Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Verður þetta að stjórnarskrárbroti?

Ég rakst á eftirfarandi frétt á vef RUV. Í henni er sagt frá bágri stöðu útigangsmanna í Reykjavík og nágrenni.  Þeir virðast telja m.a. að þeim sé ekki séð fyrir mannsæmandi húsnæð.

Málefni sem þessi eru yfirleitt ekki auðveld viðureignar né úrlausnar.

Samstarf á milli þeirra sem þurfa aðstoð og þeirra sem veita hana er misjafnt og skilyrði sem sett eru fyrir aðstoð þykja ekki alltaf aðgengileg.

En hvenær aðstaða og líf útigangsmanna eru mannsæmandi, eða hvenær líf þeirra telst lifað með fullri reisn, eru ábyggilega misjafnar skoðanir á.

Í tillögum að nýrri stjórnarkrá stendur:

 8. gr.
Mannleg reisn.
Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í
hvívetna.

Ef þetta væri í gildi nú, væri Reykjavíkurborg að brjóta stjórnarskránna með því að neita útigangsmönnum um "mannsæmandi" húsnæði?  Er það ekki einn af grunnþáttum þess að geta lifað með reisn?

Eða eins og útgangsmaðurinn segir í fréttinni:

Að þeir komi meira til móts við okkur og útvegi okkur mannsæmandi húsnæði. Á borgin ekki nóg af íbúðum? Og af hverju getum við ekki fengið íbúð?

 

Eins og ég hef áður sagt, bjóða "víð" ákvæði í stjórnarskrá,  um "teygjanleg" hugtök  heim mörgum hættum.

 

Hér er frétt RUV í heild sinni.

 

Málefni útigangsfólks hafa verið nokkuð ofarlega á baugi undanfarið en viðunandi úrræða er þörf í velferðarkerfinu að mati þeirra sjálfra.

Daglegt líf þeirra sem eru heimilislausir snýst um nokkra fasta viðkomustaði. En aðstöðuleysi fyrir heimilislausa í borginni hefur verið gagnrýnt. Veikir fíklar í neyslu eiga þess kost að koma síðdegis í gistiskýlið við Þingholtsstræti og dvelja þar til morguns.

„Ég kem þangað bara til að sofa og horfa á sjónvarpsþátt og búið. Síðan er ég farinn út,“ segir útigangsmaðurinn Svenni. Hann segir að erfitt sé að sofa í gistiskýlinu því aðstæður þar séu ekki góðar. Hins vegar sé það betra en að sofa úti. Stundum sé mönnum úthýst. Svenni segist þá þurfa að leita sér að skjóli úti við, annað sé ekki í boði. „Menn hafa farið upp á löggustöð. Fengið að sofa í klefa,“ segir hann.

„Maður þarf helst að taka svefntöflu til að geta sofið. Fjórir menn í herbergi, einn hrýtur og annar er alltaf að bylta sér í einhverju útjöskuðu sjúkrarúmi með plastlaki. Þá sefur maður ekki mikið,“ segir Svenni.

Hann segir að Velferðarsvið borgarinnar hafi ekki staðið sig nægilega vel og vildi gjarnan sjá þar tekið til hendinni. „Að þeir komi meira til móts við okkur og útvegi okkur mannsæmandi húsnæði. Á borgin ekki nóg af íbúðum? Og af hverju getum við ekki fengið íbúð? Við erum veikir einstaklingar og við þurfum eitthvað annað búsetuúrræði en þarna,“ segir hann.

 

P.S.  Til að enda þetta á léttari nótum, minnist ég hér í eftirskrift á túlkun eins kunningja míns á þessari grein tillagna stjórnlagaráðs.  Hann vildi sem sé meina að hún myndi skylda hið opinbera til að sjá öllum fyrir Viagra eftir óskum hvers og eins.

 

 


Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?

Ekki ætla ég að fullyrða um hvað stendur að baki fullyrðingum Páls Magnússonar í grein hans á Pressunni, en  þegar Sjónvarpsstjórinn setur fram spurningar eins og gert er í greininni, hlýtur það að vekja athygli.  Fjölmiðlar landsins, og þá ef til vill ekki síst sá er Páll stjórnar, hljóta að fara ofan í saumana á málinu og reyna að leiða fram svör.

Fjölmiðlar landsins hljóta fjalla um þessar fullyrðingar og spurningar og skrýtið er ef þeir krefja Pál ekki frekari skýringa á greininni.  Fyrir sumar fréttastofur er ekki langt að fara.

En grein Páls er stutt en kjarnyrt.

Ég leyfi mér að birta hana í heild sinni hér að neðan.

 Banki þjóðarinnar, Landsbankinn, hefur frá hruni afskrifað á kostnað almennings milljarða á milljarða ofan vegna fjölmiðlareksturs Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Því til viðbótar berast reglubundnar fréttir af því að ríkisbankinn semji æ ofan í æ um endurfjármögnun á þessum rekstri - til að tryggja áframhaldandi eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs á 365, sem er langstærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins.

Ofan á þetta bætist að nú liggur fyrir Alþingi ríkisstjórnarfrumvarp sem árlega mun flytja 300-400 milljónir króna af auglýsingatekjum frá RÚV beint í vasa 365 og Jóns Ásgeirs, sem fyrir er með um 60% af heildarauglýsingamarkaðnum á Íslandi.

En þar með er ekki allt upp talið. Það liggur líka fyrir ríkisstjórnarfrumvarp sem fjallar um eignarhald á fjölmiðlum og tryggir að ekki verður hreyft við einsmanns eignarhaldi Jóns Ásgeirs á meira en helmingi íslenskra fjölmiðla, sé miðað við veltu.

Af hverju stendur ríkisvaldið þennan grimmilega og grímulausa vörð um hagsmuni og ítök Jóns Ásgeirs Jóhannessonar? Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?

Páll Magnússon, útvarpsstjóri

Verðandi stjórnarskrárbrot?

Nú eru margir farnir að velta því fyrir sér hvað tillögur að nýrri stjórnarskrá hafi í för með sér ef þau yrðu samþykkt óbreytt, eins og sumir krefjast. Margar greinar tillagnanna þykja "rúmar" ef svo má að orði komast og finnst mörgum að þær geti kallað á mismunandi túlkanir.

Hvernig skyldi t.d. sú frétt sem þessi færsla er hengd við ríma við 23. grein tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá?

23. gr.
Heilbrigðisþjónusta.
Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

Mér kæmi það ekki á óvart þó að skiptar skoðanir væru á því hvort að það stæðist að leggja mismunandi fjárhagslegan kostnað á eftir aldri og hvort að hið opinbera yrði ekki að bjóða öllum slíka bólusetningu á jafnréttisgrundvelli.

Eitt af því sem getur gjaldfellt stjórnarkrár, er ef þær bjóða heim hættunni á því að sífellt komi fram fullyrðingar um stjórnarskrárbrot, þannig að það hætti að þykja merkilegt ef svo má að orði komast.

Að stjórnarskrá fjalli "vítt" um réttindi einstaklinga til "teygjanlegra" hugtaka er ákaflega varasamt.

 


mbl.is Ókeypis fyrir 12 ára en dýrt fyrir aðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólítískir spunarokkar

Eitt af því sem mér þykir skemmtilegt fyrir kosningar er að fylgjast með margvíslegum pólískum spuna sem settur er af stað.  Fyrsta hrinan er í kringum prófkjörin og síðan taka kosningarnar við.

Það hefur færst í vöxt að fyrir prófkjörin séu notaðar skoðanakannanir, sem eiga þá að sýna að hinn eða þessi frambjóðandinn njóti stuðnings og sé sigurvegari.  Sumir fara jafnvel ekki í framboð nema að skoðanakannanir sýni að þeir eigi vísan sigur, eða í það minnsta verulega góða möguleika.

Sú barátta sem mun ábyggilega vekja hvað mesta athygli á næstu vikum, er hvernig raðasta á lista Framsóknarflokksins í Norðaustri.  Þar mun barátta Sigmundar og Höskuldar án efa verða hörð og óvægin og án efa verða spunavélar þar knúnar áfram af miklu afli.

Þannig birtist t.d. nýlega í Vikudegi skoðanakönnun sem "Áhugahópur um oddvita Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi lét gera á Akureyri og nágrenni.  Þar var kannaður hugur Akureyringa til þess hvern þeir vildu sjá leiða lista Framsóknar í Norðausturkjördæminu.

Því er skemmst frá því að segja að Höskuldur naut yfirburðarstuðnings í könnuninni, niðurstöðurnar voru u.þ.b. 85% á nóti 15%, honum í vil.

Þetta er ljómandi spuni og ef til vill að vissu marki nokkuð týpískur hvernig hann er settur fram.

Áhugahópur er nefndur til sögunar.  Það á að ljá málinu hlutleysisblæ, þó að engin hafi sagt annað í mín eyru en að um sé að ræða stuðningsmenn Höskuldar.  Ákveðið er að kanna aðeins í hluta kjördæmisins og valið svæði sem talið er henta "þeirra manni" best.  Ekki er gerð nokkur tilraun til að skilja að þá sem eru líklegir til að kjósa viðkomandi flokk frá.

Í því sambandi má velta fyrir sér hvort að þeir sem eru harðákveðnir í að kjósa aðra flokka velji nauðsynlega það sem þeir telja koma Framsóknarflokknum best í könnun sem þessari.  Í könnuninni kemur til dæmis í ljós að í yngsta aldurshópnum snýst stuðningur við frambjóðendur við, en sá aldurshópur er oft minna bundin ákveðnum flokkum en aðrir.

Með könnun á meðal úrtaks sem þessa, er vonast til að megi hafa áhrif á þá sem mega greiða atkvæði um val á frambjóðendum.

Svona spunafréttir eiga líklega eftir að verða mýmargar, nú í aðdraganda prófkjara, forvala, uppstillinga og  auðvitað kosninga.

Hvað virkar og hvað ekki er erfitt að segja, stundum virkar svona spuni þveröfugt og kemur í bakið á viðkomandi.

En það getur verið hin besta skemmtun að fylgjast með og reyna að meta spunann.

 


Tillögur en ekki frumvarp

Það er býsna fróðlegt að fylgjast með umræðum um nýafstaðna ráðgefandi atkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs.

Sumir tala nú um frumvarp stjórnlagaráðs og að því megi Alþingi ekki gera neinar breytingar á, alla vegna ekki sem heitið geti.  Breyta megi orðalagi en varla meir.

Það er þó rétt að hafa í huga hvernig fyrsta spurningin á kjörseðlinum var.  Þar var talað um tillögur stjórnlagaráðs og að þær yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Ekkert var minnst á frumvarp, eða að það yrði gert að stjórnarskrá.  

Það var ekki spurt, vilt þú að frumvarp stjórnlagaráðs verði að stjórnarskrá Íslands.  Það var ekki einu sinni spurt:  Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði að stjórnarskrá Íslands.

Það var rætt um tillögur og að leggja þær til grundvallar nýrri stjórnarskrá.  Einhver algengasta notkunin á orðinu grundvöllur er líklega orðið umræðugrundvöllur.  Þannig ætti líka að mínu mati á líta á tillögur stjórnlagaráðs.

Í mínum huga er reginmunur á milli frumvarps og tillagna.  Í mínum huga er sömuleiðis himin og haf á milli þess hvort eitthvað er lagt til grundvallar, eða það eigi að verða að einhverju óbreytt.

Spurningin er orðuð eins óljóst og vítt og mögulegt er, en síðan vilja ýmsir stjórnmála og stjórnlagaráðsmenn túlka svarið eins þröngt og mögulegt er.

Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma sérlega á óvart.  Þetta er nokkuð í stíl við vinnubrögðin hingað til, þar sem málið hefur verið keyrt áfram af nokkru offorsi og óðagoti.

En nú er malið komið til kasta Alþingis, það þarf ekki að taka við fyrirmælum frá einum eða neinum, hvort sem þeir hafa setið í stjórnlagaráði eður ei.

Það er óskandi að Alþingi vandi umfjöllum sína um stjórnarskrá Íslendinga og vinni að henni með þeim sóma sem hún á skilið.

P.S. Skýr vilji þjóðarinnar kom ekki fram í kosningunum á laugardaginn.  Ekki nema að þeir sem ekki greiddu atkvæði teljist ekki til þjóðarinnar.

Á laugardaginn kom hins vegar nokkuð skýr vilji meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði.  

Á þessu tvennu er mikill munur.

 

 

 


Léleg kjörsókn, en það eru þeir sem mæta sem telja

Þó að nú upphefjist líklega mikill spuni i þá átt að telja Íslendingum trú um að það sé öldungis frábært hve margir hafi mætt á kjörstað, finnst mér engin leið önnur en að segja að kjörsóknin hafi verið léleg.

Þegar innan við helmdingur atkvæðisbærra einstaklinga mætir á kjörskrá er það léleg þátttaka. Þegar svarhlutfall í skoðanakönnunum er í álíka hlutfalli, þykja þær kannanir ekki veita sterkar vísbendingar.

Það er því ekki hægt að segja að "þjóðin" hafi kallað eftir nýrri stjórnarskrá. Réttara væri að segja að hávær og pólítískt akvtívur minnihluti hafi framkvæmt hrópið.  Miðað við kjörsókn og þá sem u.þ.b. 2/3 sem sögðu já, er það í kringum þriðjungur kosningabærra.

En hitt er svo rétt að hafa í huga, að það eru atkvæði þeirra sem mæta á kjörstað sem eru talin. Þeir sem ekki mæta eru ekki með í þeim útreikningum, þó að þeir kunni að hafa verið í upphaflega menginu.

Þannig virkar lýðræðið, það telur ekki að sitja heima.

En Íslendingar hafa sýnt það áður að sé greitt atkvæði um mál sem þeim finnst skipta þá máli og þeim finnst brýnt, þá mæta þeir á kjörstað, mun betur en þeir gerðu í þetta sinn.

Því miður virðist ný stjórnarskrá ekki vera slíkt mál og meirihluti Íslendinga hefur ákveðið að leiða það hjá sér.   Það er slæm staða.

En þetta hlýtur að leiða til þess að tillaga stjórnlagaráðs verði höfð að miklu leyti til hliðsjónar við samningu nýrrar stjórnarskrá.  Það þykir mér vond tilhugsun, en ég hlýt að vona að á Alþingi náist samstaða um að sníða af þeim stærstu og augljósustu vankantana.  Það er þó engan vegin víst.

P.S.  Ég sá það einhversstaðar á netinu að samhliða þessum kosningum hefði verið kosið um staðsetningu frístundabyggðar nálægt Dalvík.  Þar hefði bæjarstjórinn gefið út þá yfirlýsingu að til að kosningin yrði "bindandi", þyrfti kjörsókn að vera í það minnsta 65%.

Staðsetning frístundabyggðar er háalvarlegt mál, og flestum augljóst að þar þarf að setja verulega harðari umgjörð en þegar fjallað er um stjórnarskrá.  Eða er það ekki?

 


mbl.is 66,2% sagt já á landsvísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað skiptir kjörsókn máli

Ég hef séð það hér og þar um netið í dag, að Já-sinnar reyna að gera lítið úr kjörsókn og tala eins og hún skipti í raun engu máli. Það séu þeir sem mæti á kjörstað sem ákveði niðurstöðuna.

En auðvitað skiptir kjörsókn gríðarlegu máli þegar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, er vegin og metin.  Kjörsókn skiptir líka gríðarlegu máli þegar tekin er afstaða til þess hvort að "þjóðin" hafi verið að kalla eftir nýrri stjórnarskrá, eins og ýmsum ríkisstjórnar og stjórnlagaráðsmeðlimum hefur verið tamt að fullyrða.  Þeir hafa líka gengið býsna langt á köflum með að gefa í skyn fyrir að þeir töluðu í nafni hennar og tillaga þeirra nánast sprottin frá "þjóðinni".

Slök kjörsókn bendir til þess að "þjóðin" hafi hreint ekki verið að kalla eftir nýrri stjórnarskrá, heldur þvert á mót.  "Þjóðin" hefur sýnt að hún mætir vel á kjörstað þegar atkvæði eru greidd um málefni sem hún lætur sig varða og telur mikilvæg.

En hitt er hins vegar alveg rétt að það eru þeir sem mæta á kjörstað sem taka ákvörðun og ráða niðurstöðum kosninga.  Sveitarstjórn er alveg jafn réttkjörin, þó að fáir hafi mætt á kjörstað.

Þess vegna skiptir máli hver niðurstaðan er, hver svo sem þátttakan verður.

Þess vegna hvet ég alla til að mæta á kjörstað og segja nei.

En þar sem kosningin er aðeins ráðgefandi finnst mér ekki hægt að segja annað en að vægi hennar minnki með slælegri kjörsókn.

Allt undir 50% kjörsókn segir í mínum huga að "þjóðin" hafi alls ekki verið að kalla eftir nýrri stjórnarskrá. Kjörsókn rétt þar yfir getur ekki talist sterkt ákall þar að lútandi.

Eitt er svo að vilja nýja stjórnarskrá eða breytingar á núgildandi, það þarf alls ekki að þýða að viðkomandi vilji leggja þau drög sem stjórnlagaráð lagði fram sem grundvöll að nýrri.

Aðrir vilja svo hugsanlega halda í núgildandi, þannig geta verið margar mismunandi ástæður fyrir því að segja nei.

En að greiða ekki atkvæði getur ekki talist ákall um nýja stjórnarskrá.

 


mbl.is Kjörsókn í SV-kjördæmi 19,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsemin kallar eftir nei-i

Í mínum huga er engin vafi á því að skynsamlegar vangaveltur um stjórnarskárdrög sem Íslendingar greiða atkvæði um í dag, kalla fram neitun á því að þær verði lagðar til fram sem grundvöllur fyrir nýja stjórnarskrá.

Ég vona að það sé niðurstaðan sem flestir hafi komist að, og greiði þannig atkvæði.

Þó vissulega sé ýmislegt sem nýta má úr tillögunum, tel ég engan grundvöll fyrir því að leggja þær til grundvallar nýrri stjórnarskrá sem heild.  Því þarf svo gott sem að byrja þá vinnu frá grunni.

Hér er smá kafli sem ég fá að láni frá grein Þorsteins Pálssonar, sem birtist á vef Vísis.  Þorsteinn kemst að þeirri niðurstöðu að umhugsun í 5 mínutur geti virkað til að fá einstaklinga til að segja já, lengri umhugsun ætti að fá þá til að hafna tillögunum.  Það skýrir ef til vill hvers vegna svo mikð er á sig lagt af hálfu ríkissjtórnarinnar og stjórnlagaráðsmanna að keyra málið í gegn á þessum hraða og með offorsi.  Þar er ekki vilji til að staldra við og gefa almenningi tækifæri til að hugsa. En Þorsteinn skrifar:

Auðlindaákvæðið er gott dæmi. Allir flokkar á Alþingi eru fylgjandi þeirri hugsun að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Ágreiningurinn snýst um hitt, hvort innan þeirra marka eigi að láta félagsleg sjónarmið eða kröfur um þjóðhagslega arðsemi ráða með hvaða hætti veiðunum er stýrt.

Leggja má skatt á útgerðina út frá réttlætissjónarmiðum og deila þeim peningum svo aftur til hennar og þeirra byggða sem í hlut eiga út frá öðrum réttlætissjónarmiðum. Almenningur nýtur einskis af því. Talsmaður Samfylkingarinnar í eldhúsdagsumræðunum síðastliðið vor fullyrti að nýja stjórnarskrárákvæðið tryggði þess konar stjórnun og útilokaði þjóðhagslega hagkvæmni. Ef það er rétt vaknar spurningin hvort skynsamlegt er að útiloka arðbæran sjávarútveg í stjórnarskrá.

Af þessu má ráða að einungis þetta eina ákvæði kallar á meir en fimm mínútna umhugsun. En þannig þarf að brjóta allar greinar stjórnarskrárhugmyndanna til mergjar. Slík umhugsun eykur hins vegar líkurnar á að svarið verði: Nei. 

Og svo aftur síðar í greininni:

Mikið hefur verið látið af því að nýju stjórnarskrárhugmyndirnar tryggi mönnum réttindi af ýmsu tagi umfram það sem þekkst hefur. Þar er ekki um að ræða hefðbundnar takmarkanir á möguleikum stjórnvalda til að skerða frelsi borgaranna. Nýmælin felast í réttindum sem kalla á stórlega aukin útgjöld úr ríkissjóði.

Enginn getur sagt til um hversu mikla útgjaldaaukningu nýju ákvæðin hafa í för með sér. Þegar ótakmörkuð réttindi til greiðslna úr ríkissjóði hafa verið fest í stjórnarskrá fá dómstólar endanlegt úrskurðarvald um það hvort almenn lög á því sviði fullnægi þeim og hversu mikið ríkisútgjöldin aukast. Hitt er víst eins og nótt fylgir degi að stórhækkun skatta er óhjákvæmileg afleiðing þessara góðu nýmæla.

Á öllum tímum er það höfuð deiluefni stjórnmálanna hversu hratt á að auka ríkisútgjöld. En hvort heldur menn kjósa varkárni eða róttækni á því sviði er varasamt að ætla dómstólum endanlegt úrskurðarvald um útgjöldin en lýðræðislega kjörnum fulltrúum það hlutverk eitt að afla tekna á móti. Heppilegri stjórnskipan er að ábyrgð á útgjöldum og öflun tekna sé á sömu hendi.

Áformin lýsa snotru hjartalagi en draga aftur á móti úr pólitískri ábyrgð og veikja lýðræðið. Er ekki ástæða til að gefa slíkri breytingu meir en fimm mínútna íhugun?

Það er þörf á mikið lengri tíma, ef gjörbylta á jafn mikilvægum hlut og stjórnarskrá lýðveldis.  Ég hvet Íslendinga til að senda frá sér þau skilaboð að þeir vilji taka sér þann tíma.  Ég hvet þá til að hafna því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

 


Sjálfstætt Skotland?

Ég hef enga ákveðna skoðun á því hvort Skotland ætti að vera sjálfstætt eður ei.  En ég fagna því að ákveðið hefur verið að halda atkvæðagreiðslu til að ákveða hvort svo skuli verða eður ei.

Það er alltaf best að kjósendur fái að segja skoðun sína í málum sem þessum, beint og milliliðalaust.

Í nýjustu skoðanakönnun sem ég hef heyrt af, er staðan sú að stuðningur við að Skotland yfirgefi Sameinaða konungdæmið, er meiri á meðal Englendinga en Skota.

En á þessum miklu "Sambands" og sameiningartímum er það umhugsunarvert að sjálfstæðishreyfingum virðist vaxa fiskur um hrygg víða um lönd.

Allir kannast við sjálfstæðishreyfingar Skota og Quebec búar hafa einnig komið boðsap sínum vel á framfæri, nú síðast í heimsókn til Frakklandsforseta.  En sjálfstæðishreyfingar eru einnig á uppleið í Belgíu og Spáni.

Ekki er langt síðan Tékkóslóvakía skiptist í tvö ríki og flestum er enn í fersku minni hörmunarsagan um uppbrot Júgóslavíu.

En mun Skotlandi vegna betur efnahagslega sem sjálfstæðu landi?

Því er auðvitað engin leið að svara svo afdráttarlaust sé, en án efa verður það rökrætt fram og aftur á næstu misserum, frá mismunandi sjónarhólum.

En efnahagurinn er aðeins einn af mörgum þáttum sem koma til með að hafa áhrif á Skota við kjörborðið.  Líklega mun einnig skipta sköpum hvort að þeir telji Skotland verða betra land og hvort það verði meira "þeirra eigið land", ef það nýtur sjálfstæðis.

Eins og staðan er í dag bendir allt til þess að Skotar muni hafna því að kljúfa sig út úr Sameinaða konungsdæminu, en en það getur hæglega breyst á tímanum fram að kjördegi.

En það er næsta víst að það verður tekist á.

P.S.  Get ekki stillt mig um að birta hér einn brandars sem er fengin að "láni" úr Daily Telegraph.  Teiknarinn er Matt. Góður húmor.

Helgar GB

 

 


Hvað skapar íbúðaverð?

Það er ekki einfalt að fullyrða hvað það er sem skapar íbúðaverð. Vissulega eru framboð og eftirspurn stórir þættir á fasteignamarkaði, en fleiri breytur koma til, ekki síst þær sem virka hvetjandi/letjandi á eftirspurnina.

Vissulega spila breytur á við vexti og aðgangur að lánsfé inn í húsnæðisverð, en ekki endilega í þá átt sem margir telja.

Mér er minnisstæð umfjöllun um húsnæðisverð í Kanada.  Í umfjölluninni kom fram að Dogde (sem þá var og er fyrrverandi seðlabankastjóri Kanada) hafði á tíð sinni sem seðlabankastjóri sent ríkisstjórn Kanada býsna harðort bréf, þar sem hann mótmætli ætlunum þeirra að auka aðgang að lánsfé til húsnæðiskaupa, aðallega með þeim hætti að lengja tíma þeirra húsnæðislána sem mögulegt væri að kaupa ríkisstryggingu fyrir.  Tíminn var lengdur úr 25 árum í 40.

Dodge hélt því fram og færði ágætis rök fyrir máli sínu, að slíkar aðgerðir kæmu húsnæðiskaupendum aðeins til góða í mjög skamman tíma.  Þeir sem stykkju á vagninn í upphafi, nytu vissulega lægri greiðslubyrði, en síðan kæmi til umtalsverð hækkun á húsnæðisverði.   Það sama gilti um vaxtabreytingar.  Þær kæmu húsnæðiskaupendum aðeins til góða í stuttan tíma, síðan hækkaði húsnæðisverð.

Staðreyndin væri sú að lægri vextir og lengri lánstími, virkuðu til hækkunar á húsnæðisverði.  Aukin greiðslugeta virkaði til hækkunar á verði og fleiri kaupendur verða sömuleiðis til staðar. Þegar mánaðarleg greiðslugeta eykst, er boðið hærra verð fyrir fasteignir, nema að framboð aukist til jafns.

En vissulega hafa aðrir þættir veruleg áhrif sömuleiðis.

Fæstir vilja selja fasteignir sínar undir kostnaðar eða "meðalverði" nema brýna nauðsyn beri til.  Byggingarkostnaður hlýtur því eðlilega að hafa mikil áhrif á fasteignaverð.

Byggingakostnaður hefur líklega aukist verulega á Íslandi undanfarin áratug, eða svo.  Bæði kemur þar til hækkun á byggingarefnum, en ef til vill ekki síður hækkun á lóðum.  Lóðaverð á Íslandi hefur verið gríðarhátt í alþjóðlegum samanburði, þó að gengisfall krónunnar hafi fært það til betri vegar undanfarin ár.

Þannig er mér minnisstætt, að þegar við keyptum okkur lítið og nett einbýlishús í Toronto árið 2006 (í þokkalegu millistéttarhverfi) kostaði það svipað og lóð í úthverfi í  Reykjavík.

Verðbólga og háir vextir eru vissulega áhrifaþættir í húsnæðisverði, en ég hygg að aðrir þættir hafi meiri áhrif.  Háir vextir ættu raunar að virka letjandi, en þar spilar lengd lánstíma vissulega inn í til jöfnunar.

Hvað er svo meðalíbúð, er önnur skilgreining sem ef til vill þyrfti að koma fram, og hvaða skilgreining og útreikningar búa þar að baki.

P.S.  Þess má einnig geta hér að nú nýlega þegar ríkisstjórn Kanada vildi "kæla" húsnæðismarkaðinn, sem þótti hafa risið heldur hratt, var ákveðið að stytta tryggjanlegan lánstíma og hann er að ég tel aftur kominn niður í 25 ár.   Vextir hafa enda verið afar lágir í Kanada eins og víðast hvar og hafa ýtt húsnæðisverði hressilega upp.

 


mbl.is Höfum ekki lengur efni á meðalíbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband