Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Lífið er lotterí

Það er engin spurning að "kórónavírusinn frá Wuhan" er að setja mark sitt á heimsbyggðina, bæði beint og óbeint.

Bæði er það svo að all margir veikjast, en ekki síður hitt að miklu fleiri verða hræddir og enginn veit með vissu hvað er að gerast.

Það er enda svo að "Wuhan vírusinn" virðist hegða sér með mjög mismunandi hætti eftir landsvæðum.

Þannig er t.d. rétt rúmlega mánuður síðan að vírusinn nam land í Kanada, sem kom fáum á óvart, enda mikill fjöldi Kanadabúa af Kínverskum uppruna og samgangur á milli landanna verulegur.

En síðan hefur lítið gerst í Kanada. Staðfest tilfelli sýkingar af völdum vírusins eru 20, ef ég man rétt og hefur lítið fjölgað. Þar af eru að ég held 11 í Ontario. En enn sem komið er hefur enginn smitast í Kanada, heldur hafa sjúklingarnir allir verið nýlega komnir frá áhættusvæðum.

Engin "masshistería" hefur orðið í Kanada.

Við feðgarnir skelltum okkur á bílasýninguna í Toronto um síðustu helgi, þar var fjölmenni og ekki grímu að sjá á nokkrum manni.

Íþróttaliðin hér um slóðir standa sig vel og ekki veit ég til  að nokkrum atburðum hafi verið frestað, né heldur að miðaverðið í "eftirsölu" t.d. á "Leafs" leiki hafi lækkað um svo mikið sem dollar.

"Toronto Maple Leafs" eru reyndar að hefja leik eftir tæpan klukkutíma, þegar þetta er skrifað, og það verður ábyggilega fyrir fullri höll, enda leikurinn á móti "Vancouver Canucks", og verður sjálfsagt lítið gefið eftir, hvort sem er á svellinu eða í stúkunni.

Air Canada hefur vissulega aflýst öllu flugi til Kína, enda vafasamt að margir hafi hug á því að ferðast þangað þessa dagana, en það eru engar "risa sóttkvíar", eða það að bannað hafi verið að safnast saman.

Börnin fara á hverjum degi í skólann, lestirnar ganga (það hafa þó sumstaðar verið vandræði með lestirnar, en það er af öðrum örsökum), flugvélarnar fljúga (nema til Kína), "leikfimistöðvar" eru fullar af fólki og þannig má halda áfram.

Lífið heldur áfram.

En Kanadabúar gengu í gegnum ákveðna lexíu árið 2003, þegar SARS veiran breiddist út og yfir 400 smituðust og 44 létust.

Læknir sem ég kannast við sagði mér fyrir all mörgum árum að enginn einn atburður hefði kennt fleiri Kanadabúum að þvo sér reglulega um hendurnar.

En þó að daglegt líf haldi áfram þýðir það ekki að enginn hafi áhyggjur, eða að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gert víðtækar ráðstafanir.

Birtar hafa verið tilkynningar um að farþegar með tilteknum flugvélum og strætisvögnum, séu beðnir um að hafa samband við viðkomandi yfirvöld.

Auðvitað mega Íslendingar sjálfsagt vera ánægðir með hvað lítill hluti þeirra notar almenningssamgöngur, enda mun minni smithætta í einkabílnum :-), en staðreyndin er sú að eins og oft áður, getur hræðslan verið skeinuhættari en það sem við erum hrædd við.

"Stór sóttkví", myndi líklega gera lítið annað en að tryggja fleiri smittilfelli, rétt eins og gerðist um borð í skemmtiferðaskipinu, heitir það ekki "Diamond Princess".

En "lokun" landsins myndi auðvitað tryggja að efnahagslegar afleiðingar vírussins yrðu eins miklar og mögulegt er, en nóg verður líklega samt.

Hitt er svo að ef alþingismenn vilja flytja völd frá Sóttvarnarlækni og til alþingis, til að bregðast við farsóttum sem þessari, þá leggja þeir auðvitað fram lagafrumvarp þess efnis, því þeirra er jú löggjafarvaldið.

En ég hvet alla til að halda áfram með sitt daglega líf, hugsa vel um handþvott og hreinlæti.

Þeir sem vilja forðast mannfagnaði og söfnuði gera það, en aðrir njóta samvista við annað fólk.

Ef til vill mætti fresta fundum Alþingis, það gæti róað einhverja sem þar sitja og þeir gætu einangrað sig, þar sem þeim þykir best.

 

 

 

 


"Síðasta veiðiferðin", eða "nýjasta áfengisauglýsingin"?

Ég fékk þessa ábendingu frá kunningja mínum, enda mér ekki boðið á frumsýningu nýjustu Íslensku kvikmyndarinnar.

Síðasta veiðiferðinEn nýjasta Íslenska kvikmyndin ku heita "Síðasta veiðiferðin". "Auglýsingaplakat" hennar má sjá hér í færslunni.

Ég vil hvetja alla til að sjá hana, því mér er sagt að hún sé góð og meinfyndin.  Það er alltaf eitthvað sem ég kann að meta.

Það eru aldrei of margar gamanmyndir að mínu mati.

En það sem vakti athygli mína við "plakatið" (hvað er nú aftur Íslenska orðið yfir slíkt), er hin skammlausa áfengisauglýsing sem þar er á ferðinni.

Fjöldi vörumerkja bæði bjór og áfengistegunda vel sjáanlegur, í bland við ýmsa af bestu Íslensku leikurum.

Ekkert út á það að setja, nema auðvitað að áfengisauglýsingar í eru bannaðar í Íslenskum fjölmiðlum og á Íslandi. (Ef til vill ætti ég að taka það fram að ég skrifa þessa færslu í landi þar sem áfengisauglýsingar eru löglegar).

Hvers vegna?

Á hverjum degi sjá Íslendingar áfengisauglýsingar í erlendum fjölmiðlum, og oft á tíðum í Íslenskum, jafnvel Ríkissjónvarpinu sjálfu í beinum útsendingum.

Það er í lagi?

Ríkissjónvarpið sjálft getur birt auglýsingar fyrir áfengisframleiðendur og veðmálafyrirtæki, svo lengi sem þeir hafa keypt auglýsingaþjónustuna í þeim löndum sem það er löglegt.

Ríkissjónvarpið sýnir áfengisvörumerki í sinni útsendingu, en aðeins ef framleiðendur hafa borgað erlendum aðilum til að setja vöru þeirra eða vörumerki í kvikmynd eða sjónvarpsþátt.

Mun "Sjónvarpið" sýna "Síðustu veiðiferðina", þrátt fyrir að líklega sé áfengi auglýst þar? (Ég hef ekki séð myndina, þannig að ég vil ekki fullyrða).

Er ekki tími til kominn að stíga inn í nútímann, jafna aðstöðu og rétt innlendra framleiðenda gagnvart erlendum, jafna rétt og tekjumöguleika innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum og hætta "2.25%", eða "léttöl" feluleiknum"?

Leyfum áfengisauglýsingar í Íslenskum fjölmiðlum, það er sanngirnisatriði.

 

 

 

 


Athyglisverðar tölur um áfengisverð

Ég verð að viðurkenna að þessi frétt kom mér all nokkuð á óvart.  Einhvern veginn fæ ég þessar tölur ekki til þess að ganga upp í huga mér.

1. líters flaska af Chiva Regal 12 ára Skosku vískí kostar í ÁTVR 11,199kr.  Í fréttinni segir að sama flaska kosti 6,660 kr. í Costco

Það er gríðarlegur verðmunur.

En nú er áfengi í "matarskatts" virðisaukaskatti með 11% álagningu.  Það þýðir að við drögum ca. 10% af heildarverðinu.

Þá stendur eftir 5,994 kr í Costco og 10,079 í "Ríkinu".

Nú hafa áfengisskattar verið sífellt að hækka á Íslandi, síðast nú um áramótin. En ég veit ekki nákvæmlega hvað áfengisgjaldið er nú, en ég myndi þiggja upplýsingar um slíkt í athugasemdum.

Ég ímynda mér þó miðað við hvað ég hef heyrt að áfengisgjald af 1 líters flösku af 40% áfengi sé í það minnsta í kringum 5000 kr.

Þá virðist við fyrst sýn sem að ekki sé mikið eftir til að standa straum af innkaupum og flutningi hjá Costco.

En þessi gríðarlegi verðmunur hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar.

Vissulega hefur Costco gríðarlega innkaupagetu og fær verð í samræmi við það.  Ég fann ekki sambærilega flösku á vef Costco í Bretlandi, þeir bjóða eingöngu upp a´stærri eða "vandaðra" Chivas þar, en þeir sem áhuga hafa geta skoðað verð og úrval hér.

En það er líklegt að Costco sé með lægri álagningu en ÁTVR, svo ekki sé minnst á ÁTVR og heildsala til samans.

Innkaupaverð Costco er líklega töluvert lægra, flutningskostnaður einnig.

En eftir stendur að Íslensk lög standa í vegi fyrir því að Íslenskir neytendur njóti lægra verðlags.

 

 

 


mbl.is Allt að 68% verðmunur á áfengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Skotland sjálfstætt í kjölfar Brexit?

Í grunninn er ég að sjálfsögðu sammála Nicolu Sturgeon um að Skotar eiga að ákveða sjálfir hvort að þeir vilji tilheyra Sameinaða koungdæminu eður ei.  Enga þjóð á að neyða til að tilheyra ríki, ríkjasambandi eða sambandsríki.

Það gildir jafnt um Skotland, Katalóníu, Baska, Flæmingja, Tíbet og svo má áfram telja. Rétt eins og það gerði um Tékkland og Slóvakíu

Það má svo deila um hversu oft eða með skömmu millibili rökrétt er að leggja slík álitamál í dóm kjósenda og ekki til neitt einhlítt svar við því.

Það eru aðeins u.þ.b. 5 ár síðan Skoskir kjósendur höfnuðu sjálfstæði.

Það er reyndar allt eins líklegt að það yrði gert aftur, þó að um slíkt sé ómögulegt að segja. 

Staðreyndin er sú að Skoskur efnahagur er ekki of vel undir sjálfstæði búinn.  Bæði er viðvarandi hallarekstur á Skoska "ríkinu" og yfirgnæfandi hluti "útflutnings" Skota fer til annarra svæða hins Sameinaða konungdæmis, eða 60% )(Það er til muna hærra hlutfall, heldur en hlutur útflutnings Breta sem fer til "Sambandsins").

Scot export Aðeins 18% fer til "Sambandsríkja".  Það er reyndar einnig mikil óvissa hvenær Skotland fengi inngöngu í "Sambandið" ef til sjálfstæðis kæmi. Flestir eru sammála um að það gerist ekki sjálfkrafa og aðildarríki s.s. Spánverjar (sem glíma við Katalóna) allt eins líklegir til að vera þar Þrándur í Götu.

Skotar yrðu sömuleiðis að herða ólina verulega ef þeir ættu að eiga möguleika á því að gerast aðilar að Eurosvæðinu og biðtímin þar getur orðið langur.  Þá vaknar spurningin hvaða gjaldmiðil Skotar hyggist nota í millitíðinni. 

Hvað hallareksturinn varðar, er hann mun meiri en í Bretlandi sem heild. Halli Bretlands hefur verið rétt ríflega 1.1%, en halli Skota er í kringum 7%.  Meiri en helming halla Bretlands hefur mátt rekja til Skota, sem eru þó aðeins í kringum 10% íbúanna.

Með tilliti til þessa er það nokkur kokhreysti þegar Skoski þjóðarflokkurinn segir að Skotland muni ekki taka yfir "sinn hlut" af skuldum Bretlands, ef til aðskilnaðar kæmi, heldur bjóða "samstöðugreiðslur".

En eigi að síður er ljóst að ef Skotland yrði sjálfstætt yrði það áfall fyrir Breta, ekki síst "andlega", ef svo má að orði komast.

En það myndi sömuleiðis svo dæmi sé tekið flækja varnarmál þeirra verulega.

En til þess að sjálfstæði sé virkilega vænlegur möguleiki þurfa Skotar að taka sér tak í efnahagsmálunum.  Olían sem var stór beita í "den" er ekki jafn öflug í dag, verð lágt og það minnkar í lindunum.

En hvernig sem allt fer, er þörf á að leysa málin í sameiningu og á lýðræðislegan máta.  Ég held að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram, það er hins vegar spurning um hvenær.

 

 

 


Hræsni Evrópusambandsríkjanna

Nú er Brexit loksins orðin staðreynd. Bæði Evrópusambandið og þjónar þess í Bretlandi urðu að játa sig sigraða þegar Breska þjóðin felldi dóm sinn í kosningum í desember.

"Sambandið" gat ekki þvælt málin lengur, hundsað úrslitin, eða efnt til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og svo oft hefur orðið raunin áður, þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki verið "Sambandinu" þóknanlegar.

Blákalt lýðræðið blasti við þeim.

Þá byrjar undirbúningur fyrir samningaviðræður.

Þá ber svo við að "Sambandslöndin" vilja draga á flot allar deilur sem sem þú kunna að hafa haft við Breta í gegnum aldirnar.

Spánn kemur fram með Gíbraltar og Grikkir byrja að tala um "Elgin marmara lágmyndirnar".

En eru þetta ekki eðlilegar kröfur kann einhver að spyrja?

Já og nei.

Þetta á ekkert erindi í fríverslunarviðræður.

En hins vegar, ef "Sambandið" ætlar að endurskoða stefnu og skoðanir sínar í slíkum málum, er betra að taka það upp á öðrum vettvangi.

Getur t.d. verið að Evrópusambandið sé andsnúið að Spánn eigi landsvæði handan Miðjarðarhafsins, í Afríku?

Hvað með allar landareignir Frakka um víða veröld?

En ef til vill er best að leysa allan slíkan ágreining með skipulögðum, lýðræðislegum,  sannjörnum atkvæðagreiðslum, sem væru undir alþjóðlegu eftirliti, hvort sem um er að ræða Gíbraltar, nú eða Katalóníu.

Og hvað varðar meintan "listaverkastuld" Breta í Grikklandi, þá er það sannkallað "Pandórubox", eða ég veit ekki hvort að veröldin sé reiðubúin til þess að það sé opnað.

Ætti að ræða um listaverk sem herir Napóleons rændu á Ítalíu? Nú eða alla fornmunina/listaverkin sem Frakkar rændu í Egyptalandi (þeir eru reyndar langt frá því að vera þeir einu sem eru sekir). 

Ítalir hafa meira að segja á stundum viljað að Mona Lisa snúi heim, því vissulega er hún máluð á Ítalíu, af Ítala, en ekki í Frakklandi.

Hvað um hvernig Spánverjar fóru ránshendi um S-Ameríku? Skyldi eitthvað af þeim list/fornminjum enn að vera að finna á Spáni?

Skyldi Evrópusambandið ætla að að krefjast þess að Rússar skili öllum þeim listmunum sem þeir stálu í lok síðari heimstyrjaldar í Þýskalandi, mörgum sem Þjóðverjar höfðu áður stolið hér og þar í Evrópu?

Eða er "Sambandið" of hrætt við að Rússar skrúfi fyrir gasið?

En það er merkilegt að mörg "Sambandsríkjanna" hafa lýst þeirri skoðun sinni að samstarf "Sambandinsins" og Bretlands í varnarmálum verði jafn mikilvægt og áður og lítið sem ekkert þurfi að breytast.

Slíkum "smámunum" er óþarfi að blanda saman við fríverslunarsamninga.

Sú afstaða helgast auðvitað af því að Bretland var fremsta herveldið (þó að það hafi vissulega látið á sjá) innan "Sambandsins".

Því miður bendir framkoma "Sambandsins" til þess að jafn líklegt sé og ekki að Bretland yfirgefi Evrópusambandið að fullu um næsu áramót, án þess að viðskiptasamningur liggi fyrir.

Það verður til tjóns fyrir báða aðila og vitanlega mun fleiri ríki.

Það verður fyrst og fremst vegna hræsni, hroka og hefnigirni Evrópusambandsins.

Slík er "smásál" "Sambandsins".

Það er vert að hafa í huga.

 

 

 


Erlend ríki hafa verið að reyna að hafa áhrif á forsetakosningar í Bandaríkjunum um áratuga skeið

Það er ekkert nýtt að erlend ríki, Rússland/Sovétríkin þar á meðal, reyni að hafa áhrif á forsetakosningar í Bandríkjunum og víðar auðvitað.

Bandaríkin sjálf eru heldur ekki saklaus af því að reyna að hafa áhrif á kosningar utan sinnar lögsögu.

Það sama gidir um fjölmörg önnur ríki.

Þannig gerast kaupin á þeirri eyri.

Sovétríkin/Rússland hafa aftur og aftur reynt að hafa áhrif á hver yrði kosinn forseti Bandaríkjanna.  Líklega ná þær tilraunir aftur til 2. eð 3ja áratugar síðustu aldar. Á öldinni þar áður, voru það líklega frekar Bretar og Frakkar sem reyndu að beita áhrifum sínum.

Þó má líklega segja að tilraunirnar hafi ekki hafist fyrir "alvöru" fyrr en eftir síðari heimstyrjöld, Bandaríkin þá enda orðin alvöru heimsveldi og "Kaldastríðið" komið til sögunnar.

Stundum er sagt að fyrsti "Rússneski/Sovét" kandídatinn hafi verið Henry Wallace. Hann þótti hallur undir Sovétríkin, en sneri síðan við blaðinu og sagði "Sovétið" illskuna uppmálaða.

Næsti sem reyndi við forsetaembættið, og "Rússarnir/Sovétið" hafði hug á að styðja var Adlei Stevenson.

En Eisenhower sá til þess að hann komst aldrei í Hvíta húsið.

"Sovétið" hafði fullan áhuga á því að tryggja að Nixon yrði ekki forseti og vildi veg John F. Kennedy sem mestan.

Átta árum síðar hafði "Sovétið" fullan hug á því að ljá Hubert Humphrey, stuðning sinn á móti Nixon.

Það hefur líka verið ljóst að "Rússland/Sovétríkin", beittu sér gegn Ronald Reagan, sérstaklega í 1984 kosningunum.  Þau vildu eiginlega hvern sem er sem forseta annan en hann.

Það kom samt ekki í veg fyrir að Reagan vann 49 af 50 ríkjum í kosningunum.

Í kosningunum 1992, kom svo Moskvuferð Bill Clinton (sem hann hafði farið 1969) ítrekað upp í umræðunni, en það var þó líklega ekki af "Sovétsins" völdum.

Hér hefur verið stiklað á stóru, og ég vil biðja þá sem lesa að hafa í huga að þeir þetta þýðir alls ekki að þeir forsetaframbjóðendur sem hér hafa verið nefndir til sögunnar hafi verið "Rússneskir útsendarar", heldur aðeins að "Rússum/Sovétinu" hafi litist betur á þá en aðra frambjóðendur.

Að baki slíks álíts geta verið margar mismunandi ástæður.

Það má oft heyra þessar vikurnar að Bernie Sanders sé "Rússneskur útsendari" og er þá sérstaklega nefnd til sögunnar brúðkaupsferðalag hans til Sovétríkjanna 1988, sé sönnun þess.

Persónulega tel ég slíkt út í hött.

Ef eitthvað er sanna slíkt ferðalag að að hann er ekki "Rússneskur útsendari". Engum "Rússneskum útsendara" væri leyft að fara í slíkt ferðalag.

KGB gæti hafa litið á hann sem "fellow traveller" eða "useful idiot", en lengra myndi það ekki ná.

Og nú eru uppi sögusagnir um að leyniþjónusta Rússa vinni að því að tryggja Sanders útnefningu Demókrataflokksins og jafnfrm endurkjör Trumps.

Það gæti bæði verið rétt.

Ekki að ég trúi því að þeir vinni fyrir Rússa.

En hitt er augljóst að það þjónar hagsmunum Rússlands að auka á úlfúð í Bandarískum stjórnmálum.  Því meira "póleruð" sem þau verða og því erfiðara það verður að finna "milliveg", kætast Rússarnir.

Barátta Trump og Sanders, ef að verður, þar sem stuðningsmenn hvors frambjóðanda "rífa hvorn annan á hol", væri vissulega nokkuð sem Rússum (og ýmsum öðrum þjóðum) þætti ekki leiðinlegt að horfa á.

Klofin þjóð er síður líkleg til afreka.

P.S.  Sótti ýmsan fróðleik hér og þar um netið, bæði nú og eftir minni, en þessi grein er stór heimild.

 

 

 


mbl.is Rússar reyni að tryggja endurkjör Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólítíkusar þurfa ekki að vera fullkomnir, þeir þurfa aðeins að líta betur út en keppinautarnir

Ef þú ert í hópi manna að hlaupa undan birni, þarftu ekki að hlaupa hraðar en björninn, þú þarft bara að hlaupa hraðar en einhver hinna.

Svipuð lögmál eru gjarna að verki í pólítík, þú þarft ekki að vera frábær frambjóðandi, það dugar að virka örlítið betur á kjósendur en keppinautur/inn/arnir.

Og á það mun reyna í forsetakosningunum í Bandaríkjunum næsta haust.

Mér flaug þetta si sona í hug þegar ég var að ræða við kunningja minn um forskosningar Demókrata.

Hann er frekar ákafur stuðningsmaður Demókrata (eins og margir Kanadamenn, sérstaklega í austur fylkjunum).  En honum leist ekki á blikuna og var farinn að óttast 4.ár af DJ Trump til viðbótar.

Honum fannst þeir sem væru að berjast um tilfnefningu flokksins ekki líklegir til að geta "hlaupið hraðar" en Trump.

Þó að hann sé áfram um velgengni Demókrata vill hann alls ekki fá Bernie Sanders sem frambjóðenda flokksins, hann sé einfaldlega of vinstri sinnaður.

Þar er ég sammála honum, þó að alltaf sé reynt að teikna Sanders upp sem stjórnmálamann "svona eins og gerist á Norðurlöndunum", er það að mínu mati einfaldlega rangt.

Sanders er einfaldlega gamaldags sósíalisti og hættulegur sem slíkur. Eignaupptökur og ríkisstörf handa öllum (sem vilja) er ekki pólítíkin sem gengur á Norðurlöndunum.

Okkur leist báðum þokkalega á Buttigieg, en kunningi minn lét þau orð falla að þó að hann myndi áreiðanlega fá afar góða kosningu þar sem Demókratar hafa sterka stöðu, þá myndi samkynhneigður maður með nafn sem margir eiga í erfiðleikum að bera fram en er "butt eitthvað", eiga erfitt uppdráttar í mörgum þeirra ríkja sem baráttan er hörðust (Bútedge er nokkurn veginn réttur framburður ef ég hef skilið rétt).

Kunningi minn taldi að tími Biden's virðist liðinn, ef hann hafi einhvern tíma verið til staðar, ef til vill hefði hann átt möguleika fyrir 4. árum en ekki nú.

Hann var nokkuð hrifinn af Klobuchar og þuldi upp góð málefni sem hún stæði fyrir, en ég verð að viðurkenna að það fór ofan garðs og neðan hjá mér.

Og svo fórum við að tala um Bloomberg og hvort að honum tækist að ná útnefningunni?

Það væri óneitanlega nokkuð sérstakt ef tveir milljarðamæringar sem töldust í "den" sitt á hvað Demókrata- eða Republíkanmegin, berðust um forsetaembættið.

Reyndar hafa þeir báðir flakkað með flokkstengsl sín, verið Demókratar, Repúblikanar og óháðir.

Ég heyrði að Trump hefði breytt "affiliation" sinni í það minnsta 5 sinnum og líklega er Bloomberg ekki langt á eftir.

Hann breyttist úr Demókrata í Repúblikana þegar hann bauð sig fram fyrsta sinn til borgarstjóra New York borgar, fyrir tæpum tveimur árum varð hann Demókrati, en í millitíðinni hafði hann verið óháður.

Líklega verður hvorugur þeirra sakaður um flokkshollustu.

En hvort að þeir bítist um forsetaembættið á eftir að koma í ljós.

Það er of snemmt að spá um hvernig forkosningar Demókrata fara. Það ræðst líklega ekki hvað síst þegar einstaka frambjóðendur hellast úr lestinni, hvenær og hvernig þeir munu gera það.

Sanders mun líklega hagnast á þvi að sem flestir haldi sem lengst áfram. Að atkvæðin skiptist á sem flesta staði.

Bloomberg, Buttigieg og Klobuchar myndu líklega hagnast á því að sem fæstir verði eftir. 

Hvað lengi heldur Biden áfram, á hann einhverja von?

En þetta verða fróðlegar forkosningar.

 


mbl.is „Hver kýs mann sem elskar að kyssa manninn sinn?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagskrárstjórar "Sambandsins" láta til sín taka

Það eru miklar umbyltingar á fjölmiðlamarkaði, ekki síst afþreyingarhluta hans. Reyndar hafa verið nær stanslausar "umhleypingar" þar svo áratugum skiptir og sér varla fyrir endann á því.

Neysla á fréttum og afþreyingu hefur breyst og þróast.

Æ færri horfa á "dagskránna", heldur hefur hver og einn stjórn fyrir sig, velur sitt efni.  Fjölskyldur horfa sjaldan eða aldrei saman á sjónvarp, heldur kýs hver og einn sinn dagsrkrárlið.

Allir eru sínir eigin dagskrárstjórar, ef svo má að orði komast.

Þetta er eftirspurnarhliðin.

Þá kemur að framboðshliðinni.

Víðast hvar er enginn skortur á þeirri hlið.  Víða um lönd eru sjónvarpsstöðvar og efnisveitur hins opinbera, sem bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á kostnað skattgreiðenda. Margar þeirra þurfa að uppfylla skilyrði hvað varðar framboð, gjarna hvað varðar innlent efni.

Síðan eru alls kyns sjónvarpsstöðvar og efnisveitur í höndum einkaaðila sem ýmist bjóða áskrift eða selja auglýsingar, sumar hvoru tveggja.

En Evrópusambandinu er eitthvað uppsigað við frjálst samband framboðs og eftirspurnar hvað varðar fjölmiðla og vill því setja framboðinu skorður.

"Sambandið" heimtar að minnst 30% af efni allra efnisveita sem starfi innan ríkja þess sé Evrópskt.

Reyndar eins og er algengt nú orðið lætur það sér ekki nægja að stjórna innan sinnan eigin landamæra, heldur krefst þess sama af Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Að hluta til virðist "Sambandið" ætla sér að taka að sér að hluta til "menningarlega tilsjá" með Íslandi.

Það er eiginlega með eindæmum hvernig "fríverslunarsamningur" þar sem Íslendingar "fengu allt fyrir ekkert", eins og fullyrt var á sínum tíma, hefur leitt þjóðina á þennan stað.

Eru Íslendingar einhverju bættari og menningu þeirra á einhvern hátt hjálpað með því að Netflix (og aðrar svipaðar efnisveitur) setji inn aukinn fjölda af Búlgörskum, Eistneskum, Rúmenskum og Pólskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum?

Myndu Íslendingar ekki frekar vilja setja skilyrði um að t.d. ákveðið hlutfall (mun lægra en 30%) af efni yrði að vera Íslenskt, eða ákveðið hlutfall barnaefnis yrði að vera talsett á Íslensku, eða eitthvað í þá áttina?

En "kommissarnir" vilja auðvitað ráða ferðinni, og þar sem "kommissarar" hafa ráðið ferðinni hafa þeir yfirleitt verið hrifnir af "kvótum" og "kvótana" þarf að fylla.  Með góðu eða illu.

Auðvitað vilja allar streymisveitur bjóða upp á efni sem nýtur vinsælda og er mikið horft á.  Á meðal þess er og hefur alltaf verið Evrópskt efni.

En það er auðvitað misjafnt ár frá ári hve mikið það er, og með auknum fjölda efnisveita dreifist það á fleiri staði.  Því gæti það hæglega orðið svo að til að fylla "kvótann" verði gripið til þess að kaupa það ódýrasta sem býðst, því áhorfið verði hvort sem er það lítið.

Þannig eru svona inngrip oft mjög tvíeggjuð.

En vissulega mun þetta færa þó nokkuð fé til Evrópskra framleiðenda, ef til vill er það megin ástæðan.

En þetta er enn eitt dæmið um stjórnlyndið sem svo oft ræður ríkjum í "Sambandinu" og getur verið svo hvimleitt.

Ef að t.d. efnisveita sem hefði eingöngu Disneymyndir á boðstólum er ógn við Evrópska menningu er ekki mikið varið í þá menningu.

En auðvitað er það bisnesshugmynd (alveg ókeypis fyrir þá sem vilja framkvæma hana) að setja á stofn efnisveitu eingöngu með Evrópsku efni.  Ef það næðist 30% markaðshlutdeild væri hún líklega í góðum málum.

P.S. Mikið væri gaman að heyra álit þingmanna Viðreisnar á svona framkomu Evrópusambandsins.  Getur það verið að flokkur sem vill afnema  reglur um Íslensk mannanöfn (sem ég er sammála) styðji að "Sambandið" setji "kvóta" á uppruna kvikmynda og sjónvarpsþátta? 

Ristir þeirra meinta "frjálslyndi" ekki dýpra en svo?

P.S.S. Hvað gerir kvikmynd eða sjónvarpsþátt Evrópskan?  Tungumálið, fjármögnunin?  Framleiðslulandið? Hvað með samframleiðslur, og fjármögnun frá mörgum heimsálfum, m.a. Evrópu?

 

 


Það er ekki bara í Evrópu sem sjálfstæðishreyfingum vex fiskur um hrygg

Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að síaukinni sókn þjóða, þjóðarbrota og landsvæða eftir sjálfstæði.

Ríkjum heims fjölgar stöðugt.

Um þessa þróun eru eins og flest annað skiptar skoðanir.

Stundum skiptast ríki upp snöggt og örugglega án nokkurra vandræða, eins og var í hvað varðar Tékkland og Slóvakíu, stundum með harmkvælum og hörmungum eins og var raunin í Júgóslavíu. Uppbrot Sovétríkjanna gekk ekki átakalaust fyrir sig.

Ríki s.s Namíbía, sem nú er vel þekkt á Íslandi er tiltölulega nýtt, öðlaðist sjálftæði sitt árið 1990, Eritrea náði sama áfanga 1993. Suður Súdan er svo að ég best man yngsta ríkið, varð sjálfstætt 2011.

Sjálfstæðishreyfingar eru öflugar í Skotlandi, einnig í Katalóníuj og Baskar hafa lengi haft hug á sjálfstæði og margir vilja skipta Belgíu í tvo ríki svo dæmi séu tekin frá Evrópu.

Og sjálfstæðishreyfingum vex fiskur um hrygg víða, einnig í Ameríku. 

Í Kanada hafa lengi verið til hópar sem vilja að fylki segi skilið við ríkið. Frægasta dæmið þar að lútandi er auðvitað hið frönskumælandi Quebec.

Þar voru sjálfstæðishreyfingar gríðarlega atkvæðamiklar og víluðu ekki fyrir sér að beita ofbeldi á 7 og 8. áratug síðustu aldar. Tvær "fylkisatkvæðagreiðslur" voru haldnar árin 1980 og 1995.

Í þeirri seinni, höfnuðu Quebec búar að slíta sambandinu við Kandad með 54,288 atkvæðum, eða 50.58% gegn 49.42%, talandi um tæpa meirihluta.  En þátttaka var með afbrigðum góð eða ríflega 93%.

En nú eru raddirnar sem krefjast sjálfstæðis orðnar háværari í vesturhluta Kanada. Einkum þó í Alberta en einnig í Saskatchewan.

Vinsælasta heitið er Wexit, sem stendur fyrir "West Exit".

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun telja 80& íbúa í Albert aog Saskatchewan að ríkisstjórn Kanada hafi misst "samband" við "venjulegt fólk" í þessum tveimur fylkjum.

38% Kanadabúa telja að Albertabúar hafi ástæðu til þess að skilja við Kanada og 62% Albertabúa eru þeirrar skoðunar.

Í Alberta telja 78% íbúanna að síðust þingkosningar í Kanada hafi aukið stuðning við aðskilnað, á meðan aðeins 41% Quebec íbúa eru þeirrar skoðunar.

Það virðast all miklar líkur á því að aðskilnaðarhreyfing "Westursins" verði að pólítískri hreyfingu, en hve sterk hún verður er erfitt að segja til um.

Canada federal 2019 by provinceÞegar litið er á úrslit síðustu þingkosninga er nokkuð augljóst að í Kanada ríkja ólíkar skoðanir eftir fylkjum, það er þó nauðsynlegt að hafa í huga að einmenningskjördæmin ýkja ástandið.

En hvorki í Alberta né Saskatchewan fékk núvarandi ríkistjórn Frjálslynda flokksins (Liberal Party) undir stjórn Justins Trudeau nokkurn þingmann. 

Ekki einn.

Kanada Kosningar 2019 úrslitAð sama skapi fékk flokkurinn þokkalega kosningu í austur fylkjum Kanada.

Það er þó vert að hafa í huga að hann fékk færri atkvæði en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn/næst stærsti þingflokkurinn.

Trudeau hafði reyndar lofað þegar hann náði kjöri árið 2015 að það væru síðustu kosningarnar sem einmenningskjördæmi myndi ríkja, hann vildi taka upp hlutfallskosningar.

En líklega hentaði það honum ekki fyrir árið 2019, eins og sjá má á úrslitunum.

En það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig sjálfstæðishreyfingum þeirra í "Westrinu" gengur að fóta sig.

Þó að alltaf beri að varast að setja fram spádóma, sérstaklega um framtíðina :-), þá reikna ég ekki með að um neinn klofning verði að ræða, alla vegna ekki á þessum áratug.  Ef "gjáin" heldur áfram að stækka gæti þó svo farið.

En líklega horfa þeir í vestrinu ekki síst til þess að skapa þrýsting á stjórnvöld, og að tekið sé meira tillit til hagsmuna þeirra.

Þar horfa þeir auðvitað til þess fordæmis sem Quebec hefur skapað, en þar hefur sjálfstæðisbaráttan svo sannarlega skilað árangri, þó að sjálfstæðið sjálft sé engu nær.

 


Snillingur horfinn á braut

Ég heyrði það seint í gær að einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum, Bretinn Andrew Weatherall væri horfinn á braut.

Þannig hverfa þeir einn af öðrum, það er ekki laust við að "sýrustig" heimsins fari lækkandi, minnkaði alla vegna nokkuð nokkuð með fráfalli Weatherall.

"Screamadelica" sem hann "pródúseraði" fyrir Primal Scream er ein af mínum uppáhaldsverkum og einn af mjög fáum geisladiskum sem ég set enn á "fóninn" og hlusta á frá upphafi til enda.

"Rímixið" fyrir St. Etienne, Sabres of Paradise og svo má lengi telja, heimurinn er örlítið fátækari án Andrew Weatherall.

En tónlistin sem hann kom að mun halda áfram að gleðja mig.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband