Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Evrópusambandið í hnotskurn?

 Þegar ég las eftirfarandi texta, flaug mér í hug að þarna væri kjarna "Sambandsins" að finna.  Engin væri betri í "framleiðslu á pappírum".  Það er ekki að efa að þessar 100,500 blaðsíður hafa verið þýddar á þriðja tug tungumála og prentaðar í nokkur þúsund eintökum á hverju.  Það skapar störf í þýðingardeildum, styrkir skógahöggs og pappírsiðnaðinn, svo ekki sé minnst á "bjúrókrasíuna" í Brussel.

En hefur einhver trú á því að þetta leysi eurokrísuna?

José Manuel Barroso, President of the European Commission, says EC has produced 100,500 pages looking at economic health in 27 member states and offering rcommendations

He believes youth unemployment levels are "dramatic" and "unnacceptable". Adds that "we intend to look at steps towards full economic union. We remain convinced of the benefits the common currency has delivered and will do in the future... Many member states now argue in favour of a Common Deposit Guarantee Scheme."

 Rauð leturbreyting er gerð af höfundi þessa bloggs.


Hin eilífa eurokrísa

Það voru ýmsir sem héldu að eurokrísan væri eitthvað sem tilheyrði sögunni. Það fór auðvitað fjarri, enda hefur ekkert verið gert til að ráðast að rótum vandans. Euroríkin keyptu hins vegar ákveðinn frest, með því að Seðlabanki þeirra framleiddi gríðarmagn peninga og lánaði á hagstæðum kjörum. En fresturinn hefur ekki verið notaður til þess að laga meinið, heldur til að reyna að fleyta þeirri blekkingu að allt væri i himnalagi.

En sú blekking dugði Sarkozy ekki til endurkjörs, hún dugði heldur ekki til að að "ásættanlegir flokkar" næðu að mynda ríkisstjórn í Grikklandi, né dugði hún til að fjarmálamarkaðir hefðu trú á því að Spánn væri ríki þar sem allt væri í sómanum.

Það er margt sem bendir til þess að kreppan verði viðvarandi nokkuð lengi, enda samkomulag um að taka á vandanum ekki í sjónmáli.  Æ fleiri virðast þó komast á þá skoðun að vandamálið sé euroið sjálft, eða öllu heldur uppbygging þess.  Engin leið sé að nota sameiginlega mynt, án fjárhagslegs og pólítísks samruna.

En þeir eru ekki margir Evrópsku stjórnmálamennirnir sem treysta sér til að bera það á borð fyrir kjósendur í löndum sínum og allra síst Angela Merkel, enda ekki svo langt í kosningar í Þýskalandi.

Þannig er staðan og enginn er ánægður.  "Suðurríkin" hafa glatað samkeppnishæfni sinni og ekki er útlit fyrir að þau endurheimti hana á næstu árum.  Grikkland sem er verst statt flytur aðeins út vörur sem duga fyrir u.þ.b. helmingi af innflutningi sínum.  Þó hefur útflutningur heldur farið vaxandi.

Flestir hafa líklega lesið um raunir Spænsku bankanna sem nú súpa seyðið af þeirri gríðarlegu húsnæðisbólu sem neikvæðir raunvextir eurosins sáu um að blása upp.

Atvinnuleysi er óhjákvæmilegur fylgifiskur horfinnar samkeppnishæfni og bitnar sérstaklega hart á ungu fólki, en atvinnuleysi þeirra á meðal er í kringum 50% bæði í Grikklandi og á Spáni.  Almennt atvinnuleysi vel yfir 20%.

Grikkland og Spánn eru líklega verst stöddu löndin á eurosvæðinu, en lönd eins og Portugal, Ítalia og Írland eru öll a hættusvæði.  Frakkland er sömuleiðis ekki of vel statt, atvinnuleysi þar fer vaxandi og fjárlög hafa ekki verið afgreidd með afgangi í u.þ.b. 40 ár. 

Það er engin leið að segja hvað gerist á næstu mánuðum, líklega en það er næsta víst að eurokrísan  er ekki á útleið.  Það er líklegra að hún dýpki frekar en hitt.

Það er með endæmum að Samfylkingin og Vinstri græn stefni Íslandi inn í "Sambandið" undir þessum kringumstæðum.

Það er enn óskiljanlegra að þeir þverneiti Íslensku þjóðinni um að segja álit sitt á feigðarflaninu.

En þó að Íslendingar fái ekki að greiða atkvæði um hvort eigi að hætta aðlögunarferlinu eða halda því áfram, þá styttist í kosningar.  Líklega verður ekkert eitt mál fyrirferðarmeira í þeim kosningum en "Sambandsaðildin".

Það er eitthvað sem segir mér að "Sambandsflokkarnir", Samfylking og Vinstri græn ríði ekki feitum hesti frá þeim kosningum.

 


Heitt og sveitt

Það hefur skollið á með miklum hitum hér í Toronto, í gær og í dag heldur hitamælirinn sig rétt undir 30°C í forsælunni.  Í sólinni er því sem næst óbærilegt.  Þegar viðbætist rakastig í kringum 70% verður lífið ekki auðvelt.

Það er ekki hægt annað en að hugsa hlýlega til þess sem fann upp loftkælinguna. 

Rjómaísframleiðendur eru sömuleiðis ofarlega á vinsældalistanum.

Sem betur fer er von á að heldur dragi úr hitanum frá og með morgundeginum.

 


Aldrei kaus ég Ólaf Ragnar, en ...

Ég hef aldrei ljáð Ólafi Ragnari Grímssyni atkvæði mitt í nokkrum kosningum.  Aldrei kaus ég Alþýðubandalagið og aldrei kaus ég hann sem forseta Íslands.  Satt best að segja var ég að vona að ég kæmist í gegnum lífið án þess að þurfa nokkurn tíma að viðurkenna fyrir sjálfum mér eða öðrum að Ólafur Ragnar væri besti kosturinn í nokkrum kosningum.

En það er James Bond fílingur yfir þessu, never say never, aldrei að segja aldrei.  Það lýtur nefnilega út fyrir að ég komi til með að gefa Ólafi Ragnari atkvæði mitt í þessum kosningum.  Því fylgir skrýtin tilfinning en þannig standa þó mál nú.

Persónulega lít ég á Þóru Arnórsdóttur sem fulltrúa Samfylkingar/Besta flokksins/Bjartrar framtíðar öxulsins í Íslenskri pólítík og hef ekki í hyggju að leggja mitt atkvæði á vogarskálarnar til að auka völd og áhrif þess flokkahóps á Íslandi.  Ég hef áður tjáð þó skoðun mína hér að ég muni ekki gefa yfirlýstum "Sambandssinna" atkvæði mitt, og það sömuleiðis útilokar Þóru frá atkvæði mínu.

Aðrir frambjóðendur eru eins og staðan er nú, ekki líklegir til að blanda sér af alvöru í baráttuna.

Þá stendur Ólafur eftir sem eini valkosturinn.

Vissulega má margt misjafnt segja um Ólaf og margt misjafnt hef ég sagt um hann í gegnum tíðina.  Hans framganga hefur enda stærstan hlutan ekki verið að mínu skapi.  En mér fannst framganga hans í kringum IceSave málið í heildina góð.  Þar sýndi hann það pólítíska hugrekki að ganga gegn vilja margra sinna helstu og áköfustu stuðningsmanna.  Slíkt pólítískt hugrekki er ekki algengt á Íslandi nú um stundir, en mætti gjarna vera meira.  Það eru enda margir af hans upphaflegu stuðningsmönnum sem nú ganga harðast fram gegn honum fyrir að beina málinu í þjóðaratvkæði.  Jafnvel þeir hinir sömu sem ákafast fögnuðu þegar hann beitti sömu aðferð í Fjölmiðlafrumvarpsmálinu.  Máli sem þó var mun léttvægara og minna undir í.  Þannig snúast hin pólítísku mál oft hringi um sjálfa sig.

Hefði ég verið spurður að því fyrir fáeinum árum hvort ég reikanaði með að kjósa Ólaf Ragnar í kosningum, hefði ég næsta víst svarað neitandi.  Nú er staðan hins vegar sú að ég sé ekki neitt annað í stöðunni en að ljá honum atkvæði mitt.  Það sem meira er, ég hvet aðra til þess að gera hið sama.

Það er ekki oft  í kosningum að ég finn fullkominn valkost, slíkt er heldur ekki í boði nú, en nú sem endranær mun ég velja það sem ég tel besta kostinn.

Í komandi forsetakosningum er það að mínu mati Ólafur Ragnar Grímsson.

P.S.  Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að segja þetta eða skrifa.

 


mbl.is Ólafur mælist með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar atvinnuleysi? Hvað kostar krónan? Hvað kostar efnahagsstjórnin?

Það hefur verið mikið rætt um hvaða kostnað Íslendingar bera af krónunni.  Rétta svarið er nú líklega að kostnaðurinn af krónunni er enginn, heldur kemur til myntsláttuhagnaður.  Hins vegar súpa Íslendingar seyðið af misviturri efnahagsstjórn og er líklegt að slíkt seyði verði bruggað sama hvaða gjaldmiðill verður í notkun.

En þrátt fyrir það hefur Íslensku efnahagslífi vegnað vel undanfarna áratugi og hefur miðað áfram ekki síður en þeim löndum sem Íslendingum er tamt að bera sig saman við.  Reyndar má fyllyrða að efnahagslegar framfarir á Íslandi hafi verið meiri og hraðari en í mörgum þeirra.

Styrkur Íslensks efnahagslífs hefur ekki síst verið falinn í litlu atvinnuleysi og hárri atvinnuþátttöku.  Þó að atvinnuleysi hafi vissulega verið til staðar hefur það yfirleitt ekki staðið lengi og atvinnuleysi kynslóð eftir kynslóð verið óþekkt.

En hver skyldi kostnaðurinn af atvinnleysi vera?  Er það ekki jafn mikilvæg eða mikilvægari hagstærð  en t.d. kostnaður vegna efnahagsmistaka sem leiða til gengissigs?

Hver skyldi vera kostnaðurinn af því atvinnuleysi sem er á Íslandi nú?  Hver skyldi vera kostnaður Grikkja og Spánverja af atvinnuleysi sem mælist langt yfir 20%?  (Þó að gjaldmiðillinn standi nokkuð keikur).  Írar hafa einnig kynnst stórauknu atvinnyleysi og stórfelldum landflótta.

Hver skyldi vera kostnaðurinn sem hlýst af "arfgengu atvinnleysi" sem margar nágrannaþjóðir Íslendinga hafa kynnst, ekki eingöngu í peningum talið heldur er vert að líta á hinn félagslega kostnað sömuleiðis?

Hver skyldi vera kostnaðurinn af yfir 10% atvinnuleysi á eurosvæðinu?

Einhverra hluta vegna virðast hagfræðingar stéttarfélaga á Íslandi hafa lítinn áhuga á þessari hagstærð, alla vegna í samanburði miðað við gengissig sem hlýst af mistökum í efnahagsstjórn.

Ef til vill er það vegna þess að það þjónar ekki pólítískum skoðunum þeirra, ef til vill vegna einhvers annars.

En atvinnuleysi er sömuleiðis afleiðing mistaka í efnahagsstjórn, mistaka sem er ekki síður vert að gefa gaum.

 


Gjaldmiðill tryggir ekki kaupmátt

Euroið getur ekki tryggt kaupmátt frekar en nokkur annar gjaldmiðill.  Grikkir eru að kynnast því milliliðalaust þessa dagana.  Ekki aðeins hafa laun lækkað verulega, heldur hefur atvinnuleysi sömuleiðis rokið upp og er vel yfir 20%.  Atvinnuleysi á meðal ungs fólk er yfir 50%.

Eins og kemur fram í fréttinni hafa laun lækkað að meðaltali um 23%, það þýðir auðvitað að sumir hafa ekki tekið á sig neina lækkun, en aðrir hafa lækkað mun meira.  Þegar gengið sígur hlifir það hins vega engum.

Þetta er einfaldlega enn ein sönnun þess að efnahagskerfi leita jafnvægis, sé ein breytan tekin út, leiðrétta hinar sig þeim mun skarpar.  Grikkir hafa tekið sveiflur í gjaldmiðlinum að mestu leyti út, og fest hann við gjaldmiðil euroríkjanna.   Það þýðir að kaupgjald verður að lækka í staðinn og/eða atvinnuleysi eykst.

Að skipta um gjaldmiðil er að enginn töfralausn við efnahagslegum óstöðugleika eins og margir "Sambandsinnar" hafa haldið fram.  Það er einfaldlega lýðskrum, lýðskrum sem notað var óspart af Samfylkingunni fyrir síðustu kosningar.

Allt of hátt gengi gjaldmiðils Grikklands, hefur ekki eingöngu eyðilagt samkeppnisstöðu þeirra gagnvart sterkari euroþjóðum, heldur sömuleiðis gagnvart innflutningi frá Asíu og víðar.

Þess vegna er efnahagur Grikklands í kalda koli, gjaldmiðilinn stendur nokkuð keikur, en annað varð undan að láta.


mbl.is Grikkir fá 23% lægri laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarar málþófsins

Þaðð er mikið rætt um málþóf á Íslandi þessa dagana.  Eins og gjarna er með póltísk álitamál, sýnist sitt hverjum.  Ef trúa má sumum ummælum hefur annað eins málþóf aldrei átt sér stað.   Afstaðan fer fyrst og fremst eftir því hvort menn styðja stjórn eða stjórnarandstöðu.  Málþóf er eitur í beinum þeirra sem styðja ríkistjórn, en en eðlilegt neyðarvopn í herbúðum þeirra sem hugnast stjórnarandstaðan betur. 

Þetta er ekkert nýtt, ekki frekar en málþófið sjálft sem hefur verið stundað svo lengi sem elstu menn muna, líklega heldur lengur.

Þeir eru býsna margir sem hafa tekið þátt í málþófi í gegnum tíðina og býsna margir þeirra sem nú sitja á Alþingi eru reyndir málþófsmeistarar.

Nýverið birtist á vefsvæði Vísis, listi yfir þá þingmenn sem hafa haldið lengstu ræðurnar síðan rafrænar tímamælingar  voru teknar upp á Alþingi, það kemur ef til vill ekki á óvart að sjá hverjir eru þar á topp 12, en sumir þeirra eru þeir sem hvað mest hneykslast á málþófinu nú.

En hér er listinn yfir meistara málþófsins:

1. Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, 1998. Húsnæðismál. Ræðutími 10:08:33


2. Ögmundur Jónasson, Vinstri grænum, 2006. Ríkisútvarpið hf. Ræðutími 6:01:54


3. Svanfríður Jónasdóttir, Samfylkingu, 1998. Sveitarstjórnarlög. Ræðutími 5:39:39


4. Valdimar L. Friðriksson, Samfylkingu, 2007. Ríkisútvarpið ohf. Ræðutími 5:13:01


5. Jón Bjarnason, Vinstri grænum, 2006. Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu. Ræðutími 4:52:01


6. Hjörleifur Guttormsson, Vinstri grænum 1998. Gagnagrunnur á heilbrigðissviði. Ræðutími 4:49:07


7. Hjörleifur Guttormsson, Vinstri grænum 1995. Náttúruvernd. Ræðutími 4:47:21


8. Valdimar L. Friðriksson, Samfylkingu, 2006. Vatnalög. Ræðutími 4:44:20


9. Jóhanna Sigurðardóttir Samfylkingu, 1998. Sveitarstjórnarlög. Ræðutími 4:21:07.


10. Rannveig Guðmundsdóttir, Samfylkingu 1998. Sveitarstjórnarlög. Ræðutími 3:51:55


11. Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri grænum 2002. Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsá í Fljótsdal. Ræðutími 3:48.29


12. Mörður Árnason, Samfylkingu, 2006. Vatnalög. Ræðutími 3:46:11.

P.S. Ég held að flokkarnir séu ekki alveg rétt nefndir í þessari upptalningu, hér er sagt í hvaða flokkum viðkomandi einstaklingar eru nú, en ekki í hvaða flokkum þeir tilheyrðu þegar ræðurnar voru fluttar.


Í töfrahatti "Sambandsins" er eitthvað fyrir alla

Nú reyna "Sambandssinnar" að selja Íslenskum bændum aðild að "Sambandinu" á þeim forsendum að styrkir til þeirra munu líklega aukast við aðild (sjá t.d. hér)

Neytendum á meðal annars að selja "Sambandsaðild" með því að innflutningur á landbúnaðarafurðum stóraukist og verðið verði lægra.

Það myndi þá líklega þýða að bændur fengju meira fyrir að framleiða minna, þegar styrkir til þeirra aukast en innflutningur í samkeppni við framleiðslu þeirra stóreykst.

Þegar bætt er í jöfnuna þeirri staðreynd að flestir eru sammála um að greiðslur Íslendinga til "Sambandsins" yrðu hærri en þær greiðslur sem kæmu frá "Sambandinu" er kominn örlítið skrýtin mynd.

Íslendingar í raun auka greiðslur til bænda, svo að hægt sé að flytja ódýrari landbúnaðarafurðir til landsins.

En endaverð landbúnaðarafurðanna verður ekki lægra, heldur aðeins greitt fyrir það með öðrum hætti.  Jafnvel má færa rök fyrir því að það yrði hærra.

En hugsanlega yrðu til einhver stöðugildi í Brussel, því einhverjir þurfa jú að sýsla með peningana sem Íslendingar myndu senda þangað, svo að hægt yrði að auka styrki til Íslenskra bænda.

Þetta gæti hæglega verið liður í "vaxtarstefnunni" sem Hollande og fleiri leiðtogar í "Sambandinu" berjast svo hart fyrir nú um stundir.


Myndi ég kjósa yfirlýstan "Sambandssinna" í embætti forseta?

Heyrði útundan mér að verið væri að ræða hvort að afstaða forseta til "Sambandsaðildar" skipti máli eður ei og að sitt sýndist hverjum.

Persónulega finnst mér sú afstaða skipta gríðarlegu máli, eins og embættið hefur þróast í tíð Ólafs Ragnars og hæpið er að treysta að embættið fari í fyrri farveg.

Því ákvað ég að endurbirta hér færslu sem birtist hér 4. janúar síðastliðinn, þegar vangaveltur um forsetaefni voru rétt að byrja.  Færslan er í fullu gildi, þó að sumar forsendur hafi breyst.

Myndi ég kjósa yfirlýstan "Sambandssinna" í embætti forseta?

Nú þegar byrjaðar eru vangaveltur um hugsanlegan arftaka Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands, er byrjað að velta fyrir sér breytingum sem hafi orðið á embættinu sem aldrei fyrr.

Það er ekki óeðlilegt að miklar vangaveltur séu um málskotsréttinn og hvernig hugsanlegur forseti myndi hugsanlega beita honum. Þar á eftir koma oft vangaveltur um hvort að forsetaframbjóðendur verði krafnir svara um skoðanir þeirra á hinum ýmsu álitamálum. Sumum finnst það ólíklegt og raunar óviðeigandi, en aðrir eru þeirrar skoðunar að slíkt muni verða raunin.

Sjálfur skipa ég mér í síðari flokkinn og tel að kjósendur komi til með að vilja vita meira um skoðanir forsetaframbjóðenda á hinum ýmsu málum sem stundum flokkast undir "dægurmál".

Út frá því myndu kjósendur mynda sér skoðanir á þvi hversu líklegir forsetaefnin væru til að nota málskotsréttinn við mismunandi aðstæður.

Það má til dæmis hugsa sér að ef illa færi og Íslendingar samþykktu að ganga í Evrópusambandið, að það gæti skipt gríðarlegu miklu máli hver sæti á forsetastól og hvernig viðhorf hans væri gagnvart "Sambandinu".

Væri til dæmis uppi svipuð staða innan "Sambandsins" og nú er. Rætt væri um miklar grundvallarbreytingar á sáttmálum þess og ríkisstjórnir og þing aðildarríkjanna væru að ræða og leita að leiðum til þess að komast hjá því að breytingarnar færu í þjóðaratkvæði. Undir slíkum kringumstæðum gæti afstaða forseta skipt Íslendinga gríðarlegu máli.

Forsetinn gæti í slíku tilfelli haft úrslitaáhrif á hvort viðkomandi breyting færi í þjóðaratkvæði eður ei.

Því myndi ég líklega aldrei gefa yfirlýstum Evrópusambandssinna atkvæði mitt í forsetakjöri.


Ræða 12 ára stúlku um Kanadíska bankakerfið og opinberar skuldir Kanada

Það er ekki nauðsynlegt að vera margra tuga ára gamall eða hár í loftinu til þess að hafa skoðanir á því sem er að gerast í samfélaginu.  Hér er ræða 12 ár gamallar Kanadískrar stúlku sem hefur vakið þó nokkra athygli hér.  Ræðan er skorinorð og kemst að kjarna málsins á fáum mínútum.

Vissulega er hægt að vera sammála, eða ekki, en það er vel þess virði að taka nokkrar mínútur í að hlusta á Victoriu Grant.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband