Viðtal BBC við Musk - í heild sinni

Það er óhætt að segja að viðtal Elon Musk við BBC hafi vakið all nokkra athygli.  Persónulega finnst mér Musk komast vel frá viðtalinu, heldur ró sinni og yfirvegun.

Það sama verður vart sagt um spyrilinn.

Það er fróðlegt að horfa á viðtalið í heild sinni og eins og oftast er best að horfa á viðtalið allt og mynda sér eigin skoðun.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Musk opnar sig um kaupin á Twitter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið af hverju þessi maður er svona áberandi í fjölmiðlum? Af hverju skiptir það máli hvað honum finnst? Af hverju hefur fólk áhuga á því sem hann hefur að segja?

Er það af því að hann er svo ofboðslega ríkur? Af hverju ríkt fólk er athyglisvert hef ég reyndar aldrei skilið heldur.

Gætirðu útskýrt þessa hluti fyrir mér?

(Þú afsakar en ég bara nenni ekki að hlusta á viðtalið).

Kristján G. Arngrímsson, 13.4.2023 kl. 17:29

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Að sjálfsögðu eru yfirleitt skiptar skoðanir hvort einhver einstaklingur er "athyglisverður" eða ekki.  Ekkert er eðlilegra en það.

Þeir sem leggja aldrei við hlustir, eru líklega ólíklegastir til að finnast sá sem talar "athyglisverður".

Ég held að enginn sé sérstaklega athyglisverður fyrir það að vera ríkur, enda mikill fjöldi af ríku fólki sem fæstir hafa heyrt um að það sem meira er, það hefur engan áhuga á því að almenningur heyri af því.  Það getur jafnvel verið eingöngu atgangur "virtra fjölmiðlamanna" sem beinir athygli almennings að þvi.

Það sem gerir Musk athygliverðan að mínu mati, eru öll þau fyrirtæki sem hann hefur komið að og sum þeirra haft mikil áhrif og að einhverju marki breytt "sögunni".

Þar má nefna t.d PayPal, Tesla, SpaceX (og þannig StarLink), The Boring Company og NeuraLink.  Sjálfsagt mætti tína til einhver fleiri.

Síðan keypti hann auðvitað Twitter eins og frægt er orðið, nokkuð sem vissulega vakti athygli og margir velta vöngum yfir.

Og viðtalið er nokkuð gott að margir myndu segja að þar eiginlega "pakki" Musk saman frekar "sjálfbirgingslegum" fjölmiðlamanni frá BBC, en að sjálfsögðu er ekki óliklegt að á því séu einnig skiptar skoðanir.

En ef þú hefur engan skilning á því hvers vegna svo mörgum finnst Musk "athyglisverður", ættirðu ef til vill að víkka "fréttsjóndeildarhringinn".

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2023 kl. 02:26

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Gott svar. Takk fyrir það. Varðandi fréttasjóndeildarhringinn þá er ég reyndar að reyna að vera aðeins vandfýsnari. Eflaust missir maður af einhverju, en þannig er nú lífið. Sem betur fer er maður (að mestu) laus við allt FOMO.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2023 kl. 07:27

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Viðtalið er athyglisvert í fleiru en einu tilliti.

Ef ég hef skilið rétt, var því streymt í beinni á Twitter (hvar annars staðar), og svo sett á YouTube (þar sem ég horfði á það).

Þannig gat hver sem er fengið að beint "af kúnni", og myndað sér eigin skoðanir og metið gildi þess.

Aðrir hafa svo ekki tíma til þess, og treysta því á "hliðvörslu" BBC eða fjölda annara fjölmiðla sem hafa fjallað um málið (viðtalið).

Hvort að það skilar svo sömu tilfinningu og að horfa á viðtalið í heild er svo opin spurning.

En það er ekki tilviljun að fjölmargir aðilar veita fjölmiðlum almennt ekki viðtal án þess að gera ráðstafanir til þess að taka viðtalið jafnfram upp á eigin vegum á í heild.

P.S. "Sjóndeildarhringurinn" er frekar þröngur að mínu mati, ef athygli þín hefur að engu leyti beinst að Musk.

Reyndar datt mér í hug nú í morgunsárið, að Musk og athyglin sem að honum beinist (alls ekki óverðskuldað) að á suman hátt ekki ósvipuð þeirri athygli sem beinist að Kára Stefáns, þó ég sé alls ekki að segja þá svipaða "karaktera" (enda hvorugan hitt eða talað við).

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2023 kl. 13:53

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég átti alls ekki við að athyglin sem Musk fær sé óverðskulduð, bara að ég skil hana ekki. 

En þetta með líkindin við Kára Stef. er ekki út í hött og gæti útskýrt margt. Þeir eru líklega báðir af náttúrunnar hendi "forystusauðir" og fá því eðli málsins samkvæmt mikla athygli. Sjálfur hef ég lengi verið í "team Kári Stef."

Eins og þú hefur kannski heyrt um hefur komið fram sú tilgáta (að ég ekki segi kenning) að "forystusauðir" séu sérstök tegund sauðfjár, jafnvel að vissu marki eðlisólík öðru sauðfé. Kannski eru menn eins og Musk og Kári eitthvað öðru vísi af guði gerðir en við minni spámenn.

Kristján G. Arngrímsson, 15.4.2023 kl. 07:48

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég á örlítið erfitt með að akilja af hverju þú skilur ekki af hverju Musk fær verðskuldaða athygli.  lol

En Musk (og líklega Kári einnig) er ekki bara frumkvöðull, heldur "visionary", hér vantar mér Íslenskt orð, en þú getur ef til vill hjálpað mér með það.

Persónuleg hef ég ekki mikla trú á því að hann komi upp "nýlendu" á Mars á mínum líftíma og varla sínum.  En margir hrífast af hugmyndinni. 

Ég hef engan áhuga á því að ferðast út í geim með SpaceX, en það er engin skortur á þeim sem hafa áhuga.  Ég hef trú á því að það geti orðið býsna algengt, á næstu áratugum.

Það er heldur engin ástæða til að gleyma því að Kári leið engna skort á andstæðingum (líklega væri það kallað hatursmenn í dag) og "úrtölumönnum" í "den", ekki síst innan "háskólasamfélagsins" en ég hygg að þeim hafi fækkað á undanförnum árum, eða í það minnsta þeim hljómgrunni sem þeir fá.

Musk er ekki síður umdeildur, en fær athygli.

Ég er í sjálfu sér óttalega sáttur við að teljast til "við minni spámenn", en hitt er svo að þó að ég hefði aðeins komið að einu þeirra fyrirtækja sem Musk hefur komið að, væri ég ótrúlega stoltur.

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2023 kl. 22:13

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég lét Heimildina mata mig á highlights úr viðtalinu. Það rann upp fyrir mér hvað það er sem sumu fólki finnst heillandi við menn eins og Musk og Kára Stef. og sjónvarpsþætti á borð við Succession.

Það er draumurinn um að geta gert og sagt nákvæmlega það sem manni sýnist, bæði í krafti peninga og karakters. Musk og Kári eiga það sameiginlegt að hika ekki við að valta yfir fólk og þeir virðast ekki sjá neina þörf fyrir að taka tillit til annarra en nákvæmlega eigin hagsmuna og langana.

Það sem í flestum tilvikum kemur í veg fyrir að fólk hagi sér svona er einfaldlega persónuleikinn - flest fólk ber skynbragð á tilfinningar annarra og getur ekki annað en hagað sér í samræmi við það - og svo hitt að fæstir eiga nóga peninga til að eiga nákvæmlega ekkert undir öðru fólki. (Stundum er talað um "fuck-you money").

Kristján G. Arngrímsson, 16.4.2023 kl. 12:19

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Upplag einstaklinga er mismunandi.  Það hefur gjarna þótt kostur að tala "tæpitungulaust", en það er þó ekki við skap allra.

Hitt er svo að hvorki Kári né Musk eru sækjast eftir kjöri eða endurkjöri.  Þeir eru heldur ekki "titrandi" eftir "lækum" eins og virðist því miður svo algengt nú orðið.

Það er ekki síst vegna þess sem að "þörf" skapast fyrir slíka eiinstaklinga.

Þegar þú talar um að "... valta yfir fólk ... eigin hagsmuni ... og bera ekki skynbragð á tilfinningar annarra"..  Finnst mér þú vera að lýsa býsna mörgu fjölmiðlafólki, en það er önnur saga.

Og það hlýtur sömuleiðis gjarna aðdáun fyrir.

G. Tómas Gunnarsson, 17.4.2023 kl. 21:42

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þessi "þörf" fyrir svona einstaklinga er varasöm. Einmitt svona "þörf" sem fleytti Hitler til valda og ég myndi líka segja Trump. Báðir skelfilegir leiðtogar. (Vísast þó einhverjir ósammála mér um það). Spurning hvort Pútín og Stalín eru ekki líka í þessum hópi.

Það vill svo til að ég þekki dálítið mikið af fjölmiðlafólki og verð að segja að ekkert þeirra myndi falla undir þessa lýsingu. Værirðu til í að nefna nöfn? (Hélt ekki).

Kristján G. Arngrímsson, 18.4.2023 kl. 07:43

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Mér sýnist þú leggja einhvern allt anna skilning í orðið "tæpitungulaust", en ég geri.

Ég tel engan veginn að Putin, Stalín og Hitler hafi talað "tæpitungulaust", og þau það megi halda því fram að Trump hafi gert það að vissu marki, sérstaklega stöku sinnum, þá finnst mér það ekki lýsandi fyrir hann

Sbr. þessa setningu: "Ég vil nýta þekkingu mína á efnahagsmálum samfélaginu til góðs og vil tala tæpitungulaust.", sem ég fann þegar ég leitað að dæmum um "tæpitungulaust.  Þú getur látið Hr. Google finna hana og ákveður svo hvort að þú vilt halda áfram að tala um Hitler og Stalín.

En ég held að mikil þörf sé fyrir tæpitungulausar umræður um efnahagsál, sérstaklega skuldamál á næstunni, þannig er ástandið víða um heim.  Það gæti jafnvel verið eftirspurn eftir slíkum umræðum.

Það hafa alltaf verið til mismunandi fjölmiðlafólk, m.a. þeir sem koma til að "sigra" viðmælandann og aðrir sem "pönkast" á viðfangsefninu, eins og það var einhvern tíma orðað.  Svo eru þeir sem fara hógværar yfir og svo mætti líklega lengi telja upp mismunandi aðferðir. Aðrir "skálda" fréttir og fréttaskýringar og hafa jafnvel hlotið verðlaun fyrir.

En ég sé engan sérstakan tilgang með því að ræða einstaka fjölmiðlafólk hvað þá kunningjahóp þinn.  Þar hefur þú rétt fyrir þér.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2023 kl. 15:54

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér hefur reyndar skilist að það hafi ekki síst verið ræður Hitlers, mjög tæpitungulausar, sem öfluðu honum fylgis. En gott og vel. Það sem ég átti frekar við voru "forystusauðir" á borð við Musk og Kára (sem ég held að væru báðir alveg hræðilegir pólitíkusar).

Það virðist sem það veiti mörgum öryggistilfinningu að hlusta á tæpitungulaust tal (þeirra sem "þora meðan aðrir þegja"), eins og þeir séu að segja sannleikann, tjá veröldina "eins og hún er". Grímulaust. Svo náttúrulega eru margir sem rugla saman ruddaskap og skarpskyggni; halda að því tæpitungulausar sem maður talar því meiri sannleika segi maður. 

Það er svo sannarlega misjafn sauðurinn í mörgu fjölmiðlafénu. Þar er nú t.d. að finna einn sem hefur gert sér karríer úr að tala reiðilega og hljóma "tæpitungulaus", þ.e. Tucker Carlson. En dómsmálið í USA sýndi einmitt að þar var bara sagt það sem áhorfendur vildu heyra, jafnvel þótt fjölmiðlungarnir vissu sjálfir að þeir voru ekki að segja satt. Þeir beinlínis lugu.

En þessi stíll Carlsons, að hljóma reiður og "say it as it is", var alls ekki af einhverri sannleiksást, þetta var bara leikþáttur til að halda í áhorfendur. Sem betur fer held ég að fæstir fjölmiðlamenn leiki þennan leik. 

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2023 kl. 22:19

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Enn og aftur snýr þetta að merkingu orða, það er ef til vill ekkert skrýtið að merking þeirra sé dulítið misjöfn í huga einstaklinga, en það skapar þó ýmis vandamál.

Persónulega hef ég alltaf litið á "tæpitungulaus(t)) vera svo gott sem systurhugtak þess að vera "ómyrkur í máli", en að vera myrkur í máli er ekki jákvætt.

Mér finnst oft merking þessara hugtaka hafa breyst, en þó notkun þeirra vera svolítð óljós.

En að mínu hyggjuvit var Hitler einmitt "myrkur" í máli, talaði mjög gjarna óljóst og lét hlustendum (áhorfendum) eftir að túlka það sem sagt var (sem margir gerðu svo hver á sinn hátt).

Bæði nazistar og kommúnistar voru flestum fremri í "newspeak" og veigruðu sér svo gjarna að nefna hlutina sínum réttu nöfnum og forðuðust að tala skýrt, kusu ekki að tala "tæpitungulaust".

Að vera reiður tengist í mínum huga ekki því að tala "tæpitungulaust", stór orð getur vissulega fallið þar undir, en "stór orð", þurfa ekki að vera "bölv og ragn", eða önnur ljót orð.

Ég get svo tekið undir með þér, að líklega væru bæði Musk og Kári frekar slakir stjórnmálamenn, ekki síst vegna þess að þeim er tamt að tala "tæpitungulaust".

Það er alveg hægt að segja að það sé þörf fyrir slíka stjórnmálamenn, en eftirspurnin er yfirleitt ekki til staðar.  Flestir kjósa frekar að kjóas einhvern sem lofar einhverju, s.s. ókeypis barnapössun, endurgreiðslum til kvikmyndargerðar, betri (og/eða ókeypis) strætó, uppbyggingu húsnæðis (hver hefur ekki gert það?) betra heilbrigðiskerfi o.s.frv.  Og þar er ekki talað tæpitungulaust.

Eins og Churchill sagði (eða að er í það minnsta eignað honum) þá þarf góður stjórnmálamaður að geta sagt til um hvað gerist eftir 6. mánuði, og að 6. mánuðum liðnum, þarf hann að geta útskýrt út af hverju það gerðist ekki.

En það hefur alltaf verið misjafn sauður í hópi fjölmiðafólks, rétt eins og i öðrum hópum eða starfstéttum.

Þetta er ekkert nýtt.  Fyrir u.þ.b. 90. árum var fjölmiðlamaður sem fullyrti að það væri engin hungursneyð í Ukraínu.  Það væri skreytni.  Rithöfundur fullyrti, að ef þar væri hungursneyð, væri það dásamleg hungursneyð.  Annar fékk Pullitzer verðlaun, hinn hlaut seinna Nóbel.  

En hungursneyðin varð seinna þekkt sem "holodomor".

En þeir kusu ekki að tala tæpitungurlaust, heldur þjóna "hugsjóninni", eða "agendunni.

En báðir gátu skrifað góðan texta.

G. Tómas Gunnarsson, 21.4.2023 kl. 02:35

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér sýnist að munurinn á því hvernig við skiljum hugtakið "tæpitungulaust" helst vera sá að þú tengir það við að segja sannleikann en ég held að hægt sé að vera skorinorður eða ómyrkur í máli og fara samt á svig við sannleikann.

Ég held meira að segja - og það er jafnvel meginpunkturinn í því sem ég hef verið að segja - að tæpitunguleysi sé oft beinlínis notað til að fela sannleikann, eða að fólki hætti til að halda að ef maður er skorinorður þá hljóti maður að vera að segja satt. Og þennan "veikleika" nýta margir til að komast til valda. Eða ná hlustun/áhorfi.

Stundum er sannleikurinn einfaldur og skýr en stundum ekki. Til dæmis með hungursneyðina í Úkraínu á Stalíntímanum held ég að það blasi við hvað í raun og veru gekk á. Þá mætti segja: það er auðvelt að vera vitur eftir á. Já, en það breytir ekki því sem í raun og sannleika gerðist.

Það er til nýleg kvikmynd um þetta sem þú nefnir, þennan Pulitzerhafa sem laug til um málið - hann hét Walter Duranty og var fréttaritari NYT. Kvikmyndin fjallar um annan blaðamann, og heitir Mr. Jones, sem var sá sem "kom upp um" ósannsögli Durantys.

En hver var Nóbelshafinn?

Varðandi sannleikann, þá held ég t.d. að hann hafi ekki verið einfaldur og skýr í Covid fárinu. Ýmsir reyndu þó að tala afdráttarlaust og láta sem þetta væri augljóst. Aðrir ekki, t.d. þáverandi farsjúkdómalæknir og Kári Stef. Þeir gerðu sér held ég báðir skýra grein fyrir því að þarna var fátt augljóst og gat verið beinlinis hættulegt að tala eins og allt lægi skýrt fyrir.

Eða það mætti segja: sannleikurinn var einfaldur og skýr en það var ekki hægt að sjá hann in the fog of war. Eftir nokkur ár verður vonandi ljóst hver hann er. Verður einhverntíma ljóst hvar og hvernig Covid byrjaði? Nei, kannski ekki en samt er sannleikurinn um það væntanlega til. Spurningin er, er vísvitandi verið að reyna að fela hann? Kannski er það hnífurinn í kúnni. Tucker Carlson virðist hafa vísvitandi farið á svig við sannleikann til að "virða" áhorfendur, en mér hefur sýnst og heyrst að hann sé samt mjög skorinorður og tali tæpitungulaust. Það er einmitt þess vegna sem fólk heldur að hann sé að segja satt. Það ruglar saman tæpitunguleysi og sannsögli.

Kristján G. Arngrímsson, 21.4.2023 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband