um "galleryið" sem Bjarni var "böstaður" í.  Er "gallery" eitthvað meira en venjuleg verslun?

Hvað er "galleryið" stórt og þýðir 40 til 50 manns að það hafi verið fleiri en 5 á hverja 10 fermetra?

Skyldi einhverstaðar í miðbæ Reykjavíkur hafa verið fleiri en 5 einstaklingar á 10 fermetra svæði á Þorláksmessu?

En "hinir vammlausu" eru líklega fleiri en oftast áður.

Birti hér mynd sem ég rakst á seint í gærkveldi þegar sem ég var að lesa Íslenskar fréttir.

Á myndinni má sjá Katrínu Jakobsdóttur faðma grímulausa konu (sem að ég best veit er ekki í "jólakúlunni" hennar.  Sigurður Ingi stendur þar grímulaus hjá, líklega í meters fjarlægð.  Myndin er "tekin að láni" frá mbl.is, ljómyndari er Eggert Jóhannesson.  Hún er birt hér án leyfis og verður fjarlægð sé þess óskað. (sendið email til tommigunnars@hotmail.com).

Ef til vill er "sóttvarnartroikan" búin að "missa salinn". 

En ég held að það sé ljóst að "hinir vammlausu" hafa nóg að sýsla þessa dagana.

Kata fadmar mbl.is eggertjohannesson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.S. Ekki kæmi mér á óvart ef að rakningarteyminu tekst að rekja smit til akkúrat samkomanna í kaþólsku kirkjunnar og "gallerysins".  Þó hafa líklega þeir sem þar hafa verið, komið víða við á undanförnum dögum.


mbl.is Málið skaði traust milli ríkisstjórnarflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Þá eru jólin komin, einu sinni enn. Dimmur, en góður tími, þar sem (skert) samvera og vinátta eiga sviðið. 

Reyndar tekur matur og drykkur æ meira pláss, og segja má að margir "blóti" jólin. 

Það er reyndar (eins og ég hef oft skrifað hér áður) einn stærsti kosturinn við jól, það er að segja orðið sjálft.

Það er allra og getur staðið fyrir ótal mismunandi atriði.

Það tilheyrir heiðni, það er ein heilagasta hátíð kristinna og trúleysingjar eins og ég eigum auðvelt með að tileinka okkur jólin, enda nokkurn veginn á sólhvörfum, sem eru alltaf tímamót.

Ég óska öllum nær og fjær, gleðilegra jóla og vona að þeir njóti þeirra í friði og spekt.

 

 


Flugeldasýningar á aðfangadag

Ég fór óvenjuseint á fætur í morgun.  "Væbblaðist" um, undirbjó matseldina og drakk kaffi.

Fór óvenjuseint á netið þennan morgunin, enda vaninn sá að það eru ekki margar né miklar fréttir á aðfangadag.  Þær snúast um færð og "fílgúd", messur og matseld.

En loksins þegar ég dreif mig á netið blasti við hver "bomban" á fætur annari.

Búið að semja í "Brexit", Kári Stef og Þórólfur allt að því komnir í hár saman yfir því hverjum datt í hug að ræða við Pfizer, og síðast en ekki síst, Bjarni Benediktsson í "hörkupartýi" í miðjum faraldri.

Það kemur einnig fram í fréttum að þar hafi flestir haft áfengi um hönd. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru sumir einstaklingar svo óforskammaðir að þeir föðmuðust.

Þannig að ekki vantaði fréttirnar.

Ekki dettur mér í hug að hnýta í Bjarna fyrir að hafa verið þarna.  Ég hefði ábyggilega verið þarna sjálfur - ef aðeins mér hefði verið boðið.

En ég er ekki fjármálaráðherra, né formðaur stjórnmálaflokks, hvað þá að ég hafi verið að hvetja almenning til að gæta ítrustu varúðar í sóttvörnum.  Ég hef farið allra minna ferða án þess að óttast "veiruna" um of.

Allt þetta kann auðvitað að vera skýringin á því að engin hefur boðið mér í partý lengi.

Það mátti reyndar einnig lesa í fréttum að duglegur "kóvídetectiv" hefði tilkynnt samkvæmið til lögreglu og tekið fram að fjármálaráðherra væri staddur í samkvæminu í tilkynningunni.

Það er hollara fyrir alla Íslendinga, ráðherrar meðtaldir, að gera sér grein fyrir því að fylgst er með þeim.

Þannig er reyndar staðan víðast um heim, og boðar okkur engan fögnuð.

En það er, í það minnsta í mínu minni, langt síðan aðfangadagur hefur verið jafn fréttaríkur.

 

 

 


mbl.is Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirséður ófyrirsjáanleiki

Það getur verið snúið að ná samningum og það getur verið jafn snúið að koma orðum að því sem gerist við samningaborðið.  Hvað þá að upplýsa um hvaða afleiðingar samningar geta haft, nú eða ef samningar nást alls ekki.

Eftirfarandi setning úr viðhengdri frétt fékk mig til að kíma sem veitir svo sem ekki af á þessum síðustu og verstu.

"Sam­kvæmt frétt AFP tekst með þessu að forða ófyr­ir­sjá­an­leg­um efna­hags­leg­um af­leiðing­um sem fyr­ir­séðar voru ef aðlög­un­ar­tíma­bil­inu lyki án sam­komu­lags."

Skyldu einhverjar fyrirséðar afleiðingar sem ekki er hægt að sjá fyrir hverjar verða af hugsanlegum samningum?

Frett mbl.is ofyrirsjanalega  fyrirsedar


mbl.is Komið að úrslitastund vegna Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við núverandi kringumstæður ætti Ísland að kljúfa sig frá "Sambandinu" og opna landamærin

Það má deila um hvort að "tvöfalda bítið" í skimunum sé hin "eina rétta" aðgerð í landamæravörslu gagnvart veirunni, en hún er sú sem er í notkun og sjálfsagt að notfæra sér þá möguleika sem hún gefur umfram aðrar.

Því ætti Ísland án hiks að opna landamæri sín gagnvart öllum þjóðum, Bretlandi sem öðrum.

Slagorðið ætti að vera "Komi þeir sem koma vilja".

Með tvöföldu skimuninni ætti varla að skipta máli hvaðan ferðalangar eru að koma.

Það hafa að ég best veit, enda varla nokkur ríki orðið "smithærri", eða orðið verr úti úr "veirunni" en ríki innan "Sambandsins" og Schengen, s.s. Belgía.

Því ætti Íslendingum að vera mögulegt að taka við ferðalöngum hvaðan sem er úr heiminum, ef þeim finnst mögulegt að taka við ferðalöngum t.d frá Belgíu.

Ef ástæða hefði verið til að banna komur einstaklinga frá einhverjum löndum, væri það frá löndum s.s. Belgíu, Spáni, Ítalíu.

Hvað margir vilja koma, eða hvort verður um einhver flug að ræða er erfitt að spá um.  En það ætti varla að skaða að tilkynna að landamæri Ísland séu opin - öllum. 

Auðvitað dregur 5. daga sóttkví úr áhuganum, en því minni ástæða til að banna einstök lönd.

Það er nákvæmlega engin ástæða til að "hanga í skottinu" á "Sambands" ríkjunum. 

Atburðarás undanfarinna daga og mánuða sýnir að þau fara fram, algerlega eftir því sem þeim dettur í hug í það og það skiptið.

Án samráðs.

Löngu tímabært að Íslensk stjórnvöld taki ákvarðanir á eigin forsendum í málum sem þessum.


mbl.is Bretar fá ekki að ferðast til Íslands eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður notaður til að fá almenning til að hlýða?

Það er óneitanlega fróðlegt að lesa frétt RUV frá því á sunnudag.. 

Þar segir m.a.:

"Kári telur því enga ástæðu til að grípa til svipaðra aðgerða og önnur lönd hafa gert í dag og hann grunar að breska ríkisstjórnin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin séu að nýta þetta veiruafbrigði til að hvetja fólk og önnur lönd að fara varlega um jólin. „Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu veiruafbrigði og ættum ekki að banna fólki að fljúga frá Bretlandi né öðrum löndum."

Síðar í sömu frétt segir:  "Kári telur því enga ástæðu til að grípa til svipaðra aðgerða og önnur lönd hafa gert í dag og hann grunar að breska ríkisstjórnin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin séu að nýta þetta veiruafbrigði til að hvetja fólk og önnur lönd að fara varlega um jólin. „Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu veiruafbrigði og ættum ekki að banna fólki að fljúga frá Bretlandi né öðrum löndum.“"

Þannig að Kári Stefánsson telur ástæðu til að ætla að verið sé að kynda undir hræðslu almennings án mikillar ástæðu.

Að stjórnvöld séu að kynda undir "hræðslu" til að fá almenning til að hlýða - yfir jólin.

Hvað segir það okkur?  Trúum við Kára?

Eða trúum við honum og öðrum "spámönnum" aðeins ef skoðanir þeirra styrkja þá trú sem við höfum haft fyrir?

Hver hefur rétt fyrir sér?

P.S. Bæti hér við yfirlýsingu frá CDC um hið "nýja afbrigði",  sem finna má hér. CDC tekur eins og oft áður varlega til orða, en telja ekki ástæðu til að óttast hið nýja "afbrigði".  Það styður það sem Kári Stefánsson hefur haldið fram.

 


Þegar atvinnugreinar losna úr helgreipum einokunar og hins opinbera

Það er líklegt að margir muni ekki hvernig var umhorfs á Íslenskum áfengismarkaði hvað varðar innlenda framleiðslu, fyrir t.d. 35. árum síðan.

Framleiðslan helgaðist af Brennivíni, Hvannarótarbrennivíni, Kláravíni og nokkrum tegundum til víðbótar sem ÁTVR þóknaðist að framleiða.  Eitthvað var rembst við að flytja út og meira að segja hannaðr miðar á flöskurnar sem voru mun meira aðlaðandi en þeir sem brúkaðir voru á heimamarkaði.

Heima fyrir þótti það goðgá að hafa eitthvað heillandi við framleiðsluna.

Síðan fluttust málin hægt og sígandi í annan farveg.  Mig minnir að "Icy" hafi verið framleiddur í Borgarnesi um miðjan 9unda áratug síðustu aldar.  Framleiðsla ÁTVR var svo seld snemma á þeim 10unda að ég tel.

Stóra stökkið var svo þegar bjórinn var loks leyfður 1. mars 1989.  Þá fóru framleiðendur eins og Ölgerðin og Viking brugg á fulla ferð.

En vegna sölufyrirkomulags var engin leið að smærri framleiðendur hæfu starfsemi.

Þetta hefur sem betur fer breyst.

Nú er svo komið að brugghús á Íslandi teljast í tugum og veita erlendum aðilum harða samkeppni.  Brugghús á landsbyggðinni hafa ekki síst vakið athygli og náð vinsældum.

"Brennd" vín eru sömuleiðis framleidd hjá fjölda fyrirtækja og framleiðsla á vínanda úr mysu er hafin.

Framþróun hefur verið gríðarleg.

Viðtökur innanlandsmarkaðar hafa verið góðar og nú má kaupa Íslenskan bjór og einnig sterk vín í ótal löndum og þau hafa unnið til fjölda verðlauna.

Eftir hæga byrjun hefur þessi iðnaður sprungið út á undanförnum áratug.

En fyrst þurfti hann auðvitað að losna úr helgreipum einokunar og "drakónískra" laga hins opinbera.

Sem betur hafðist það í gegn.

Nú þegar Steingrímur Sigfússon er að hverfa af Alþingi, hverfur líklega síðasti þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að leyfa sterkan bjór á Íslandi. 

En hann átti býsna mörg skoðanasystkyn og framan af voru þau í meirihluta.

Líklega má finna fleiri atvinnugreinar, þar sem ekki veitir af frelsisvindum.

 


mbl.is Nýr ævintýralegur bjór frá Ölverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband