Skammt stórra högga á milli

Það er með líflegra móti í Íslenskum stjórnmálum þessi misserin, skammt stórra högga á milli og ekki ólíklegt að ýmsum þyki full líflegt.

Flokkarnir á kjörseðlinum verða líklega í það minnsta 10 flokkar, og ekki ólíklegt að þeir verði 12 til 13, alla vegna í sumum kjördæmum.

Það er því erfitt að spá fyrir um úrslit komandi kosninga og má segja að spennan sé að mörgu leyti þríþætt.

Það er að segja hverjir verða stærstir (og hvor verður stærri Sjálfstæðisflokkur eða Vinstri græn), hverjir komast yfir 10% og hverjir ná ekki manni inn á þing.

Það má jafnvel segja að það sé að nokkru marki spennandi að sjá hverjir af flokkunum ná að skila inn fullgildum framboðslistum, ekki síst ef litið er til allra kjördæma.

En það er engin leið að segja annað að Íslensk stjórnmál séu sundruð, eða splundruð. Ef til vill er ekki síst spennandi að sjá hvort að það verði fleiri en tveir flokkar sem ná yfir 10% kjörfylgi.

Það er ekki gefið að það verði nema Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sem ná yfir þann "þröskuld" (og án efa ríflega það), þó mér þyki líklegt að það verði 3 til 4 flokkar.

En mér þykir því miður líklegt að skoðanakannanir eigi eftir að spila stærri rullu fyrir þessar kosningar en nokkru sinni fyrr.

Því fleiri flokkar sem eru í framboði, því meiri líkur eru á því að flokkar eigi eftir að vera "á nippinu" með það að koma mönnum á þing, eða vera undir því marki.

Því líklegra er að kjósendur sem hefur hugnast viðkomandi flokkur íhugi eða ákveði að kjósa annan flokk til að "kasta ekki atkvæði sínu á glæ".

Nú þegar bendir margt til þess að bæði Viðreisn og Björt framtíð eigi eftir að lenda í þessari "gildru" og hugsanlega fleiri flokkar.

Bæði getur það þýtt atkvæðamissi og svo hitt að stemmning deyr, sjálfboðaliðar láta ekki sjá sig og öll baráttan verður erfiðari.

Hvort að nokkur eftirsjá er svo af þessum flokkum af þingi er allt önnur saga, en það er rétt að velta fyrir sér áhrifum skoðanakannana.

Klofningur Framsóknarflokksins á eftir að hafa mikil áhrif, en það er ekki auðvelt að segja um hver þau verða.  Vissulega er mikill fjöldi á leið úr flokknum, en á móti er einhver hópur á leið "heim" vegna klofningsins.

Einn kunningi minn vildi meina að þeir Framsóknarmenn sem ekki vildu styðja Sigmund Davíð í síðustu kosningum hefðu bjargað Samfylkingunni frá því að falla af þingi, með því að tryggja þeim kjördæmakjörinn mann í N-A.  Sel það ekki dýrara en ég keypti, enda engin leið að fullyrða um slíkt.

En það má fullyrða að ef kjósendur fara að velta fyrir sér hvar engin hætta sé á því að atkvæði þeirra verði "ónýt", þá verði það fyrst og frems Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur sem hagnist á slíkum þankagangi.  Þó án efa fyrst og fremst Vinstri græn, enda Sjálfstæðiflokkurinn einn á hægri væng Íslenskra stjórnmála, þó að deila megi um hvað langt hann nær þar.

En það má fullyrða að baráttan verður hörð, enda líklegt að stutt verði á milli feigs og ófeigs í þessum kosningum.

Hvernig þeim sem hafa svo lagt sig fram um að "ata hvern annan auri", gengur svo að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum, er nokkuð sem vert er að velta fyrir sér.

Þar gefur reynslan eftir síðustu kosningar ekki tilefni til bjartsýni.

 

 

 

 

 


mbl.is Baráttan um botnsætin spennandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin fyrirsögn

Mér varð eiginlega um og ó þegar ég sá þessa fyrirsögn.  "Vélarvana flugvél úti fyrir Grænlandi."

En sem betur fer er fyrirsögnin aðeins enn eitt dæmi um hve illa fréttir eru skrifaðar nú til dags.

Einn af fjórum hreyflum vélarinnar eyðilagðist, sem mætti útleggja sem svo að ein af fjórum vélum flugvélarinnar hafi skemmst eða eyðilagst og vélin misst 25% af því afli sem knýr hana áfram, 1/4 af vélum sínum.

Sem betur fer er það langt í frá að það geri flugvélina "vélarvana", þó að vissulega sé um alvarlegt atvik að ræða.

En sem betur fer fór allt vel, enda á fyrirsögnin og sú fullyrðing að farþegaþotan hafi orðið vélarvana ekki við nein rök að styðjast.

Enn ein fréttin sem virðist benda til þess að til staðar sé takmarkaður skilningur á því sem skrifað er um og takmörkuð þekking á Íslensku máli.

Það þarf gera betur.

 


mbl.is Farþegaþota varð vélarvana úti fyrir Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband