Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020

Þegar stórt er spurt: Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?

Enn og aftur er Polanski í miðju deilu sem þó nær yfir mun stærra svið.

Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?

Nú er auðvitað umdeilanlegt hvað er góð list og allt það, og stundum má efast um sekt viðkomandi einstaklinga, en það er þó varla í tilfelli Polanski´s.

En hvers vegna hefur hið hámenningarlega og lýðræðislega Frakkland neitað að framselja hann?  Er það vegna þess að einhver önnur lögmál gilda um listamenn en aðra "dauðlega" einstaklinga? Er það ef til vill vegna þess að í Frakklandi þess tíma þótti "framferði" Polanskis nokkuð sjálfsagt mál?

Ekki veit ég svarið við því.

Er Bíó Paradís sem sýnir nýjust mynd Polanski´s að leggja blessun sýna yfir að "nauðgari" gangi laus?  Er bíóið að kynda undir einhverri "nauðgunarmenningu"?

Ekki veit ég svarið við því.

Er Reykjavíkurborg, sem styrkir Bíó Paradís, að leggja blessun sína yfir það að kvikmyndir "nauðgara" séu sýndar (og þá niðurgreiddar af Reykjavíkurborg) í Reykjavík?

Ekki veit ég svarið við því.

Eru leigusalar Bío Paradísar samábyrgir fyrir því að verið sé að sýna myndir "nauðgara" í húsakynnum í þeirra eigu? (Varð eiginlega að koma þessu að vegna fréttanna undanfarna daga).

Ekki veit ég svarið við því.

Er mögulegt að skilja á milli höfunda og verka þeirra eða ekki?

Um það hefur oft verið deilt undanfarin ár.

Það nægir að nefna nöfn eins og Woody Allen, Michael Jackson, Kevin Spacey, Bill Cosby og já Roman Polanski.

Þó er munurinn sá að af þessum einstaklingum hafa aðeins Bill Cosby og Roman Polanski verið sakfelldir, alla vegna eins langt og minni mitt nær.

En ég viðurkenni fúslega að hafa notið "listaverka" sem þessir einstaklingar hafa komið nálægt, jafnvel eftir að viðkomandi hafa verið sakfelldir.

En listamenn hafa einnig legið undir ámæli fyrir pólítískar skoðanir sínar eða "daður" í "óæskilegar" áttir.

Norðmenn hafa til dæmis átt í "erfiðu" sambandi við Hamsun, eftir "samgang" hans við nazista. 

Íslendingar þekkja einnig umræðuna um Gunnar Gunnarsson og Guðmund Kamban. 

Halldór Laxness "lofsaung" kommúnista og hylmdi yfir voðaverkum þeirra. Ættu Íslendingar að taka það með í reikninginn þegar þeir meta skáldverk hans?

Persónulega held ég að hver og einn verði að ákveða allt þetta fyrir sig.

Ég setti inn hér að ofan "ég veit ekki svarið við því", vegna þess að ég tel ekkert eitt svar rétt.

Hér gildir ákvörðun hvers og eins.

Ég hef aldrei átt erfitt með að skilja á milli pólítískra skoðana eða gjörða og "afurða" listamanna.

Ég hef notið mynda Woody Allen, þrátt fyrir ásakanir á hendur honum, ég hef horft á myndir Polanskis þó að ég viti af sekt hans.

Ég les bækur Hallgríms Helgasonar, þrátt fyrir að gefa minna en ekkert fyrir pólítískar skoðanir hans, það truflar mig ekkert við að lesa bækur Einars Kárasonar að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna, og Einar Már Guðmundsson er minn uppáhalds rithöfundur þó að pólítískar skoðanir hans falli ekki að mínum.

Ef svo bæri undir gæti ég alveg hugsað mér að lesa skáldsögu eftir  morðingja.

Og ég veit að Halldór Laxness er í uppáhaldi hjá mörgum þó að þeir telji hann eiga skilið skömm í hattinn fyrir að hafa hylmt yfir voðaverkum kommúnista.

Kastar "pedófílískur" boðskapur leiðtoga vinstrisinnaðra hreyfinga í kringum 1970 og seinna græningja, skugga á þær hreyfingar, eða gerir það að verkum að leiða ætti hjá sér allan boðskap þeirra?

Auðvitað ekki, alla vegna ekki af þeim ástæðum.

En fer best á, eins og í mörgum tilfellum best á að hver ákveði fyrir sig. Sumir ákveða að sniðganga mynd Polanskis, aðrir ganga lengra og sniðganga Bíó Paradís fyrir að veita henni brautargengi.

Aðrir njóta hennar og annara listaverka, burtséð frá öðrum (mis)gjörðum listamannanna.

Ef til vill er best að enda þetta á "c´est la vie".

 


mbl.is Reiði vegna 12 tilnefninga J'accuse
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drífa í hlutunum - Hafa líkurnar á því að Bretland yfirgefi "Sambandið" án samnings hafa minnkað?

Það hafa ýmsir viðrað þá skoðun að það sé ekki klókt af Boris Johnson og ríkisstjórn hans að binda það að aðeins verði gefnir 11. mánuðir til þess að ljúka samningi á milli Bretlands og "Sambandsins" eftir að Breland gengur úr "Sambandinu" þann 31. janúar næstkomandi.

En ég er þeirrar skoðunar að það sé afar klókt af honum.

Hann sendir einföld en skýr skilaboð til "Sambandsins": Við spilum ekki eftir ykkar reglum og taktík lengur.

Annað hvort einhenda menn sér í verkið eða Bretland gengur út án samnings.

Bretland ætlar ekki að taka við löggjöf frá öðrum ríkjum.  Ekki láta dómstól annarra ríkja vera "efsta lagavald", og ekki fara eftir duttlungum "Sambandsins" við samningaborðið.

"Sambandið" og Breskir "aðstoðarmenn" þess hafa haldið Breskum stjórnmálum í gíslingu um all nokkra hríð.

Boris segir ekki lengur.  Breskir kjósendur hjuggu á hnútinn og nú er samhent þing og rikisstjórn við völd í London.

Bretland vill út, og fer út, með eða án samnings.

Ég fagna þessari afstöðu Bretlands.  Það verður án efa erfitt að skilja við "Sambandið" og ýmis vandamál eiga eftir að koma fram, og það verður ekki gert lítið úr þeim.  En til lengri tíma opnar þetta möguleika sem verða til hagsbóta fyrir Breta.

En það er ekki sopið kálið, eins og stundum er sagt. Ég held hins vegar að með Boris Johnson og nýtt þing hafi Bretar hitt á nokkuð rétta blöndu. 

Það er áríðandi að við stjórnvölinn séu einstaklingar sem hafi trú á Bretlandi og getu þess til að standa utan "Sambandsins".

Það vantaði þangað til Boris kom til sögunnar.

En það þarf að vinna rösklega og ljúka málinu. 

Þæfingurinn og "málþófið" undanfarin ár hefur nú þegar kostað Bresku þjóðina risavaxnar fjárhæðir, því hvort sem að menn eru með eða móti Brexit, sorglegt að þurfa að segja að það hafi verið vísvitandi. Flestum sé ljóst að óvissan og þæfingurinn er það versta.

Það þarf niðurstöðu.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr stöðunni, hve fljótt fyrstu fríverslunarsamningarnir koma og hvernig viðræðurnar við  "Sambandið" munu ganga.

En það er rétt hjá Boris að fullveldið er auðlind, en rétt eins og aðrar auðlindir þarf að halda á notkunni af skynsemi.  Það kemur í ljós á næstu árum hvernig Bretum gengur.

En það er líka vert að hugsa um hvernig samningsaðilar eru að taka sér stöðu.  Er rökrétt að fisveiðiréttur sé upp á borðum í viðskiptasamningum? Myndi Íslendingum einhverntíma hugnast að skipta á fiskveiðiréttindum og betri viðskiptakjörum? 

Er rökrétt að samstarf í öryggismálum tengt viðskiptasamningum?  Er rökrétt að ríki taki upp mikið af löggjöf frá öðru ríki til að fá betri viðskiptakjör?

Myndu Íslendingar geta hugsað sér í framtíðinni að taka við einhverri framtíðarlöggjöf frá Bandaríkjunum, í staðinn fyrir betri viðskiptakjör? (Ekki mín tillaga :-)

Með útgöngu Breta úr "Sambandinu" hefst að ýmsu leyti nýr kafli, með tækifærum og hættum, það er mikilvægt að halda vel á spöðunum - fyrir alla aðila.

Dagurinn í dag er tímamótadagur í mörgum skilningi.

P.S. Ég sá að RUV hafði fjallað um Brexit í Kastljósinu, svo að ég ákvað að horfa á það. RUV hefur líklega ekki símanúmer hjá neinum sem lítur jákvætt á útgöngu Breta, enda var talað við Baldur Þórhallsson og Gylfa "Kúbu norðursins" Magnússon.

Hallinn í fjölmiðlum fellst oftar en ekki hvernig er staðið að vali á viðmælendum.

 


mbl.is Fullveldið mikilvægara en tollalaus viðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattheimta Reykjavíkurborgar hlýtur að verða til hækkunar á leiguverði

Nú má sjá í fréttum að rekstur Bíó Paradísar sé í hætttu, vegna yfirvofandi mikillar hækkunar á leigu húsnæðis þess.

Það er reyndar eitthvað á reiki hvað hækkunin eigi að vera mikil, í viðhengdri frétt er talað um ríflega tvöfuldun.  Annars staðar hefur verið talað um þreföldun, ég ætla ekki að dæma um hvort sé rétt.

Ég hef séð talað um þessa hækkun með hálfgerðri "hundablístrutaktík", talað eins og "ljótir kapítalistar" séu að drepa mikilvæga menningarstarfsemi o.s.frv.

Ég ætla ekki að dæma neitt um mikilvægi starfseminnar, hef aldrei komið í Bíó Paradís en hef heyrt vel af henni látið. Góð kvikmyndahús eru að mínu viti gulls ígildi.

En í síðastu færslu talað ég um fasteignaskatta og þar kom fram að fasteignaskattar hafi hækkað um u.þ.b. 50% að raunvirði síðan 2015.

Það er auðvitað að meðaltali, og ég get ekki ímyndað mér að hækkunin á Hverfisgötu sé undir meðaltali, frekar líklegt að hún sé vel yfir meðaltali.

Að sjálfsögu hlýtur slíkt að koma fram í hækkun leiguverðs.  Hvernig í ósköpum væri hægt að komast hjá því?

Eins og kemur svo fram í fréttinni, er núverandi leiguverð rétt um 40% af meðal leiguverði í Reykjavík.

Fasteignaskattar taka ekkert tillit til þess.

Þess vegna hljóta hækkandi fasteignaskattar að leiða til hækkandi leiguverðs. Ekki bara í Bíó Paradís, heldur svo gott sem alls staðar.

P.S. Bæti hér við.  Það kemur fram í frétt hjá RUV að fasteignagjöld hafi hækkað um 80% síðan núverandi eigendur keyptu fasteignina. En það kemur þó ekki fram hvaða ár það var.

En það munar líklega um minna.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Lögðu fram hugmynd um tvöföldun leiguverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru fasteignaskattar í Reykjavík stór hluti af landsframleiðslu?

Það kemur fram í fréttinni að áætlað sé að fyrirtæki á Íslandi greiði 28 milljarða í fasteignaskatta í ár.

Það nemi næstum 1% af landsframleiðslu.

Það kemur einnig fram að Reykjavíkurborg fái í sinn hlut u.þ.b. helming upphæðarinnar, sem nemur þá í kringum 14. milljarða.

Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið, af 10. stærstu, sem ekki hafi breytt álagningu sinni síðastliðinn áratug og leggi á hæsta mögulegan fasteignaskatt á fyrirtæki.

Að fasteignaskattar hafi hækkað um 50% að raunvirði á síðustu 5 árum.

Auðvitað gera sér allir grein fyrir hvar þessi skattlagning endar, úti í verðlaginu og eykur verðbólgu.

En síðan eru eftir fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði og stofnanir.

Hvað skyldi heildarupphæð fasteignaskatta í Reykjavík vera hátt hlutfall af landsframleiðslu?


mbl.is Önnur hver króna rennur í borgarsjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef til vill ekki neitt annað ráð í stöðunni?

Það er auðvitað engin leið að vita hvort að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn, þegar ekki er vitað hverjir sóttu um.

En mér lýst ekkert illa á Stefán í stöðuna, hef raunar ekki á því sterka skoðun.

En er ekki ljóst að RUV hefur gengið fram með slíkum lögbrotum undanfarin ár að stjórn þess sá að ekkert myndi duga nema fyrrverandi lögreglustjóri til að breyta þeirri "vinnustaðamenningu"?

P.S. Svo eigum við auðvitað eftir að sjá hvort að þurfi að borga skaðabætur vegna jafnréttisjónarmiða, en ég vona að svo verði ekki.

Enda miðað við lögbrot RUV undanfarin ár, myndi sú lögreglustjórareynsla trompa flest annað.  Nema auðvitað að kvenkyns lögreglustjóri hafi sótt um.

 


mbl.is Stefán Eiríksson ráðinn útvarpsstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heimasíða kórónuveirunnar", í "rauntíma".

Það er fátt meira rætt þessa dagana en "kórónuveiran" og útbreiðsla hennar.  Vangaveltur um hvert stefni, hvort hún verði að heimsfaraldri og hversu hættuleg hún sé - eða ekki.

Líklega er mikilvægast að allir haldi ró sinni.

Verst væri ef allir þeir sem kenna smá krankleika nú á kvef og flensutímabilinu flykkjast á neyðarmóttökur um víða veröld og hitta þar fyrir á biðstofunni, þá sem raunverulega hafa veikst.

Það er hætt við því, víða um heim, að samkomur og mannfagnaðir muni eiga erfitt uppdráttar á næstu vikum.

En eins og tíðkast á þeim tæknitímum sem við búum á, hefur verið sett upp heimasíða sem sýnir útbreiðslu hennar í rauntíma, eða eins og upplýsingar koma væri ef til vill rétt að segja.

Það er John Hopkins sjúkrahúsið í Bandaríkjunum sem hefur komið henni á fót og má finna hana hér.

 

 

 


mbl.is 106 dánir og yfir 4.500 smitaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hver er raunkostnaðurinn? Hvað er til ráða?

Taflan sem fylgir þessari frétt er um margt fróðleg. Hún sýnir í raun mun frekar en mismunandi hækkanir sveitarfélaga á leikskólagjöldum, gríðarlegan mun á því hvað mismundandi sveitarfélög rukka fyrir þá þjónustu.

Í stað þess að velta því hvort þetta eða hitt sveitarfélagið hafi hækkað gjald fyrir 8 tíma leikskóla, ættu fjölmiðlar að velta því fyrir sér hvers vegna það munar u.þ.b. 50% á því sem það kostar foreldra að kaupa þá þjónustu.

Ekki síður væri fróðlegt ef fjölmiðlar græfust fyrir um hver væri raunkostnaður sveitarfélaga við að veita þjónustuna?

Það liggur í hlutarins eðli að stærri sveitarfélög ættu að geta rekið slíka þjónustu með hagkvæmari hætti, og hafa jafnfram fleiri útsvarsgreiðendur til að jafna byrðina af henni.

En mér er sagt að kostnaðurinn við að hafa eitt barn á leikskóla sé að meðaltali u.þ.b. 300.000 krónur á mánuði.

Ef það er rétt eru foreldrar í Reykjavík t.d. að greiða rétt ríflega 8.5% af raunkostnaði.  Enn minna ef tekið er mið af systkinaafslætti o.s.frv.

Ef 300.000 er rétt upphæð, eru foreldrar hvergi að greiða meira en u.þ.b. 13% af verðmæti þjónustunnar.

Á sama tíma eru mikil vandræði víða um land með að veita þjónustuna án vandræða, tímabundinna lokanna og mikil starfsmannavandræði.

Er ekki augljóst að þjónustan er of lágt verðlögð?

Það er engin ástæða til að hrósa þeim sem eru ódýrir en geta ekki veitt þjónustuna vandræðalaust.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að veruleg hækkun kemur sé illa fyrir þá sem hafa minna á milli handanna, en er ekki betra að þeim verði liðsinnt með öðrum hætti en að hafa þjónustuna svo ódýra, án tillits til efnahags?

Mikið væri fróðlegt ef gerð vær góð úttekt á því hvernig kostnaðurinn er og hvað stór hluti af tekjum mismunandi sveitarfélega fer í að niðurgreiða þessa þjónustu.

Ef leikskóli fyrir hvert barn er niðurgreitt fyrir u.þ.b. 3.000.000,00 á ári (miðað við 11. mánaða dagvist) er ljóst að upphæðirnar eru háar.

Ef til vill þarf að hugsa hvernig kerfið verður best byggt upp og hvernig Íslendingar vilja hafa slíkt kerfi.

Hvernig er samspil leikskóla og "dagmæðrakerfisins"?  Er hægt að byggja þjónustuna upp með öðrum hætti?

Það vakna ótal spurningar, en líklega færri svör.

En eigi að síður hlýtur þetta málefni að vera umhugsunarvert.

Öll útgjöld hins opinbera af þessari stærðargráðu ættu að vera það.

 

 


mbl.is Leikskólagjöld hækkuð þvert á tilmæli Sambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð flugvél - með "samanbrjótanlega vængi".

Það er alltaf ótrúlegt að sjá flugvélar af þessari stærð taka á loft.  Þar sem sonur minn er með ólæknandi flugvéladellu, hef ég eytt nokkrum tíma í kringum flugvelli og þá er jafnan reynt að velja tímann með tilliti til brottfara Boeing 777 og Airbus 380, þannig að tækifæri gefist til að sjá báðar tegundir.

Ég hef síðan flogið með bæði 777 - 2- og 300 og það er ánægjulegt, þó að mitt uppáhald sé Dreamliner.  Enn hef ég ekki náð að fljúga með Airbus 380, og sé það ekki alveg í framtíðinni, þó ég væri meira en til þess reiðubúinn.

En ég vona að ég eigi eftir að ná því að fljúga með 777 X, hún virkar vel á mig.

Það er áhugavert að horfa á myndbandið af hennar fyrsta flugi og sjá hana "slétta út" vængina.  Það mun víst vera haft svo til að hún komist að venjulegum "rana" og ekki þurfi að búa henni sérstakt rými á flugvöllum.

En nú hafa flestar tegundir flugvéla einmitt vængi með svipuðu sniði, en ekki þessa "sléttumöguleika".  En ég er ekki nógu fróður til að segja til um hvers vegna því sniði er ekki haldið fyrir þessa tegund nema á jörðu niðri.

 

 

Það er ástæða til að óska Boeing góðs gengis með þessa nýju týpu af 777, ekki veitir þeim víst af þessa dagana.

P.S. Mér er sagt að hvor hreyfill um sig hafi jafn mikið afl og Soyuz eldflaugin sem skilaði Yuri Gagarin út í geim.


mbl.is Boeing prófaði nýjan risa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sovétið, sagnfræðin, ártölin og landamærin

Það er auðvelt að sjá að það hafi verið umdeild ákvörðun að leyfa Putin að ávarpa gesti minningarathafnar um Helförina.

Því þó að Putin sé Rússi, er hann líka "Sovíetmaður" (homo soveticus), en þá má ennþá finna nokkuð víða, líklega einnig á Íslandi. Sumir vilja meina að "Sovíetmaðurinn" hafi þróast yfir í "Putinmanninn".

En "Sovíetmenn" vilja að sjálfsögðu fyrst og fremst láta minnast þátttöku sinnar í heimstyrjöldinni síðari sem  hetjulegrar framgöngu hins "mikla frelsara". Þeirri ímynd hafa þeir haldið stíft á lofti, og reyndar gerðu Vesturveldin slíkt hið sama lengi vel, til að réttlæta fyrir þegnum sínum samstarf sitt við hina "Sovíesku kommúnista".

Það var á meðan á því samstarfi stóð, sem goðsögninni um "Jóa frænda" (uncle Joe), sem í raun var einn afkastamesti fjöldamorðingja sögunnar, var komið á flot og kommúnistar um víða veröld kynntu undir.

En þó að þátttaka Sovíetríkjanna í Seinni heimstyrjöldinni hafi alls ekki verið án hetjulegrar framgöngu, var hún mun flóknari en svo.

Ef frá er talinn hernaður Japana í Kína, er rökrétt að líta á svo að upphaf þess hildarleiks hafi verið svokallaður "Molotov-Ribbentrop samningur" á milli Sovíetríkjanna og Þýskalands Hitlers.

Með þennan samning að leiðarljósi gerðust Sovíetríki árásaraðili og voru upphafsaðili að hinum Evrópska hluta hildarleiksins.

Með samninginn að leiðarljósi réðust þau inn í Pólland þann 17. september 1939, þann 30. nóvember sama ár inn í Finnland (Vetrarstríðið), 1939-40 hertu Sovíetríkin svo snöruna hægt og rólega að Eystrasaltsríkjunum (sem "Molotov-Ribbentrop samningurinn" hafði "úthlutað" þeim) og tóku þó alfarið yfir um miðjan júnímánuð 1940.

Þeirra tíma "Rússadindlar" litu alltaf svo á að Eistland, Lettland og Litháen hefðu ákveðið af fúsum og frjálsum vilja að ganga inn í Sovíetríkin. Íslenskir kommúnistar voru (rétt eins og segja má um svo gott sem alla kommúnista, hvar sem þeir voru) fylgdu þessari línu og vildu t.d. gera lítið úr venslum Íslendinga og Finna.

Rétt eins og nútíma "Rússadindlar" trúa því að kosningarnar á Krímskaga hafa verið frjálsar og lýðræðislegar.

Sagan á það til að bergmála, enda báðar yfirtökurnar, ef svo má að orði komast, leiknar eftir sömu KGB handbókinni.

En það skiptir vissulega máli til hvaða landamæra er litið þegar talað er um hvað margir ríkisborgarar Sovíetríkjanna létu lífið, eða hvað stór hluti af þeim gyðingum sem voru myrtir í útrýmingarherferð Þjóðverja tilheyrðu Sovíetríkjunum.

Eru þau landsvæði sem Sovíetríkin höfðu tekið með hervaldi af Póllandi, Eistland, Lettland og Lítháen talin með Sovíetríkjunum?

Ég veit að íbúar Eystrasaltsríkjanna líta ekki svo á og þykir líklegt að svo geri Pólverjar ekki heldur.

Þannig eru Rússar/Sovíetmenn bæði "hetjan" og "skúrkurinn" að svo mörgu leyti hvað varðar Seinni heimstyrjöldina.

Þeir neyddu fjölmarga íbúa Eystrasaltsríkjana í Rauða herinn (Þjóðverjar beittu marga þeirra einnig nauðung hvað þeirra her varðar) og marga þeirra sem þannig gengdu hermennsku óviljugir voru myrtir af Sovíetríkjunum vegna þjóðernis síns.

Þá erum við ekki byrjuð að tala um framferði þeirra eftir að styrjöldinni lauk og þeir höfðu "frelsað" risa stór landsvæði.

Því ferðalagi gripavagnanna í Evrópu lauk ekki með stríðinu, heldur hurfu hundruðir þúsunda einstaklinga í mið og austur Evrópu í "Gulagið" Sovíeska, þaðan sem stór hluti átti ekki endurhvæmt.

En eftir því sem ég hef lesið lætur það nærri sem sagt er í fréttinni að u.þ.b. 16% af þeim gyðingum sem voru myrtir í helförinni hafi verið Sovíeskir ríkisborgarar, þ.e.a.s. ef miðað er við landamærin sem voru við gildistöku "Molotov-Ribbentrop samningsins".

En það tók Sovíetríkin/Rússland langan tíma að viðurkenna "leynihluta" þess samnings.

En engin þjóð sem Sovíetríkin "frelsuðu" hlaut frelsi, nema ef til vill Austurríki.

En það er svo margt sem gerðist í aðdraganda/í Seinni heimstyrjöldinni/eftirmála hennar, sem er þarft að ræða um.

Til dæmis:  Hvers vegna töldu Bretland og Frakkland sig umkomin að semja við Þjóðverja um Tékkóslóvakíu?

Hvers vegna var Sovíetríkjunum leyft að að halda öllu þeim landsvæðum sem Þýskaland Hitlers hafði lofað þaim (Eystrasaltsríkjunum og austurhluta Póllands) að Finnlandi undanskildu?

Putin virðist telja það Rússland sem hann ríkir yfir réttmætan arftaka Sovíetríkjanna þegar kemur að því sem telst jákvætt hvað varðar framgöngu þeirra í Síðari heimstyrjöldinni.

Til að gera tilkall til þess verður hann að gangast við því skelfilega sem þau einnig gerðu.

Það er það sem vantar upp á.


mbl.is Sagnfræðingar segja staðhæfingar Pútíns fáránlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrautfjaðrir og skrýtin Lávarðadeild

Nú tíðkast það víst að sérstakir fjölmiðlafulltrúar ráðuneyta skrifi "fréttir" sem síðan birtast næsta orðréttar í hinum ýmsu fjölmiðlum.

Að sjálfsögðu vilja þessir "fréttahaukar ríkisins" veg sinna manna sem mestan.

En ég held að á stundum gangi þessir "fréttahaukar" full langt og fjölmiðlar taki afurðum þeirra full gagnrýnislaust.

Þannig myndi ég ekki túlka þann viðburð sem viðhengd frétt fjallar um, sem að Lilja Alfreðsdóttir hafi flutt fyrirlestur um jafnréttismáli í Lávarðadeilt Breska þingsins.

Ég myndi segja að hún hafi flutt fyrirlestur, eða tekið þátt í hringborðs/pallborðsumræðum í húsakynnum Bresku lávarðadeildarinnar.
Þeir sem áður hafa séð myndir frá Bresku lávarðadeildinni eru fljótir að átta sig á því að meðfylgjandi mynd er ekki tekin í þingsal Bresku lávarðadeildarinnar.

Hún er enda tekin í nefndarherberbegi 3C, í húsakynnum hinnar sömu lávarðadeildar.  Fundurinn/fyrirlesturinn/hringborðsumræðurnar voru enda skipulagðar af hugveitunni Henry Jackson Society, en hún hafð þekkst boð frá barónessu Posser, um að halda fundinn (panel discussion) í húsakynnum lávarðdeildarinnar.

Það er því að mínu mati all nokkur vegur frá því að Lilja Alfreðsdótir hafi haldið fyrirlestur í Lávarðadeild Breska þingsins.

En sjálfsagt myndi einhver flokka þetta undir vel heppnuð störf fjölmiðlafulltrúa, en persónulega myndi ég frekar flokka þetta undir mistök fjölmiðla.

Sem aftur styrkir þá skoðun mína að varhugavert sé að auka tengsl og allra síst fjárhagsleg tengsl, fjölmiðla og stjórnvalda.

 


mbl.is Lilja ræddi um jafnrétti í lávarðadeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband