Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Þar sem vandamálin hverfa

Einn einn andstæðingur Putins, forseta Rússlanda "hverfur". Myrtur í alfaraleið. Árásarmannana er leitað.

Þetta er ekki fyrsti andstæðingur Putins sem "hverfur".

En auðvitað er ekki vitað hver myrti Boris Nemtsov, og satt best að segja er það ekki mjög líklegt að það upplýsist.

Þó er það auðvitað ósannað að Putin hafi nokkuð með morðið að gera. Vissulega hefur Moskva og Rússland sinn skerf af glæpamönnum og sálsjúkum morðingum eins og aðrir staðir, jafnvel heldur ríflegri.

En þær fregnir að Putin ætli sjálfur að "stjórna" að vera höfuð rannsóknarinnar á þessu pólítíska morði, segir okkur allt sem þarf, um hvernig ríki Rússland er.

Að forseti hafi þannig afskipti og "yfirumsjón" með rannsókn á morði pólítísks andstæðings, á sér líklega fá fordæmi, nema í Sovétríkjunum.

Að valdi forseta og löggæslu sé blandað saman á þennan máta, sýnir hvar valdið "kemur saman" í Rússlandi.

Í hvers hendi þræðirnir liggja.

P.S. Eftir því sem sagt er hafði Nemtsov verið að vinna að birtingu sannana um hvernig Putin og Rússland stjórna "aðskilnaðarsinnum" í Ukraínu, og í raun stríðinu þar.

 

 

 

 


mbl.is Boris Nemtsov skotinn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eurolögin .... á föstudegi

Hér er horft á Eurokrísuna með tónlistina að vopni. Eins og flestir vita líklega hefur gengið all nokkuð á í Evrópu, ekki síst á Eurosvæðinu undanfarnar vikur.

Þar hafa "aðalhlutverki" ekki hvað síst verið í höndum, Grikkja, Þjóðverja, Hollendinga og svo koma Rússar líka við sögu.

Ef ég hef skilið rétt eru þessi tvö myndbönd ættuð frá Hollandi og Þýskalandi.

Smá uppplyfting á föstudegi.

Bæði myndböndin eru með Enskum texta, en annars er þetta mikil "fjölmenning".

 


Þegar ríkið átti bankana

Undanfarnar vikur hefur verið deilt um hvort að ríkið hafi á einhverjum tímapunkti átt "bankana", það er að segja Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka.

Svo langt gekk það að fyrrverandi fjármálaráðherra virtist ekki kannast við að ríkið hefði átt alla bankana þrjá.

Ég var nú reyndar að leita að allt öðru þegar þessi texti kom upp í leit hjá mér. En hann ætti að taka af allan vafa um hvernig litið var á eignarhald bankanna í maí 2009.

"... marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar."

Er ekki full ástæða til þess að rannsaka einkavæðingu þessara ríkisbanka frekar, eins og Brynjar Níelsson, Björn Valur Gíslason og fleiri hafa lagt til?

P.S. Þeir sem vilja lesa textann í upphaflega skjalinu, finna það hér.

 

 


Splundruð stjórnmál, en áframhaldandi sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Staða stjórnmálaflokka á Íslandi er venju fremur splundruð, ef svo má að orði komast. Sjálfstæðisfokkurinn ber enn þá höfðu og herðar yfir aðra flokka, en þó er staða hans veikari en því sem næst alltaf áður.

En það er erfitt að segja hvað kæmi út úr stöðu sem þessari, ef hún yrði niðurstaða kosninga.

Annars vegar er "Reykjavíkurmynstur" í spilunum, það er að segja samstjórn, Betri framtíðar, Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata. Þá undir forsæti Guðmundar Steingrímssonar sem stærsta flokksins.

Aðrir möguleikar á þriggja flokka stjórnum, undir forsæti Sjálfstæðisflokks, með tveimur af hinum flokkunum. Til dæmis Samfylkingu og Bjartri framtíð eða Vinstri grænum og Pírötum.

Slíkt kynni að ráðast af skiptingu sem yrði á þingsætum.

Sé skipting eins og þessi niðurstaðan, myndi ég telja Framsóknarflokkinn, ólíklegastan til að setjast í ríkisstjórn, en þó eru auðvitað aldrei hægt að fullyrða um niðurstöður stjórnarmyndunarviðræðna.

En niðurstaða sem þessi sýnir fyrst og fremst hve "splundruð" Íslensk stjórnmál eru orðin, og hve illa stjórnarandstöðuflokkunum gengur að ná til kjósenda. Jafnframt sýnir hún að ríkisstjórninni, gengur það ekki of vel heldur, en það er öllu hefðbundnara á þessum tímapunkti kjörtímabils.

Og ekki er útilokað að nýir flokkar bjóði fram fyrir næstu kosningar.

 

 


mbl.is 36,4% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver afhenti hverjum hvað?

Það hefur all nokkuð verið fjallað um hnignun Íslenskra fjölmiðla. Mér sýnist þessi atburður og frásagnir af honum styðja það all nokkuð.

Geir og ObamaPersónulega verð ég að segja að ég tek undir með mbl.is hér. Hef alltaf heyrt af því að sendiherrar afhendi trúnaðarbréf sín, en ekki öfugt.

En all margir sem starfa hjá "fjórða valdinu", virðast ekki hafa vald á einu eða neinu, og allra síst á Íslenskri tungu, eða almennri skynsemi.

Það er vert að hafa það í huga þegar fjölmiðlar eru lesnir.

 


mbl.is Geir hitti Obama í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

97 ára afmæli sjálfstæðis

Eistland fagnar 97 ára afmæli sjálfstæðis síns í dag. Þann 24. febrúar 1918, lýstu Eistlendingar yfir sjálfstæði sínu. Þá var birt "Manifesto to the Peoples of Estonia".

Hið nýstofnaða lýðveldi þurfti að berjast fyrir tilveru sinni frá upphafi. Gegn Sovéskum her og einnig gegn vopnuðum flokkum Þjóðverja (Freikorps og Baltishce Landeswehr).

En sigur hafðist, þó að tæpt stæði á stundum, og mikilvæg aðstoð barst frá bæði Bretum og Finnum.

En Eistland hefur enn sem komið er notið þess að vera frjáls þjóð, í minna en helming tilveru sinnar.

17. júni 1940 var Eistland hernumið af Sovetríkjunum. Árið eftir var landið síðan hernumið af Þjóðverjum, og svo aftur af Sovétríkjunum árið 1944.

Hernáminu lauk ekki fyrr en Eistland endurheimti sjálfstæði sitt 1991, þann 21. ágúst.

Endurheimt frelsins var án blóðsúthellinga, þó að tæpt stæði. En hernámið, hvort sem rætt er um hernám Þjóðverja, eða fyrra eða seinna hernám Sovétríkjanna kostaði ótrúlegan fjölda mannslífa.

Það hefur oft verið sagt, að engin fjölskylda hafi verið ósnert eftir þær hörmungar.

Í Eistlandi starfaði í seinni heimstyrjöld og lengi eftir hana "frelsisher", svo kallaðir "Skógarbræður" (Metsevennad). Talið er að sá síðasti af þeim hafi látið lífið "á flótta", árið 1978.

En í dag fagna Eistlendingar, þó að vissulega séu skuggarnir sem nágranninn kastar, sé stærri nú, en hefur verið um hríð.

 

 


Eðlilegur skortur á samúð?

Það er í sjálfu sér eðlilegt að Grikkir njóti lítillar samúðar hjá fátækustu ríkjum Eurosvæðisins.

Frá þeirra sjónarhóli eru Grikkir einfaldlega þjóð sem hefur tekið of mikil lán, lyft upp lífsstandard en geta ekki staðið undir lífsstandarninum, eða lánunum.

Og þeir hafa rétt fyrir sér.

Og hví skyldu þessar fátæku þjóðir vera neyddar til þess að leggja fé í björgunarsjóði svo að Grikkir og aðrar ofurskuldsettar þjóðir geti haldið uppi lífsstandard sem er mun betri en í þessum sömu þjóðum?

Vegna þess að þær eru í sama "Sambandi" og Grikkland og aðrar ofurskuldsettar þjóðir?

Vegna þess að þær nota sama gjaldmiðil og Grikkland og aðrar ofurskuldsettar þjóðir?

Og svo vilja Grikkir ekki borga þá peninga sem þessar fátæku þjóðir hafa lagt fram til baka.

Er einhver heil brú í þessu?

Fátækar þjóðir í A-Evrópu hafa verið frekar ánægðar með "Sambandið". Það hefur byggst á tvennu. Þær hafa fengið mun hærri fjárhæðir frá "Sambandinu", en þær hafa lagt fram og svo hafa íbúar þessara landa verið afar ánægðir með að geta sótt vinnu (og jafnvel bætur) hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu.

En að mörgu leyti er þessi "skortur á samúð" hornsteinn þess sem er að á Eurosvæðinu. Þar eru saman lönd sem eru svo ólík, að þau eiga í mestu vandræðum meða að deila gjaldmiðli. Hvað þá að þau finni til nokkurar samkenndar.

Sum eru fátæk, sum eru með ríkustu löndum veraldar, sum skulda býsnin öll, önnur varla nokkuð, sum fylgja strangri aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum, önnur hafa ekki skilað fjárlögum í jafnvægi síðan á áttunda áratug síðustu aldar.

Og þá að vissulega séu ströng skilyrði fyrir því að komast í myntsamstarfið, eru ekki mikil viðurlög fyrir því að brjóta skilyrðin, þegar inn er komið.

Fyrstu ríkin til að gerast brotleg voru Þýskaland og Frakkland og viðurlögin voru engin.

Reyndar myndi Eurosvæðið í heild, ekki uppfylla skilyrði til þess að vera í Eurosvæðinu nú, en það er önnur saga - og heldur sorglegri. Skuldir Eurosvæðisins sem heildar hefur sjaldnast verið innan marka.

En þannig er haldið áfram, frá neyðarfundi til neyðarfundar og ekkert er í raun leyst. En allir eru ánægðir eftir fundinn.

Æ fleiri eru þeirrar skoðunar að eina lausnin sé "Sambandsríki", með tilheyrandi "samruna" á valdi, skuldum og fjárlagavaldi.

En fyrir því er engin pólítískur vilji, hvorki hjá stjórnmálastéttinni eða almenningi.

Og því er stefnan mörkuð, frá neyðarfundi til neyðarfundar.

 

 


mbl.is Hafa litla samúð með Grikkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fram á mánudag eða miðjan júni?

Nokkurs konar málamiðlun náðist, eins og áður. Báðir aðilar gáfu eftir, þó sýnist mér að Grikkir hafi þurft að hopa meir.

En það er ekki óeðlilegt í sjálfu sér. Þó að sjálfsagt sé að virða "Grískt lýðræði" geta þeir ekki krafist þess að aðrir borgi kostnaðinn við það.

En það er ekki eins og "Sambandið" og Eurosvæðið sé saklaust í þessum efnum heldur.

Til þess að bjarga sjálfu sér, samþykktu þeir björgunaraðgerðir fyrir Grikkland árið 2010, sem engin von var til þess að Grikkir gætu staðið undir.

Grikkland hefði með réttu átt að "verða gjaldþrota" þá. En Euroríki verða ekki gjaldþrota, eða hvað? Þau eru bara hengd í skuldaklafa.

En "samkomulagið" sem náðist á föstudag, er engin lausn á vanda Grikklands, né Eurokreppunni.

Í raun er það aðein frestun fram á mánudagskvöld, en það er sá frestur sem Grikkjum var gefin til að leggja fram "umbótatillögur" sínar.

Verði þær samþykktar, eru að heldur engin lausn á skuldavanda Grikkja, heldur aðeins samkomulag um að fresta því að "díla" við hann í fjóra mánuði, eða fram í miðjan júni.

En það vill svo til að í júli gjaldfalla stórar afborganir hjá Grikklandi, sem líklegt er að þeir muni eiga í erfiðleikum með. Það er því líklega hæfileg svipa á þá, að haga sér vel

Og þannig gengur það, "dósinni" er sparkað fram veginn, eins og henni hefur verið gert undanfarin 6 ár. Ef til vill gengur það upp, ef til vill ekki.

Ef ekki, þá eru það alltaf neyðarfundir sem má halda, eins og gert hefur verið undanfarin 6 ár. Og alltaf leysist kreppan, en meira að segja Össur Skarphéðinsson er búinn að gefast upp á því að segja að euroið snúi til baka sterkara en áður.

Það hefur það enda ekki gert.

Eurosvæðið hefur verið í vaxandi erfiðleikum, verðhjöðnum nær tökum á æ fleiri þjóðum svæðisins og þegar hefur verið tilkynnt að gripið verði til umfangsmikillar peningaprentunar.

Það hefur þegar valdið verulegu gengissigi, sem vissuleg kemur til með að hjálpa mörgum ríkjum Eurosvæðisins, en undirstrikar einnig hve misjafnlega ríkin eru á vegi stödd, enda hafa sum þeirra lítið sem ekkert með slíka örvun að gera.

 

 


mbl.is Þurfa að skila tillögum á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldmiðlastríðið: Grípa Danir til gjaldeyrishafta?

Það vill engin þjóð hafa sterkan gjaldmiðil þessa dagana. Frekar keppast þjóðir við að lækka gengi gjaldmiðla sinna, til að auka samkeppnishæfi útflutningsgreina.

Ein af þeim þjóðum sem hafa átt í vandræðum með að halda aftur af styrkingu gjaldmiðils síns, þegar fjárfestar hafa leitað skjóls frá euroinu, er Danmörk.

Mikill þrýstingur myndaðist á Dönsku krónunar, og virtust margir vilja veðja á að Danski seðlabankinn gæti ekki varið festingu krónunnar við euroið.

En nú hafa Danir ymprað á því að nota, það sem stundum hefur verið kallað ígildi kjarnorkusprengjunnar í gjaldmiðlastríðum.

Gjaldeyrishöft.

euroDKK 2014 2015Það var ekki að sökum að spyrja, gengi Dönsku krónunnar féll skarpt.

Það gerir það í sjálfu sér mjög ólíklegt að Danir þurfi að grípa til gjaldeyrishafta. Ógnin ein virðist hafa dugað.

En það sýnir hvað "spennan" á gjaldeyrismörkuðum er mikil. Og hve lítið þarf til að hún bresti.

En það sýnir líka hvað flóttinn úr euroinu setur mikinn þrýsting á aðrar þjóðir.

Athugið að línuritið sýnir hreyfingar yfir gjaldmiðil, sem er "fasttengdur" hinum.

P.S. Það er verulega ótrúlegt að mínu mati, að Danir grípi til gjaldeyrishafta, en það hefur þó verið talið nauðsynlegt að láta markaði vita, að þeir hugleiddu þann möguleika.

 

 

 

 


Einn neyðarfundurinn enn á Eurosvæðinu

Ef það er eitthvað sem starfsmenn "Sambandsins" hafa öðlast reynslu í á undanförnum árum,er það skipulagnin neyðarfunda fyrir Eurosvæðið.

Þeir eru haldnir með reglulegu millibili.

Svo hefur gjarnan tíðkast að líta svo á að Eurokreppan hafi verið leyst. Alveg þangað til þörf er á nýjum neyðarfundi.

Neyðarástandi nú, má rekja beint til ákvarðanna sem voru teknar árið 2010. Þá var ákveðið að lána Grikkjum háar fjárhæðir, undir forystu "Þrenningarinnar", Alþjóða gjaldeyrisjóðsins, Seðlabanka Eurosvæðisins og "Sambandsins".

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var talinn mjög mikilvægur, til að "Utanaðkomandi" stimpil á málið.

En í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins voru miklar efasemdir um áætlunina, svo ekki sé sterkara til orða tekið. Það hefur komið skýrt fram í fundargerðum sjóðsins sem var lekið.

Þar sagði fulltrúi Sviss m.a.:

We have “considerable doubts about the feasibility of the program…We have doubts on the growth assumptions, which seem to be overly benign. Even a small negative deviation from the baseline growth projections would make the debt level unsustainable over the longer term…Why has debt restructuring and the involvement of the private sector in the rescue package not been considered so far?”

Fulltrúi Indlands sagði:

The scale of the fiscal reduction without any monetary policy offset is unprecedented…(It) is a mammoth burden that the economy could hardly bear. Even if, arguably, the program is successfully implemented, it could trigger a deflationary spiral of falling prices, falling employment, and falling fiscal revenues that could eventually undermine the program itself. In this context, it is also necessary to ask if the magnitude of adjustment…is building in risk of program failure and consequent payment standstill…There is concern that default/restructuring is inevitable.”

Og svona mætti lengi halda áfram. En fulltrúar Evrópusambandsríkjanna keyrðu málið í gegn.

Svo leyfði Christine Lagarde sér að segja 2013:

“In May 2010, we knew that Greece needed a bailout, but not that it would require debt restructuring…We had no clue that the overall economic situation was going to deteriorate as quickly as it did.

En það er einn meginmunur á stöðunni 2010 og stöðunni nú. Þó að Grikkir séu í sömu ef ekki meiri vandræðum, er eignarhaldið á skuldum þeirra allt annað en var.

Nú er það að mestu leyti í eigu opinberra aðila, IMF, Seðlabanka Eurosvæðins og björgunarsjóða Evrópusambandsins.

Fjármálastofnunum (á Eurosvæðinu flestar, sérstaklega Þýskalandi og Frakklandi) var bjargða (þó að þær þyrftu að þola klippingu) en áhættan flutt yfir á skattgreiðendur í "Sambandslöndunum".

Og þar stendur euroið í sparibauknum.

Fæstir stjórnmálamannanna telja sig geta útskýrt fyrir kjósendum sínum hvers vegna þeir eigi að borga skatta sem eru svo að hluta til notaðir til að fella niður skuldir Grikkja.

En, það er þó ekki nema hluti sannleikans, því peningarnir voru að stærstum hluta notaðir til að bjarga fjármálastofnunum á Eurosvæðinu. Sem höfðu gjörsamlega ábyrgðarlaust lánað Grikkjum, allt of mikið fé, að hluta til undir hugsunnin, "euro er euro".

En hefðu fjármálstofnanirnar verið látnar falla, hefði það ógnað fjármálakerfi Eurosvæðisins, jafnvel "Samandsins" alls, og euroið sjálft hugsanlega sprungið.

Besta lausnin var því að lána Grikkjum, og "leysa kreppuna". Þangað til næst.

En það er ekki að undra þótt að Þjóðverjar vilji sýna Grikkjum fulla hörku. Þeir eru eðlilega með stærstan hlutan í björgunarsjóðum "Sambandsins" og þeir eiga einnig stærstan hluta í Seðlabanka Eurosvæðisins.

En fái Grikkir niðurfellingu verður tap björgunarsjóðanna mikið, en fari þeir í þrot verður tapið ekki minna, og þá mun Seðlabankinn einnig tapa gríðarlegum fjármunum í gegnum veðlán og neyðarlínur til Grískra banka og Gríska seðlabankans.

En það kann að vera "pólítískt ódýrara" að sýna hörku og tapa fé, en að sýna linkinnd og tapa fé.

Því ekki má svo gleyma að AfD, nýi stjórnarandstöðuflokkurinn í Þýskalandi virðist styrkja sig með hverjum deginum.

Þeir eru hlynntir "Sambandinu", en vilja leggja euroið skipulega niður.

En í vaxandi mæli virðist sem að Þjóðverjar séu að missa stjórn á ferlinu, en sitja samt sem áður uppi með stærstan hluta reikningsins.

Það er líklega hlutskipti sem Þýskir kjósendur eru ekki of sælir með.

 


mbl.is Mikið í húfi fyrir fundinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband