Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Hringlað með kosningar?

Ég verð að segja að mér finnst það með eindæmum ef það á að fara að hringla með kjördag og kosningar.  Ég trúi ekki að það verði raunin fyrr en ég sé það gerast.

Ég trúi ekki að Framsóknarflokkurinn bakki frá kosningadegi, eða láti Vinstri græn og Samfylkinguna komast upp með slíkt rugl.  Kosningar eru þess eðlis að það þar þurfa ákvarðanir að standa, bæði með tímasetningu og reyndar líka lagasetningu.  Það er annar hlutur sem núverandi stjórn og Framsóknarflokkur ættu að athuga.

Er það ekki rétt að ÖSE líti það hornaugum, ef kosningalögum er breytt með skemmri fyrirvara en ári?

Mér líst hins vegar vel á tillögur Steinunnar Valdísar (líklega hennar besta tilllaga á ferlinum) um að þingið starfi í sumar.  Það eru engin rök fyrir löngu sumarfrí þingmanna og allra síst í því ástandi sem nú ríkir.


mbl.is Þingrof óákveðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur maður á röngum tíma

Ég hef verið um það bil klukkutíma á eftir mínu eigin lífi síðan á sunnudag.

Þá breyttum við hér í Kanada klukkunni, færðum hana fram um einn klukkutíma, fórum á sumartíma þó að enn sé hér frost á nóttunni.

Mér er meinilla við þetta hringl síðvetrar og svo aftur um haustið.

Enda tekur mig alltaf þó nokkra daga að aðlaga líkamann og ekki síður sálina að þessari breytingu.

Eins og í stjórnmálunum lít ég svo á að það sé stöðugleikinn sem gildi.  Hef aldrei skilið þá tillögugerð að taka upp sumartíma á Íslandi, sem að í þokkabót er á eilífum sumartíma, alltaf klukkutíma á undan.

En núna er ég réttur maður á röngum tíma, en í hárréttu húsi. 

Fer fljótlega að sofa.


Alþýðlegt og þjóðlegt

Mér finnst ég verða var við að yfirbragð þeirra sem nú eru að taka þátt í prófkjörum og forvölum og reyna allt hvað þau geta að komast fjölmiðla, er léttara en áður.

Bindisleysi, gallabuxur og annar "frjálslegur" klæðnaður sést æ oftar og lopapeysur eru líklega að verða "inn".  Það er enda ekki vænlegt til vinsælda að líta út eins og fjárfestingabankamaður.

Ég held að þetta sé af hinu góða, þó að "ímyndarsköpunin" geti verið jafn gervileg í þessa átt eins og hina.

En þingmanna "steríotýpan" hafði tvímælalaust gott af smá upplyftingu.


Hollvinasamtök skattgreiðenda

Í athugasemd við færslu sem ég skrifaði fyrir nokkrum dögum (sjá:  Menntamálaráðherra á góðri leið með að leysa kreppuna?) og fjallaði um aukningu á útgjöldum til Listamannalauna, skrifaði Jón Steinar Ragnarsson að hann vildi stofna þrýstihóp gegn þrýstihópum.

Þó að þetta sé ef til vill sétt fram í léttum dúr er mikið til í þessu, það veitti ekki af því að einhver gætti hagsmuna skattgreiðendanna gegn þrýstihópum.

Svona nokkurs konar Hollvinasamtök skattgreiðenda.  Það veitir líklega ekki af slíkum samtökum á þessum síðustu og verstu.

Sambærileg samtök starfa víða um heim, meðal annars hér í Kanada og má skoða heimasíðu Kanadísku samtakanna hér.

Þrýstihópur skattgreiðenda gegn öðrum þrýstihópum.


"Sambands" þversögnin - Sækjum um en segjum nei

Þessi skoðanakönnun gefur óneitanlega nokkuð skondna niðurstöðu.  Meirihluti Íslendinga vill samkvæmt henni fara í aðildarviðræður við "Sambandið" en vill ekki ganga í það.

Það er svona eins og hugsunin sé, að ef þeir gefa okkur nú alveg frábæran samning, gefa okkur fullt af peningum og láta allt okkar vera, þá má nú athuga málið.

Það er engu líkara en margir telji að Íslenskir samningamenn muni snúa samningamenn "Sambandsins" niður og koma heim í farteskinu með svo frábæran samning að það verði ekki hægt að neita honum.  Svona eins og þegar Jón Baldvin fullyrti um árið  að Íslendingar hefðu fengið "allt fyrir ekkert" þegar gengið var í EES/EEA.  Sami maður gengur svo um í dag og fullyrðir að svo mikið fullveldisframsal hafi átt sér stað með aðildinni að eina ráðið sé að ganga í "Sambandið".  Hvort að fullveldisafsalið flokkist undir ekkert, er spurning sem aldrei hefur verið svarað af honum.

En að hluta er þetta einfaldlega bergmál frá stjórnmálamönnum, sem hafa reynt að finna lausn sem getur friðað ólíka hópa innan flokkanna.  Meirihluti í öllum flokkum nema Samfylkingu er á móti "Sambandsaðild", en það þarf að henda "beini" til þeirra sem eru áfram um aðild.

En auðvitað er hægt að gera séra nokkuð góða grein hvað fengist í aðildarviðræðum við "Sambandið".  Ef skoðuð eru fordæmin og samningar annarra þjóða er hægt að komast að líklegri niðurstöðu, þá að vissulega sé ekki hægt að fullyrða um öll smáatriði.

Það er ennfremur hollt að hafa í huga að "Sambandið" er ekki fullmótað bandalag, nú eða ríki, og tekur stöðugum breytingum.  Flestar hafa breytingarnar og breytingatillögurnar miðað að frekari samruna ríkjanna og sterkari yfirstjórn "Sambandsins". 

Ég held að flestir ættu að geta gert sér grein fyrir því hvaða þýðingu það hefði fyrir smáríki eins og Ísland.

Það er því alger óþarfi að efna til samningviðræðna þegar næsta ljóst er að ekki fengist samningur sem væri ásættanlegur fyrir meginþorra Íslendinga.

Þeim peningum og tíma stjórnmálamanna væri betur varið í annað.


mbl.is Flestir vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar - vonum seinna

Ég held að fáum geti komið á óvart að Ingibjörg Sólrún dragi sig i hlé, raunar er illskiljanlegt að hún hafi ætlað sér að halda áfram sem formaður Samfylkingarinnar og að bjóða sig fram til þingsetu.

Það gerði hún þó fyrir u.þ.b. viku síðan.

En stjórnmálamanni sem lýsir því yfir í sjónvarpsviðtali (sem ég hef reyndar ekki séð, en séð vitnað til) að heilsa leyfi ekki að hún stjórni bifreið og að hún eigi í vandræðum með jafnvægisskyn, er auðvitað hollast að hugsa um heilsuna en ekki að stýra stjórnmálaflokki, einbeita sér að því að ná aftur fyrri styrk, en ekki að hugsa um þingsetu.

Í þeirri baráttu óska ég henni góðs gengis, þó ég hefði ekki gert hið sama í komandi kosningum.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig baráttan um formannssætið í Samfylkingunni lýkur.  Það er nokkuð merkilegt að þeir tveir einstaklingar sem fyrst koma upp í hugann, Jóhanna Sigurðurdóttir og Össur Skarphéðinsson, hafa bæði lýst yfir því að þeir stefni ekki á framboð.

Auðvitað yrði Jóhanna "klöppuð upp" ef hún byði sig fram, engin ætti möguleika gegn henni, en ef hún stendur við þá ákvörðun að sitja hjá opnar það minni spámönnum möguleika.

Mér þykir ólíklegt að Dagur B. Eggertsson sitji hjá í þeim slag - varla verður Jón Baldvin sjálfkjörin, nema að hann hætti við framboð, nú þegar Ingibjörg hefur dregið sig í hlé.

En það verða því allir stjórnmálaflokkar með nýjan formann í næstu kosningum, nema Vinstri græn og Frjálslyndi flokkurinn.

Þetta eru spennandi tímar.


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisráðherra bíður afhroð

Ég held að af þeim prófkjörum og forvölum sem haldin voru um helgina hafi Vinstri grænum í Reykjavík líklega tekist hvað best upp við að stilla upp sterkum listum.

Menntamálaráðherra fær afar góða kosningu, en það sama verður ekki sagt um starfsystur hennar í umhverfisráðuneytinu.  Ég held að það sé ekki hægt að kalla það annað en "rassskell" hjá sitjandi ráðherra að enda þriðja sæti á framboðslista, eða 6. sæti í forvalinu í heild.

En þeir sem gjarna tala um Sjálfstæðisflokkinn sem sérstakt "ættarveldi", ætti að finnast blog Árna Snævarrs í dag fróðleg lesning.


mbl.is Lokatölur komnar hjá VG í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv stendur alltaf keik - En Framsóknarfólk "valdi vitlaust" og því þarf að endurraða

Það virðist nokk sama hver er sendur á móti Siv, hún stendur alltaf keik eftir - sem sigurvegari.  Hún mun næsta víst skila sér á þing eina ferðina enn, þó að vissulega eigi ég von á því að Framsóknarflokksins bíði all nokkuð fylgistap fram að kosningum.

En enn og aftur kemur það í ljós að kynjakvóti er óþarfi og til óþurftar.  Hvað er nú að því að konur skipi 5. efstu sætin?  Ég reikna með að þátttakendur í prókjörinu hafi kosið þá sem þeir töldu frambærilegasta.

En með reglum hefur Framsóknarflokkurinn komið í veg fyrir að þeir bjóði fram sinn sterkasta lista.  Flokkurinn hefur ákveði að hafa vit fyrir flokksmönnum sínum - líklega vegna þess að þeir vita ekki hvað þeir voru að gera.

 


mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atkvæði út á afsögn?

Ekki get ég sagt til um hvort Sunnlenskt Samfylkingarfólk hefur í miklum mæli vegna þess að hann sagði af sér ráðherraembætti, ég hef engar forsendur til þess að dæma um það.

En ég er hissa ef afsögn (sem enginn virðist hafa tekið mark á, alla vegna þótti óþarfi að skipa nýjan ráðherra) Björgvins nokkrum klukkustundum fyrir fall síðustu ríkisstjórnar, þegar öllum mátti vera ljóst að ríkisstjórnin var í andarslitrunum, hefur haft mikið að segja.  Ég trúi því varla að það hafi haft mikið að segja, en þó er ekki hægt að útiloka að einhver falli fyrir slíku lýðskrumi.

Ætli lögmálið sem er gjarna svo ráðandi í Íslenskum stjórnmálum hafi ekki frekar ráðið úrslitum:  Það er ekki nauðsynlegt að vera góður valkostur, það er nóg að vera sá skársti.

Róbert Marshall nær ekki í þingsæti frekar en síðast, en þó erfitt sé að spá um úrslit nú, hef ég ekki trú á því að Samfylkingin nái að sækja á í kjördæminu, hef frekar trú á því að flokkurinn sígi niður á við.


mbl.is Afsögnin skipti miklu máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... en hann skaffar vel - Logan's Run

Það er ýmislegt sem vekur athygli í þessum úrslitum Samfylkingarinnar í Norðaustri.

Kristján Möller vinnur ágætis sigur, þó að hann sé undir 50%, þá verður þetta að teljast þokkalegur árangur hjá "gamaldags kratapólítíkus" á þeim dögum sem krafan um endurnýjun er hávær.  En eins og einn orðaði þetta í tölvupósti til mín:  "... hann hefur orð á sér fyrir að skaffa vel."

Hinn þingmaður flokksins í kjördæminu fær hins vegar "rassskellingu" og nær ekki á topp 10 eftir því sem mér hefur skilist.

Sigmundur Ernir kemur ótrúlega sterkur inn hjá flokknum, en ég set stórt spurningamerki við hvernig hann virkar á almenna kjósendur, alla vegna frá því sem ég heyri þaðan.  Hef ekki trú á því að hann dragi til flokksins.

Svo verð ég auðvitað að óska Loga Má til hamingju með þriðja sætið (þó að hann sé færður niður í það fjórða).  Fínn árangur hjá honum og gott að einhver Akureyringur sitji ofarlega á listanum.  Logan's Run For Parliament er ágætis titill og fjórða sætið ætti að geta skolað honum inn í þing í einhverja daga ef forföllin og fríin raðast vel upp.

Annað sem vekur athygli er slakt gengi Benedikts Sigurðarsonar og svo hve í raun fáir taka þátt í prófkjörinu þar sem það var opið og einnig var um netkosningu að ræða.  Það er freistandi að álykta út frá því að Samfylkingin sé ekki að trekkja í kjördæminu.

P.S.  Nú koma engar tölur um hvað margir greiddu atkvæði á þessum eða hinum staðnum, en skratti væri gaman að vita hvað margir greiddu atkvæði á Siglufirði.


mbl.is Kristján Möller efstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband