Færsluflokkur: Matur og drykkur

Að mörgu leyti skrýtin umræða - hvað er áfengi?

Það má ganga út frá því sem vísu að þegar Íslendingar ræða um fyrirkomulag á sölu áfengis, eða smásölufyrirkomulag yfirleitt, fer umræðan út um víðan völl og tekur alls kyns hlykki.

Þessi frétt er ágætt dæmi um það. Heilbrigðismálaráðherra Noregs segist hafa áhyggjur af því að Íslendingar kunni að auka frelsi í sölu áfengis.

En í Noregi er bjór seldur í flestum "búðum á horninu" og kjörbúðum.  Kjörbúðir selja sömuleiðis bjór í Finnlandi.  Það er engu líkara en að heilbrigðisráðherra Noregs telji bjór ekki til áfengis.

Hafa Íslendingar áhyggjur af því?

Það er rétt að hafa í huga nú degi á eftir "Bjórdeginum" að aukið frelsi, hvort sem er í áfengismálum eða smásölu hefur ekki komið af sjálfu sér og nær alltaf mætt harðri andstöðu.

Frumvarp um að leyfa bjór var ekki lagt fram í fyrsta sinn þegar það var samþykkt árið 1988.  Ætli það hafi ekki verið nær 10. skiptinu sem slíkt frumvarp var lagt fram.  Ef ég man rétt var slíkt frumvarp fyrst lagt fram árið 1960.

Og þær eru orðnar býsna margar breytingarnar á fyrirkomulagi í smásöluverslun sem "þjóðin" hefur klofnað yfir og rifist svo misserum skiptir.

Mjólk ætti ekki heima í kjörbúðum, bækur áttu ekki heima í stórmörkuðum, lesgleraugu átti að banna að selja í stórmörkuðum.

Kjörbúðir máttu ekki vera opnar nema til 6 á kvöldin og áttu að vera lokaðar um helgar. Slakað var á klónni í sumum sveitarfélögum og almenningur mátti náðarsamlegast kaupa sér nauðsynjar í gegnum lúgu.

Svo var auðvitað "blessað bjórlíkið", sem líklega fáir sakna, en auvitað var það bannað nokkrum árum áður en bjór var leyfður á Íslandi.  Þáverandi dómsmálaráðherra gerði það árið 1985.

Auðvitað geta allir lifað lífinu án þess að einokun ríkisins sé afnumin á sölu áfengis, hvað þá að áfengi sé selt í matvöru eða öðrum verslunum.

Það sama gildir auðvitað um bjór, nú eða frjálst útvarp og sjónvarp, ekkert af þessu er lífsnauðsynlegt.  En þetta er dæmi um frelsi sem hafðist ekki nema með strangri og áralangri baráttu á Íslandi, ekki síst í sölum Alþingis, sem sjálfsagt hafði eitthvað "verulega mikilvægara" að ræða þá, rétt eins og nú.

En reglurnar eru skrýtnar. Þannig er ekkert mál fyrir Íslending sem hefur náð áfengiskaupaaldri, að panta sér hvaða áfengi sem er frá erlendum aðilum og fá það tollafgreitt og sent heim að dyrum (t.d með DHL eða sambærilegri þjónustu) en að íslenskur aðili geti veitt slíka þjónustu (nema ríkið auðvitað) er algerlega fráleitt í hugum svo margra Íslendinga.  Hugsanlega gætu þeir pantað á netinu hjá norska "ríkinu", en ég efast um að þeir afgreiddu pöntunina og verðið þar dregur engan að.

Forsjárhyggjugenið er það ríkt í Íslendingum (líklega ríkara í þeim sem leggja fyrir sig stjórnmál en öðrum) að þeim finnst það í góðu lagi að Íslendingar megi kaupa af einkaðilum, svo lengi sem þeir séu erlendis, þó að áfengið komi heim að dyrum á Íslandi.

Það hefur orðið alger sprenging í aðgangi að áfengi á Íslandi undanfarna áratugi. Bæði hefur ÁTVR fjölgað útsölustöðum sínum mikið og veitingastöðum sem selja áfengi hefur fjölgað hraðar en tölu má festa á.

Og vissulega hefur sala á áfengi aukist á undanförnum árum, en það verður varla séð að það sé umfram mannfjöldaukningu og stóraukin ferðamannastraum.  Þó þarf að hafa í huga að í fréttinni sem vísað er í er eingöngu fjallað um sölu ÁTVR.

En það gildir um bæði Ísland og Noreg (og reyndar mörg fleiri lönd) að býsna mikill hluti áfengisneyslu sést ekki í innlendum sölutölum, líklega stærri hluti í Noregi.

Því með auknum ferðalögum fylgir meira fríhafnarbús og smygl.

Reyndar er svokallaður áfengistúrismi býsna merkilegt fyrirbrigði, ekki síst á Norðurlöndunum.

Svíar og Norðmenn flykkjast yfir til Danmerkur að kaupa ódýrt áfengi og margir Danir fara yfir til Þýskalands.  Í Eistlandi má sjá Finna með drekkhlaðna bíla af áfengi á leiðinni heim.  Talið er að allt að 25% af áfengi sem selt er í Eistlandi fari yfir til Finnlands.

Eistlendingar eru síðan í vaxandi mæli farnir að leita yfir til Lettlands, því þar er áfengi enn ódýrara.

Þannig skapar verðlagning og hömlur á sölu áfengis margar skrýtnar sögur.

En það má telja næsta víst að frumvarp um afnám einkaleyfi ríkisins til að reka áfengisverslanir, eða leyfa frjálsa sölu á áfengi verði fellt.

Það er enginn heimsendir.  Þannig voru örlög frumvarpa um bjór um áratugaskeið og frjálst útvarp hafðist ekki í gegn án baráttu. Ef ég man rétt greiddi til dæmis enginn þeirra sem á hátíðarstundum töluðu um sig sem "frjálslynda jafnaðarmenn" atvæði með því frelsi á Alþingi.

En það er engin ástæða til að leggja árar í bát, þó að orusta tapist.  Það er sjálfsagt að halda málinu og umræðunni vakandi.

Og þó að ef til vill sé ekki ástæða til að leggja frumvarp þessa efnis fram árlega, er ég þess fullviss að sá tími mun koma að einokun ríkisins verði aflétt.

 

 

 

 


mbl.is Óttast áhrifin annarsstaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlýtur að vera eitthvað að varðandi lambakjötið

Það er skrýtið að lesa að það þurfi 100 milljónir aukalega til að markaðssetja íslenskt lambakjöt í fjarlægum löndum núna.

Að slíkt þurfi nú hlýtur að benda til þess að endurskoða þurfi lambakjötsframleiðslu Íslendinga - frá upphafi til enda. Ef til vill einnig markaðssetninguna.

Ef ég man rétt minnkaði innalandsneysla á lambakjöti (per íbúa) ár frá ári, nokkuð svo lengi sem elstu menn muna (þó að það sé vissulega teigjanlegt).  Engu virðist skipta að metfjöldi ferðamanna streymir til Íslands ár hvert, lambakjötið virðist ekki ná að rísa í sölu.

Því blasir við að annaðhvort hefur neysla "innfæddra" hrunið, eða að ferðamennirnir sem mælast brátt í 2. milljónum, ef marka má spár, hafa lítinn áhuga á lambaketinu. Rétt er að hafa í huga að sá fjöldi erlendra ferðamanna sem fer um Keflavíkurflugvöll er mikið hærri.

Ef ég hef skilið rétt er reiknað með að yfir 6.5 milljón farþegar fari um flugvöllinn á þessu ári.

Vissulega er það svo að með rísandi gengi, er lambakjötið eins og margar aðrar íslenskar afurðir orðnar ansi dýrar.

En ég hygg að þetta sé markaðurinn sem ætti að einblína á.

Þess utan, held ég að einstaklingar sem hafa smakkað íslenskt lambakjöt sem ferðamenn, séu mun líklegri til að láta slík kaup eftir sér, þegar heim er komið, en aðrir.

P.S.  Sjálfur borðaði ég íslenskt lambalæri í gærkveldi. Það er frábær kvöldverður og kitlaði bragðlauka allra viðstaddra, ásamt því að læða fram heimþrá hjá sjálfum mér.

Öndvegis matur og slær öllu öðru lambakjöti við. Ekki keypt í búð hér, heldur kom það með góðum vini mínum sem átti leið hér um.  Komið örfáa daga fram yfir síðasta söludag, en það kom alls ekkert að sök, lungmjúkt og meyrt.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Lambakjötsala í lægð vegna deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himinháir skattar hvetja til sóunar

Það er gömul saga og ný að þegar þarf að ná í fleiri krónur í ríkiskassann, þá ákveður ríkísstjórnin að hækka álögur á áfengi.

Í og með er þessi leið valin vegna þess að hún er án pólítískrar áhættu.  Því sem næst engin stjórnmálamaður vogar sér að andmæla slíkum fyrirætlunum, vegna þess að það er pólítískt hættulegt að taka sér stöðu með "drykkjumönnum" og áfengi er slíkt böl að allir ættu að sammælast um að hafa það sem dýrast.

Persónulega finnst mér sorglegt að horfa upp á Sjálfstæðismenn taka þátt í slíku.

Ég myndi vilja minna þá að að það er ekki einungis rétt að almenningur geti keypt sér hvítvín með humrinum á sunnudögum, heldur ætti hann að geta gert það án þess að velta því um of fyrir sér "hvort hann hafi efni á að kaupa sér nýja skó", sömuleiðis.

Það sem líka skiptir máli er að slíkir ofurskattar sem nú eru lagðir á áfengi á Íslandi skekkja verðskyn almennings og hvetja til sóunnar.

Allt verð á áfengi fletst út með slíkri ofurskattlagningu.

Mjög líklegt er að það auki kostnað við heildarinnflutning Íslendinga á áfengi og sömuleiðis er það hvetjandi til aukinnar neyslu á áfengi í dýrari umbúðum, sem eykur kostnað, mengun og stækkar "kolefnispor" Íslendinga, ef menn vilja velta slíku fyrir sér.

Hár áfengisskattur letur Íslendinga frá því að velja sér ódýrari tegundir til drykkjar. Ótrúlega lítill munur er t.d. á því að kaupa vodkareitil og svo aftur sama magn af cognaki.

Munurinn á innkaupsverði er hins vegar verulegur.

Sama gildir t.d. um muninn á því að kaupa sér rauðvínsflösku og svo sömu tegund í "belju", sem jafngildir 4. flöskum af sama víni.  Munurinn á ódýru rauðvíni í flösku eða "belju" á Íslandi getur numið ca. 100 kr. per flösku, eða innan við 10%. Varla þess virði að eltast við.

Víða er slíkur munur á milli 30 og 40%, enda flutningskostnaður mikið lægri á "beljunni" og umbúðakostnaður sömuleiðis.  Magnkaup ýta sömuleiðis undir lægra verð.

En fyrir íslenska innflytjendur hefur örlítil lækkun á heildsöluverði lítinn eða engan tilgang.  Hann hverfur einfaldlega í "skattahítinni".

Því ýtir ofurskattlagning hvata til samkeppni í raun algerlega til hliðar.

Þegar hið opinbera er farið að taka til sín vel yfir 90% af útsöluverði vodkaflösku blasir við að til dæmis 8% verðlækkun af hendi framleiðenda eða heildsala hefur lítinn tilgang.

Hér er skattlagningin löngu farin yfir velsæmismörk og farin að hafa veruleg áhrif á neyslumynstur, ekki eingöngu í þá átt að neytandinn velji sér vöru sem er dýrari í innkaupum og óhagstæðari fyrir þjóðarbúið og umhverfið, heldur ekki síður að hann velur sér "alt" vörur svo sem heimabrugg og smyglvarning.

P.S. Það er svo sérstakt umhugsunarefni að hið opinbera rekur svo einnig aðra vínbúð sem selur áfengi mun ódýrara, en þar fá einungis þeir Íslendingar að versla sem fara til útlanda (sem margir gera oft á ári) svo og þeir rúmlega ein og hálf milljón útlendinga sem koma til Íslands.

Er það réttlætanlegt?

 


mbl.is Áfengisskatturinn hækkar um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einokun og ofur skattheimta leiða til undarlegra ákvarðanna

Það er rétt, að það er sóun að hella niður góðum bjór, ekki síður en að henda góðum matvælum.

En fyrir því eru ástæður sem fyrst og fremst má rekja til einokunar og ofur skattheimtu.

Einokunar vegna þesss að það er aðeins einn söluaðili og þær eru líklega ekki margar vörutegundir sem fjármálaráðurneytið setur reglugerðir um löglegt sölutímabil.

Ofur skattlagningar, vegna þess að álögur ríkisins eru það stór hluti af vöruverðinu, að afsláttur sem veittur væri t.d. vegna þess að koma þarf vörunni út, væri í raun ekki mikill, því opinberu gjöldin stand að mestu óhögguð.

En þetta er það fyrirkomulag sem svo margir íslendingar virðast vera svo ánægðir með.

Þess má til gamans geta að ég keypti mér dulítið af bjór og víni á útsölu nýlega, hér þar sem ég bý.

Bjórflöskur keypti ég á um það bil 40 krónur stykkið, og svo keypti ég nokkrar "beljur" af rauðvíni og hvítvíni.

Þær inniheldu 3. lítra af þokkalegu áströlsku rauðvíni og veru seldar á 700 krónur íslenskar stykkið.

Góða verðið stafaði af því að stutt var í síðasta söludag.

En vínið rann út og var forðað frá sóun, en slíkt er auðveldara þar sem er ekki ofur skattheimta.

En það er auðvitað erfitt hlutskipti að búa þar sem aðgengi að áfengi er mikið og verðin góð.  Slíkt leggst þungt í íslendinga.

Líklega er það í genunum á okkur.

 

 


mbl.is Fáránleg sóun á jólabjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrípaleikur í kringum sölu og innflutning á áfengi

Það mega allir (eftir því sem ég kemst næst) sem hafa náð löglegum aldri flytja inn áfengi til Íslands. Þeir borga af því tilskilin gjöld til hins opinbera og mega síðan glaðir drekka sitt og bjóða gestum.

En þeir mega ekki selja það í verslunum sem þeir kunna að eiga.

Sömuleiðis er allt áfengi sem selt er á Íslandi flutt inn eða framleitt af einkaaðilum. Þeir borga af því til lögboðin gjöld til hins opinbera og dreifa því svo til veitingahúsa, ÁTVR og Fríhafnarinnar.

Það er því allt eins líklegt að áfengið sem einstaklingar drekka á veitinga- eða öldurhúsum hafi aldrei farið um hendur hins opinbera (þ.e. ef litið er fram hjá tollafgreiðslu).

En líklega hefur mest af söluaukningu á áfengi undanfarin ár einmitt átt sér stað á veitingahúsunum, líklega mest vegna fjölgunar erlendra ferðamanna.

Ég hef enga trú á því að ÁTVR (og þar með ríkissjóður) hafi misst nokkurn spón úr aski sínum þegar dreifing til veitingahúsa var færð yfir til einkaaðila. Líklega hefur fyrirtækið frekar sparað við þá breytingu.

Ég hef heldur ekki heyrt af því að verð til veitingahúsa hafi hækkað, eða þjónusta minnkað, en get vissulega ekkert fullyrt um slíkt.

En eftir stendur að ótrúlega stór hópur er þess fullviss að engum sé treystandi fyrir því að selja einstaklingum áfengi nema ríkinu, þ.e.a.s ef það er ekki á veitingahúsi.

Ja nema auðvitað ef einkaaðilinn er í útlöndum  og nýtur milligöngu póstfyrirtækja.

Þá er hættan af sölu einkaaðila líklega úr sögunni, eða hvað?

Væri netverslunin íslensk, væri líklega voðinn vís.


mbl.is Vínáhugamenn panta í gegnum netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fara í kleinu yfir hringjum

Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki Dunkin´ maður. Þó að ég hafi keypt mér kaffi og meðlæti þar, þá er það ekki nema einu sinni eða tvisvar. Þetta er einfaldlega ekki fyrir mig.

En ég hef aldrei getað skilið hvers vegna svo margir verða æstir yfir því að einhverjar veitingahúsakeðjur, opni hér eða þar. (eins og virðist nú vera yfir Dunkin´ Donuts).

Í mínum huga gildir alltaf það forkveðna, komi þeir sem koma vilja. Þeir hinir sem ekki hafa áhuga, einfaldlega beina viðskiptum sínum annað.

Og ef þeir sem vilja koma eru ekki margir, segir sig sjálft að yfirleitt loka slíkir staðir.

Ef þeir bjóða ekki upp á eitthvað sem heillar, þá verða þeir ekki í rekstri af hugsjóninni einni saman.

Og ef ég man rétt hefur slík örlög beðið margra veitingastaða á Íslandi, þar á meðal nokkurra alþjóðlegra keðja. Þeim hefur einfaldlega verið lokað.

Persónulega man ég ekki eftir því að hafa nokkur staðar gengið verslunargötu, eða komið í slíka miðstöð að eingöngu hafi verið búðir sem mér þótti áhugaverðar, eða eingöngu veitingastaðir sem ég hefði áhuga á að snæða á.

En slíkt læt ég mér í léttu rúmi liggja og fer einfaldlega þar sem mér líst vel á, nú eða heim ef enginn heillar.

 


mbl.is Dunkin´Donuts fer ekki framhjá neinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið erlenda skyr

Nú er svo komið, eins og reyndar mátti reikna með að erlend fyrirtæki eru farin að framleiða "Íslenskt" skyr.

Slíkt hefur reyndar verið gert um all nokkra hríð í Bandaríkjunum, en nú er framleiðslan orðin mikil í Evrópu.

Skyr er góð vara og því eðlilegt að stórir framleiðendur taki upp framleiðslu þegar sala og eftirspurn fer vaxandi.

Það hefur enginn vilja til að gefa eftir markaðshlutdeild.

Það má því fagna því að MS hafi ákveðið að fara þá leið að framleiða skyr í samvinnu við erlenda aðila, jafnhliða því að flytja út skyr frá Íslandi.

Til lengri tíma litið er það líklega eina leiðin til að standast samkeppni.

Styttri leiðir á markað og ódýrara hráefni hefði líklega ella gert samkeppnina mun erfiðari. Stórir framleiðendur eru einnig mun betur í stakk búnir til að takast á við sveiflur í eftirspurn.

Því má reikna með að þannig verði tekjur MS meiri til lengri tíma litið, þó að þær séu minna á hverja dós.

En það er sjálfsagt og nauðsynlegt að standa vörð um að skyr sé ekki auglýst sem Íslenskt, nema að það sé framleitt á Íslandi, en það á reyndar einnig við um mikið af því skyri sem er selt undir merkjum MS hér og þar.

En fyrir þa sem finnst það skrýtin tilhugsun að til sé "útlent skyr", þá er það auðvitað ekkert fráleitara, en Íslensk jógúrt, Íslenskur Camembert, Íslenskt gin eða vodki, svo nefndar séu nokkrar vörur sem eru framleiddar um allan heim og líka á Íslandi.


mbl.is Skjaldborg um íslenska skyrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjór löglegur í 26 ár

Fyrir ungt fólk kann það að hljóma lyginni líkast að bjór hafi um langa hríð verið bannaður á Íslandi.

Sú staðreynd að eingöngu þeir sem störfuðu við millilandasiglingar eða -flug máttu löglega flytja inn bjór til landsins, kann að hljóma enn ótrúlegri.

Svo var slakað á, og hinn almenni ferðamaður mátti kaupa bjór í Fríhöfninni, en enn var nokkuð í honum væri treyst til þess að gera slíkt í Ríkinu.

Og bjórlíkið, er í senn grátbroslegur, sorglegur og fyndinn kafli í sögu áfengismenningar á Íslandi.

En bjórinn "stökk" ekki inn í Ísland "án atrennu". Líkelga hafa á annan tug slíkra tillga verið lagðar fram á Alþingi, áður en sala bjórs var lögleidd á Íslandi.

Enn sitja að ég hygg tveir einstaklingar á þingi sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið.

Það eru Einar Kr. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sem ef ég man rétt var þá varaþingmaður og sagði já.

Hinn er Steingrímur J. Sigfússon, sem sagði nei.

Nú 26 árum síðar, er mikill fjöldi brugghúsa starfræktur á Íslandi, sem veita fjölda manns atvinnu og eru ótrúlega hugmyndarík. Ótölulegur fjöldi bjórtegunda eru bruggaðar og enn fleiri drukknar.

Útflutningur á bjór frá Íslandi fer vaxandi og Íslenskum bruggmeisturum fer stöðugt fram.

Til hamingu með daginn, í dag er við hæfi að fá sér einn "kaldan".

 

 


Algerlega óskiljanlegt með tilliti til þess að einokunarsala ríkisins er enn við lýði

Eru það góðar fréttir eða slæmar fréttir að sala áfengis hafi aukist (með tilliti til allra breyta) um 5.5%?

Það fer sjálfsagt eftir því hvað sjónarhól einstaklingar velja sér.

Hvað skyldi valda aukningunni?

Er það aukið aðgengi að áfengi, eins og t.d. verslun ÁTVR á Kópaskeri, sem ef ég man rétt var ekki til staðar í janúar á síðasta ári?

Er það aukin fjöldi ferðamanna, sem eru á pöbbum og veitingastöðum sínkt og heilagt, hálf slompaðir?

Eða eru Íslendingar farnir að drekka meira?

Hvernig skyldi nú standa á því að áfengisneysla eykst, þrátt fyrir að einokunarsala ríkisins er enn við lýði?

Getur verið að einhver önnur lögmál en sölufyrirkomulagið séu þarna að verki?

 

 

 

 


mbl.is Sala áfengis jókst um 8,1% í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppnishindranir gilda fyrir alla

það hefur verið fullyrt að í mín eyru að mismunurinn á reglugerðum um merkingar á matvælum í N-Ameríku og svo í Evrópusambandinu sé nákvæmlega svo mikill að engin leið sé að hanna miða sem uppfylli skilyrðin á báðum svæðum.

Þó að hinn yfirlýsti tilgangur sé auðvitað "neytendavernd" er afleiðingin minni samkeppni. Margir vilja meina að hömlun samkeppni sé megintilgangurinn með því að hafa merkingar mismundandi.  Og það sem meira er það gerir mörgum fyrirtækjum kleyft að hafa hærra verð á mismunandi markaðssvæðum, sérstaklega í Evrópu, en slíkt getur þó virkað í báðar áttir.

Þó að flestir sem ég hef heyrt í telji Bandarísku merkingarnar betri, þá eru sjálfsagt um það skiptar skoðanir eins og annað. 

Eitt atriði stendur þó líklega upp úr Evrópusambandinu í hag. Það er bannið við GM matvælum, sem er ekki skylda að upplýsa um í Bandaríkjunum, ef ég hef skilið rétt.

Um slíkt eru einnig mjög skiptar skoðanir.

Persónulega hef ég gjarna tekið þá afstöðu að engin ástæða sé til að banna slikt, en allar upplýsingar eru að sjálfsögðu til bóta og nauðsynlegar.

Svo er aftur annað mál hvort að þær eru mikið notaðar.

En auðvitað gerir þessi munur það að verkum að vörur verða á mörgum markaðssvæðum dýrari en ella.  T.d. þurfa Íslendingar að flytja inn vörur sem þeir gætu flutt inn frá Bandaríkjunum, og gerðu það jafnvel áður en til EES/EES samningsins kom.

Hvað það kostar neytendur á ári hef ég ekki hugmynd um eða hvort nokkurn tíma hefur verið gerð tilraun til að áætla slíkt.

 

 


mbl.is Reglur um merkingar stoppuðu Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband