Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

... eins og að flytja kaffi til Brasilíu

Sú saga flýgur hratt um netið nú (sjá t.d. á Pressunni), að Alfreð Þorsteinsson hafi lagst hart gegn því að Magnús Árni Skúlason skipaði annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.

Á Alfreð að hafa komið í pontu og sagt að það sé óþarfi fyrir Framsóknarflokkinn að sækja spillingu í aðra flokka.

Alfreð ætti að þekkja það, líklega væri slíkt eins og að flytja inn kaffi til Brasilíu.


Menntamálaráðherra á góðri leið með að leysa kreppuna?

Þeir slá ekki slöku við að leysa úr efnahagskreppunni ráðherrar ríkisstjórnarinnar. 

Menntamálaráðherra slær sannarlega ekki slöku við og hefur ýmislegt sem hún hefur töfrað upp úr hattinum til að leysa vanda Íslendinga í kreppunni.

Hún hefur ásamt Reykjavíkurborg ákveðið að eyða u.þ.b. 13. milljörðum til að klára tónlistarhús (eitthvað eru skrýtnar fréttirnar sem berast af því þessa dagana) og það verða sjálfsagt engin vandræði með að finna rekstrarfé fyrir húsið þegar þar að kemur.

Nú er þegar komið að næsta snilldarbragði til þess að leysa kreppuna og halda útgjöldum hins opinbera í skefjum (en talað er um að verði að skera niður ríkisútgjöld um tugi ef ekki hundruði milljarða), en það er að fjölga þeim mánuðum sem listamönnum er greidd laun um þriðjung.

Það er spurning hvort að ekki sé hægt að finna fleiri málaflokka til að auka ríkisútgjöldin, þá geta Íslendingar aftur farið að lifa eins og blóm í eggi.


mbl.is Leggur til breytingar á listamannalaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur fjórflokksins

Ef aðeins ætti að nefna einn sigurvegar í þessari könnun, þá væri það "fjórflokkurinn".  Af einstökum meðlimum hans er þetta auðvitað sigur Vinstri grænna.

"Litli flokkurinn" sem var stofnaður af "óánægjuöflunum" sem vildu ekki ganga í Samfylkinguna orðinn jafnstór og hún.  Ég spái þó að í sundur dragi með flokkunum þegar nær dregur kosningum og fylgi VG minnki.

En þetta er athygliverð könnun, Sjálfstæðisflokkurinn er aftur orðinn stærstur, en þó er ekkert í þessari könnun sem bendir til annars en vinstristjórnar.  Þessi könnun segir að um yrði að ræða tveggja flokka stjórn VG og Samfylkingar, en ég spái því að Framsókn þurfi til.

Það hefur mikið verið talað um að núverandi stjórnarflokkar hafi meirihluta, en síðasta ríkisstjórn hefur reyndar mun ríflegri meirihluta (sem hún hafði þó ekki síðustu starfsvikur sínar).

En það verður fróðlegt að fylgjast með fylgisbreytingum sem verða á næstu vikum.  Eins og er stefnir allt í stórsigur "fjórflokksins" sem einn kæmi mönnum á þing, ef marka má kannanir.

P.S.  Nú þegar er farið að tala um nýja könnun, þar sem Samfylkingin er stærst, þannig að það virðast vera spennandi tímar.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfing ósamkvæm sjálfri sér

Ég tók smá syrpu á því að hlusta á Kastljósþætti undanfarinna daga, hef haft lítinn tíma fyrr en nú.

Í einum þeirra (að ég held frá miðvikudegi) mátti heyra viðtal við forsvarsmann hinnar nýstofnuðu Borgarhreyfingar.

Þar heyrði ég að það væri skoðun Borgarahreyfingarinnar að nauðsynlegt væri að fara í aðildarviðræður við "Sambandið" og leggja síðan niðurstöðuna fyrir þjóðaratkvæði.  Talsmaður hreyfingarinnar sagði eitthvað á þá leið að hann hefði aldrei hafnað samningi án þess að sjá hann.

Stuttu síðar mátti heyra í sama viðtali að Borgarahreyfingin gæti hugsað sér samstarf við alla stjórnmálaflokka á Íslandi nema Sjálfstæðisflokkinn.  Talsmaðurinn sagði það ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki það sem Borgarahreyfingin vildi.

Þar þarf engar samningaviðræður.


Kosningabandalag - Ein stefnuskrá?

Nú er mikið um það rætt að Vinstri græn og Samfylking myndi kosningabandalag, eða með öðrum orðum lofi að starfa saman í ríkisstjórn ef þess er kostur eftir kosningar.

Margir hafa haldið því fram að það kjósendur eigi rétt á því að vita hvernig ríkisstjórn verði mynduð eftir kosningar.  Persónulega hef ég aldrei séð rök fyrir því, enda gjarna erfitt að vita hvernig landið kemur til með að liggja eftir kosningar og hvað flokkarnir eru reiðubúnir að gefa eftir.

Eins og staðan er til dæmis í dag, þá er það svo að ef að Samfylking setur það sem ófrávíkjanlegt skilyrði að næsta ríkisstjórn hefji samningaviðræður við "Sambandið" þá hefur enginn annar flokkur nema Framsóknarflokkurinn það á dagskrá, hvað sem síðar verður.  Þá er það ljóst að ef enginn annar flokkur gefur slíkt eftir í stjórnarmyndunarviðræðum, þá er Samfylkingin utan stjórnar, nema ef svo ólíklega vildi til að flokkurinn hefði meirihluta með Framsóknarflokknum.

En ef flokkar ætla hins vegar að bindast fastmælum með að starfa saman í ríkisstjórn hafi þeir til þess fylgi, er það ekki óeðlileg krafa að "stjórnarsáttmálinn" sé birtur fyrir kosningar. 

Það er varla rökrétt að flokkar sem hafa ákveðið að starfa saman eftir kosningar strái um sig misvísandi loforðum fyrir kosningar og afsaki sig svo síðan með því að hinn flokkurinn hafi ekki ljáð þeim máls.

Ef að flokkar vilja að kosið sé um ríkisstjórnir, hljóta kjósendur að eiga rétt á því að vita hvað sú ríkisstjórn hyggst gera.  Ekki bara hvað þeir flokkar sem ætla að starfa í henni hafa á "óskalistanum".


Gott mál, en hvers vegna afnemur Alþingi ekki árlegar greiðslur sem nema á 4. milljón, til formanna stjórnarandstöðuflokka?

Það er engin ástæða til annars en að fagna því að eftirlaunalögum skuli breytt hvað varðar ráðherra, þingmanna og hæastaréttardómara.

En það er ástæða til að vekja athygli á því að frumvarpsflytjendur sjá ekki ástæðu til að afnema sérstakar greiðslur til formanna stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi og eru ekki ráðherrar.  Álagið nemur að mig minnir 50% á þingfararkaup og nálgast því 300.000 á mánuði.

Hver rökin eru fyrir því að formenn stjórnmálaflokka séu á launum hjá skattgreiðendum hef ég aldrei heyrt, og get ómögulega fundið þau sjálfur.

Hvenær skyldi einhver alþingismaðurinn leggja fram frumvarp um afnám þessarra fríðinda?

Nú eða að draga úr opinberum framlögum til stjórnmálaflokka?


mbl.is Eftirlaunafrumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit letruð í stein?

Ég held nú reyndar að fæstir hafi átt von á því að stórar fréttir kæmu úr forvali Vinstri grænna í Norð-Austrinu. 

En úrslitin fá meiri athygli en ella, þar sem þetta eru fyrstu úrslitin og kann einhverjum að þykja að tónninn sé settur.

En breytingin er engin hvað varðar efstu sætin.  Ekki hvarflar að mér að fara að setja út á það, enda liggur beinast við að álykta að félagsfólk í Vinstri grænum séu ánægð með sína menn og þyki ekki ástæða til að breyta.  Það er enda flokkurinn sem ber fram listann og engin ástæða til þess að skipta um, ef þeim er kjósa lýst svo á að umskiptin séu ekki til hins betra.  Breytingar breytinganna vegna getur ekki verið það sem stefna ber að.

En áhrif sem þetta getur haft á önnur prófkjör eða forvöl, getur verið í báðar áttir.  Þetta kann að leggja línur um litlar breytingar (sem ég held reyndar að verði tilfellið hvað varðar Vinstri græn), en einnig að hvetja til þess að breytingar verði annars staðar, þar sem kjósendur óttist að nýjir frambjóðendur komist hvergi að.


mbl.is Steingrímur J. efstur í NA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir meginkostir í stöðunni

Allar vísbendingar þessa dagana benda til þess að áframhaldandi vinstristjórn verði eftir kosningar.

Aðalspurningin er hvort að hún verði með þátttöku Framsóknarflokksins eður ei.

Persónulega hef ég ekki trú á því að Vinstri græn og Samfylkingin nái hreinum meirilhluta á þingi, en vissulega er ekki hægt að útiloka að slíkt geti gerst.  Það er flest hægt í pólítík.  Ég hef ekki trú á því að Vinstri græn haldi því fylgi sem flokkurinn hefur nú í skoðanakönnunum, en finnst líklegt að Samfylkingin verði í kringum 30%.

Það verður líka að hafa í huga að enn er ekki búið að ákveða einn einast framboðslista, ekki er einu einasta prófkjöri lokið.

Það er auðvelt að sjá fyrir sér niðurstöðu svipaða og 1978, þegar vinstriflokkarnir unnu stórsigur (önnur heiti, sömu flokkar innan litrófs fjórflokksins) og Framsóknarflokkurinn var í oddaaðstöðu og nýtti hana til hins ýtrasta.

Ég hef ekki trú á því að nýjir flokkar nái inn þingmönnum í þessum kosningum og tel reyndar líklegra að Frjálslyndi flokkurinn falli af þingi heldur en hitt.  Það breytir því ekki að þeir geta haft veruleg áhrif í kosningunum og þeirri baráttu sem þeim fylgir. 

Bæði geta þeir haft veruleg áhrif á umræðuna og ekki síður geta atkvæði greidd þeim ráðið úrslitum um hvert þingsætin falla, þegar mjótt er á mununum.

En í pólítískum tíma talið er enn langt til kosninga og allt getur gerst.  Flokkar hafa glutrað niður góðri stöðu á styttri tíma en nú er til stefnu.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Treystir ríkisstjórnin ekki stjórnlagaþingi?

Þegar ég las þessa frétt á vef RUV (fréttin er hér að neðan) varð ég hálf hissa.  Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin og þingflokkur Framsóknarflokksins vijal spyrða saman stjórnarskrárbreytingar og tillögu um stjórnlagaþing?  Hvernig fer það saman?

Er ekki rökrétt að breytingar á stjórnarskrá séu teknar af dagskrá nú og einfaldlega bíði stjórnlagaþings sem breyti stjórnarskránni eða semji nýja, eftir því hvernig litið er á málið?

Hvað gengur ríkisstjórninni til?  Er hún vísvitandi að reyna að flækja málin og gera þau torveldari á Alþingi?  Hvað gengur þingflokki Framsóknarflokksins til, hvers vegna samþykkir hann svona vitleysu?  Er hann hræddur um að verða gerður að blóraböggli?

Sá eini af Framsókn sem stendur í fæturna er Sigmundur formaður.

Hvers vegna er þörf á stjórnarkrárbreytingu ef stjórnlagaþing tekur til starfa innan tíðar?  Það hlýtur að vera spurningin sem fjölmiðlamenn spyrja ríkisstjórnina á næstu dögum.

Sömuleiðis hljóta þeir að spyrja hvort að stjórnarskrárbreytingar séu eitt af þeim málum sem brenna mest á þjóðinni nú?  Sérstaklega ef boðað verður til stjórnlagaþings.

P.S.  Hvar eru nú hinar mikilvægu tillögur ríkisstjórnarinnar sem eingöngu biðu þess að frumvarp um Seðlabankann yrði að lögum?

 

Þingflokkar stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins hafa samþykkt að leggja fram á Alþingi frumvarp um breytingar á stjórnarskrá.

Samkvæmt frumvarpinu verður bætt við ákvæðum um auðlindir í þjóðareigu, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing sem endurskoði stjórnarskrána. Þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt frumvarpið og þingmenn Frjálslynda flokksins eru jákvæðir. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur einnig samþykkt frumvarpið en formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, vill skilja að frumvarp um stjórnlagaþing og aðrar breytingar.

 

Koma verði í ljós hvernig brugðist verði við ef stjórnarflokkarnir halda fast í kröfu sína um að spyrða breytingunum saman í eitt mál.

 

Þó breytingarnar sem lagðar eru til séu flestar til bóta er jafnframt vafasamt að verja dýrmætum tíma þingsins til breytinga á stjórnarskrá bætir hann við. Frekar eigi að bregðast fjárhagsvanda heimilanna.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið frumvarpið inn á sitt borð en gagnrýnir að ekkert samráð hafi verið haft um tillögurnar. Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður segir að flokkurinn muni styðja öll góð mál sem taka á fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja en telur gagnrýni vert að nota eigi þann skamma tíma sem eftir lifir þings til að breyta stjórnarskránni án mikils undirbúnings.


3.000.000.000 - Að afskrifa er ekki það sama og að afskrifa

Það er skelfilegt að lesa að banki á Íslandi hafi líklegast þurft að afskrifa þrjá milljarða vegna skulda eins fyrirtækis, Árvakurs.  Það er jafnvel enn skelfilegra að hugsa til þess að líklega þarf að afskrifa á næstu mánuðum og árum skuldir hundruða fyrirtækja að hluta til eða að öllu leyti.  Líklega eru þó upphæðirnar lægri í flestum tilfellum, en líklega hærri í einhverjum.

Sumir munu freistast til þess að bera þetta saman við tillögur að afskriftum til handa heimilum og aðrir munu bera þetta saman við þær sögusagnir sem hafa verið á kreiki um afskriftir þegar 365 miðlar urðu að Rauðsól.

Sá samanburður er þó ekki eðlilegur né réttlætanlegur.

Þó að blóðugt sé að lánastofnun í eigu hins opinbera þurfi að afskrifa slíka fjárhæð sem þessa er það gert á réttan hátt.

Fyrri eigendur tapa eign sinni.  Þeirra eignarhlutur (hlutafé) í fyrirtækinu verður að engu.  Þeir njóta ekki afskriftanna..

Síðan er fyrirtækið selt hæstbjóðenda, á hálfgerðu uppboði, þannig að bankinn lágmarkar tap sitt. 

Það má hins vegar deila um hvort að það sé ekki rétt að gera slíkt söluferli gegnsærra, hafa tölur uppi á borðum, upplýsa um söluverð o.s.frv.  Slíkt myndi hjálpa til við að eyða tortryggni.

 

 

 


mbl.is 3 milljarðar sagðir afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband