Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Afhjúpar ruglið í innheimtu sóknargjalda

Á örfáum mánuðum hafa yfir 3000 íslendingar skráð sig í trúfélag sem fæstir ef nokkur virkilega þekkir skil á.

Þeim er nokk sama hver átrúnaðurinn er, loforðið um að sóknargjöld verði endurgreidd er þeim nóg, til að skrá sig í óþekktan trúarsöfnuð.

Persónulega skil ég þessa einstaklinga mæta vel, því vissulega er álagning sóknargjalds fyllilega ósanngjörn og óeðlileg.

Það er reyndar rétt að hafa það í huga að staða einstaklinga er misjöfn. Sumir einstaklingar munu fá meira greitt til baka en þeir reiddu af hendi, en aðrir munu tapa, en þó minna en áður.

Því engin "sóknargjöld" eru innheimt af íslendingum. Þau eru "felld" inn í almenna tekjuskattsálagningu. Þannig eiga tekjulágir möguleika á því að fá endurgreitt meira en þeir reiddu af hendi, en tekjuhærri eiga eingöngu möguleika á því að minnka "tapið".

En allir greiða "sóknargjöld", burtséð frá því hvort þeir tilheyra einhverri sókn, eða trúarsöfnuði. Gjaldið er prósenta af tekjum, rétt eins og aðrir skattar.

Það er ruglið í innheimtu "sóknargjalda".

Það er þarft verk sem "Zusistar" vinna með því að afhjúpa vitleysuna, mismununina og ranglætið sem með þessu hefur viðgengist.

Í sjálfu sér er einfalt mál og ekki með öllu óeðlilegt að hið opinbera bjóði upp á innheimtu sóknargjalda, en það ætti þá að vera með því formi að framteljandi haki í tilheyrandi reit, þar sem hann óskra eftir, eða samþykkir að kr. 10.776,- séu dregnar af honum aukalega í sóknargjald.

En ef til vill væri rökréttara að hið opinbera hætti með öllu afskiptum af innheimtu sóknargjalda, sem og trúfélagaskráningu.

Það yrði einfaldlega litið á það sem einkamál hvers og eins.

Það er eiginlega með eindæmum að flokkur sem alla jafna kennir sig við einstaklingsrelsi, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, skuli standa vörð um jafn úrelt kerfi.

 

 

 


mbl.is Zuism fimmta stærsta trúfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir vinstrisinnuðu evrópsku "hægri öfgamenn"

Í umræðum um krísur Evrópusambandsins undanfarin ár, hefur all mikið borið á tali um það sem ýmsir fjölmiðlar og einhverjir fræðimenn og álitsgjafar kalla "hægri öfgaflokka" og "populíska" flokka, sem á flestum þeirra hefur mátt skilja að væru stórhættulegir.

Líklega þá í samanburði við þá flokka sem höfða ekki til pöpulsins (almennings).

Einn af þeim flokkum sem hvað oftast hefur fengið "hægri öfgastimpilinn" er franski stjórnamálaflokkurinn Front National (FN), sem líklega mætti þýða á íslensku sem Þjóðfylkingin.

Þar hefur verið í forsvari Marine Le Pen. All sköruleg kona, með ákveðna framkomu og skoðanir.

Ég get ekki sagt að ég hafi heillast af baráttumálum flokksins, en hef alltaf fylgst með henni með þó nokkrum áhuga, því hún sker sig nokkuð úr í frönskum stjórnmálum.

Nú eru héraðskosningar í Frakklandi í desember og Marine Le Pen er í framboði fyrir Þjóðfylkinguna í "Nord-Pas de Calais". Í stuttu máli má segja að boðskapur hennar til kjósenda sé eftirfarandi:

Kjósið mig og ég mun endurreisa velferðarkerfið, félagslegar varnir og bjarga ykkur frá Bandarísk stýrðri hnattvæðingu.

Ég mun opna heilsugæslustöðvar í smærri bæjum; útvíkka "lærlingakerfi", stofna háskóla fyrir listir og nytjalistir; setja pressu á landsstjórnina að halda póstútibúum og öðrum ríkisstofnunum opnum; og setja pressu á svæðisstjórnir að taka innlend fyrirtæki fram yfir erlend í viðskiptum.

Í þessu fellst gríðarleg "hægri öfga stefna", eða hvað?

Staðreyndin er þó sú að ýmsar öfgar má finna í fortíð Þjóðfylkingarinnar, gyðingahatur og flokkurinn vill draga verulega úr fjölda innflytjenda og beita hörku gegn ólöglegum innflytjendum.

En reyndar fór fram frekar harkalegt uppgjör á milli stofnanda Þjóðfylkingarinnar og Marine Le Pen, sem endaði með því að stofnandinn var rekinn úr flokknum. Það er rétt að það komi fram að það er faðir hennar.

Það sem stendur þó líklega upp úr ef úrskurða á um hvers vegna svo margir vilja flokka Þjóðfylkinguna sem "hægri öfgaflokk", er líklega afstaða flokksins gagnvart innflytjendum. Þó að það geti í sjálfu sér ekki talist eindregin hægristefna.

En það má líka velta fyrir sér, hvers vegna land eins og Frakkland, þar sem atvinnuleysi er í kringum 11% (og mun hærra á meðal innflytjenda og afkomenda þeirra) ætti að setja kapp á að taka á móti fleiri innflytjendum? Hvað hefur það að bjóða þeim?

En þó að ég sé ekki stuðningsmaður Þjóðfylkingarinnar, á ég ekki erfitt með að skilja hvers vegna franskir kjósendur halla sér að flokknum í æ ríkari mæli.

Þeir búa í  landi þar sem fjárlög hafa ekki verið hallalaus síðan 1973, þar sem atvinnuleysi hefur verið um og í kringum 10% síðan á síðasta áratug og er nú vaxandi. Þeir búa í  landi þar sem kjósendur felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins, en fengu hana yfir sig "bakdyramegin". Þeir búa í landi þar sem tvö mannskæð hryðjuverk hafa verið framin á þessu ári.

Þeir búa í landi sem hefur misst samkeppnishæfi sitt jafnt og þétt síðan landið tók upp euroið.

Í slíku landi hafa hinir hefðbundnu valdaflokkar fyrir löngu misst tilkall til þess að geta sagst hafa lausnirnar sem vantar.

Það er málið, það er það sem dregur kjósendur að Þjóðfylkingunni og Marine Le Pen.

Og því miður er það ekki einsdæmi, eins og staðan er nú víða í Evrópu.

 


mbl.is Titringur vegna uppgangs öfgaflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti Íslands er ekki ráðinn

Ég mun líklega seint verða talinn stuðningsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar. En ég hef þó kosið hann einu sinni.

Það var í síðustu forsetakosningum.

Þá eins og í mörgum öðrum kosningum þá fannst mér í sjálfu sér enginn verulega álitlegur kostur og þá vel ég þann skársta. Þannig gerist það oftast í kosningum og ég hef trú á því að það gildi um fleiri en mig.

En forseti Íslands er ekki ráðinn eða skipaður. Hann er kosinn beint af íslensku þjóðinni.

Það er í raun ótrúlegt að margir virðast ekki skilja lýðræðið. Það er ekkert ólýðræðislegt við það að maður á áttræðisaldri verði kjörinn forseti.

Það sem þarf til að svo verði, er að hann njóti stuðnings stærsta hluta kjósenda, njóti meira fylgis en aðrir frambjóðendur. Flóknara er það nú ekki.

Það missir engin kjörgengi vegna aldurs, ekki til forseta, Alþingis né sveitarstjórna.

Það er heldur ekkert sem segir að óeðlilegt sé að eintaklingar sitji lengi, ef þeir njóta stuðnings kjósenda.

Lykilatriði hér er stuðningur kjósenda, það er lýðræði og það er ekkert "bara".

P.S. Ég hvet lesendur til þess að reyna að ímynda sér "fjaðrafokið" í fjölmiðlum, hjá álitsgjöfum og á samfélagsmiðlum, ef einhver hefði látið hafa eftir sér á síðasta kjörtímbili Alþingis,  að það væri skelfilegt að hafa sjötuga konu sem forsætisráðherra, sem í þokkabót væri búinn að sitja á þingi í næstum 35 ár.

 

 


Skynsamir þjóðverjar

Það er ánægjulegt að sjá að þýskir skattgreiðendur virðast lítinn áhuga á því að halda Olympíuleika á sinn kostnað.

Önnur borgin í Þýskalandi fellir slík áform í íbúaatkvæðagreiðslu.

Þeir hafa minni áhuga á "glamúrnum" í kringum Olympíuleika en stjórnmálamennirnir.

En það er rétt að það komi fram, að ef ég hef skilið rétt, nutu leikarnir yfirburðastuðnings í Kiel, þar sem siglingahlutinn átti að fara fram. Þar sögðu 66% já.

Miðað við eðli kosninganna er hægt að segja að kosningaþátttaka hafi verið mjög góð, eða um 50% í Hamborg, ef ég hef skilið rétt. En í kosningum á fylkisþingið fyrr á árinu, var kosningaþátttakan í Hamborg rétt tæp 57%.


mbl.is Hamborg segir nei við Ólympíuleikunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband