Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Heims-, stórveldi og þúsundáraríki falla

Líklega má hvergi finna í einu "Sambandi" eða samtökum (nema þá Sameinuðu þjóðunum) fleiri fyrrverandi stór- eða "heimsveldi" en í Evrópusambandinu.

Bretland, Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Spánn, Portúgal, Ítalía, Grikkland, Frakkland, Holland. Spurning hvort við eigum ekki að telja lönd eins og Danmörk, Svíþjóð og Pólland með.

Öll hafa þessi stór- eða heimsveldi "fallið" eða skroppið saman, þó að enn ráði ríki eins og Bretland, Spánn, Frakkland og Danmörk yfir landsvæðum í fleiri en einni heimsálfu.

Portúgal gaf hins vegar ef ég man rétt upp síðasta landsvæði sitt í annari heimsálfu 1999.

Þannig er heimsmyndin síbreytileg og kyrrstaða hefur í raun aldrei þekkst, þó að okkur sem höfum í raun stutta viðdvöl á jörðinni kunni að sýnast svo.

Og þannig mun það líklega áfram verða, stórveldi myndast og falla.

Það þyrfti engum að koma á óvart að Evrópusambandið hefði styttri dvöl á "sviðinu" heldur en mörg þau fyrrum stór- og heimsveldi sem eru aðildarríki þess.

Undir- og uppbygging þess er einfaldlega með þeim hætti, þó að sífellt sé reynt að berja í brestina.

Líklega má segja að undirrót vanda "Sambandsins" sé sú að stjórnmálin hafi algerlega yfirskyggt bæði efnahags- og varnarmál.

Því þegar brestir koma í þau síðarnefndu, verður gjarna uppnám í því fyrstnefnda.


mbl.is Óttast að ESB falli eins og Rómarveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blakkur föstudagur

Það hefur víða mátt lesa um svartan föstudag, eða eins og algengara er að orða það "black Friday", á vefmiðlum undanfarna daga, bæði íslenskum og erlendum.

Ég veit ekki hversu góð tilboðin voru á Íslandi, en víða hefur mátt sjá hneykslun á orðnotkuninni og svo aftur á hinni "amerísku eftiröpun". 

Hneysklun á "eftiröpuninni" má reyndar sjá um flestar erlendar uppákomur sem stinga upp kollinum á Íslandi.

En þó að ég skilji vel að íslenskir kaupmenn vilji fjölga "kaup- og tyllidögum" þá er auðvitað æskilegt að eitthvert íslenskt heiti finnist yfir daginn.

Ég held að það færi vel á því að kalla hann Blakkan föstudag. Íslenskt orð, sem vísar til þess sem er farið að dekkjast, kallast á við enska orðið "black", og svo er blakkur auðvitað fínt nafn á hesti, sem sem aftur á sér samsvörun í þeim "hrossakaupum" sem boðið er upp á.  :-)

En það er enginn ástæða til þess að vera að æsa sig yfir því þó að alþjóðlegir dagar skjóti rótum á Íslandi. Það er einfaldlega hluti af hnattvæðingunni og "alheimsþorpinu".

Evrópskar hefðir eins og Valentínusardagur og Hrekkjavaka (sem er reyndar frekar slæm þýðing á Halloween), eiga allt eins heima á Íslandi og annarsstaðar. Hrekkjavaka myndi líklega flokkast sem "aðfangadagur Allra heilagra messu", en þegar dagurinn ber upp á föstudag eða laugardag, eins og var í ár, er þetta fyrst og fremst Halló-vín, enda ekki mjög margir nema skemmtirstaðirnir sem virkilega láta til sín taka. Ég hef alla vegna ekki heyrt um mörg íslensk börn sem fara í "grikk eða gott" leiðangur.

Og svona má lengi telja, vissulega eru bandarískar hefðir eins og "Þanksgiving" farnar að láta á sér kræla, en í raun er ekki frekar ástæða til þess að láta það fara í taugarnar á sér en að íslensk verkalýðshreyfing hafi ákveðið að taka upp Dag verkalýðsins, eftir "Öðru alþjóðasambandi kommúnista".

Eða hefur einhver heyrt um baráttuna fyrir al íslenskum degi verkalýðsins?

Al íslensku dagarnir eru Sumardagurinn fyrsti, fyrsti vetrardagur, Bónda- og Konudagur.

Hugsanlega einvherjir sem ég gleymi.

En það er engin ástæða til að láta "ammríska daga" fara meira í taugarnar á sér en daga eins og Bolludag eða Öskudag.

Meginreglan sem ber að hafa í heiðri, er að þeir taka þátt sem vilja.

 


Mega ekki allir styrkja starfsemi trúfélaga á Íslandi?

All nokkuð hefur verið rætt um starfsmemi og styrki til trúfélega á Ísland undanfarin misseri. Líklega er ekki of sterkt til orða tekið þegar sagt er að nokkur munur sé á skoðunum í þessum efnum.

En mér vitanlega er ekkert sem bannar einum eða neinum að styrkja trúfélög á Íslandi og líklegra er en ekki, að mínu mati að mörg þeirra fái og/eða hafi fengið einhverja styrki erlendis frá.

Sem eðlilegt er og ekkert út á það að setja.

Er ekki nákvæmlega jafn eðilegt að útlendingar láti fé af hendi rakna til trúarstarfsemi og trúboðs á Íslandi og að íslendingar geri slíkt til trúboðs og tengdrar starfsemi í fjarlægum löndum?

Og hver ætti að meta hvaða aðilar eru hæfir til að gefa fé og hverjir ekki? Og eftir hvað lögum og reglum ættu þeir að vinna?

Þess vegna virðist mér allt tal um að kanna hvaðan fjármagn kemur marklaust, hvort sem það kemur frá borgarstjóra eður ei.

Og hvernig á svo að vinna málið áfram?

Ef 200 einstaklingar gefa milljón hver, hver á að rannsaka að allir einstaklingarnir hafi raunverulega gefið eigið fé, eða hafi efnahagslega burði til þess?

Mér virðist þetta allt nokkuð marklaust.

Hún er líka áhugaverð umræðan um að allir trúarsöfnuðir á Íslandi verði að starfa í samræmi við íslensk lög, þar sem m.a. er kveðið á um að ekki megi mismuna einstaklingum eftir kyni.

En það verður að hafa í huga að stjórnarskráin íslenska tryggir trúfrelsi og það er þarft að velta því fyrir sér, hvort að það sé ekki sterkara.

Að sá sem velur sér trúfélag, hafi í raun þá gefið hluta af öðrum réttindum sínum eftir.

En ég hef velt þessu fyrir mér áður, og má lesa það hér.

Staðreyndin er sú, að ef að horft er í til íslenskra laga, eru það líklega fleiri en eitt og fleiri en tvö trúrfélög sem gætu lent í vandræðum.

En hvað verður þá um trúfrelsið?

Þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega vita líklega að mér hefur sjaldan legið mjög gott orð til trúfélaga. Get ekki sagt að ég beri mikla virðingu fyrir þeim.

En því má ekki rugla saman við virðingu mína fyrir trúfrelsi og frelsi einstaklinga til að iðka trú sína. Sú virðing er mikil.

En hún hefur vissulega sín takmörk.

Spurningin er hvar mörkin liggja og hvar íslendingar vilja draga þau.

Það er umræða sem þarft er að taka, en líklega eldfim.

P.S. Ég vil taka undir með þeim sem hafa lýst aðdáun sinni á teikningu af fyrirhugaðri mosku í Reykjavík.

Mér þykir næsta víst að bygginguna eigi ég aldrei eftir að sjá innan frá, en fyrirhugað útlit hennar er gott og kom mér skemmtilega á óvart.

 

 


mbl.is Óeðlileg pressa frá leigusölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleinkunnir Evrópusambandsins - lög og reglugerðir duga skammt

Það er útbreiddur misskilningur margra stjórnlyndra stjórnmálamanna að það dugi að setja lög og reglurgerðir og þá gangi allt eins og í sögu og vandamálin verði á brott.

Líklega er þessi misskilningur hvergi útbreiddari en í Evrópusambandinu.

Þannig er það með Eurosvæðið.

Farið er af stað með ógrynnin öll af lögum og reglugerðum, sem svo lítið sem ekkert er gert með þegar til kastanna kemur.

Það þótti ekki þarft að fara eftir lögum eða reglugerðum þegar hleypa þurfti Grikklandi inn á Eurosvæðið. Það þótti ekki ástæða til að beita viðurlögum þegar Þýskaland og Frakkland brut lögin, fyrst af öllum ríkjum.

Síðan hafa 2/3 eða svo að aðildarríkjum Eurosins brotið sáttmálann og viðurlögin hafa engin verið. Staðan er nú sú að næstum eingöngu ríki sem nýlega hafa tekið upp euro, uppfylla skilyrðin.

Eurosvæðið sem heild, uppfyllir ekki skilyrðin til að vera á Eurosvæðinu.

Lögin og reglugerðirnar höfðu enga þýðingu, enga vikt.

Þannig hefur saga eurosins frá upphafi verið saga fagurra fyrirheita, en fárra efnda.

Eurokrísan hefur enda markað undanfarin ár, og er í raun ekki séð fyrir endan á henni.

Að mestu leyti má segja það sama um Schengen svæðið, sem er skilgetið afkvæmi Evrópusambandsins, þó að önnur ríki (þar á meðal Ísland) eigi aðild þar að.

Þar er farið af stað með háleit og göfug markmið. Lög og reglugerðir settar, en eftirfylgnin er lítil sem engin og eins og í tilfelli eurosins koma annmarkarnir í ljós um leið og verulega reynir á.

Lög og reglugerðir voru settar, en eftirfylgnin var svo gott sem engin.

Að vísu má þakka fyrir að samþykkt Evrópusambandsþingsins um að Búlgaría og Rúmenía fengju aðganga að Schengen var stöðvuð. Slíkt hefði líklega verið enn verra, enda var haft eftir "embættismanni sem vildi ekki láta nafns síns getið", við það tækifæri, að það væri til lítils fyrir "Sambandið", að styrkja ríki til að kaupa dýr tæki til gámagegnumlýsinga, sem kostuðu hátt í milljón euro, ef það kostaði ekki nema á milli 100 og 200 euro að sleppa að fara í gegnum þau.

En Schengen samkomulagið hefur engan vegin staðið við þau fyrirheit sem það gaf. Ytri landamæri svæðisins hafa ekki fengið þann stuðning sem þau þarfnast, með þeim afleiðingum að svæðið hefur í raun verið án landamæragæslu.

Það hefur að sjálfsögðu, og eðlilega haft í för með sér að einstök ríki hafa tekið upp eigin landamæragæslu, og Schengne er eins og Juncker réttilega lýsir í nokkurs konar "dauðadái".

Á æ fleiri sviðum fær Evrópusambandið algera falleinkunn.

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að efasemdir um "Sambandið" og "æ nánari samruna" verða æ meira áberandi og stuðningur við úrsögn ríkja, eins og t.d. Bretlands verður æ meiri.

Nú sýna skoðanakannir meirithlutastuðning breskra kjósenda við úrsögn úr "Sambandinu".

Undir þessum kringumstæðum ætti ef til vill fáum að koma á óvart að formaður Samfylkingarinnar lýsi því yfir að "Sambandsaðild" verði eitt af baráttumálum flokksins í næstu kosningum og að flokkurinn sé með undir 10% fylgi.

 

 

 


mbl.is Schengen „að hluta í dauðadái“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "fjölmenningin" að ganga af Belgíu dauðri?

Mér var bent á hlusta á stutt viðtal við Árna Snævarr í morgunþætti Ríkisútvarpsins.

Viðtalið er tekið á meðan "slökkt" var á Brussel ef svo má að orði komast. Skólar voru lokaðir, fólk var hvatt til að vera innandyra og almenningssamgöngum var lokað.

En það er athyglisvert að heyra að Árni virðist telja að "fjölmenning" sé ekki hvað síst undirrót núverandi vanda Brussel og Belgíu.

Mismunandi menning flæmingja og vallóna hafi skapað því sem næst óleysanleg vandamál, og þegar innflytjendum er bætt í blönduna, verði hún eldfim og enn óviðráðanlegri.

Belgía er enda skotspónn margra og hefur verið kölluð "Belgistan", og það hefur mátt heyra þá skoðun í frönskum fjölmiðlum, að í stað þess að gera loftárásir á Raqqa, ætti franski flugherinn að gera loftárásir á Molenbeek.

Belgísk löggæsla er sögð óskilvirk og sundruð og um belgíska herinn hefur verið sagt að hann sé óvenjulega vel vopnum búinn eftirlaunasjóður.

En "fjölmenningin blómstrar" í því sem oft er kallað "höfuðborg" eða "hjarta" Evrópusambandsins.

En það sama verður varla sagt um Belgíu.

Skuldir ríkisins eru yfir 100%/GDP, stjórnmálin eru í kreppu, þó að tekist hafi að mynda ríkisstjórn. Landið er frjósamur jarðvegur fyrir islamska öfgamenn og margir telja að landið sé við það að brotna upp.

 


Fasismi "góða fólksins"? Er ráðherrra Framsóknarflokksins að leggja til skerðingu á tjáningarfrelsi íslendinga?

Í stjórnarskrá Íslands stendur skrifað:  

73. gr. [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
  Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.]1)

Ef marka má fréttina er ráðherra Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttir að leggja til að þessi réttur íslendinga verði skertur, hún virðist telja nauðsynlegt að ræða slíkar skerðingar.

Þýðir það að ráðherra Framsóknarflokksins treysti ekki dómstólum Íslands til að taka á þeim málum sem upp kunna að koma og nauðsyn sé á "fyrirbyggjandi aðgerðum"?

Persónulega ætla ég að nota tjáningarfrelsi mitt til að leggja til að Eygló Harðardóttir segi af sér sem ráðherra og Framsóknarflokkurinn noti tækifærið og setji í embættið hæfari stjórnmálamann.

Svona framsetning ráðherra fær mig til að efast stórlega um framtíð íslenskra stjórnmála.

Alla vegna er nauðsynlegt að berjast af hörku gegn öllum álíka hugmyndum - frá byrjun.

Það er engin ástæða til að íslendingar láti takmörkun á tjáningarfrelsi yfir sig ganga.

Eygló Harðardóttir, segðu af þér sem ráðherra og þingmaður.

 


mbl.is Ræða þarf takmörkun tjáningarfrelsis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikið gert úr málinu?

Það má til sanns vegar færa að æskilegt væri að skýrt væri hvort að Ísland getur talist umsóknarríki að Evrópusambandinu eður ei.

Rétt eins og með flesta aðra hluti, er betra að ljóst sé hvernig í pottinn er búið.

En líklega er munurinn þó ekki mikill þegar upp er staðið.

Það eru að verða liðin næstum þrjú ár síðan viðræðunum var formlega hætt og ef ég hef skilið rétt höfðu þær verið ákaflega litlar, ef nokkrar, einhvern tíma á undan.

Viðræðum verður ekki fram haldið að séð verður á meðan núverandi ríkisstjórn situr. Fátt bendir til þess að hún fari frá völdum fyrr en í fyrsta lagi vorið 2017.

Það yrði því ekki fyrr sem óskað yrði eftir áframhaldandi viðræðum, og líklega all nokkru síðar, því ef marka má þá stjórnmálamenn sem mest tala um áframhald viðræðna, yrði það varla gert án þjóðaratkvæðagreiðslu, eða hvað?

Það er líka ljóst að engu nýju ríki verður hleypt inn í "Sambandið" fyrr en í fyrsta lagi 2019.

Þó að við gefum okkur að aðlögunarviðræðum yrði fram haldið snemma árið 2018, þá er það langt um liðið að ég leyfi mér að efast að þeir kaflar sem var "lokað" í fyrri viðræðum yrðu svo áfram. Það er einfaldlega það langur tími liðinn og lög "Sambandsins" síbreytileg að fara yrði yfir þá aftur, þó að líklega gæti það tekið eitthvað skemmri tíma. En það myndi gilda sömuleiðis þó að um "nýja" umsókn væri að ræða.

En ef sama umsóknin er enn í gildi, gilda sömuleiðis allir þeir fyrirvarar sem Alþingi setti, og sendi með henni.

Það er ólíklegt að samningar náist með þeim formerkjum, og vilja ýmsir meina að þeir hafi átt sinn þátt í viðræðuslitunum sem urðu.

Það eina sem breytist við að umsóknin teldist gild, væri líklega að tæknilega þyrfti ríkisstjórn ekki að taka málið upp á Alþingi, áður en slíkt væri gert.  Sömuleiðis þyrfti ekki að leita samþykkis allra "Sambandsþjóðanna" fyrir viðræðum.

En í mínum huga getur það ekki breytt miklu, því að næsta víst er að ríkisstjórn myndi trauðla leggja af stað með málið án tilstillis Alþingis, ekki síst vegna þess að hefði stjórnin traustan meirihluta, myndu "Sambandssinnar" líklega vilja breyta eða fella út í það minnsta hluta af skilyrðunum.

Það myndi heldur ekki breyta neinu þó að málið væri ekki borið undir öll "Sambandsríkin", því eftir sem áður þurfa þau öll að samþykkja samningslok, ef ég hef skilið málið rétt.

En þetta breytir því ekki að gott væri að fá málið á hreint.

Það væri því tilhlýðilegt að ríkisstjórn Íslands óskaði eftir því við Evrópusambandið að það útskýrði hvernig það liti á málið, og hvað þurfi að gera til að það líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka.

Ef ríkisstjórnin gerir ekkert slíkt, væri vel til fallið að einhver fjölmiðillinn leitaði hinna sömu svara.

 

 


mbl.is ESB-umsóknin mögulega enn í gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sama tíma að ári: Jólin eru allra, kristni er það ekki

Það er næsta víst að fyrir hver jól upphefjast rökræður (ef ekki rifrildi) um hvort tilhlýðilegt sé að skólabörn fari til kirkju á skólatíma.

Eins og í mörgu öðru sýnist sitt hverjum.

En persónulega lít ég svo á kirkjuför sé ekki eðlilegur hluti skólastarfs. Hversu hátt hlutfall nemenda er kristið eður ei, skiptir að mínu mati engu máli.

Það er þörf á að skerpa enn frekar á aðskilnaði ríkis og kirkju, og mikilvægur þáttur þess er að skilja á milli menntunar og kirkju.

Það þýðir ekki að ekki megi fræða börn um trúarbrögð, en fræðsla og þátttaka í trúarathöfnum eru ólíkir hlutir.

Íslendingar (og ýmsar aðrar þjóðir) eru það heppnir að halda jól. Ekki "kristsmessu" eins og þekkist víða um lönd.

Og þrátt fyrir tilraun kristinnar kirkju, til að slá "eign" sinni á jólin, tilheyrir þessi rammheiðna hátið í raun öllum.

Á Íslandi (eins og víðar) eru jólin fyrst og fremst fögnuður fjölskyldunnar, með "blóti" á mat og drykk, heimsóknum og dýrum gjöfum. Við drögum sígræn tré inn í stofur til að fagna upprisu og eilífleika náttúrunnar og gamlir vættir eins og jólasveinar, grýlur, leppalúðar, tröll og álfar fara á kreik.

Stundum rís upp sá miskilningur að álfar séu brenndir á þrettándanum.  :-)

Sumir tala um gamla hefð. Sjálfur fór ég í gegnum grunnskóla á Íslandi án þess að fara nokkurn tíma í kirkju fyrir jólin. Svo heyrist mér vera með flesta mína kunningja.

En auðvitað er tilvalið fyrir þjóðkirkjuna sem aðrar trúarstofnanir að bjóða upp á athafnir, sérstaklega miðaðar fyrir börn og foreldra fyrir jólin.

Því setur sig enginn upp á móti að ég get ímyndað mér.

En skólar eiga að vera menntastofnanir en, ekki að standa í trúarútbreiðslu.

 


Geta löggur líka tjáð sig? Og hvenær eru þær ekki löggur?

Það er ef til vill ekki óeðlilegt að það veki athygli þegar lögregluþjónar tjá sig um réttarfar eða dóma.

En þegar við veltum þessu fyrir okkar, verðum við sömuleiðis að hafa í huga spurninguna, hvenær eru einstaklingar lögregluþjónar og hvenær ekki? Eða telst starfið 24/7, ef svo má að orði komast.

Það er engin leið að koma í veg fyrir að einstaklingar hafi skoðanir, hvort sem þeir eru lögregluþjónar eða gegna öðru starfi. En það eru til ýmsar leiðir til að reyna að koma í veg fyrir að þeir tjái þær.

Verðum við ekki  líka að gera skýran greinarmun á því hvort að lögregluþjónn tjáir sig í vinnutíma (eða í búningi) við fjölmiðil, eða hvort einstaklingur tjái sig á vefsíðu sinni, jafnvel þó að sá sami sé lögregluþjónn á frívakt?

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki ráðningasamninga lögregluþjóna og hvort þar er kveðið á um að þeir megi ekki tjá sig um dómsmál eða önnur samfélagsmál, jafnvel utan vinnutíma.

Vissulega hlýtur fullur trúnaðar að ríkja um allt sem þeir sjá og heyra á vinnutíma, en ég fæ ekki séð að þetta mál tengist slíku.

Þetta mál minnir mig dálítið (þó að ekki sé það fyllilega sambærilegt) á mál kennara norður í landi, sem einmitt var rekinn fyrir að skrif á sína prívat bloggsíðu.

Þar var einnig tekist á um skrif utan vinnutíma.

Ég tók afdráttarlausa afstöðu með kennaranum þá, og geri það einnig með "Bigga löggu" nú.

Með því er ég ekki að lýsa yfir stuðningi við málflutning þeirra. Það er ekki aðalmálið, heldur hitt að ég á erfitt með að sjá að bann við tjáningu þeirra sem einstaklinga sé réttlætanlegt, svo lengi sem það er gert á þann máta að enginn vafi leiki á að um einkaskoðanir sé að ræða og þær settar fram á þann hátt.

Þeir sem halda því fram að slíkar skoðanir geti valdið fordómafullri afstöðu viðkomandi til mála sem upp kunna að koma, verða að gera sér grein fyrir því að skoðanirnar voru til staðar, hvort sem þær voru settar fram eður ei.

Það sem mér þykir þó ekki hvað síst merkilegt í þessu máli, og ber það þá aftur saman við mál kennarans, er að ég hef það á tilfinningunni, að mörgum sem fannst sjálfsagt að kennarinn væri rekinn, eru annarar skoðunar í máli lögregluþjónsins og svo öfugt.

Hitt er svo að ef einstaklingum þykir vegið að æru sinni, þá geta þeir leitað til dómstóla.

En íslenskir dómstólar virðast þó vera þeirrar skoðunar að það að vera kallaður "nauðgari" sé ekki ærumeiðandi, jafnvel þó að myndbirting fylgi.

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég man ekki eftir því að mér hafi þótt íslenskir dómstólar setja meira niður í öðru máli, en því sem slík niðurstaða varð raunin.

En það er annað mál, sem líklega flestir þekkja.


mbl.is Mál Bigga löggu til skoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Schengen eða ekki Schengen?

Það hefur mikið verið rætt um Schengen samstarfið á Íslandi undanfarna daga og reyndar víðar en á Íslandi.

Það er eðlilegt, enda má segja að samstarfið sé í gríðarlegu uppnámi, jafnvel við það að liðast í sundur.

Það hefur endar reynt mikið á samstarfið og gallar þess komið í ljós. Ytri landamærin ráða ekki við álagið, stórir hlutar Evrópu (og þar með Schengen svæðisins) hafa í raun verið án virks landamæraeftirlits á köflum.

Undir slíkum kringumstæðum er ekki óeðlilegt að vilji sé fyrir því að ræða framhaldið og hvernig best slíku samstarfi sé háttað, nú eða hvort rétt sé að hætta því.

Slíkt er best að gera á yfirvegaðan hátt og án upphrópana eða slagorða.

Opin landamæri án eftirlits (þau eru þó aldrei án alls eftirlits) eru eftirsóknarverður kostur og auðvelda bæði ferðalög og viðskipti. Ávinningurinn (og áhættan) er þó mun meiri á landamærum samliggjandi landa, svo ekki sé talað um þegar þannig er hægt að ferðast í samfellu í gegnum mörg lönd.

Ávinningur eylanda verður aldrei eins mikill (né áhættan).

Það er vert fyrir íslendinga að velta því fyrir sér að líklega er um eða innan við helmingur þeirra farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll á leið til einhvers aðildarríkis Schengen samningsins.

Þó að ég hafi ekki mikla reynslu í ferðalögum til og frá Íslandi undanfarin ár, þá get ég ekki sagt að ég hafi heyrt að Íslendingum þyki erfitt, eða verulega erfiðara að ferðast til landa utan Schengen svæðisins.

Þannig hefur staða Bretlands utan Schengen svæðisins ekki komið í veg fyrir að landið sé einn allra vinsælasti áfangastaðurinn frá Íslandi og fljúga þangað nokkrar flugvélar frá Keflavíkurflugvelli á hverjum einasta degi.

En Schengen er meira en landamæragæsla. Mikilvægur hluti samningsins snýr að upplýsingabanka og dreifingu, SIS, eða Schengen Information Systems. Þar safna aðildarþjóðirnar, og dreifa sín á milli, upplýsingum um einstaklinga og annað það sem þeim þykir skipta máli varðandi samstarfið.

Ýmsir hafa haft orð á því að það að missa slíkan aðgang væri slæmt fyrir lög- og landamæragæslu á Íslandi og get ég ekki séð nokkra ástæðu til að draga það í efa.

En það er spurning hvort að Ísland ætti möguleika á því að halda þeim hluta samstarfsins, þó að hætt yrði þátttöku í samstarfinu að öðru leyti. Að standa utan samkomulagsins hefur ekki komið í veg fyrir að bretar og írar taki þátt í upplýsingakerfinu.

Þannig er að ýmsu að hyggja, en jafn sjálfsagt að ræða þessi mál eins og önnur.

Fá mál eru meira áríðandi fyrir stjórvöld en öryggi íbúa landsins.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband