Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Spennandi og snúnar kosningar í Bretlandi

Það er kosið í Bretlandi í maí. Ég held að það séu engar ýkjur að segja að útlit er fyrir að þær verði spennandi.

Flestir telja nokkuð öruggt að enginn flokku nái hreinum meirihluta, þó að vissulega sé ekki hægt að útiloka að Íhalds eða Verkamannaflokkurinn gæti gert slíkt á góðum degi.

En eins og staðan kemur fram í skoðanakönnunum nú, eru báðir stóru flokkarnir með 30 til 35% fylgi, sem mun ekki nægja þeim til að ná þingmeirihluta.

En fylgis prósenta segir þó ekki nema brot af sögunni, í kosningum sem byggjast á einmenningskjördæmum.

Þannig mun t.d. Skoski þjóðarflokkurinn (samkvæmt skoðanakönnunum) því sem næst þurka út Verkamannaflokkinn í Skotlandi, þó að sá síðarnefndi hafi gott fylgi í Skotlandi og sé í öðru sæti í flestum kjördæmum.

En það eru engin "verðlaun", hvað þá þingsæti fyrir að vera með næst mest fylgi í einmenningskjördæmi.

Sjálfstæðisflokkur sameinaða konungsdæmisins (UKip) finnur einnig fyrir því. Flokknum er spáð á bilinu 10 til 15% fylgi í kosningunum, en fengi líklega allt að 6 þingmenn, eða 1% af þingsætum. Nýleg rannsókn sýndi að flokkurinn gæti orðið í öðru sæti í allt að 100 kjördæmum.

Síðan eru flokkar eins og Græningjar og Frjálslyndir demokratar, sem einnig munu fá þingsæti í minna mæli en atkvæðapróssenta segir til um.

En það gæti þó farið svo að 6 flokkar ættu þingmenn á næsta kjörtímabili, ef allir þessir flokkar ná inn þingmönnum.

Það er mikil breyting frá því sem oftast hefur verið.

Það er því ekki ólíklegt að kosningafyrirkomulag í Bretlandi komist í umræðuna, bæði fyrir kosningar og enn frekar eftir þær.

Annað sem er líklegt til að verða fyrirferðar mikið í umræðunni, er staða Skotlands.

Mörgum Englendingum finnst það undarleg og allt að þvi ógnvekjandi tilhugsun, að á sama tíma og Skotland hefur fengið og mun fá æ meiri stjórn yfir eigin málefnum, verði þeir á sama tíma hugsanlega úrslitaafl í málefnum Bretlands og um leið Englands.

Það gæti orðið raunin ef Skoski þjóðarflokkurinn myndar meirihluta með Verkamannaflokknum, eða styður minnihlutatjórn hans. Það er ekki ólíklegt að Íhaldsflokkurinn keyri nokkuð á slíku í kosningabaráttunni, eins og John Major gerir reyndar í fréttinni sem þessi færsla er hengd við.

Inn í þetta blandast svo loforð Cameron og Íhaldsflokksins um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild Bretlands að "Sambandinu". Í því sambandi hefur Skoski þjóðarflokkurinn (og Walesbúar að nokkru tekið undir) að einfaldur meirihluti geti ekki ráðið í málinu, heldur verði að vera meirihluti fyrir ákvörðun í öllum aðildarríkum Bretlands (þ.e. Englandi, Skotlandi, Wales og N-Írlandi).

Það má því búast við líflegum umræðum um stjórnskipan og uppbyggingu hins Sameinaða Breska konungsdæmis á næstunni.

Að sjálfsögðu verður einnig hart tekist á um önnur mál, s.s. menntamál, heilbrigðismál, ríkisfjármál o.s.frv.

Og umræða um "Sambandsaðild" verður án efa fyrirferðar mikil.

 

 


mbl.is Vill að Miliband hafni Skotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri fríverslun?

Það eru góðar fréttir að EFTA sé að hefja samningaviðræður um nýjan fríverslunarsamning. Nú við Mercosur sambandið í S-Ameríku.

Mercosur samanstendur af Argentínu, Brasilíu, Paraguay, Uruguay og Venezuela.

En það er jákvætt skref að fríverslunarviðræður hefjist við ríki í S-Ameríku nú. Vissulega er efnahagur þeirra mismunandi staddur og Venezuela nánast í upplausn, en samanlagt eru íbúar ríkjanna um 270 milljónir og samanlagt eru ríkin stór markaður.

Það er ánægjulegt að sjá EFTA vakandi fyrir möguleikum á fríverslunarsamningum.

 


Fjöldamorðingi og hetja

Þeir eru ýmsir einstaklingarnir sem í gegnum söguna hafa áunnið sér að vera kallaðir bæði skúrkar og hetjur.

Líklega er óhætt að setja Joseph Stalín á meðal þeirra.

Annar á lista yfir "fjöldamorðingja" í sögunni, þó að persónulega hafi hann líklega ekki drepið marga, eru það milljónatugir sem hann þarf þó að hafa á samviskunni. Oft er sagt að hann beri ábyrgð á dauða í það minnsta 40 milljón einstaklinga, beint og óbeint.

En á hinn bóginn er hann virtur og dáður fyrir leiðtogahlutverk sitt í seinni heimstyrjöldinni, þar sem hann leiddi Sovétríkin, ásamt Bandamönnum, til sigurs gegn Þjóðverjum.

Þá gekk hann undir því vinalega nafni "Uncle Joe" á vesturlöndum.

Að sjálfsögðu má deila um hvað mikið hann lagði til sigursins, sem og vandræða Sovétmanna í upphafi árásar Þjóðverja.

En hann var óumdeilanlega sameiningartákn fyrir Sovétmenn tákn baráttu þeirra og þrautseigju. Slíkt er ómetanlegt á stríðstímum.

Þannig er arfleifð Stalíns skipt. Annars vegar er hann miskunarlaus fjöldamorðingi, á hinni hliðinni hetja móðurjarðarinnar (rodina á Rússnesku).

Var annar leiðtogi til sem hefði staðið sig betur en Stalín? Hefði stríðið ekki þróast á allt annan veg, ef Stalín hefði ekki verið búinn að láta myrða og fangelsa stóran hluta yfirmanna Rauða hersins? Átti hann ekki mikinn þátt í því að seinni heimstyrjöld hófst, með samningi Sovétríkjanna og Þýskalands?

Þegar Þýski herinn "rúllaði" yfir Niðurlönd og Frakkland, keyrði hann á Sovéskri olíu og hermennirnir átu brauð úr Sovésku korni.

Stalín sendi Hitler heillaóskaskeyti þegar Frakkland féll.

En Stalín og Sovétríkin voru líka árásaraðili. Réðust inn í Finnland, hernámu Eystrasalstríkin og réðust inn í Pólland.

Þannig má velta ótal hlutum fyrir sér.

En eftir stenda staðreyndirnar.

Að Stalín leiddi Sovétríkin fram til sigurs, þrátt fyrir hræðilegt gengi í upphafi. Líklega mátti ekki miklu muna að Sovétríkin féllu, þ.e.a.s. vestan Úralfjalla og hver veit hvað gerst hefði ef umfangsmikil aðstoð Bandaríkjanna og Breta hefði ekki komið til.

En ferill Stalíns, berandi ábyrgð á einhverjum umfangsmestu fjöldamorðum sögunnar er einnig staðreynd.

Þannig er Stalín hetja í augum margra, en skúrkur í hugum annara. Hjá sumum er hann jafnvel hvoru tveggja.

Sagan geymir fleiri dæmi um slíkt.

 

 

 


mbl.is Minntust Stalíns á ártíð hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíeggjað - en líklega skynsamlegt

Þegar talað er um að gefa skattsvikurum upp sakir, er eðlegt að það veki viðbrögð - bæði neikvæð og jákvæð. Eðlilega eru skiptar skoðanir um hvort slíkt eigi að gera, eða sýna "fulla hörku".

Svona "sakauppgjafartímabil" er þekkt víða erlendis og hefur ef ég hef skilið rétt gefist ágætlega, t.d. í Þýskalandi og Ítalíu. Noregur mun einnig hafa slíkt fyrirkomulag ef ég hef skilið rétt.

En auðvitað er rökrétt að rætt um hvort þetta sé æskilegt, og svo einnig hve langt "sakaruppgjafatímabil" eigi að vera, hve oft, eða hvort það eigi að vera viðvarandi.

Einnig hve hátt álagið eigi að vera, á það að vera mismunandi eftir upphæðum og hve langt aftur í tímann á álagið að gilda.

Það sem ef til vill skiptir ekki minnstu máli þegar menn velta því fyrir sér hvort að sakaruppgjöf sé réttlætanleg, er hvaða möguleika og líkur teljum við á því að skattrannsóknaryfirvöld geti náð árangri í að finna þá sem hafa svikið undan skatti, og rekið mál gegn þeim fyrir dómstólum með árangri.

Það má líka líta til þess, að alþekkt er að dómstólar líti mildari augum á þá sem hafa komið sjálfviljugir og viðurkennt brot sín, eða verið samstarfsþýðir við löggæslu eða gert við hana "samning".

Mér sýnist því að rökin fyrir því að setja "sakaruppgjafartímabil" í lög, séu fleiri og betri en að sleppa því.

Verulegar líkur eru á því að skattur verði greiddur af fjármunum sem ella yrðu áfram "utan lögsögu".

En ég hef ekki mótað mér neinar fastar skoðanir á því hvernig útfærslan eigi að vera.

 


mbl.is Skattsvikarar fá eins árs frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll þá og nú. Varar hann við sjálfum sér?

Mikið hefur verið rætt um stefnu eða stefnubreytingu Árna Páls Árnasonar, síðastliðnar 48 klukkustundir eða svo.

Ekki er deilt um að hann "næri efasemdir" um "Sambandið", en skiptar skoðanir um hvort að þær hafi eitthvað vaxið og dafnað.

En 5. október 2008 mátti lesa eftirfarandi haft eftir Árna Páli í Viðskiptablaðinu:

„Það hefur sýnt sig að yfirlýsing um að stefnt sé að Evrópusambandsaðild er töfralausn við fjármálalegum óstöðugleika og aðstæðum á borð við þær sem Íslendingar standa nú frammi fyrir," sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

7. mars 2015 skilst mér að lesa megi eftirfarandi í Fréttablaðinu, en ég las textann á Eyjunni:

Blind trú á töfralausnir hefur ekki reynst Íslendingum vel. Aðild að ESB er ekki trúaratriði, heldur praktísk nauðsyn út frá köldu mati á íslenskum hagsmunum. Hagsmunir geta breyst frá einum tíma til annars og ESB er í stöðugri þróun og ekkert óeðlilegt að leggja reglulega mat á hana. Aðild að ESB er nefnilega ekki markmið í sjálfri sér, heldur leið til að tryggja betur kjör almennings og öflugra atvinnulíf.

Það er einmitt það. Blind trú á töfralausnir hefur ekki reynst Íslendingum vel. Er hægt að vara öllu betur við málflutningi marga "Sambandssinna" undanfarin ár?

 


Ódýr auglýsing sjónvarpsstöðvar?

Þegar ég sá fréttir um meintar efasemdir Árna Páls um "Sambandsaðild" Íslands, hugsaði ég með mér að lengi væri von á einum.

Mér þótti Árni Páll sýna óvenjulegt hugrekki með því að tala á þann veg sem fréttir hljóðuðu á, og allt kom mér þetta verulega á óvart.

En nú er þetta allt borið til baka.

Það kemur mér í sjálfu sér ekki mjög á óvart. Svona beygju taka formenn stjórnmálaflokka almennt ekki. Alla vegna ekki þeir sem eru að sækjast eftir endurkjöri. Stefnan er mörkuð af flokknum.

En þetta vakti áhuga minn og ég fór að reyna að finna eitthvað um viðtalið. Fann þennan stutta bút á YouTube.

Og það er ekki oft sem ég tek undir með Árna Páli Árnasyni (man ekki hvenær það var síðast) en ég geri það nú.

Þetta er fráleit túlkun á því sem kemur fram í þessum bút, en ég segi það með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð viðtalið í heild.

Ef til vill var þetta aðeins hugsað sem ódýr auglýsing fyrir nýjan fjölmiðil, en ég verð að segja að slíkar aðferðir vekja ekki traust á miðlinum.

En þetta kom líka stjórnamálamanni sem hefur átt frekar erfitt uppdráttar aðeins í umræðuna, og röng umræða er betri en engin umræða, sérstaklega stuttu fyrir landsþing.

 


mbl.is „Fráleit útlegging á því sem ég sagði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að draga fé í dilka

Enn og aftur er bygging mosku í Reykjavík komin í umræðuna, nú vegna loforðs um veglega peningagjöf til uppbyggingarinnar.

Og nú bregður svo við að fjölmargir, sem hafa jafnvel verið fylgjandi byggingunni, rjúka upp til handa og fóta. Finnst þetta óforsvaranlegt og peningarnir "vondir".

Einhvern veginn fannst mér það liggja nokkuð fyrir að peningarnir til byggingar mosku kæmu erlendis frá, því það blasti einhvern veginn við að 1000 manna söfnður eða svo, hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess á eigin vegum.

Og líklega er þetta hvorki í fyrsta eða síðasta skipti sem erlent fjármagn kemur til byggingu bænahúsa á Íslandi.

Persónulega finnst mér til dæmis afar ólíklegt að Rússesk rétttrúnaðarkirkja verði byggð á Íslandi án stuðnings erlendra aðila. En að svo komnu máli ætla ég ekki að fullyrða slíkt, en vissulega er það nokkuð sem fjölmiðlar gætu kannað.

Það undarlegasta sem ég hef heyrt er krafa borgarstjóra um að "málið verði rannsakað".

Ætlar borgin að fara að "draga fé í dilka"? Útbúa lista yfir ríki og samtök sem mega ekki styrkja starfsemi í Reykjavík? Til hvaða bragða hyggst borgin taka ef komist er að því að peningarnir komi frá "óæskilegum" aðilum?

Staðreyndin er sú, að trúfrelsi ríkir á Íslandi. Það ríkir ekki bann við því að trúfélög (að ég best veit) þiggi peninga frá erlendum aðilum.

Samtök múslima eru því í fullum rétti til að taka við peningunum.

En boltinn er hjá þeim. Vilja þeir taka við þessu fé? Ég efa ekki að það kemur þeim að góðum notum við húsbygginguna. En gæti gert þeim erfiðara fyrir á annan máta.

En enn og aftur komum við að því að fjárframlag sem þetta á sér ótal fordæmi um víða veröld og á ekki að þurf að koma neinum á óvart.

Það sem hefur gerst í "útlöndum" getur gerst á Íslandi. Og gerir það oft.

Þó að einhvern tíma í framtíðinni sé hægt að gera sér vonir um að til verði eitthvað sem gæti kallast "Íslenskt Islam", hygg ég að svo sé ekki í dag.

Það eru allar líkur á því að einhvern daginn komi til Íslands það sem oft er kallað "haturspredikari". Ekki endilega á vegum þessa trúfélags, eða jafnvel nokkurs sem er starfandi í dag.

Það er engin ástæða til þess að fyllast eða ala á ótta, en það er heldur engin ástæða til þess að stinga höfðinu í sandinn.

En það væri þarft að velta því fyrir sér hvernig Íslendingar vilja bregðast við, ef til dæmis grunur leikur á því að starfsemi trúfélags stangist á við lög eða stjórnarskrá?

Og hvernig spilast þá togstreita í stjórnarskránni, milli trúfrelsis og annara mannréttinda?

 

 

 


mbl.is Vissi ekki af fjármagninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eurokrísan hverfur ekki - Er ekki kominn tími til að hætta að trúa á "töfralausnir"?

Var það ekki Jón Baldvin sem talaði um "Sambandið" sem brennandi hús? Hús sem ekki væri vit í að leita skjóls í.

En það er ljóst að Eurokrísan hefur aldrei verið leyst, og reyndar ekki fyrirsjáanlegt að hún leysist á næstunni. Nú er 7 ára afmælið að nálgast, en það er fátt sem bendir til þess að hún nái ekki í það minnsta "táningsaldrinum".

Ójafnvægið í efnahag Eurolandanna og í raun "Sambandsins" alls, minnkar ekki og virðist ef eitthvað er, frekar aukast.

Nokkuð hratt gengissig eurosins hjálpar vissulega löndum á svæðinu, en það er eins og svo oft áður, að sá sterkasti nýtur mest góðs af slíku, þ.e. Þýskaland.

Verðhjöðnun hefur fest rætur á svæðinu, það er hægt að binda vonir við að yfirvofandi peningaprentun leysi það vandamál, í það minnsta hjálpi til, en það er þó ekki gefið.

Skuldastaða einstakra ríkja er afleit og svæðisins í heild ekki góð. Það er þó aðeins hluti vandans, því einstök sambandsríki, svæði og sveitarfélög eru oft ekki síður skuldum vafin en ríkiskassarnir.

Hér er rétt að hafa í huga að staða einstakra ríkja með eigin seðlabanka er nokkuð önnur en ríkja í myntbandalagi.

Það er ekki bara Grikkland sem á í erfiðleikum, þó að vissulega sé það líklega verst statt og sé eðlilega mest í fréttum.

Staðan er verulega erfið í Portúgal, á Ítalíu, á Spáni, og hefur legið stöðugt niður á við í Frakklandi.

Finnland hefur einnig átt undir högg að sækja, og fjármálakerfið í Austurríki finnur fyrir erfiðleikunum í A-Evrópu og á Balkanskaganum.

Svona má lengi áfram telja.

Það brestur í samstöðunni, enda finnst fátækum ríkjum í A-Evrópu, erfitt að "selja" íbúum sínum þá visku að það þurfi að aðstoða ríki sem halda uppi mun hærri lífsstandard.

Stríð er háð á jaðri "Sambandsins", sem hefur afhúpað gríðarlega veikleika hjá "Sambandinu", jafnt í orkustefnu, varnarstefnu sem utanríkis og "útþennslustefnu".

Það er ekki að undra að sjá megi að "tvær grímur" séu að renna á ýmsa stuðningsmenn "Sambandsaðildar" á Íslandi.

Auðvitað á Ísland ekkert erindi í slíkt "Samband".

Æ fleirum verður ljóst að vera í "Sambandinu" og euroið hefði ekki orðið Íslandi til hjálpar í aðdraganda bankahrunsins, eða eftirleik þess.

Mun líklegra er að slíkt hefði orðið myllusteinn, sem hefði dregið landið niður.

Æ fleirum verður ljóst hve mikil takmörk "Sambandsaðild" setur á sjálfstæði og lýðræði hvers "Sambandslands".

Æ fleiri gera sér grein fyrir að umsókn, eða aðild að "Sambandinu" er ekki sú "töfralausn" sem ýmsir pólítíkusar hafa lofað.


mbl.is Fórnarlömb sjúks fjármálakerfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að gera stjórnarandstöðunni til hæfis?

Fyrir stuttu voru þingmenn stjórnarandstöðunnar í ræðustól þingsins að kvarta undan því að of fá mál kæmu frá ríkisstjórninni. Það mátti skilja að þingið hefði ekki of mikið að gera.

Nú kvartar stjórnarandstaðan hástöfum yfir því að mál komist inn á þingið, úr nefnd. Eins og að hlutverk þingsins sé ekki að ræða mál eins og áfengisfrumvarpið.

P.S. Fjöldi mála sem ríkisstjórn leggur fram, segir varla mikið um frammistöðu hennar. Það er engin keppni um málafjölda. Hins vegar eru sjálfsagt ýmis mál sem ástæða er til að komi fram. En það er betra að þau séu vel undirbúin.

Það er ekki til eftirbreytni að leggja fram frumvörp sem aðrir ráðherrar líkja við bílslys, eins og gerðist á síðasta kjörtímabili.

 


mbl.is Beðið eftir álitum á áfenginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aflast vel á sjóræningjamiðum

Það er ekki hægt að segja að þessi könnun færi stórtíðini úr Íslenskri pólítík, nema auðvitað verulega fylgisaukningu Pírata.

Persónulega kemur mér það ekki mikið á óvart, og á allt eins von á því að sú sókn haldi áfram.

Þó að þingflokkur Pírata hafi ef til vill ekki þrumað fram "stórum málum" hafa þeir verið duglegir að koma á framfæri í umræðuna og á Alþingi "smærri", en mikilvægum málum, s.s. úreltum lögum um guðlast, sjálfvirkar skráningar í trúfélög (og hvort það eigi yfirleitt að skrá) og svo framvegis.

Ég hef trú á að slík réttlætismál nái vel til yngri kjósenda sem hafa jú verið vænlegasti markhópur Pírata.

Með þessu hafa þeir náð sð slíta sig frá "ráðsettum" stjórnmálum, sem eins og mikið hefur verið rætt um, eiga nokkuð undir högg að sækja víða um lönd.

Hvort að þeir ná að halda þessu fylgi fram að næstu kosningum, þegar "alvöru" málin taka yfir umræðuna, er auðvitað stór spurning.

En ef vel er haldið á "krókstjökunum" er það alls ekki fráleitt, en vissulega er enn langt til kosninga.

Hvað varðar aðra flokka, er lítil tíðindi í þessari könnun. Ríkisstjórnarflokkarnir á svipuðum slóðum og sig Framsóknar heldur áfram.

Aðrir stjórnarandstöðuflokkar á svipuðum slóðum og síðast, BF bætir örlítið við, SF tapar örlitlu og VG nær ekki að hífa sig upp, þrátt fyrir vinsælan formann.

 


mbl.is Píratar í stórsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband