Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Bleikar fjárfestingar

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér þykir það verulega vond hugmynd að setja kynjakvóta fyrir stjórnir fyrirtækja og er í raun hneykslaður að nýr viðskiptaráðherra skuli ljá þeirri hugmynd máls. 

Þar er það líklega Alþýðubandalagsuppruninn sem segir til sín.

Slíkar aðgerðir sem svifta menn í raun ráðstöfunarrétti yfir eigum sínum finnst mér stórvarasamar og ekki eiga neinn rétt á sér.  Þeir sem hætta fé sínu með hlutabréfakaupum eiga að hafa óskoraðan rétt til þess að kjósa sér þá til stjórnarsetu sem þeim sýnist, óháð kyni, aldri eða öðrum skilyrðum af hendi stjórnvalda.

Hitt er svo annað mál, að ef fjárfestar kjósa að hafa eitthvað annað að leiðarljósi við kjör á stjórnarmönnum er þeim það að sjálfsögðu heimilt.

Ég er því með hugmynd fyrir þá sem eru sérstkt áhugafólk um að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. 

"Put your money where your mouth is" og stofnið fjárfestingarsjóð sem hefur það sem yfirlýst markmið að koma konum í stjórnir fyrirtækja.  Notið ykkar eigið fé en reynið ekki að stjórna fjármunum annara.

 Varla þarf að efa að hinn nýji viðskiptaráðherra myndi fjárfesta sinn sparnað í slíkum sjóði.

Sjóðurinn gæti sem best heitið "Bleikar fjárfestingar".

 


Góð spretta

Sprettan að Bjórá er góð.  Hér er allt á leið upp úr jörðinni.  Blóm eru í hverju horni, kryddjurtirnar stækka dag frá degi, baunir eru að skjóta upp kollinum, blóm eru komin á tómatplönturnar, knúppar á paprikurnar og rósirnar, nektarínu og plómutrén bæta á sig laufum daglega og kirsuberin eru orðnin býsna stór, þó að enn séu þau græn.  Myntan plummar sig vel á nýjum stað og Lavender og alls kyns góss skartar sínu fegursta. 

Veðrið hefur enda verið gott, "brakandi þurkur" flesta daga, með úrhellisrigningu þess á milli.  Hitinn vel á þriðja tuginn og sól í "heiði" því sem næst alla daga.

Ef fram heldur sem horfir fer ég að grobba mig af því að hafa græna fingur.  En það er rétt að taka það fram að það verða þá hægri grænir fingur.

En það eru ekki bara plönturnar sem hafa það gott að Bjórá þessa dagana, börnin hafa það svo ljómandi gott og nýta "ömmustundirnar" sem best þau geta, sérstaklega þó Foringinn sem ekki getur farið að sofa án þess að amma sé þar nálægt og lesi 2. til 3. bækur.  Best finnst honum ef hann fær að lúlla aðeins hjá ömmu.

Systkinin duttu reyndar í lukkupottinn og eignuðust forláta sandkassa í síðustu viku.  Stóran rauðan sandkassa í krabbalíki, með loki og öllu tilheyrandi.  Vegagerð Foringjans í matjurtabeðunum varð þess valdandi að ekki þótti stætt á öðru en að kaupa sandkassa og reyna að veita athafnaþrá hans útrás á afmörkuðu svæði.

Jóhanna tekur þessu með öllu meiri ró, en kann þó vel við sig hjá ömmu, sýnir þá gjarna báðar tennurnar og segir "da da", býsna hátt og með nokkrum áhersluþunga.


Eðlilegt

Það verður að teljast eðlilegt að Alcan velti þeim möguleika fyrir sér að flytja álver sitt úr Hafnarfirði.  Fyrirtæki vilja jú undir flestum kringumstæðum starfa þar sem íbúarnir eru sáttir við að viðkomandi fyrirtæki sé.

Því virðist ekki að heilsa nú um stundir í Hafnarfirði.

Mér þætti ekki ólíklegt að þetta mál eigi eftir að verða Samfylkingunni afar erfitt í næstu bæjarstórnarkosningum í Hafnarfirði, gæti trúað því að þetta yrði til að fella meirihluta þeirra.

Ef álverið ákveður að flytja úr Hafnarfirði þurfa starfsmenn auðvitað að leita sér að nýrri vinnu og það mætti segja mér að það sama gilti um einhverja af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar.

En þeir liggja líklega undir feldi þessa dagana og reyna að finna "eitthvað annað".


mbl.is Alcan á Íslandi skoðar möguleika á að færa álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitleysa

Auðvitað er þetta endaleysan ein.  Allir sem eitthvað fylgjast með Formúlunni vita að liðskipanir eru notaðar þar og voru án efa notaðar í þessu tilfelli.

En McLaren menn áttu enga refsingu skilið í þessu tilviki, ekki frekar en þegar önnur lið hafa notað liðskipanir.  Það liggur í augum uppi að á meðan keppt er um titil bílaframleiðenda með 2. bílum að liðskipanir verða við lýði.  Hagsmunir liðsins munu einfaldlega ráða enda eðlilegt.

Þetta er einn af þessum skrípaleikjum sem hafa verið að skjóta upp kollinum í Formúlunni undanfarin ár og eru í besta falli hlægileg. 

Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því að ekkert kæmi út úr þessari rannsókn.


mbl.is McLaren slapp með skrekkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingasvindlararnir - Blessaður Swindler

Auðvitað er það skiljanlegt að framleiðendur hafi áhyggjur af því að áhorfendur horfi ekki á auglýsingar, það er jú þær sem oft standa undir stærstum hluta framleiðslukostnaðarins. 

Sjálfur kann ég ákaflega vel að meta að horfa á sjónvarpsefni á netinu  (t.d. Silfrið og Kastljós) og geta þannig sleppt því að horfa á auglýsingarnar.  Af sömu ástæðu kaupi ég gjarna þær kvikmyndir sem ég hef áhuga á á DVD (við Bjórárhjónin förum ákaflega sjaldan í kvikmyndahús, sáum síðast Bjólfskviðu), því að horfa á í sjónvarpi er hrein hörmung og hreinlega tímaþjófur.

En það var þó þessi setning eða öllu heldur mannsnafnið sem kemur fram í henni sem vakti mesta athygli mína í þessari frétt.

Við þurfum öll að verða meira skapandi í því hvernig við komum kostun inn í sjónvarpsefni okkar,” segir Ed Swindler, ..."

 Þetta hlýtur að vera erfitt nafn að bera, sérstaklega þó í sjónvarps og auglýsingabransanum, og þó, það vekur vissulega athygli.

En það er gott að hann fór ekki í herinn, Major Swindler hefði eiginlega verið "overkill", General Swindler sömuleiðis.


mbl.is Reynt að koma í veg fyrir að áhorfendur sniðgangi auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að því leiðinlegt

Það fór eins og útlit var fyrir og McLaren vann góðan sigur í Monako.  Það var aldrei nein spenna í keppninni og hún í raun allt að því leiðinleg.  Fátt sem ekkert gladdi augað.

Hamilton heldur sínu striki og bætir met sitt í hverjum kappakstri og stendur sig gríðarlega vel, en í þessari keppni var enginn neisti.

Massa átti dapran kappakstur, þó að hann næði þriðja sætinu og Raikkonen náði þó að klóra sig upp í 1. stig, en það er ekkert sem er minnisstætt úr þessum kappakstri.

Ég verð að vona að það verði annað upp á teningnum, hér í Kanada eftir 2. vikur.


McMonako

Það þarf eitthvað sérstakt að koma til svo að Monakokappaksturinn verði ekki 1 - 2 fyrir McLaren.  Það sem er þó enn verra er að það er ekki of líklegt að Ferrari nái báðum fákunum í stigasæti. 

Ég veit ekki hvað var að hjá Raikkonen, en þetta litur ekki of vel út.  Því miður er Monako yfirleitt ekki mjög spennandi kappakstur, þó að hann sé vissulega fullur "glamúr".  Það er einna helst spennandi að sjá hversu margir bílar detta út.

En það er vissulega aldrei að vita hvað gerist, það sannaðist líklega best í Monako árið 1996, þegar Oliver Panis vann sinn fyrsta og eina sigur, en þá luku 4. bílar öllum hringjunum.  Þar á meðal var David Coulthard.


mbl.is Alonso tók ráspól af Hamilton á síðustu sekúndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrakvótinn

Það er ljóst að Ágúst Ólafur átti ekki "kvóta" til þess að ná því að verða ráðherra.  Líklega hefur allur "kvótinn" farið þegar hann varð varaformaður, enda sögðu þess tíma sögur að vel hefði verið aflað.

En það er skrýtið ef varaformenn flokka "hafa metnað til að verða ráðherrar", að þeir skuli ekki vera neitt svektir yfir því að ná ekki því markmiði.

En þeir eru margir "kvótarnir".  Sumir hafa viljað meina að kratarnir hafi einflaldlega ekki átt "kvóta" fyrir fleirum ráðherrum.  Þeir hafi þegar verið komnir með 3.

Skiptingin á ráðherraembættunum hafi nefnilega ekki aðeins verið 3. konur og 3. karlar, heldur hafi fleiri sjónarmið ráðið ferðinni.  Þannig hafa kratarnir 3. ráðherra (einn af þeim telst svo til Þjóðvaka), Kvennalistinn 2. og Alþýðubandalagið 1.

Því hafi varaformaðurinn ekki eingöngu verið af röngu kyni, heldur hafi "kratakvótinn" líka verið uppurinn.

Spurning er hvort að varaformaðurinn fái eitthvað "bein".  Formannsembætti í Fjárlaganefnd fylgir vissulega nokkuð "kjöt".


mbl.is Ágúst Ólafur: Ekki vonbrigði að fá ekki ráðherraembætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkasti framsóknarmaðurinn - Fjölmiðlaarmurinn

Það er eðlilegt að Valgerður Sverrisdóttir sé hvött til þess að gefa kost á sér til varaformennsku í Framsóknarflokknum. Hún hefur sterka stöðu, flokkurinn stendur nokkuð vel í hennar kjördæmi og hlaut þar viðunandi kosningu, líklega að segja má í einu kjördæma.  Eina kjördæmið sem flokkurinn fékk yfir 20% atkvæða og skilaði 3 mönnum á þing.

Hitt er hins vegar ljóst, að Valgerður væri aðeins biðleikur í stöðunni á meðan að verið væri að leita að framtíðarforystufólki, það er Guðni sömuleiðis.

Það þarf því ekki að undra að Björn Ingi hvetji Valgerði til að taka að sér embættið, enda honum varla í hag að "framtíðarmaður" setjist í embættið að svo stöddu.

En Framsóknarmenn þurfa að taka til í sínum ranni, og þurfa að þétta "skipið".  Það að allt það sem tilkynnt er í innsta hring sé jafnóðum tilkynnt í fjölmiðlum kann aldrei góðri lukku að stýra.

Það kann að vera að "fjölmiðlaarmurinn" sé einfaldlega of sterkur innan flokksins.


mbl.is Stingur upp á Valgerði í embætti varaformanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ígildi varaformanns

Einhverjar skeytasendingar hafa verið í dag þess efnis að staða kvenna innan Sjálfstæðisflokksins sé ekki nógu sterk og það hafi komið í ljós nú þegar skipað er í ráðherraembætti.

Auðvitað er þetta umdeilanlegt atriði, sjálfur hef ég aldrei talið kyn skipta máli, heldur að hæfustu einstaklingarnir veljist til starfans.  Ég trúi því að bæði Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún telji sig hafa verið að gera einmitt það.

En svo má auðvitað líta á þetta mál frá mörgum hliðum eins og flest önnum.  Það má til dæmis segja að að staða kvenna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sé á flestan máta sambærileg við stöðu varaformanns í sumum öðrum flokkum. 

Telst það ekki enn virðingarstaða og góð "vegtylla" í stjórnmálum?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband