Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Rússnesk atvinnutröll?

Ég fékk tengil á þessa frétt RUV sendann í tölvupósti.  Þar er fjallað um að Rússar séu með "bloggtröll" á launum við að blogga jákvætt um Rússa og setja jákvæðar athugasemdir á önnur blogg, og gera þau tortryggileg sem eru Rússum neikvæð.

Reyndar hefur verið fjallað nokkuð mikið um slíkt á ýmsum "litlum miðlum" undanfarin 2 til 3 ár, en ég man þó ekki eftir að hafa séð mikið um þetta á almennum miðlum. Reyndar má rekja slíka umræðu mun lengra aftur og í kringum 2003 til 2004 byrjuðu fyrstu fréttir af slíku að koma fram. Var þá talað um að umræður a Rússneskum spjallborðum hefðu tekið merkjanlegum breytingum fljótlega eftir árið 2000.

En vissulega er erfitt að henda nákvæmar reiður á slíku.

En í sjálfu sér er þetta eingöngu rökrétt framhald í þróun áróðurs og tilrauna til að hafa áhrif á "almenningsálitið".

Það verður að teljast ólíklegt að Rússar séu þeir einu sem standi í slíku, þó að vissulega búi þeir við ríka hefð í áróðri, og fáir ef nokkrir standi þeim framar í þeim efnum.

En blog og "athugasemdir" eru orðin partur af nútíma fjölmiðlun og því að sjálfsögðu beitt í áróðursstríði, jafnt af Rússum sem öðrum.

Nútíma stjórnmálabarátta fer ekki síst fram á "samfélagsmiðlum", með bloggum, tístum, myndböndum og skopmyndum.

Stundum skipulega, stundum ekki, og það er auðvelt að missa stjórn á atburðarásinni.

 


Landamæri: Kröfur og breytingar með valdi

Það má fagna því að samtök Súdeta-Þjóðverja hafi ákveðið að falla frá kröfum um "endurheimt" landsvæða í Tékklandi. Nóg er nú samt.

Því eins og kunningi minn orðaði það einhvern tíma, þá er eitthvert helsta vandamál Evrópubúa að allir hafa ráðið yfir einhverjum öðrum - einhvern tíma. Og þurft að horfa á eftir "glæstri fortíð" og misst af "stórkostlegri framtíð".

Og nú þegar landamærum Evrópuríkja er enn á ný breytt með yfirgangi, ofbeldi og vopnavaldi er þarft að hafa slíkt í huga.

Ein af þeim afsökunum sem heyrðust þegar Rússar innlimuðu Krím hérað, var einmitt að það hefði tilheyrt þeim áður.

En það er langt í frá eina svæðið sem tilheyrt hefur "einhverjum öðrum", öðru ríki og breytingar verið gerðar þar á.

Og Krím var ekki eina landsvæðið sem "fært var til" innan Sovétríkjanna.

Sneið af Eistlandi var færð til Rússlands. Á sama tíma var sneið af Lettlandi sömuleiðis færð yfir til Rússlands.

Rússar kröfðust landssvæða af Finnlandi í lok seinni heimstyrjaldar.

Ég held ég geti þó sagt með réttu að öll þessi ríki hafi ákveðið að afsala sér frekari kröfum til þessara landsvæða.

En eftir stríð voru landamæri dregin upp á nýtt. Sovétríkin (sem Ukraína tilheyrði) fékk stóra hluta Póllands. Í raun má segja að skiptingin sem Sovétríkin og Þýskaland sömdu um 1939, hafi haldið sér hvað Sovétríkin varðaði.

Pólland fékk svo væna sneið af Þýskalandi. Rússar tóku þá einnig hluta af Þýskalandi, borgina Königsberg, sem þeir endurskýrðu Kaliningrad.

Svona mætti telja upp nokkur svæði í viðbót. Það mætti nefna Ossetiu og einnig Gíbraltar.

En það má líka velta því fyrir sér hvort að tilviljun sé hve Sovétmenn/Rússar koma við sögu þegar sagt er frá nýlegri dæmum?

 


mbl.is Vilja ekki lengur hluta Tékklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingkosningar í Eistlandi - Ríkisstjórnin fallin, en þó ekki von á miklum breytingum

Kosið var til þings (Riigikogu) í Eistlandi í gær. Það er ekki hægt að segja að úrslitin hafi verið verulega óvænt, þó að skoðanakannanir hafi reyndar sumar sýnt að aðrar niðurstöður væru mögulegar.

Úrbótaflokkurinn (Eesti Reformierakond), sem hefur verið leiðandi í Eistneskum stjórnmálum undanfarin 10 ár, er enn stærsti flokkurinn, með 27.7% atkvæða og 30 þingmenn af 101.

Næst stærsti flokkurinn er Miðflokkurinn (Eesti Keskerakond) hlaut 24.8% og 27 þingsæti.

Þriðji stærsti flokkurinn er Sósíaldemókratar (Sotsiaaldemokraatlik Erakond), sem hlutu 15.2% og 15 þingmenn. Fjórði kemur svo Bandalag Föðurlandsflokkins og Lýðveldisflokksins (Isamaa ja Res Publica Liit), með 13.7% og 14 þingsæti.

Tveir nýjir flokkar náðu að komast yfir 5% "múrinn" sem þarf til að hljóta þingmmenn.

Það eru Íhaldsflokkur fólksins (Eesti Konservatiivne Rahvaerakond), sem hlaut 7 þingmenn og Frjálsi flokkurinn (Eesti Vabaerakond) sem hlaut 8.

Úrbótaflokkurinn og Sósíaldemókratar hafa verið saman í stjórn, en missa nú meirihlutann. Stjórnarskipti urðu fyrir tæplega ári, en áður hafði Úrbótaflokkurinn verið í stjórn með Bandalagi Föðurlands og Lýðveldisflokkanna.

Höfuðandstæðngar í Eistneskum stjórnmálum hafa verið Úrbótaflokkurinn og Miðflokkurinn, en Miðflokkurinn hefur þótt nokkuð hallur undir Rússa og hefur haft all nokkuð samstarf við flokk Putins. Margir vilja meina að það hafi unnið gegn flokknum á lokasprettinum, en hann hafði verið stærsti flokkurinn í mörgum skoðanakönnunum.

Munurinn er þó ekki meiri en svo að báðir flokkarnir starfa í sama flokkahópnum á Evrópusambandsþinginu, ALDE (Alliance of Liberals and Democrats for Europe).

Ekkert bendir til annars en að Úrbótaflokkurinn verði áfram forystuflokkur í ríkisstjórn. Það er ólíklegt að nokkur hinna flokkanna hafi mikinn áhuga á því að starfa með Miðflokknum.

Líklegast þykir að hann myndi stjórn með öðrum "millistóru" flokkunum og þá líklega Sósíaldemókrötum, sem eru með þeim í stjórn nú og svo öðrum "litlu" flokkanna.

Kjörsókn var 64.2%, sem er heldur betra en í síðustu kosningum. 19.6% greiddu atkvæði á netinu, 13.4% utankjörstaða, 31.2% á kjördag og 35.8% greiddu ekki atkvæði.

Eitt allra heitasta málið í kosningabaráttunni voru lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra, sem samþykkt voru á þingi fyrir stuttu.

Talið er að það hafi valdið fylgistapi Sósíaldemókrata.

En í heildina litið breyta þessar kosningar litlu að talið er. Breytingar verða í ríkisstjórn og nýr flokkur, eða flokkar munu taka þar sæti, en litlar breytingar eru taldar verða á stefnunni.


Bjór löglegur í 26 ár

Fyrir ungt fólk kann það að hljóma lyginni líkast að bjór hafi um langa hríð verið bannaður á Íslandi.

Sú staðreynd að eingöngu þeir sem störfuðu við millilandasiglingar eða -flug máttu löglega flytja inn bjór til landsins, kann að hljóma enn ótrúlegri.

Svo var slakað á, og hinn almenni ferðamaður mátti kaupa bjór í Fríhöfninni, en enn var nokkuð í honum væri treyst til þess að gera slíkt í Ríkinu.

Og bjórlíkið, er í senn grátbroslegur, sorglegur og fyndinn kafli í sögu áfengismenningar á Íslandi.

En bjórinn "stökk" ekki inn í Ísland "án atrennu". Líkelga hafa á annan tug slíkra tillga verið lagðar fram á Alþingi, áður en sala bjórs var lögleidd á Íslandi.

Enn sitja að ég hygg tveir einstaklingar á þingi sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið.

Það eru Einar Kr. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sem ef ég man rétt var þá varaþingmaður og sagði já.

Hinn er Steingrímur J. Sigfússon, sem sagði nei.

Nú 26 árum síðar, er mikill fjöldi brugghúsa starfræktur á Íslandi, sem veita fjölda manns atvinnu og eru ótrúlega hugmyndarík. Ótölulegur fjöldi bjórtegunda eru bruggaðar og enn fleiri drukknar.

Útflutningur á bjór frá Íslandi fer vaxandi og Íslenskum bruggmeisturum fer stöðugt fram.

Til hamingu með daginn, í dag er við hæfi að fá sér einn "kaldan".

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband