Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Búið í béi

Það er víða þröngt setinn "bekkurinn" um þessar mundir.  Það er enda mikið um að vera og mikil fjölgun í gangi.  "Ný" dýr sjást daglega hér að Bjórá. 

Nú um stundir heldur til dæmis 5 dýra íkornafjölskylda gjarna til á þaki nágranna okkar, og sólar sig gjarna á toppi skorsteinsins.  Sækir þó mikið í garðinn hér að Bjórá.  Hefst þá baráttan við að vernda okkar góss, sérstaklega þó kirsiberjatréð sem nú þegar svignar undan grænjöxlum.

En víða er fjölgunin og víða erfitt um pláss og því um að gera að vera útsjónarsamur og sjá möguleikana í því sem er til staðar.

Það er í raun aðdáunarvert hve dýrin hafa mikla aðlögunarhæfileika, finna sér allstaðar afdrep og skjól, og deyja ekki ráðalaus þegar kemur að því að finna afkomendum sínum skjól.

Þannig var það þegar við skunduðum í eina af bókabúðum Chapters, sem gjarna hefur Starbucks kaffihús innan sinna veggja.  Þar höfðu litlir spörfuglar búið haganlega um sig í béinu. 

Gott hreiðurstæði með "svölum".

 

B is for Birds

Marlin var það heillin

Það var grillað að Bjórá í kvöld, sem oft áður.  En nú var það "marlin" sem var settur á grillið.  Ég er nú ekki viss um Íslenska heitið á honum, en spjótfiskur (ég held að sverðfiskur nái ekki yfir hann) gæti það verið.

En þetta voru stórar og miklar steikur, þverhandarþykkar og langar.

Þar sem ég hafði aldrei smakkað slíkan fisk áður, kryddaði ég þær ákaflega hóflega, smá salt og pipar og nuddaði inn örlitlu fiskkryddi.  Pennslaði örlítið með olívuolíu og slengdi á heitt grillið.  haft rétt um 4 mínútur á hvorri hlið, en líklega mætti stytta tímann örlítið, en alla vegna máttu steikurnar ekki við lengri tíma.

Í stuttu máli sagt er þetta fiskur sem ég get mælt með.  Þéttur, bragðgóður en mildur.  Minnir örlítið á túnfísk og Foringinn hélt því reyndar fram að þetta væri svínakjöt.  En útlitið er ekki ósvipað,  hvítt kjöt, og þéttleikinn svipaður.

P.S. Það er að sjálfsögðu vel þegið ef einhver hefur Íslenska heitið á "marlin".


Hundfúll

Þetta eru slæmar fréttir, en líklega er ekkert að við þessu að gera.  Ef eftirspurnin er ekki næg er lítið hægt annað en að draga úr framboðinu.

En ég held að þetta eigi eftir að gera Icelandair erfiðara fyrir að byggja upp þessa flugleið, og þá sérstaklega frá Toronto yfir til Evrópu.  Það lítur aldrei vel út að byrja á því eiginlega um leið og flugleið er opnuð að skera niður.  Þeir sem skipuleggja ferðir sínar langt fram í tímann þykir yfirleitt vænlegra að skipta við "stabíl" flugfélög.

Þá hefði verið betra að byrja smærra.

En líklega hefur einfaldlega verið farið af stað með of mikla bjartsýni, og ekki hefur verið nóg bókað.  Það hlýtur alla vegna að kosta flugfélagið þó nokkuð að koma þeim farþegum á leiðarenda sem þegar höfðu bókað flug, þannig að svona ákvarðanir eru varla teknar nema að nauðsyn sé og horfur hafi verið á lélegri nýtingu.

En ég er auðvitað hundfúll, var farinn að sjá fram á að hægt væri að skreppa til Íslands mun oftar en ella og með minni fyrirhöfn, en það þýðir ekkert annað en að vona að þetta komi síðar.

Svo lengi sem þeir fella ekki niður flugin mín í júli og ágúst, þá lifi ég þetta af.

P.S. Það væri gott að vita hvað vetrarhléið er langt, hvenær það hefst og hvenær því lýkur.


mbl.is Icelandair dregur úr ferðaframboði í vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er jörðin ekki flöt lengur?

Það hefur oft verið haft að orði undanfarin ár að jörðin sé flöt og hafi þar að auki skroppið saman.  Við búum öll í "Heimsþorpinu" og nálægðin sé orðin svo mikil að allur heimurinn sé sem lítið markaðstorg.

Að miklu leyti er þetta rétt.  Við þurfum ekki nema að fara í verslun til að sjá matvæli, leikföng, fatnað og flest sem nöfnum tjáir að nefna sem framleitt hefur verið í verksmiðjum í órafjarlægð og flutt yfir hálfan heiminn.

En nú vilja margir meina að jörðin sé að stækka og farið að örla á fjallgörðum á ný.

Það sem veldur er hækkandi olíuverð.

En það eru auðvitað margir sem fagna þessum breytingum.  Þetta breytir samkeppnisstöðunni og léttir "heima" framleiðendum lífið.

Það sem veldur er síhækkandi olíuverð og þar með æ dýrari flutningar.

Árið 2000 var kostnaður við að flytja 40 feta gám frá Shanghai til austurstrandar Norður-Ameríku u.þ.b. 3000 dollarar.  Nú kostar það 8000 dollara.

Það er giskað á að ef ekki kæmi til hátt olíuverð væri útflutningur Kínverja u.þ.b. 30% meiri.  Það munar um minna.

En hér má sjá grein Globe and Mail um akkúrat þetta.


Að velja málefni - atkvæði og ákvarðanir

Ég verð að segja að þó að ég sé þeirrar skoðunar að best fari á að flugvöllurinn fari, þá finnst mér þetta merkileg niðurstaða úr skoðanakönnuninni.  Þó að alltaf beri að hafa fyrirvara hvað varðar skoðanakannanir, þó er þetta nokkuð afgerandi niðurstaða.

En hvað er flugvöllurinn mikilvægur í hugum fólks?  Hvar í "forgangsröðinni" er hann?

Nú er fast að 60% í þessari skoðanakönnum sem lýsir þeirri skoðun sinni að þeir vilji flugvöllinn á sínum stað.  Að hann verði um kyrrt í miðborginni.

En eini borgarfulltrúinn sem hefur afdráttarlaust lýst þeirri skoðun sinni að hann vilji ekki hrófla við flugvellinnum, er með "pilsnerfylgi" í skoðanakönnunum.

Því virðist sem að þessi staðfasta skoðun Ólafs nægi ekki til borgarbúar gefi honum atkvæði sitt. Borgarbúar styðja helsta baráttumál Ólafs F., en ekki Ólaf F.  Meirihluti borgarbúa vill flugvöllinn á sínum stað, en vill koma til valda flokkum sem vilja flugvöllinn í burtu.

Þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt.  Það eru auðvitað mörg önnur mál sem skipta borgarbúa meira máli, og ráða meiru um hvernig þeir greiða atkvæði.

Það væri gaman að sjá könnum yfir hvaða mál borgarbúar setja í oddinn í kosningum.  Bæði að þeir væru beðnir að nefna þau, og svo að velja úr málum sem væru borin undir þá.

 
mbl.is Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alonso.... á rauðum Ferrari?

Það hefur aldrei vantað sögusagnir og flugufregnir í Formúluna.  Eins og gengur reynast sumar réttar, en jafn margar eða fleiri rangar.

En þessi saga hefur það með sér að hún er trúleg.  Þessi niðurstaða myndi henta báðum aðilum.  Ferrari vill hafa góða ökumenn, og hún hentar Alonso eiginlega enn betur.  Ekkert er nefnilega góðum ökumönnum nauðsynlegra en að hafa samkeppnishæfan bíl.

Alonso hefur orð á sér fyrir að vera ökumaður sem vinnur vel með tæknideildinni og kemur því vel til skila hvað sé að.  Það er stór kostur.

Svo er hann ekki alveg óvanur að nýta sér gögn frá tæknimönnum Ferrari. :-)

En við sjáum hvað setur.


mbl.is Alonso sagður hafa samið við Ferrari fyrir 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin villa

Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart.  Það er enda eðlilegast að sá sem skipar annað sætið taki við þegar sá í fyrsta forfallast, eða er rúinn trausti eins og staðan er í þessu tilfelli.

En þó að ég fagni þessari niðurstöðu, þá verð ég að vekja athygli á aðal niðurstöðu þessarar könnunar.  Það er að sjálfsögðu slæm staða Sjálfstæðisflokksins og góð staða Samfylkingar.

Þó að hér sé aðeins um könnun að ræða, sem ekki er ástæða til að taka eins og staf á bók frekar en aðrar kannanir, er þessi niðurstaða keimlík því sem búast mátti við.

Hópur sem ekki getur komið sér saman um innbyrðismál, þarf ekki að eiga von á því að borgarbúar séu áfjáðir að fá honum í hendur stjórn á sínum málum. 

Þetta er brýnt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leysa, og grundvallaratriði svo að uppbyggingin geti hafist.  Það liggur á að nýta þau tvö ár sem eru til kosninga - bæði.


mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu í embætti borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósammála, en...

Ég get ekki sagt að ég sé sammála þessum góðu konum.  Ég tel að lagaaðgerðir geti ekki séð annað en að þessi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins sé vel ígrunduð.

Ef banna á nektardans er réttast að Alþingi geri það.  Lögreglan á ekki að vera að dæma einhvern stað útfrá því sem gerist annars staðar.  Ef staðurinn hefur ekki verið brotlegur, hlýtur hann að eiga rétt á því að starfa.

En ég vil nú samt hrósa þessum konum.  Svona á að mótmæla.  Með friðsömum en táknrænum hætti.  Það mættu margir taka sér það til fyrirmyndar.


mbl.is Hreinsað út úr dómsmálaráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumar og tímaflakk

Það er útlit fyrir að það sé loksins komið alvöru sumar hér að Bjórá.  24 gráður í dag og í alla staði blíðskaparveður, eftir annars frekar kalda tíð undanfarið. 

Nú er enda unnið hörðum höndum í garðinum, búið að planta út tómatplöntum, pota niður baunum og sitthverju fleira.  Radísur komnar upp úr jörðinni og jarðarberjablóm lofa öllu fögru.

Á fimmtudaginn brugðum við okkur í "Árbæjarsafnið" hér í Toronto, en þar eru gömul hús og aðrar skyldar byggingar.  Gömul mylla og sitthvað fleira.  Ennfremur eru húsdýr á svæðinu og starfsfólk klæðir sig upp í gömlum móð. 

Á vorin heimsækja skólarnir gjarna þetta safn og sumir ganga svo langt að bæði börn og kennarar klæða sig upp.

Í takt við stemmninguna, koma hér nokkrar svarthvítar myndir.

Time Travellers Sheepish Loom

Viðburðarrík vonbrigði

Það vantaði ekki viðburði í kappaksturinn í Monaco sem oft áður. Mikið um að vera og mikill atgangur.  En úrslitin glöddu ekki nema að litlu leiti.

Ég var nú ekki bjartsýnn fyrir Monaco, en þó blossuði vonin upp eftir gott gengi minna manna í tímatökunum.  En það fór fyrir lítið og hvorki Massa né Raikkonen áttu góðan dag, Raikkonen hreinlega herfilegan.

En þó að Hamilton hafi verið vel að sigrinum kominn, er ég ekki sammála því að hann hafi gert fæst mistök.  Þann titil fær líklega Sutil.  Það var hreinlega grátlegt að horfa á Raikkonen renna í afturendann á honum og eyðileggja fyrir honum frábæra keppni.

Það voru reyndar akstursmistök Hamilton sem áttu líklega stóran þátt í því að færa honum sigurinn, því hefði hann ekki rekist í vegginn, snemma í keppninni, efast ég um að hann hefði haft sigur.  En McLaren liðið vann stórkostlega úr þeim mistökum og með smá heppni færði það Hamilton verðskuldaðan sigur.

Kubica stóð sig sömuleiðis afar vel og Vettel kom skemmtilega á óvart.

En þetta galopnaði keppnina um meistaratitilinn og næstu keppnir verða þeim mun meira spennandi fyrir vikið.


mbl.is Hamilton gerði fæst mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband