Er "Sambandsaðild" dottin úr umræðunni, nú fyrir kosningar?

Ég hef verið að þvælast um netið og m.a. skoða umfjöllunina á Íslandi um komandi kosningar. Ég gerði það mér til gamans að taka það "próf" sem er hér viðhengt og kallast Kosningaspegill.

Það kom mér lítið á óvart að skoðanir mínar ættu mesta samleið með Sjálfstæðisflokknum, og ekki heldur að fylgnin mældist undir 50%.

Ég tók einnig svokallað kosningapróf á vef RUV. Það kom einnig fátt á óvart og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins röðuðu sér í efstu sætin hvað varðaði að skoðanir svipaðar og mínar.

En það vakti athygli mína að í báðum þessum prófum kom engin spurning um Evrópusambandsaðild.

Ég geri mér grein fyrir því að svona próf eru aðallega til gamans gerð og geta ekki fylgt eftir öllum málum.

En er spurningin um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópussambandið virkilega komin út úr "mainstream" pólítískri umræðu á Íslandi?

Nú heyrist mér að enn sé aðildin meðal lykilatriða í stefnu Samfylkingarinnar og fyrirferðarmikil í málflutningi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.  Tveir síðarnefndu flokkarnir eru vísu ekki atkvæðamiklir akkúrat nú, en þó er allt eins líklegt að Viðreisn gæti slampast á þing.

Og Samfylkingin gæti hæglega orðið einn af sigurvegurum kosninganna ef marka má skoðanakannanir.

Samt velja þeir sem setja saman "prófin" að skauta algerlega fram hjá þessari umræðu.

Það má velta því fyrir sér hvaða flokkum það kemur til góða í kosningaprófum sem þessum, þegar litið er til þeirrar staðreyndar að andstaða við "Sambandsaðild" mælist yfir 60% og hefur gert það í 8 ár eða svo.

 


mbl.is Kosningaspegill mbl.is 2017
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í fasisma í Frakklandi?

Það ríkir stríðsástand í Frakklandi, alla vegna ef marka má málflutning innanríkisráðherra landsins.

Það sem áður var kallað "neyðarlög", eru nú lög, partur af daglegu lífi og "hversdagslegum" stjórntækjum yfirvalda.

Það má allt að því segja að yfirvöld telji að viðvarandi neyðarástand ríki.

Hin umdeilda hryðjuverkalöggjöf hefur þó vakið ótrúlega litla athygli utan Frakklands.

Heimilt verður að hefta ferðafrelsi og skylda einstaklinga til að tilkynna sig til lögreglu daglega, án dómsúrskurðar. Bænahúsum má loka, leitarheimildir eru rúmar o.s.frv.

Nú ætla ég ekki að dæma um hvort að allt þetta séu eðlilegar ráðstafanir miðað við ástandið í Frakklandi, en þó hlýt ég að velta því fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að festa þetta í lög.  Hefði ekki verið eðlilegra að framlengja "neyðarlög" þannig að þau falli þá úr gildi, samþykki þingið ekki áframhald þeirra?

Er ekki æskilegt að lög sem heimila miklar skerðingar á réttindum einstaklinga hafi "sólarlagsákvæði"?

Það kom líka upp í huga mér að oft eftir hryðjuverkaárásir, er talað um að við megum ekki láta þau verða til þess að við breytum siðum okkar og venjum, heldur höldum áfram okkar daglega lífi og virðum réttindi einstaklina og okkar opnu samfélög.  Annað þýði að hryðjuverkafólkið hafi unnið.

Hefur Frakkland þá verið sigrað?


mbl.is Samþykkja nýja hryðjuverkalöggjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband